• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
May

Góð barátturæða hjá aðstoðarframkvæmdastjóra ASÍ á 1. maí á Akranesi

Það var nokkuð góð mæting í kröfugöngunaÞað var nokkuð góð mæting í kröfugöngunaÞað er óhægt að segja að 1. maí hátíðarhöldin hér á Akranesi hafi heppnast vel.  Töluverður fjöldi sá sér fært að mæta í kröfugönguna og að kröfugöngunni lokinni var boðið uppá fjölbreytta dagskrá í sal félagsins að Kirkjubraut 40 og var salurinn vægast sagt kjaftfullur af baráttuglöðu fólki. 

Það var afar ánægjulegt að sjá að félagsmálaráðherra ásamt frambjóðendum úr öllum flokkum sáu sér fært að líta upp úr annríki kosningarbaráttunnar og mæta á þennan hátíðar- og baráttufund. 

Tveir kórar sáu um að skemmta hátíðargestum, annars vegar kvennakórinn Ymur og hins vegar karlakór Grundartanga og er óhætt að fullyrða að báðir þessir kórar hafi staðið sig með miklum sóma.  Dagskrárstjóri var hinn geðþekki bæjarstjóri okkar Skagamanna Gísli S Einarsson og stjórnaði hann dagskránni einstaklega vel eins og undanfarin ár.

Mat formanns félagsins er að það sem stóð upp úr í þessum hátíðarhöldum var ræðumaður dagsins, en að þessu sinni var það aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, Halldór Grönvold, sem flutti barátturæðuna.  Halldór gerði félagslegum undirboðum á íslenskum vinnumarkaði góð skil í sinni ræðu.  Nefndi Halldór sérstaklega að Verkalýðsfélag Akraness hefði staðið sig vel í þeim efnum.  Hann sagði t.d. þetta um VLFA

Stéttarfélögunum hefur með starfi sínu tekist að fá kjör og réttindi þúsunda erlendra launamanna leiðrétt og starfsemi fjölmargra svikafyrirtækja hefur verið lömuð eða upprætt. Öflugt frumkvæði Verkalýðsfélags Akraness og samstarf félagsins og stjórnvalda á svæðinu er til fyrirmyndar og hefur verið öðrum til eftirbreytni.

Mjög margt af því sem fram kom í ræðu Halldórs var eins og talað úr munni formanns Verkalýðsfélags Akraness.  VLFA þekkir þessi mál er lúta að félagslegum undirboðum mjög vel.  Enda hefur félagið tekið mjög hart á þeim óprúttnu atvinnurekendum sem hafa verið að svína á réttindum erlends vinnuafls.  Þessi undirboð hafa ekki gert neitt annað en að veikja það velferðarkerfi sem við höfum byggt upp á liðnum áratugum og ekki síður hafa þessi félagslegu undirboð gjaldfellt launakjör íslenskra verkamanna og iðnaðarmanna.

Það er mikill fengur fyrir aðildarfélög ASÍ að eiga jafn kröftugan baráttumann innan sinna vébanda eins og Halldór Grönvold og vill stjórn VLFA þakka Halldóri fyrir einstaklega góða ræðu.  Hér koma helstu punktar úr ræðu aðstoðarframkvæmdastjórans:

 

"Ágætu samherjar.

Um þessar mundir er sótt að sjálfum grundvelli þess vinnumarkaðar sem hér hefur verið byggður upp með baráttu verkalýðshreyfingarinnar - kjörum og réttindum launafólks.

Ég er að vísa til vaxandi vanda á undanförnum árum þar sem fyrirtæki erlend og innlend eru að brjóta á kjörum og réttindum erlends launafólks og misnota það til félagslegra undirboða og í ólöglega atvinnustarfsemi á íslenskum vinnumarkaði.

 

Á undanförnum misserum og árum höfum við hins vegar orðið vitni af nýrri og alvarlegri þróun í þessum efnum. Í tengslum við miklar stóriðjuframkvæmdir og almenna þenslu í bygginga- og mannvirkjagerð og þjónustustarfsemi af ýmsum toga höfum við fengið innsýn í skuggahliðar hnattvæðingarinnar og óbilgirni erlendra og íslenskra fyrirtækja, sem ekki víla fyrir sér að misnota og brjóta á erlendu verkafólk til að skapa sér samkeppnisforskot á markaði og auka gróða sinn.

 

Framkvæmdirnar við Kárahnjúka mörkuðu ákveðin þáttaskil í þessum efnum. Það kom í ljós þegar ítalska verktakafyrirtækið Impregilo hóf undirbúning framkvæmda og allar götur síðan að fyrirtækið forðaðist að ráða Íslendinga til starfa. Ástæðan er einföld. Impregilo hafnaði að viðurkenna laun og önnur starfskjör eins og tíðkast á íslenskum vinnumarkaði og ætlaði sér frá upphafi að byggja starfsemi sína á undirboðum miðað við þær leikreglur og þau kjör sem hér hafa gilt.

Það eru engar ýkjur þegar sagt er að íslenskur vinnumarkaður hafi alls ekki verið undir þessa þróun búinn. Stjórnkerfið og stofnanir þess brugðust seinnt og illa við í upphafi.

 

Eini aðilinn sem strax frá upphafi spyrnt við fótum var verkalýðshreyfingin. Það tókst að beygja fyrirtækið og færa margt til betri vegar varðandi kjör og aðbúnað starfsmanna á Kárahnjúkum. Sú barátta hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig og kostað mikla vinnu og fyrirhöfn sem ekki sér fyrir endann á. Fréttir síðustu daga af hraklegum aðstæðum erlendra verkamanna sem nú vinna við frágang á aðrennslisgöngunum á Kárahnjúkum minna okkur óþyrmilega á það sem við er að eiga. Þar sem öryggi og heilsa starfsmanna er lítils metin.

 

Ágætu samherjar.

Verkalýðshreyfingin hefur enn mikilvægt verk að vinna.

Aðferðir ítalska verktakafyrirtækisins Impregilo voru fljótar að skjóta rótum víða á vinnumarkaðinum. Allt of margir atvinnurekendur, einkum í byggingariðnaði og þjónustustarfsemi hvers konar, litu á þetta sem tækifæri til að ná til sín viðskiptum með undirboðum á kjörum og aðbúnaði. Þá eru ónefnd dæmin um erlend þjónustufyrirtæki sem starfað hafa hér tímabundið og starfsmannaleigur. Þar sem kjör, vinnuaðstæður og aðbúnaður er oft langt undir því sem kjarasamningar og lög gera ráð fyrir. Þar sem óréttlætið fells ekki bara í lélegum launum heldur er gróðinn tvöfaldaður með leiguokri og starfsmenn látnir bera kostnað sem

fyrirtækin eiga að bera. Þar sem oft eru ekki eru greiddir neinir skattar eða skyldur af starfseminni.

 

Átak verkalýshreyfingarinnar  - Einn réttur – ekkert svindl! - kom í beinu og rökréttu framhaldi af þessari  þróun.

Einn réttur vísar til þess að allir á íslenskum vinnumarkaði, útlendingar jafnt og íslendingar, eigi að njóta sömu kjara og sama réttar samkvæmt kjarasamningum og lögum og þeim reglum sem hér gilda.

Ekkert svindl vísar til þess að enginn aðili - ekkert fyrirtæki eigi að komast upp með að svindla á erlendu launafólki með því að greiða því lægri laun eða með öðrum hætti hafa af því réttindi sem því ber.

Skilaboðin eru einföld. Það tapa allir á félagslegum undirboðum og svartri atvinnustarfsemi með erlendu verkafólki, nema svindlararnir.

 

Í fyrsta lagi tapar útlenda launafólkið sem um er að ræða. Það er  hlunnfarið um laun og önnur starfskjör og hefur oft ekki nema brot af því sem kjarasamningar og lög kveða á um. Því er oft sköpuð skilyrði á vinnustað, þar sem reglur um öryggi og aðbúnað eru þverbrotnar. Og við fáum fréttir af því að þeim sé gert að gista í gámum, á verkstæðisloftum og jafnvel á háfköruðum byggingavinnustöðunum sjálfum. Eða, að þeim sé troðið, mörgum saman í litlar herbergiskytrur, og látnir borga okurleigu.  Í alltof mörgum tilfellum lýsir framganga atvinnurekenda gagnvart þessu verkafólki fádæma þjösnaskap og mannfyrirlitningu.

 

Í öðru lagi tapar íslenskt launafólk, því með félagslegum undirboðum er verið að grafa undan kjörum og réttindum sem hér gilda og sem kjarasamningar og lög kveða á um.  Árangri af áratuga starfi og baráttu verkalýðshreyfingarinnar og íslensks launafólks er stefnt í hættu. Og um leið er vegið að grundvelli þessi kerfis sem byggt hefur verið upp á vinnumarkaði, þar sem samtök launafólks og atvinnurekenda semja um kjör á vinnumarkaði.

 

Í þriðja lagi tapa öll alvöru fyrirtæki sem jafnframt eru kjölfestan í íslensku atvinnulífi.  Með félagslegum undirboðum og svartri atvinnustarfsemi er grafið undan samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem hafa hlutina í lagi, fara að kjarasamningum og lögum, koma fram af virðingu við sitt starfsfólk og greiða sín gjöld til samfélagsins.  Og við skulum halda til haga að mikill meirihluti íslenskra fyrirtækja vill og er með hlutina í góðu lag.

 

Í fjórða lagi tapar samfélagið í heild. Fyrirtæki sem stunda félagsleg undirboð og svarta atvinnustarfsemi eru jafnframt að koma sér undan því að greiða skatta og leggja sitt til samfélagsins. Þannig er grafið undan velferðarkerfinu, menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu – allri þeirri samfélagslegu þjónustu sem við greiðum fyrir með sköttunum okkar. Um leið eru þessi fyrirtæki að grafa undan því samfélagi sem hér hefur verið byggt upp.

Það er því ljóst að það tapa allir, nema svindlararnir. Okkar verkefni er að leiða fólki það fyrir sjónir. Þegar það hefur tekist – og ég trúi að okkur muni takast það – þá verður eftirleikurinn auðveldari".

Hægt er að lesa þessa góðu barátturæðu sem Halldór Grönvold flutti með því að smella á meira.

 

  

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ

1. maí 2007 - Akranesi                        

 

Ágætu samherjar.

Á baráttudegi verkalýðsins 1. maí sameinast launafólk um heim allan. Alls staðar er viðfangsefnið í grunnin það sama, þótt aðstæður séu um margt ólíkar. 

Á 1. maí lítum við yfir farinn veg og metum hvernig til hefur tekist. Við drögum lærdóma af reynslu liðinna ára og áratuga um leið og við setjum okkur ný verkefni og markmið til framtíðar.

Og við skulum ekki gleyma því á þessum degi að starf verkalýðshreyfingarinnar hefur skilað miklum árangri. Það er fátt líkt með þeim kjörum, réttindum og aðbúnaði sem launafólk býr við hér á landi í dag og bara fyrir nokkrum áratugum. Hvað þá ef við minnumst ástandsins sem var fyrir rúmri öld síðan þegar íslensk verkalýðshreyfing var að stíga sín bernskuspor. 

Kjarasamningar og löggjöf sem tryggja launafólki föst laun, hvíldartíma og frídaga, veikinda- og slysarétt, uppsagnarrétt, orlof, fæðingar- og foreldraorlof, reglur um mannsæmandi aðbúnað á vinnustað eru nútímafyrirbæri. Öll þessi réttindi, og fjölmörg önnur, eru ávöxtur átaka og baráttu. Sama gildir um almannatryggingar, atvinnuleysistryggingar og réttinn til heilbrigðisþjónustu og menntunar. Okkur er hollt að minnast þess að sú velferð og öryggi sem launafólk hér á landi býr almennt við í dag er árangur af baráttu verkalýðshreyfingarinnar og bandamanna hennar. Ekkert af þessu féll af himnum ofan og við eigum að vera stolt af þeim árangri sem náðst hefur.

Og síðustu ár hafa um margt verið íslensku launafólki gjöful. Kaupmáttur launa hefur aukist, atvinnuleysi er lítið og við höfum náð mikilvægum árangri í að treysta velferðarkerfið á vinnumarkað. Framsækin löggjöf um fæðingar- og foreldraorlof. Veruleg hækkun og tekjutenging atvinnuleysisbóta. Ný löggjöf um  vinnumarkaðsaðgerðir sem m.a. er ætlað er að treysta stöðu og möguleika þeirra sem veikast standa á vinnumarkaði og þeirra sem búa við skertrar starfsorku. Aukið fjármagn og öflugt átak í menntun launafólks. Svo fátt eitt sé nefnt.

Er þá ekki allt í himna lagi? Er ekki sigurinn unninn? Er verkefninu þá lokið?

Nei.  Við stöndum frammi fyrir mörgum mikilvægum verkefnum við að treysta og bæta velferðina, á vinnumarkaði og í samfélaginu.  Og við skulum vera minnug þess að það sem hefur áunnist með starfi verkalýðshreyfingarinnar getur verið af okkur tekið ef við verjum ekki ávinningana um leið og við sækjum fram til nýrra sigra.

 

Ágætu samherjar.

Um þessar mundir er sótt að sjálfum grundvelli þess vinnumarkaðar sem hér hefur verið byggður upp með baráttu verkalýðshreyfingarinnar - kjörum og réttindum launafólks.

Ég er að vísa til vaxandi vanda á undanförnum árum þar sem fyrirtæki erlend og innlend eru að brjóta á kjörum og réttindum erlends launafólks og misnota það til félagslegra undirboða og í ólöglega atvinnustarfsemi á íslenskum vinnumarkaði.

Útlendingum á íslenskum vinnumarkaði hefur fjölgað mikið undangengin ár. Framan af tengdist sú þróun einkum ákveðnum atvinnugreinum, fiskvinnslunni, umönnunargeiranum og ýmsum þjónustugreinum.

Það er þekkt að víða um land er erlent launafólk kjölfestan í atvinnu- og menningarlífi heilla byggðalaga. Ég fullyrði að þessum félögum okkar hefur almennt verið vel tekið og þeir hafi skilað miklu til samfélagsins, bæði  í efnahagslegu og menningarlegu tilliti.

Á undanförnum misserum og árum höfum við hins vegar orðið vitni af nýrri og alvarlegri þróun í þessum efnum. Í tengslum við miklar stóriðjuframkvæmdir og almenna þenslu í bygginga- og mannvirkjagerð og þjónustustarfsemi af ýmsum toga höfum við fengið innsýn í skuggahliðar hnattvæðingarinnar og óbilgirni erlendra og íslenskra fyrirtækja, sem ekki víla fyrir sér að misnota og brjóta á erlendu verkafólk til að skapa sér samkeppnisforskot á markaði og auka gróða sinn.

Framkvæmdirnar við Kárahnjúka mörkuðu ákveðin þáttaskil í þessum efnum. Það kom í ljós þegar ítalska verktakafyrirtækið Impregilo hóf undirbúning framkvæmda og allar götur síðan að fyrirtækið forðaðist að ráða Íslendinga til starfa. Ástæðan er einföld. Impregilo hafnaði að viðurkenna laun og önnur starfskjör eins og tíðkast á íslenskum vinnumarkaði og ætlaði sér frá upphafi að byggja starfsemi sína á undirboðum miðað við þær leikreglur og þau kjör sem hér hafa gilt.

Það eru engar ýkjur þegar sagt er að íslenskur vinnumarkaður hafi alls ekki verið undir þessa þróun búinn. Stjórnkerfið og stofnanir þess brugðust seinnt og illa við í upphafi.

Eini aðilinn sem strax frá upphafi spyrnt við fótum var verkalýðshreyfingin. Það tókst að beygja fyrirtækið og færa margt til betri vegar varðandi kjör og aðbúnað starfsmanna á Kárahnjúkum. Sú barátta hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig og kostað mikla vinnu og fyrirhöfn sem ekki sér fyrir endann á. Fréttir síðustu daga af hraklegum aðstæðum erlendra verkamanna sem nú vinna við frágang á aðrennslisgöngunum á Kárahnjúkum minna okkur óþyrmilega á það sem við er að eiga. Þar sem öryggi og heilsa starfsmanna er lítils metin.

 

Ágætu samherjar.

Verkalýðshreyfingin hefur enn mikilvægt verk að vinna.

Aðferðir ítalska verktakafyrirtækisins Impregilo voru fljótar að skjóta rótum víða á vinnumarkaðinum. Allt of margir atvinnurekendur, einkum í byggingariðnaði og þjónustustarfsemi hvers konar, litu á þetta sem tækifæri til að ná til sín viðskiptum með undirboðum á kjörum og aðbúnaði. Þá eru ónefnd dæmin um erlend þjónustufyrirtæki sem starfað hafa hér tímabundið og starfsmannaleigur. Þar sem kjör, vinnuaðstæður og aðbúnaður er oft langt undir því sem kjarasamningar og lög gera ráð fyrir. Þar sem óréttlætið fells ekki bara í lélegum launum heldur er gróðinn tvöfaldaður með leiguokri og starfsmenn látnir bera kostnað sem fyrirtækin eiga að bera. Þar sem oft eru ekki eru greiddir neinir skattar eða skyldur af starfseminni.

Átak verkalýshreyfingarinnar  - Einn réttur – ekkert svindl! - kom í beinu og rökréttu framhaldi af þessari  þróun.

Einn réttur vísar til þess að allir á íslenskum vinnumarkaði, útlendingar jafnt og íslendingar, eigi að njóta sömu kjara og sama réttar samkvæmt kjarasamningum og lögum og þeim reglum sem hér gilda.

Ekkert svindl vísar til þess að enginn aðili - ekkert fyrirtæki eigi að komast upp með að svindla á erlendu launafólki með því að greiða því lægri laun eða með öðrum hætti hafa af því réttindi sem því ber.

Skilaboðin eru einföld. Það tapa allir á félagslegum undirboðum og svartri atvinnustarfsemi með erlendu verkafólki, nema svindlararnir.

Í fyrsta lagi tapar útlenda launafólkið sem um er að ræða. Það er  hlunnfarið um laun og önnur starfskjör og hefur oft ekki nema brot af því sem kjarasamningar og lög kveða á um. Því er oft sköpuð skilyrði á vinnustað, þar sem reglur um öryggi og aðbúnað eru þverbrotnar. Og við fáum fréttir af því að þeim sé gert að gista í gámum, á verkstæðisloftum og jafnvel á háfköruðum byggingavinnustöðunum sjálfum. Eða, að þeim sé troðið, mörgum saman í litlar herbergiskytrur, og látnir borga okurleigu.  Í alltof mörgum tilfellum lýsir framganga atvinnurekenda gagnvart þessu verkafólki fádæma þjösnaskap og mannfyrirlitningu.

Í öðru lagi tapar íslenskt launafólk, því með félagslegum undirboðum er verið að grafa undan kjörum og réttindum sem hér gilda og sem kjarasamningar og lög kveða á um.  Árangri af áratuga starfi og baráttu verkalýðshreyfingarinnar og íslensks launafólks er stefnt í hættu. Og um leið er vegið að grundvelli þessi kerfis sem byggt hefur verið upp á vinnumarkaði, þar sem samtök launafólks og atvinnurekenda semja um kjör á vinnumarkaði.

Í þriðja lagi tapa öll alvöru fyrirtæki sem jafnframt eru kjölfestan í íslensku atvinnulífi.  Með félagslegum undirboðum og svartri atvinnustarfsemi er grafið undan samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem hafa hlutina í lagi, fara að kjarasamningum og lögum, koma fram af virðingu við sitt starfsfólk og greiða sín gjöld til samfélagsins.  Og við skulum halda til haga að mikill meirihluti íslenskra fyrirtækja vill og er með hlutina í góðu lag.

Í fjórða lagi tapar samfélagið í heild. Fyrirtæki sem stunda félagsleg undirboð og svarta atvinnustarfsemi eru jafnframt að koma sér undan því að greiða skatta og leggja sitt til samfélagsins. Þannig er grafið undan velferðarkerfinu, menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu – allri þeirri samfélagslegu þjónustu sem við greiðum fyrir með sköttunum okkar. Um leið eru þessi fyrirtæki að grafa undan því samfélagi sem hér hefur verið byggt upp.

Það er því ljóst að það tapa allir, nema svindlararnir. Okkar verkefni er að leiða fólki það fyrir sjónir. Þegar það hefur tekist – og ég trúi að okkur muni takast það – þá verður eftirleikurinn auðveldari.

 

Það er mikilvægt að við höfum hugfast, að við erum EKKI að beina spjótum okkar að þeim útlendingum sem hingað hafa komið – í góðri trú um að allt sé í lagi og þeir í fullum rétti. Við erum að ráðast gegn þeim atvinnurekendum og öðrum sem eru að misnota erlent verkafólk og grafa undan samfélagi okkar.  Það er mikilvægt í allri umfjöllun að við höldum þessu á lofti, við værum ekki að standa okkur í stykkinu ef við létum það viðgangast að atvinnurekendur misnotuðu þessa félaga okkar.

Það skiptir jafnframt höfuðmáli að aðrir taki þátt í þessu verkefni með okkur.

Hér bera allir ábyrgð – hér hafa allir skyldum að gegna:

Verkalýðshreyfingin, sem hefur ákveði að axla sínar skyldur.

Samtök atvinnurekenda, sem ber að verja hagsmuni þeirra fyrirtækja sem eru að og vilja breyta rétt.

Alþingi, sem þarf að tryggja að lögin veiti ekki skjól heldur vinni gegn félagslegum undirboðum og svartri atvinnustarfsemi.

Stjórnvöld, sem þurfa að skapa aðhald og vinna gegn félagslegum undirboðum og svartri atvinustarfsemi.

Launafólk og allur almenningur, sem ekki má líða að slík starfsemi viðgangist.

 

Ágætu samherjar,

Við höfum náð mikilvægum árangri að undanförnu í baráttunni gegn félagslegum undirboðum og svartri atvinnustarf með erlendu launafólki.

Að frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar höfum við á síðustu misserum fengið löggjöf og samninga sem styrkja íslenskan vinnu­markað almennt, réttindi og stöðu launafólks, einkum innflytj­enda. Þá hafa samskipti og samstarf aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda á þessu sviði verið efld.

Stéttarfélögunum hefur með starfi sínu tekist að fá kjör og réttindi þúsunda erlendra launamanna leiðrétt og starfsemi fjölmargra svikafyrirtækja hefur verið lömuð eða upprætt. Öflugt frumkvæði Verkalýðsfélags Akraness og samstarf félagsins og stjórnvalda á svæðinu er til fyrirmyndar og hefur verið öðrum til eftirbreytni.

Það er mikilvægt að við sofnum ekki á verðinum. Það verður áfram eitt brýnasta verkefni verkalýðshreyfingarinnar að verja og treysta vinnumarkaðinn og þann árangur sem þar hefur náðst og tryggja að öll fyrirtæki sem hér eru með starfsemi virði reglur á íslenskum vinnumarkaði og að allir sem hér starfa njóti þeirra réttinda sem hér gilda, óháð þjóðerni.

 

Góðir samherjar.

Verkalýðshreyfingin hefur enn mikilvægt verk að vinna. Það er margt sem bendir til þess að misskipting og margskonar óréttlæti fari vaxandi í okkar samfélagi. Bilið á milli ríkra og fátækra fer vaxandi og það eru hópar í okkar samfélagi, meðal öryrkja, aldraðra, barnafjölskyldna og einstæðra mæðra, sem sitja eftir í neyð – búa við fátækt.

 

Á sama tíma færa fjölmiðlar okkur fréttir af mikilli auðsöfnun fárra einstaklinga og ótrúlegum umsvifum þeirra. Þessir aðilar hafa margir hagnast á sameiginlegum auðlindum okkar og verðbréfabraski. Þeir eru m.ö.o. að hrifsa til sín arðinn af þjóðareign og vinnu launafólks. Það er reynt að koma því inn hjá fólki að í samfélagi nútímans felist verðmætasköpun helst í því að kaupa og selja verðbréf. Og þessari ímynd er alveg sérstaklega haldið að ungu fólki. Lausnarorðin eru taumlaus sérhyggja, þar sem hver og einn á aðeins að hugsa um sig. Við erum að tala um græðgisvæðinguna sem hvarvetna blasir við okkur.

Gegn þessum viðhorfum verðum við að setja fram jákvæða og framsækna samfélagssýn sem byggir á velferðarhugsjón verkalýðshreyfingarinnar.

 

Í dag horfum við til framtíðar.

Hvernig Ísland viljum við búa okkur sjálfum og börnum okkar?

„Treystum velferðina“ er yfirskrift aðgerða verkalýðshreyfingarinnar á 1. maí. Við viljum búa við velferðarkerfi sem allir geta reitt sig á - velferð fyrir alla.

Staðreyndir sýna að norræn samfélög sem byggja á velferðarhugsjón verkalýðshreyfingarinnar skapa íbúum sínum mesta almenna velferð og lífsgæði meðal þjóða heims.

Norræn velferðarsamfélög eru um leið meðal þeirra þjóða sem eru best búin undir framtíðina og þá samkeppni sem fylgir hnattvæðingunni, þeim áskorunum og tækifærum sem henni fylgja.

Niðurstaðan er skýr. Samfélög sem byggja á öflugu og virku velferðarkerfi, góðri menntun fyrir alla, jöfnuði og jafnrétti og traustum réttindum launafólks er sá grunnur sem byggja þarf á til að takast á við og nýta þau tækifæri sem hnattvæðingin gefur. 

Velferðin borgar sig, sama hvernig á það er litið.

Við viljum treysta velferðina - velferð fyrir alla. Í þessum orðum felst sú krafa að hér á landi sé velferðarkerfi sem allir þegnar landsins geti reitt sig á þegar nauðsyn krefur. Traust og víðtækt velferðarkerfi er öflugasta verkfærið sem þekkist til að útrýma misrétti og fátækt, jafna aðstöðu fólks og auðvelda því að nýta tækifæri sín óháð efnahag. Um leið er það mikilvæg forsenda sáttar og samstöðu ólíkra þjóðfélagshópa. Það er þannig velferðarkerfi sem verkalýðshreyfingin vill sjá á Íslandi, virkt velferðarkerfi sem er réttlátt og sanngjarnt; kerfi sem gerir fólki kleift að halda virðingu sinni og trúnni á sig og samfélagið þegar á móti blæs.

Verkalýðshreyfingin lítur á velferð í víðasta skilningi þess orðs. Velferð er ekki eingöngu háð efnislegum gæðum heldur einnig tækifærum einstaklinganna til að þroskast og dafna. Velferð felst þannig í mögu­leikum fólks til menntunar, fjölskyldulífs, frítíma og mannlegrar virðingar. Velferð felst í mann­sæmandi aðstæðum, möguleikum fólks til að standa á eigin fótum og koma sér þaki yfir höfuðið. Velferð felst í góðum vinnuaðstæðum, virðingu og vellíðan í vinnunni. Velferð felst einnig í góðri heilsu, heilsu­vernd og möguleikum fólks á að lifa heilsusamlegu lífi.

 

 

Ágætu samherjar.

Á öllum þessum sviðum hefur verkalýðshreyfingin verk að vinna.

Launajafnrétti kynjanna er eitt brýnasta úrlausnarefnið á vinnumarkaði. Við eigum ekki og megum ekki láta það líðast lengur að konum sé kerfisbundið mismunað í launum.  Það er sameiginlegt verkefni  okkar allra verkalýðshreyfingarinnar, samtaka atvinnurekenda og stjórnvalda að uppræta þetta óréttlæti á næstu misserum. Þar má engin víkjast undan.

Launafólk á Íslandi í dag, einkum unga fólkið, gerir kröfur til þess að við endurmetum og endurskilgreinum hvað átt er við með lífsgæðum. Áfram er baráttan fyrir lífvænlegum launum og efnalegri velferð grundvallaratriði. En margt fleira þarf að koma til.

Við gerum kröfur til þess að hér verði rekin atvinnu- og byggðastefna sem tryggi launafólki, hvar sem er á landinu, möguleika til starfa og mennta og almennra lífsgæða.

Góð menntun, ekki síst verk- og tæknimenntnu, er helsta forsenda bættra lífskjara og samkeppnishæfni þjóðarinnar til lengri tíma litið.

Það er baráttumál okkar að öllum verði tryggður aðgangur að menntun sem skapar ungu fólki áhugaverð starfstækifæri og vellaunuð störf.

Það er baráttumál okkar að allt launafólk hafi aðgang að öflugri eftir- og endurmenntun til að það geti tekið þátt í þeirri þróun sem á sér stað á vinnumarkaði, í sínu starfi eða með því að taka upp ný störf.

Það er sérstakt baráttumál okkar að allir þeir sem af einhverjum ástæðum yfirgáfu hið hefðbundna skólakerfi ungir að árum fái annað tækifæri til náms. Í þeim einstaklingum býr auði sem ber að ávaxta í þágu þeirra sjálfra og samfélagsins alls.

Atvinna og velferð fólks á vinnustaðnum er mikilvægur hluti lífsgæða.

Það er gamalt og nýtt baráttumál okkar að allir hafi atvinnu því rétturinn til vinnu eru grundvallar mannréttindi.

Það er baráttumál okkar að íslenskur vinnumarkaður skapi launafólki góð skilyrði til að samræma atvinnuþátttöku og fjölskyldulíf og möguleika til tómstunda og annarrar lífsfyllingar.

Það er baráttumál okkar að stytta vinnutíma hér á landi þannig að hann verði sambærilegur við það sem gerist í löndunum í kringum okkur. Staðan í dag er með öllu óþolandi. Vinnutími á Íslandi er sá lengsti í allri Evrópu.

Óhóflegur vinnutími er heilsuspillandi.

Óhóflegur vinnutími skilar engum verðmætum. Hann er sóun.

Óhóflegur vinnutími sviptir launafólki og börnum þess mikilvægum rétti til samvista og skapar fjölmörg félagsleg vandamál.

Óhóflegur vinnutími kemur í veg fyrir eðlilega möguleika launafólks til tómstunda og annarrar lífsfyllingar.

 

 

Ágætu samherjar.

Verkalýðshreyfingin hefur mikilvæg verk að vinna.

Framundan eru kjarasamningar.

Í þeim munum við leggja áherslu á að tryggja og byggja ofan á þá kaupmáttaraukningu sem undangengnir kjarasamningar hafa skilað okkur.  Jafnframt er mikilvægt að hækka lægstu kauptaxtana svo um munar. Sú aðgerð er eina leiðin til að svara þeim fyrirtækjum sem stunda undirboð á vinnumarkaði með því að greiða starfsfólki sínu, einkum erlendu launafólki, eingöngu samkvæmt lægstu töxtum.

Í næstu kjarasamningum verðum við að taka raunhæf skref til að uppræta launamisréttið gagnvart konum á vinnumarkaði.

Í næstu kjarasamningum verðum við að taka róttæk skref til að bæta stöðu launafólks með litla viðurkennda menntun – þannig að það fái raunhæfa möguleika til að treysta stöðu sína á vinnumarkaði – fái annað tækifæri til náms.

Í tengslum við næstu kjarasamninga verður að taka marktæk skref til að bæta kjör og aðstæður eldra fólks og öryrkja, foreldra á vinnumarkaði og barna þeirra.  

Síðast en ekki síst er krafa verkalýðshreyfingarinnar um efnahagslegt jafnvægi. Heimilin í landinu hafa búið við mikið ójafnvægi að undanförnu. Verðbólga og okurvextir hafa leitt til sívaxandi skulda heimilanna. Allir ávinningar okkar í kjarasamningum og styrking velferðarkerfisins eru í hættu ef markmið okkar um jafnvægi í efnahagsmálum næst ekki.

 

Ágætu samherjar.

Fyrsti maí er alþjóðlegur baráttudagur og alls staðar í heiminum er verkafólk að vekja athygli á kjörum sínum og baráttumálum.

Með hnattvæðingunni hafa völd og áhrif fjölþjóðlegra stórfyrirtækja og fjármagnseigenda aukist til muna. Samhliða hafa tök þessarar aðila á fátækum þjóðum heimsins verið hert.

Þess vegna skiptir alþjóðastarf verkalýðshreyfingarinnar æ meira máli. Alþjóðleg verkalýðshreyfing berst fyrir lýðræði og krefst sömu grundvallarréttinda fyrir launafólk alls staðar í heiminum. Alþjóðleg verkalýðshreyfing berst fyrir réttlátri hnattvæðingu og mannsæmandi lífi fyrir alla.Það er siðferðileg okkar að leggja þessari baráttu lið. 

 

Ágætu samherjar.

Íslensk verkalýðshreyfing hefur svo sannarlega verk að vinna. Við þurfum að verja þann mikilvæga árangur sem náðst hefur um leið og við sækjum fram á nýjum sviðum. Í þeirri baráttu er mikilvægt að við stöndum saman sem órofa heild.

Við skulum sameinast um framtíðarsýn verkalýðshreyfingarinnar. Við skulum sameiginlega vinna að því að byggja upp réttlátt samfélag gegn misrétti og fátækt, þar sem komið er fram við alla af sanngirni og virðingu.  Þar sem allt launafólk, erlent jafnt sem íslenskt, nýtur mannsæmandi launa og réttinda í samræmi við kjarasamninga og lög. Við skulum treysta velferðina.

01
May

1. maí á Akranesi 2007 - Treystum velferðina

Stjórn Verkalýðsfélag Akraness hvetur félagsmenn sína til að taka þátt í dagskrá tengdri baráttudegi verkafólks.  Yfirskrift 1. maí í ár er Treystum velferðina.  Dagskráin hefst kl. 14.00 með hinni árlegu kröfugöngu undir dyggum hljóðfæraleik frá Skólahljómsveit Akraness.

Að göngunni lokinni verður haldið í sal Verkalýðsfélags Akraness að Kirkjubraut 40 þar sem hátíðar-og baráttufundur verður settur. Hátíðardagskráin er eftirfarandi:

 

  • Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness setur hátíðardagskrána
  • Kvennakórinn Ymur tekur nokkur lög undir stjórn Sigríðar Elliðadóttur
  • Hátíðarræðu flytur að þessu sinni Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ
  • Grundartangakórinn tekur nokkur lög undir stjórn Atla Guðlaugssonar
  • Fjöldasöngur verður sunginn
  • Hátíðardagskránni mun Gísli S Einarsson stjórna eins og undanfarin ár
  • Að lokinni dagskrá verður boðið upp á kaffiveitingar sem eru í umsjón félaga í Lionsklúbbnum Eðnu
28
Apr

Aðalfundarmenn ánægðir starfsemi félagsins

Rétt í þessu var að ljúka aðalfundi Verkalýðsfélags Akraness.  Á fundinum kom fram hjá endurskoðendum félagsins að afkoma félagsins væri einkar góð og ljóst að rekstur félagsins er til mikillar fyrirmyndar.

Heildarhagnaður allra sjóða félagsins nam tæpum 55 milljónum króna á síðasta ári og jókst um 15 milljónir á milli ára.  Í skýrslu stjórnar fór formaður vítt og breitt og kom t.d. fram í máli hans að þegar ný stjórn tók við 19. nóvember 2003  hafi félagssjóður nánast verið fjárvana og var rekinn til að mynda á 2,5 milljóna yfirdrætti og peningalegar innistæður félagssjóðs voru engar.  Á árinu 2006 var hagnaður 15 milljónir og innstæður félagssjóðs rúmar 30 milljónir.  Á þessum þremur árum hefur félagið tekið algerum stakkaskiptum, ekki aðeins fjárhagslega heldur einnig félagslega.

Afkoma sjúkrasjóðs var einnig mjög góð þrátt fyrir stóraukin réttindi félagsmanna frá því ný stjórn tók við og var hagnaður sjúkrasjóðs á síðastliðnu ári tæpar 30 milljónir.  Á grundvelli góðrar afkomu sjóðsins lagði stjórnin fram á aðalfundinum reglugerðabreytingu á  sjúkrasjóðnum sem tryggir félagsmönnum fimm nýja styrki úr sjúkrasjóði félagsins.  Aðalfundur samþykkti þessa reglugerðabreytingu með öllum greiddum atkvæðum.   Það er stefna stjórnar að láta félagsmenn njóta afrakstur á góðri afkomu félagsins og er þessi reglugerðabreyting einn liður í því.  Þeir styrkir sem koma nýir inn eru eftirfarandi:

  • Styrkur vegna ættleiðingar
  • Gleraugnastyrkur
  • Heyrnatækjastyrkur
  • Styrkur vegna skoðunar hjá Hjartavernd
  • Heilsueflingarstyrkur

Á þessu sést að stjórn félagsins vill klárlega láta félagsmenn njóta afraksturs góðrar afkomu félagsins.

Fram kom í máli þeirra sem tóku til máls á fundinum að þeir væru afar ánægðir með það hvernig núverandi stjórn hefði tekist að vinna félagið upp úr þeim dimma dal sem það var komið í áður en núverandi stjórn tók við. 

Formaður félagsins sagði einnig á fundinum að stefna stjórnar væri hvellskýr, það væri að vera það stéttarfélag sem þjónustar sína félagsmenn hvað best.

27
Apr

Aðalfundur félagsins verður haldinn á morgun

Á morgun verður haldinn    aðalfundur félagsins og hefst fundur kl. 13:00 í sal félagsins að Kirkjubraut 40 3. hæð.  Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta og hafa þannig áhrif á starfsemi félagsins.

                     Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

 

  • Skýrsla stjórnar
  • Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu
  • Breytingar á reglugerð sjúkrassjóð  (Tillögur að breytingum liggja frammi á skrifstofu félagsins) 
  • Kosningar sem þurfa að fara fram samkvæmt 28. grein laga félagsins
  • Ákvörðun félagsgjalda
  • Önnur mál

Boðið verður uppá kaffiveitingar.

27
Apr

Fréttablað félagsins kemur út í dag

Fréttablað félagsins verður borið út til allra Akurnesinga og nærsveitunga í dag. 

Blaðið er uppfullt af hinum ýmsu fréttum úr starfsemi félagsins.  Í blaðinu er t.d fjallað um könnun sem Starfsgreinasamband Íslands lét gera á viðhorfi félagsmanna til starfsemi stéttarfélaga innan SGS.  VLFA kom glæsilega út úr þeirri könnun og sýnir niðurstað hennar að stjórn félagsins er á réttri leið hvað varðar þjónustu við félagsmenn. 

Hægt verður að nálgast fréttablaðið hér á heimasíðunni von bráðar.

26
Apr

Stjórn og trúnaðarráð fundaði á þriðjudaginn

Stjórn og trúnaðarráð félagsins kom saman til fundar á þriðjudaginn sl.  Fjölmörg atriði voru til umræðu á fundinum, en helstu málin sem voru til umræðu voru eftirfarandi:

  • Ársfundur lífeyrissjóðs Festu
  • Komandi aðalfundur
  • Afkoma félagsins
  • Breytingar á reglugerð sjúkrasjóðsins
  • Könnun sem Starfsgreinasambandið lét framkvæma
  • Önnur mál

Stjórn og trúnaðarráð félagsins var afar ánægt með útkomu félagsins í skoðanakönnun sem SGS lét framkvæma á viðhorfi félagsmanna til starfsemi félagsins.  En eins og fram hefur komið þá lenti VLFA í öðru sæti af öllum stéttarfélögum innan SGS.  Einnig voru trúnaðarráðsmenn mjög ánægðir með þannig mikla viðsnúning sem orðið hefur í rekstri félagsins sem og öllu félagsstarfi hjá VLFA.  Það var líka almenn ánægja með að góð afkoma sjúkrasjóðsins skuli skila sér strax í auknum styrkjum til handa félagsmönnum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image