• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Taka verður hart á ólöglegum mótmælaaðgerðum Starfsmenn Norðuráls vinna langan og strangan vinnudag
18
Jul

Taka verður hart á ólöglegum mótmælaaðgerðum

Eins og fram hefur komið í fréttum þá hafa um 20 umhverfisverndarsinnar frá aðgerðarsamtökunum Saving Iceland hlekkjað sig saman og lokað veginum sem liggur upp að álveri Norðuráls á Grundartanga.

Formaður félagsins var staddur á Grundartangasvæðinu í dag og sá hvar umhverfisverndarsinnar höfðu hlekkjað sig saman og með því náð að loka veginum sem liggur upp að álverinu.  Hins vegar var lögreglan búin að opna hjáleið í gegnum vinnusvæði Íslenska járnblendifélagsins þannig að starfsmenn Norðuráls náðu bæði að komast til vinnu og eins frá vinnu.

Sigurður Harðarson, einn mótmælendanna, sagði, í samtali við mbl.is, mótmælin vera friðsöm og að verið væri að vekja athygli á náttúruspjöllum og þeirri mengun sem komi frá verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins og álverinu.

Formaður spyr sig: hvernig geta það verið friðsamleg mótmæli að loka vegi með því hlekkja sig saman með það eitt að markmiði að starfsmenn Norðuráls komist ekki til og frá vinnu.  Það liggur fyrir að starfsmenn Norðuráls vinna langan og strangan vinnudag þannig að ef ekki hefði verið hægt að opna áðurnefnda hjáleið þá hefði öryggi starfsmanna hugsanlega verið ógnað.  Slík mótmæli eru með öllu ólíðandi og ber yfirvöldum að taka hart á slíkum mótmælum.

Formaður veltir öðru atriði fyrir sér: hvað með löggæslu í Borgarfirði á meðan slík ólögleg mótmæli eiga sér stað?  Formaður VLFA gat ekki séð annað en að töluverður hluti lögreglumanna frá Borgarnesi hafi verið á vettvangi í dag, eðlilega.  Hvað ef alvarlegt slys hefði orðið t.d. uppá Holtavörðuheiði og stór hluti lögreglunnar í Borgarnesi að sinna ólöglegum mótmælaaðgerðum.  Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan mjög alvarlegt banaslys varð hér í nágrenninu og í því slysi þurfti að sameina löggæslu frá Akranesi og Borgarnesi.

Á þeirri forsendu er algerlega ólíðandi að ólögleg mótmæli af þessu tagi ógni öryggi íslenskra þegna vegna þess að lögreglan sé upptekin af því að kljást við umhverfissinna af þessu tagi. 

Það eru grundvallar mannréttindi að mega mótmæla, um það er ekki deilt. Hins vegar verða allir mótmælendur að fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda hér á landi og mega ekki undir neinum kringumstæðum ógna öryggi annarra.  Þess vegna ber yfirvöldum að taka hart á þeim mótmælendum sem ekki virða lög og reglur hér á landi. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image