• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Jun

Sjómenn til hamingju með daginn

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness óskar sjómönnum öllum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með daginn.  Í dag tilheyra tæplega 200 sjómenn sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness og hefur þeim því miður farið nokkuð fækkandi vegna samdráttar í aflaheimildum hér á Akranesi á undanförnum árum.

Sem dæmi þá má nefna að horfið hafa um 1500 þoskígildistonn héðan frá Akranesi á undanförnum 10 árum sem gerir það eðlilega að verkum að sjómönnum hefur fækkað jafn og þétt. 

Það er öllum ljóst að það voru og eru íslenskir sjómenn sem hafa skapað þau góðu lífskilyrði sem við Íslendingar búum við, það er eitthvað sem við megum aldrei gleyma.

Við hátíðarmessu í morgun var Örn Helgason vélstjóri til margra ára á skipum Haraldar Böðvarssonar heiðraður fyrir sín góðu störf í þágu sjávarútvegs á liðnum áratugum.

01
Jun

Í dag lagði Verkalýðsfélag Akraness fram kæru á hendur fyrirtækinu Formaco til lögreglunnar á Akranesi

Í dag lagði Verkalýðsfélag Akraness fram kæru á hendur fyrirtækinu Formaco til lögreglunnar á Akranesi fyrir að vera með erlenda starfsmenn án tilskilina leyfa t.d. dvalarleyfi og kennitölur.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hefur umrætt fyrirtæki verið að reisa stórt og mikið iðnaðarhúsnæði hér á Akranesi á undanförnum mánuðum.  Formaður félagsins fór í hefðbundið eftirlit fyrir nokkrum vikum þar sem Formaco er að reisa áðurnefnt iðnaðarhúsnæði.  Í þeirri eftirlitsferð kom í ljós að litháískir starfsmenn Formaco voru hvorki með kennitölur né dvalarleyfi, þó svo að hluti þeirra væri búinn að starfa hér á annað ár.

Fyrirliggjandi eru gögn sem sýna að Formaco er með í það minnsta á annan tug Litháa og Pólverja og það án þess að þeir séu með kennitölur eða dvalaleyfi eins lögin kveða skýrt á um að þurfi að vera.  Það liggja einnig fyrir grunsemdir um að ekki hafi verið greitt útsvar til sveitarfélaga eða tekjuskatt til ríksins af Liháunum og er það klárlega brot á skattalögunum.  

Það er alveg klárt mál að það skekkir samkeppnisstöðu annarra fyrirtækja þegar einstaka fyrirtæki eins og Formaco kemst upp með að greiða ekki þau opinberu gjöld af sínum starfsmönnum sem lög kveða skýrt á um að eigi að greiða.

Eins og áður sagði þá er Formaco að öllum líkindum með vel á annan tug erlendra starfsmanna án kennitalna og dvalarleyfis.  Samkvæmt upplýsingum sem VLFA hefur aflað sér þá hefur Formaco verið með erlenda starfsmenn að störfum á eftirtöldum stöðum á árinu 2007: Bílaás Akranesi, ITS Keflavík, Slökkvistöðin FjarðarbyggðÁhorfendastúkan Dalssmára Kópavogi, Íshella Hafnafirði og Tunguháls Reykjavík.

Formaður spyr sig: er það ásættanlegt að sveitarfélög semji við fyrirtæki sem ekki fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda á hinum íslenska vinnumarkaði?  Alla vega er það óeðlilegt að sveitarfélög og ríki semji við fyrirtæki sem ekki greiðir útsvar eða önnur opinber gjöld hér á landi.  Opinberir aðilar, þ.e.s ríki og sveitarfélög, eiga að sniðganga slík fyrirtæki því á einhvern hátt verðum við að halda uppi okkar velferðakerfi og það gerum við ekki ef fyrirtæki hunsa þær skyldur sínar að greiða til samfélagsins eins og þeim ber samkvæmt lögum.

Hægt er að lesa kæruna með því að smella á meira

Sýslumaðurinn Akranesi

Stillholti 16-18

Akranesi.                                             

 

 

                                                                                                            1. júní 2007.

                                                                                                             Boðsent.

 

 

Undirritaður formaður Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálmur Birgisson, kemur hér með f.h. félagsins á framfæri við lögregluyfirvöld kæru á hendur einkahlutafélaginu Formaco og forráðamönnum þess.

 

Kærandi:

Vilhjálmur Birgisson , kt 050865-5339 f.h. Verkalýðsfélags Akraness, kt 680269-6889, Sunnubraut 13, Akranesi.

 

Kærðu:

            Formaco ehf., kt. 411097-2349, Fossaleyni 8, 112 Reykjavík.

            Forráðamenn félagsins:

Ragnar Jóhannsson, kt. 230953-5629, Stararrima 65, 112 Reykjavík, framkvæmdastjóri.

Helga Margrét Jóhannsdóttir, kt. 121061-2879, Stararrima 65, 112 Reykjavík, formaður stjórnar.

  

Hinn kærði atburður:

 

Samkvæmt upplýsingum sem Verkalýðsfélag Akraness hefur aflað hafa eftirfarandi Litháar starfað hjá fyrirtækinu í a.m.k. tæpt ár og sumir jafnvel vel á annað ár. Tilgreind er erlend kennitala við hvert nafn.

 

            Vygantas Duda, 36101090750

            Stanislovas Slezevicius 37709161193

            Zilvinas Buzas 36695070488

            Vytautas Gedminas 38108200705

            Paulius Posiakinas 38303030783

            Giedrius Gulbinas 37505200690

            Raimundas Stirbinskis 37507151039

            Marius Smailys 38502020973

            Dalius Marasinskas 38104160928

            Aleksandr Sirmer

Valerij Sidorenko

Jurij Denbnoveckij

Viaceslav Vorobjov

     Pranas Salkauskas

  

Hefur hluti þeirra starfað við byggingu mannvirkja fyrir Bílás á nýju iðnaðarsvæði á Akranesi sem Formaco  ehf. er að vinna að sem verktaki.  Einnig sá Formaco um byggingu á nýju húsnæði Bílvers hér á Akranesi á síðasta ári.   Önnur verkefni sem Formaco ehf. hefur unnið við á þessu ári eru:

  

            Fyrir ITS í Keflavík.

            Fyrir Slökkvistöð Fjarðarbyggðar

            Við áhorfendastúku Dalssmára í Kópavogi.

            Fyrir Íshellu í Hafnarfirði

            Við byggingu að Tunguhálsi í Reykjavík.

  

Ofangreindir Litháar  voru ekki tilkynntir til yfirvalda í samræmi við lög og reglur og eru ekki komnir með íslenska kennitölu.  Einnig hefur ekki verið staðið skil á lögbundnum skattgreiðslum né gjöldum í samræmi við íslenska skatta- og vinnuréttarlöggjöf.

  

Ef óskað er eftir frekari upplýsingum mun undirritaður fúslega veita þær. Jafnframt er kunnugt um að Vinnumálastofnunin hefur verið að vinna að því að upplýsa málið.

 

Virðingarfyllst,

 

_____________________________________

Vilhjálmur Birgisson, formaður

31
May

Málþing Landsmenntar var haldið í skíðaskálanum í Hveradölum í gær

Málþing Landsmenntar um starfsmenntun í atvinnulífinu var haldið í Hveradölum í gær.  Margir góðir aðilar voru með erindi á þessu málþingi og t.d. var Steinunn K. Pétursdóttir, starfsmannastjóri Smellins frá Akranesi, með nokkuð gott erindi.  Hún gerði málþinginu grein fyrir því hversu mikla áherslu Smellinn leggur á að starfsmenn nýti sér þá starfsmenntun sem í boði er, með það að markmiði að auka enn frekar framleiðni fyrirtækisins og starfsánægju starfsmanna.

Það kom einnig fram hjá Ásmundi Pálssyni framkvæmdastjóra Fræðslunets Suðurlands að hann undrast örlítið hversu fáir í raun notfæra sér starfsmenntasjóði stéttarfélaganna sé tekið tillit til allra þeirra möguleika sem í boði eru.  Vissulega á þessi gagnrýni rétt á sér og við í verkalýðshreyfingunni þurfum að skoða hvað við getum gert til að auka starfsmenntun okkar félagsmenn enn frekar.

29
May

Ekki tímabært að hefja viðræður um breytingar á veikinda- og slysarétti í komandi kjarasamningum

Eins fram hefur komið hér á heimasíðunni þá eru þreifingar hafnar hjá nokkrum landsbyggðarfélögum innan Starfsgreinasambands Íslands um að semja sér í komandi kjarasamningum.  Eru þessar þreifingar til komnar vegna þess að Flóabandalagsfélögin Efling stéttarfélag, Verkalýðsfélag Hlíf og Verkalýðs-og sjómannafélag Keflavíkur hafa tekið þá ákvörðun um að fara ein og sér í komandi kjarasamningaviðræður. 

Það er alveg ljóst að meginkrafa næstu kjarasamninga verður að færa lágmarkslaunin upp að markaðslaununum og til að það takist verður að koma til veruleg hækkun á lægstu taxtana.  Hækkun lægstu taxtanna verður að vera forgangsmál í komandi kjarasamningum einfaldlega vegna þess að lágmarkstaxtarnir eru til skammar fyrir verkalýðshreyfinguna.

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA segir í viðtali við DV fyrir nokkrum dögum að stærsta málið í komandi samningum sé að stokka upp tryggingaréttinn sem snýr að veikindum og örorku.  Formaður félagsins veit að það er mikill áhugi hjá Samtökum atvinnulífisins fyrir því að breyta veikinda- og slysarétti í komandi kjarasamningum. 

Formaður félagsins telur alls ekki tímabært að hefja viðræður um breytingar á veikinda- og slysarétti í næstu samningum og er alveg ljóst að hann er ekki einn um þá skoðun meðal formanna félaga innan Starfsgreinasambands Íslands. 

Hins vegar er breið samstaða meðal formanna SGS um að knýja íslensk stjórnvöld til að stórefla starfsendurhæfingu hér á landi með það að markmiði að draga úr þeirri miklu aukningu sem orðið hefur á örorku meðal landsmanna.

25
May

Nokkur landsbyggðarfélög íhuga að semja sér í komandi kjarasamningum

Á fundi Starfsgreinasambands Íslands á Siglufirði í vikunni voru kjaramál og undirbúningur viðræðna við Samtök atvinnulífsins til umræðu, en eins og flestir vita þá renna kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði út um áramótin.

Á fundinum kom nokkuð skýrt fram að Flóabandalagsfélögin ætli að viðhalda sínu samstarfi í komandi kjarasamningum eins og þau hafa reyndar gert í undangengnum samningum. Þessi félög ætla með öðrum orðum að semja sér.  Þau félög sem mynda Flóabandalagið eru Efling stéttarfélag, Verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnafirði og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur.

Innan Starfsgreinasambands Íslands eru 26 stéttarfélög og því verður það að teljast afar undarlegt að umrædd félög sem mynda Flóabandalagið vilji fara ein og sér í komandi kjarasamninga sérstaklega í ljósi þess að kjörorð SGS eru sameinuð til sóknar.

Í ljósi þeirra staðreynda að Flóabandalagið ætlar að semja sér eins og í undanförnum kjarasamningum þá hafa nokkur félög á landsbyggðinni verið að kanna kosti þess og galla að mynda bandalag í komandi kjarasamningum.  Á næstu dögum og vikum munu standa yfir þreifingar á milli nokkurra félaga og er allt eins líklegt að nokkur landsbyggðarfélög semji algerlega sér í komandi kjarasamningum. 

Stjórn VLFA mun fjalla um þessa hugmynd á stjórnarfundi sem boðað hefur verið til næstkomandi þriðjudag.  Eins og áður sagði þá íhuga nokkur kraftmikil stéttarfélög á landsbyggðinni það sterklega að koma sameinuð að samningsborðinu í komandi kjarasamningum.

23
May

Ályktað um atvinnuástandið á Flateyri

Formaður Verkalýðsfélags Akraness sat framkvæmdastjórnar fund sem haldinn var á Siglufirði.  Þar var meðal annars samþykkt harðorð ályktun yfir því fiskveiðistjórnunarkerfi sem nánast er að leggja margar byggðir þessa lands í rúst.

Formður tók það saman hversu mörg þorksígildistonn hafa horfið héðan frá Akranesi á undanförnum 5 til 10 árum og nam það í kringum 1500 tonnum á umræddu tímabili. 

,,Framkvæmdastjórn SGS krefst þess að unnið verði að markvissri stefnumörkun um atvinnuöryggi verkafólks í fiskvinnslu," segir í ályktun framkvæmdastjórnar SGS, sem var að ljúka á Siglufirði, ,,þannig að geðþóttaákvarðanir kvótaeigenda geti ekki lagt lífsgrundvöll fjölda manns í rúst í einum vettvangi.” Ályktunin fer hér á eftir:

,,Enn eitt áfallið blasir við í atvinnumálum sjávarbyggða. Fiskvinnslan Kambur ehf., á Flateyri hættir starfsemi og selur allar aflaheimildir sínar burtu af svæðinu og skilur 120 manns eftir á vonarvöl atvinnuleysis. Verstu afleiðingarnar kvótakerfisins blasa enn á ný við fólki.

Kvótaeigendur sem velja að hætta starfsemi og selja frá sér kvótann halda eftir milljarðahagnaði fyrir sig. Ójöfnuður og óréttlæti kerfisins blasir við, þar sem þeir sem skópu verðmætin, verkafólk og sjómenn liggja óbætt hjá garði. Í því sambandi eru rök eiganda um háa vexti, hátt gengi krónunnar, hátt verð á aflaheimildum og leigukvóta sem megin ástæða fyrir því að ekki er lengur rekstargrundvöllur fyrir starfseminni, afar léttvæg. 

Þegar atvinnulífi og hagsmunum fiskvinnslufólks er ógnað á jafn afgerandi hátt og raun ber vitni, þá erum við minnt óþyrmilega á, að við höfum í reynd enga tryggingu fyrir því að íslenskir kvótaeigendur landi ekki öllum afla sínum annars staðar, jafnvel í útlöndum. Þeirra er valið að fara með kvótann þangað sem þeim þóknast. Flateyrarmálið vekur einnig spurningar um það hvernig komið er fyrir rekstargrundvelli annarra smærri útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja hér á landi. Munu þau leggja upp laupana eitt af öðru, af sömu ástæðum og Kambur ehf. og eigendur selja frá sér kvótann með hagnaði. Eftir situr fiskvinnslufólkið bundið átthagafjötrum verðlausra eigna í byggðarlögum lítilla atvinnutækifæra. 

Framkvæmdastjórn SGS krefst þess að unnið verði að markvissri stefnumörkun um atvinnuöryggi verkafólks í fiskvinnslu, þannig að geðþóttaákvarðanir kvótaeigenda geti ekki lagt lífsgrundvöll fjölda manns í rúst í einum vettvangi." 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image