• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Jun

Ólyktin kemur ekki frá Laugafiski

Starfsmenn LaugafisksStarfsmenn LaugafisksHeilbrigðiseftirlit Vesturlands telur að þeir sem stóðu fyrir undirskriftasöfnun gegn hausaþurrkun Laugafisks hafi haft fyrirtækið fyrir rangri sök.  Meint ólykt sem átti sér stað fyrir nokkrum vikum hafi átt rætur að rekja til bræðslu beina frá Fiskimjölsverksmiðju HB-Granda hér á Akranesi, en ekki frá Laugafiski.

Það fór svo sem ekkert á milli mála að það lagði töluverða ólykt yfir bæinn þegar fiskimjölsverksmiðjan var að bræða gömul bein og telur formaður félagsins að hér hafi einungis verið um mistök að ræða sem hæglega hefði verið hægt að koma í veg fyrir.  Þau kalla þó alls ekki á að starfsleyfi verksmiðjunnar verði afturkallað.  Vissulega verður að gera þá kröfu til allra fyrirtækja að þau framfylgi þeim starfsleyfum sem þeim eru sett.

Það gleður formann félagsins mjög mikið að Laugafiskur hafi verið hreinsaður af þessu máli núna, einfaldlega vegna þess að formanni er fullkunnugt um allar þær ráðstafanir sem forsvarsmenn Laugafisks hafa lagt útí til að sporna við þessu hvimleiða vandamáli sem fylgir lyktarmengun.  Formanni er einnig kunnugt um að forsvarsmönnum Laugafisks hafi svo sannarlega orðið ágengt í þeirri baráttu og hefur þeim nánast tekist að koma í veg fyrir alla lyktarmengun. Því miður er það einu sinni þannig að þegar um fiskvinnslu er að ræða þá er aldrei hægt að útiloka alla lytarmengun frá slíkri starfsemi.

Formaður VLFA veit að starfsmönnum Laugafisks er létt við þessar fréttir því að mikið hefur mætt á fyrirtækinu á undanförnum árum og oft verið farið framá að starfsleyfi verksmiðjunnar verði endurskoðað eða jafnvel afturkallað.  Formaður VLFA vill einnig að það komi fram að Laugafiskur hefur verið til mikillar fyrirmyndar í einu og öllu er lýtur að starfsmönnum fyrirtækisins og nægir að nefna í því samhengi að stjórn fyrirtækisins borgaði starfsmönnum eingreiðslu uppá 125.000 vegna góðrar afkomu á síðasta ári.

11
Jun

Nokkur landsbyggðarfélög íhuga sterklega að mynda bandalag í komandi kjarasamningum

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá funduðu nokkur sterk landsbyggðarfélög saman á föstudaginn sl.  Þau félög sem komu saman voru Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Húsavíkur, Afl-Starfsgreinafélag Austurlands, Aldan stéttarfélag og Drífandi Vestmannaeyjum.

Það sem helst var til umræðu voru fyrirhugaðar breytingar á veikinda- og slysarétti samhliða því að stofna nýjan áfallatryggingarsjóð. 

Formenn áðurnefndra félaga leggjast alfarið gegn þessum hugmyndum sem ASÍ og SA hafa verið að vinna að og lúta að breytingum á veikinda- og slysarétti sem og stofnun á nýjum áfallatryggingasjóði.

Einnig ræddu formenn áðurnefndra félaga komandi kjarasamninga og hvort félögin ættu að fara saman í komandi kjarasamninga í ljósi þeirrar staðreyndar að Flóbandlags félögin ætla að semja sér eins og þau hafa reyndar gert áður. 

Formaður VLFA telur að þessi landsbyggðarfélög eigi klárlega að mynda bandalag og fara sameinuð í næstu kjarasamninga.  Vissulega væri ánægjulegt ef fleiri landsbyggðarfélög myndu vilja koma með í þessa hugsanlegu vegferð vegna komandi samninga.  Formaður er hins vegar nokkuð bjartsýnn á að umrædd stéttarfélög fari sameinuð til næstu kjarasamningagerðar og telur einnig töluverðar líkur á að fleiri stéttarfélög taki þátt í nýju bandalagi ef af verður. 

Fundurinn á Egilsstöðum einkenndist af einstakri samstöðu og góðum baráttuhug fyrir komandi kjarasamninga og var t.d. ákveðið að funda aftur 6. júlí á Sauðarkróki og er allt eins líklegt að fleiri stéttarfélög innan SGS verði á þeim fundi en voru á Egilsstöðum.

08
Jun

Fundað um kjaramál á Egilsstöðum

Í dag 8. júní komu fulltrúar frá nokkrum landsbyggðarfélögum Starfsgreinasambandsins saman til fundar á Egilsstöðum til að ræða framkomnar hugmyndir um breytingar á veikinda og slysarétti launafólks innan ASÍ og hugsanlegt samstarf í komandi kjarasamningum. Kjarasamningar eru lausir 31. desember n.k. Mikil samstaða, baráttuhugur og góður andi ríkti á fundinum.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness var fulltrúi félagsins á umræddum fundi.Niðurstaða fundarins er að ekki komi til greina að blanda inn í gerð komandi kjarasamninga þeim hugmyndum sem komið hafa fram af hálfu nefndar Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins er lúta að stofnun ,,Áfallatryggingasjóðs”. Fundarmenn tóku saman greinargerð um málið þar sem afstaða hópsins er skýrð. Greinagerðin fylgir hér á eftir.Eftir fundinn er kominn góður grundvöllur til áframhaldandi samstarfs og tillögugerðar fyrir komandi kjarasaminga. Næsti fundur félagana og þeirra félaga sem vilja vera með verður haldinn 6. júlí á Sauðárkróki.

Hægt er er að lesa sameignlega yfirlýsingu frá þeim aðilum sem sátu fundinn með því að smella á meira.

Yfirlýsing:

Föstudaginn 8. júní komum við neðangreind saman á Egilsstöðum til að ræða framkomnar hugmyndir að breytingum á veikinda og slysarétti launafólks innan ASÍ,  og hugsanlegt samstarf í komandi kjarasamningum.

Niðurstaða okkar er að ekki komi til greina að blanda saman þeim hugmyndum sem komið hafa fram af hálfu nefndar SA og ASÍ er lúta að stofnun ,,Áfallatryggingasjóðs” við gerð komandi kjarasamninga.

Ljóst er eftir fundinn í dag að kominn er góður grundvöllur til áframhaldandi samstarfs og tillögugerðar fyrir komandi kjarasaminga. Næsti fundur hópsins verður 6. júlí á Sauðárkróki

Vegna hugmynda um þróun áfallatrygginga eins og það er nefnt í minnisblaði sameiginlegrar nefndar ASÍ og SA viljum við taka eftirfarandi fram.

  1. Þær hugmyndir sem lagðar hafa verið fram fyrir aðildarfélögin eru lítt mótaðar og óljósar.
  2. Í minnisblaðinu er tekið fram að aðeins sé lokið fyrsta áfanga af fimm eða fleirum, í undirbúningi þessara breytinga.
  3. Samráð við aðildarfélög hefur verið af skornum skammti hingað til og nauðsynlegt er að forystufólki aðildarfélaga og sjúkrasjóða þeirra fái að kynna sér tillögurnar.
  4. Þrátt fyrir ofangreint virðist af, m.a. ummælum framkvæmdastjóra SA í fjölmiðlum nú nýverið, sem uppi séu hugmyndir um að taka þessar breytingar upp í komandi kjarasamningum .
  5. Í minnisblaði nefndarinnar er tekið fram að til undirbúnings næsta áfanga sé nauðsynlegt að fá ábendingar frá „baklandi nefndarinnar“ eins og það er orðað, þ.e. stéttarfélögum og fyrirtækjum. Okkur er ekki kunnugt um að óskað hafi verið slíkra ábendinga né að undirbúningur formlegrar vinnu við slíkt ferli sé hafinn.
  6. Þær hugmyndir sem fyrir liggja, fela í sér veigamiklar breytingar á nánast öllum þáttum veikinda- og slysaréttar félagsmanna okkar og stöðu sjúkrasjóða félagsmannanna. Það er því eðlilegt að við viljum stíga varlega til jarðar í þessu máli.
  7. Sumar af þeim hugmyndum sem felast í tillögunum eru jákvæðar við fyrstu sýn. Endurskoðun á rétti og málsmeðferð örorkubótaþega er brýn og ýmislegt jákvætt hefur verið unnið síðustu ár til að auka lífsgæði þessa fólks – s.s. Janus endurhæfing og Starfsendurhæfing Norðurlands.
  8. Framkomnum hugmyndum má skipta í eftirfarandi þætti sem hvern um sig má framkvæma sjálfstætt.
  9. Aukin réttindi og bætt lífskjör örorkuþega með nýjum úrræðum. Þennan þátt styðjum við en bendum á að mestu breytingarnar verða að vera hjá opinberum aðilum en ekki stéttarfélögum.
  10. Flutningur veikindaréttar frá fyrirtækjunum til sjúkrasjóða stéttarfélaganna.Þetta er framkvæmanlegt með hækkun sjúkrasjóðsiðgjalda.
  11. Miðstýrð stjórnun við endurhæfingarmeðferð. Hér sjáum við ekki rökin eða nauðsyn. Við teljum þessum verkþætti best komið í heimabyggð og bendum á góðan árangur m.a. Starfsendurhæfingar Norðurlands.
  12. Flutningur sjúkrasjóðsiðgjalda í sameiginlegan sjóð þar sem forræði sjúkrasjóðs og þar með veikindaréttar félagsmanna er framseldur til sjóðs þar sem verkalýðshreyfingin hefði þegar best léti helming stjórnarmanna. Að svo stöddu sjáum við engann tilgang með þessari breytingu og sýnist að hér verði einungis búið til ný miðstýrð stofnun sem fjarlægist verkalýðshreyfinguna í hugum félagsmanna okkar og fái á sig hálfopinberan stimpil. Að auki höfum við verulegar efasemdir um að aðrir ,,aðilar” leggi þessu nýja „kerfi“ til fjármagn án þess að krefjast áhrifa í stjórn sjóðsins. Þannig yrðu fulltrúar verkalýðsfélaganna í minnihluta stjórnar innan skamms og forræði hreyfingarinnar á þessum mikilvæga þætti réttinda launafólks horfið.
  1. Með tilliti til þróunar í nágrannalöndum okkar þar sem sífellt harðar er sótt að verkalýðsfélögum með þeim afleiðingum að félagsaðild fer minnkandi, teljum við sjúkrasjóði stéttarfélaganna eitt mikilvægasta tæki okkar til að tryggja framtíð verkalýðshreyfingarinnar. Þess vegna finnst okkur fráleitt að setja stærstan hluta veikindaréttar félagsmanna okkar í einn pott með stjórnaraðild SA og mögulega fleiri og sjáum verulegar líkur á því að innan fárra ára verði unnt að kaupa sér réttindi þar án félagsaðildar í verkalýðsfélagi.

Að teknu tilliti til ofangreindra atriða teljum við útilokað að breytingar á veikinda-og slysarétti félagsmanna okkar í anda þessara tillagna verði til umfjöllunar í komandi kjarasamningum.

AFL – Starfsgreinafélags                 VerkalýðsfélagHúsavíkur og nágrennis

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir        AðalsteinnBaldursson

Sigurður Hólm Freysson              Kristbjörg Sigurðardóttir

Sverrir Albertsson                      Olga Gísladóttir                                                                                                             

Aldan Stéttarfélag                                    Verkalýðsfélag  Akraness

Þórarinn Sverrisson                                     VilhjálmurBirgisson

Dífandi Stéttarfélag

Arnar Hjaltalín

07
Jun

Lögreglan og Vinnumálastofnun funduðu í dag um kæru VLFA á hendur Formaco

Lögreglan á Akranesi vinnur að rannsókn málsins af fullri einurðLögreglan á Akranesi vinnur að rannsókn málsins af fullri einurðFulltrúar frá Lögreglunni á Akranesi og Vinnumálastofnun funduðu í morgun vegna kæru Verkalýðsfélags Akraness á hendur fyrirtækinu Formaco.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá liggur fyrir að Formaco hefur haft á annan tug Litháa í vinnu á síðastliðnu eina og hálfa ári, í það minnsta.  Litháarnir eru hvorki með kennitölur né dvalarleyfi hér á landi og hefur Formaco ekki greitt opinber gjöld af mönnunum eins og lög kveða skýlaust á um að eigi að gera.

Lögin eru skýr bæði hvað varðar skattskyldu af erlendum starfsmönnum og einnig því sem lýtur að skráningu á erlendum starfsmönnum, þ.e.s til Vinnumálastofnunar, útlendingaeftirlitsins sem og til Þjóðskrár. 

Að mati formanns félagsins liggur fyrir að lög hafa verið brotin hvað varðar skráningar af umræddum starfsmönnum alla vega hvað varðar dvalarleyfi og kennitölur fyrir starfsmennina.  Það liggur líka fyrir að ekki hafa verið greidd opinber gjöld af Litháunum frá því þeir hófu störf hér á landi.

Formaður spyr sig: hvað gerist ef fyrirtæki hér á landi komast í auknum mæli upp með að ráða erlenda starfsmenn með það að markmiði að komast hjá því að greiða opinber gjöld.  Með þessu geta óprúttnir atvinnurekendur komist hjá því að greiða tugi prósenta í hinn ýmsu opinberu gjöld t.d tekjuskatt og mótframlag í lífeyrissjóð.

Hér er um að ræða gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir samfélagið allt.  Háttarlag þeirra sem þetta ástunda skekkir samkeppnisstöðu annarra fyrirtæka og einnig verður erfitt að halda úti velferðaþjónustu hér á landi ef fyrirtæki reyna að komast hjá því að greiða það sem þeim ber til samfélagsins.  Á þessu máli verður ríkisvaldið að taka af fullri hörku.  Formaður hefur vitneskju um að starfsmenn ríkisskattstjóra séu nú þegar farnir að skoða þetta mál.

06
Jun

Fiskveiðistjórnunarkerfið ekki að virka

Í ályktun Framkvæmdastjórnar Starfsgreinasambands Íslands  frá 23. maí s.l. var þess krafist  að unnið verði að markvissri stefnumörkun um atvinnuöryggi verkafólks í fiskvinnslu, þannig að geðþóttaákvarðanir kvótaeigenda geti ekki lagt lífsgrundvöll fjölda manns í rúst í einum vettvangi.

Ályktunin var gerð í tilefni af því að atvinnulífi Flateyringa og hagsmunum fiskvinnslufólks var þar ógnað. Við vorum minnt á, að við höfum í reynd enga tryggingu fyrir því að íslenskirkvótaeigendur landi ekki afla sínum annars staðar, jafnvel í útlöndum eins og þeim er heimilt. En sjaldan er ein báran stök. Nú blasir enn eitt vandamálið við fiskvinnslunni, sem eru tillögur Hafrannsókarstofnunar um allt að 30% niðurskurð á aflaheimildum. Það er ljóst að slíkur niðurskurður mun hafa víðtæk áhrif, einkum í sjávarbyggðunum.

Knýi nauðsyn fiskverndarsjónarmiða til niðurskurðar á afla, eins og vísindamenn leggja til, verður að tryggja, með öllum ráðum, að það bitni sem minnst á fiskvinnslu innanlands og það er hægt. SGS minnir á að verulegur aflahlutur er fluttur í gámum til vinnslu í útlöndum, - vinnslu sem vel er hægt að sinna hér heima!  Því ríður á að stilla saman strengi stjórnvalda, verkalýðshreyfingar og aðila í sjávarútvegi og vinnslu til þess að koma í veg fyrir atvinnuhrun í sjávarplássunum. Stoppa þarf útflutning á gámafiski og leita leiða til þess að auka veðmæti þess afla sem enn er veiddur hér á landi, m.a. með fullvinnslu innanlands.

Það er skoðun formanns félagsins að það hafi sýnt sig að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er alls ekki að virka eins og til þess var ætlast þegar það var sett á.  Það nægir að skoða hvernig þróunin hefur orðið eftir að kvótakerfið var sett á 1984 en þá var heimilt að veiða um 230 þúsund tonn af þorski en nú hafa komið tillögur frá Hafró um að fiskveiðiheimildir verði einungis 130 þúsund tonn á komandi fiskveiðiári. 

Það sér það hver heilvita maður að umrætt kvótakerfi hefur ekki skilað því sem það átti að gera þ.e.s. byggja upp þorskstofninn.  Á þeim rúmum 20 árum sem kvótakerfið hefur verið við lýði þá hefur þorskkvótinn verðið skertur um tæp 100 þúsund tonn ef farið verður að nýjum tillögum Hafró. 

05
Jun

Lögreglan byrjuð að rannsaka kæru Verkalýðsfélags Akraness á hendur Formaco

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá lagði Verkalýðsfélag Akraness fram kæru á hendur fyrirtækinu Formaco á föstudaginn sl. 

Formaður félagsins hefur verið í nánu sambandi við Vinnumálastofnun varðandi þetta mál og hefur félagið t.d. komið öllum þeim upplýsingum sem félagið hefur aflað sér til Vinnumálastofnunar.  Fram kemur í viðtali við Unni Sverrisdóttur, lögfræðing Vinnumálastofnunar, í DV í gær að stofnunin hafi í raun hvatt VLFA til að leggja fram kæru á hendur Formaco á þeirri forsendu að fyrirtækið hefur ekki skráð starfsmenn sína eins og lögin kveða á um.  Lögfræðingur Vinnumálastofnunar segir í þessu sama viðtali að það virðist margt vera dularfullt hjá þessu fyrirtæki og ekkert nema gott að lögreglan skoði hugsanleg lögbrot aftur í tímann.

Vissulega er það rétt að Vinnumálastofnun taldi fulla ástæðu að lögð yrði fram kæra í þessu máli og málið rannsakað af lögreglu.   Verkalýðsfélag Akraness hefur og mun berjast af fullri einurð fyrir því að farið sé eftir þeim leikreglum sem eiga að gilda á íslenskum vinnumarkaði. 

Þessi afstaða lögmanns Vinnumálastofnunar til kærunar sýnir svo ekki verður um villst að Vinnumálastofnun er sammála VLFA um að Formaco hafi að öllum líkindum brotið lög er varða atvinnuréttindi útlendinga.

Lögreglan á Akranesi er byrjuð að rannsaka þetta mál og mun hún gera það í fullri samvinnu við Vinnumálastofnun.  Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að taka fast á þeim málum er lúta að félagslegum undirboðum á okkar félagssvæði og er óhætt að fullyrða að fá ef nokkur stéttarfélög hafa tekið þessi mál jafn föstum tökum og VLFA. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image