• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Sep

Lögbrot og félagsleg undirboð verði ekki liðin á íslenskum vinnumarkaði

Félagsmálaráðherra vill að Vinnumálastofnun sendi skýr skilaboð um að lögbrot verða ekki liðinFélagsmálaráðherra vill að Vinnumálastofnun sendi skýr skilaboð um að lögbrot verða ekki liðinEins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá telur formaður Verkalýðsfélags Akraness að gera þurfi allsherjar úttekt á fyrirtækjum sem eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.

Það var því afar ánægjulegt að Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra skuli hafa í fréttum í gær boðað stórhert eftirlit með skráningum, réttindum, kjörum og aðbúnaði erlends vinnuafls og vill ráðherra einnig að Vinnumálastofnun sendi skýr skilaboð um að lögbrot verði ekki liðin.

Formaður VLFA veit fyrir víst að félagsmálaráðherra mun ekki líða þau lögbrot og félagslegu undirboð sem ríkt hafa á íslenskum vinnumarkaði undafarin tvö til þrjú ár.

Fram kom hjá ráðherranum að áætlað sé að 1000-2000 erlendir starfsmenn séu án skráningar hjá Vinnumálastofnun.  Sú tala miðast við þá sem fengið hafa kennitölur hjá Þjóðskrá en hafa ekki verið skráðir hjá Vinnumálastofnun eins og lög kveða á um.  Hins vegar hefur enginn hugmynd um hversu margir erlendir starfsmenn eru hvorki með kennitölu né skráðir hjá Vinnumálastofnun.  Það er erfitt að segjaum það hversu margir erlendir starfsmenn eru að störfum án kennitalna hér á landi en dæmin að undanförnu sýna að sá fjöldi getur vel verið á annað þúsund starfsmanna.

Verkalýðsfélag Akraness er margbúið að benda á að eftirliti sé verulega ábótavant og t.d. í umsögn félagsins til félagsmálanefndar Alþingis vegna frumvarps um frjálsa för launafólks frá nýjum aðildarríkjum EES lagði félagið eftirfarandi til:

Viðkomandi stéttarfélag fái skýra heimild til þess að afla gagna hjá atvinnurekendum sem hafa erlent vinnuafl í sinni þjónustu, t.d. ráðningarsamninga, tímaskriftir og launaseðla og það án þess að grunur um brot sé til staðar. Reynslan sýnir að erlent starfsfólk veit almennt lítið um réttindi sín á íslenskum vinnumarkaði og veigrar sér við að leita aðstoðar verkalýðsfélaganna. Dæmin sanna einnig að einstaka atvinnurekendur hafa nýtt sér þessa vankunnáttu. Ljóst er að á stéttarfélögum hvílir skylda til að tryggja að á félagssvæði þeirra sé unnið samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum og hafa þau víðtæka hagsmuni af því að svo sé gert. Er með öllu óskiljanlegt ef ekki er vilji til að notfæra sér þessa eftirlitsleið. Stéttarfélögin hafa á að skipa starfsfólki með víðtæka reynslu í túlkun kjarasamninga og með þekkingu á hinum ýmsu sérkjarasamningum sem í gildi eru. Er hins vegar ólíklegt nema með stórauknu fjárframlagi að Vinnumálastofnun geti sinnt ætluðu eftirlitshlutverki sínu.

Formaður er algerlega sammála félagsmálaráðherra í því að Vinnumálastofnun eigi að senda skýr skilaboð út á vinnumarkaðinn um að lögbrot og félagsleg undirboð verði ekki liðin, reyndar hefði stofnunin átt að vera löngu búin að senda umrædd skilaboð út á vinnumarkaðinn.  Formaður hefur margoft rætt það við starfsmenn Vinnumálastofnunar að taka eigi hart á þeim lögbrotum sem upp koma.  Því miður hefur stofnunin sýnt alltof mikla linkind í þessum málum hingað til, en allt bendir til að breyting sé að verða þar á, þökk sé félagsmálaráðherra.

Hægt er að lesa umsagnir Verkalýðsfélags Akraness til félagsmálanefndar með því smella hérHér er önnur umsögn sem félagið sendi félagsmálanefnd.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image