• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Kennitölulausir í yfir 300 daga Verkalýðshreyfingin hefur ríka eftirlitsskildu með íslenskum vinnumarkaði
03
Sep

Kennitölulausir í yfir 300 daga

Eins og fram kom í Fréttablaðinu á sunnudaginn þá hyggst Ragnar Jóhannsson eigandi Formaco ehf stefna Verkalýðsfélagi Akraness fyrir meiðyrði.  En Verkalýðsfélag Akraness kærði umrætt fyrirtæki til lögreglunar vegna grunsemda um að Lithár sem starfa hjá Formaco væru ekki skráðir hér á landi eins og lög kveða skýrt á um.

Rétt er að geta þess að lögfræðingur Vinnumálastofnunar Unnur Sverrisdóttir hvatti Verkalýðsfélag Akraness til að kæra áðurnefnt fyrirtæki vegna sterkra grunsemda um brot á lögum.  Í viðtali við DV í júní sagði lögmaður Vinnumálastofnunar m.a. “það blasir við að fyrirtækið hefur ekki sinnt skráningum eins og því ber að gera.  Málið lítur þannig út að það vanti allt yfir þessa starfsmenn en við vitum ekki hversu langt aftur í tímann þetta nær.  Einnig sagði lögmaður Vinnumálastofnunar þetta. “Við erum í samstarfi með verkalýðshreyfingunni um að leysa þetta mál og hvöttum við fulltrúa þeirra í sjálfu sér til að kæra.  Það er margt sem virðist vera mjög dularfullt þarna og allt í lagi að lögreglan skoði hugsanleg lögbrot aftur í tímann.

Vinnumálastofnun skoðaði málið og kom þá í ljós að fyrirtækið var með 27 erlenda starfsmenn sem ekki höfðu kennitölur né dvalarleyfi.  Einungis 6 af 27  Litháunum voru skráðir hjá Vinnumálastofnun, hins vegar var enginn þeirra með  kennitölu né dvalarleyfi.  Einnig hefur félagið sterkar grunsemdir um að ekki hafi verið borguð opinbergjöld af mönnum.  Gögn sem Vinnumálastofnun, lögreglan og Verkalýðsfélag Akraness hafa undir höndum staðfesta þessar grunsemdir.

Þó svo að þessar upplýsingar liggi fyrir þá heldur eigandi Formaco því fram í Fréttablaðinu á sunnudaginn að fyrirtækið hafi farið í einu og öllu að lögum vegna áðurnefndra starfsmanna.

Verkalýðsfélag  Akraness hefur fjallað um þetta mál nokkrum sinnum hér á heimasíðunni og ætið bent á að fyrirtækið hafi ekki skráð Litháanna eins og lög kveða skýrt á um.  Staðreyndir þessa máls eru:  Formaco var eða er með erlenda starfsmenn í vinnu sem ekki hafa kennitölur og dvalarleyfi hér á landi.

Kæran var lögð fram 1. júní og þremur mánuðum seinna eða nánar tilgetið 31. ágúst voru Litháarnir ekki ennþá komnir með kennitölur og með ólíkindum ef Vinnumálastofnun mun láta það viðgangast öllu lengur.  Formaður skorar einnig á skattayfirvöld að taka hart á þeim fyrirtækjum sem reyna að koma sér undan því að greiða opinbergjöld af erlendu vinnuafli.

Verkalýðshreyfingin hefur ríka eftirlitsskildu með íslenskum vinnumarkaði og á þeirri forsendu ákvað VLFA að kæra umrætt fyrirtæki.  Heiðarleg fyrirtæki sem fara eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og greiða þau opinbergjöld sem þeim ber eru ekki samkeppnishæf fyrirtækjum sem koma sér hjá slíku.  Hér eru miklir hagsmunir fyrir allt samfélagið og ekki síst fyrir almennt verkafólk.

Verkalýðsfélag Akraness hræðist ekki að fá stefnu frá fyrirtæki sem hefur gerst jafn brotlegt hinum ýmsu lögum er lúta að íslenskum vinnumarkaði, svo mikið er víst.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image