• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Jul

Laus vika í Hraunborgum vegna forfalla

Vegna forfalla er nú laus vikan 03.08. til 10.08. í Hraunborgum. Þetta er vikan í kringum Verslunarmannahelgina og geta félagsmenn bókað hana á skrifstofu félagsins í síma 4309900.

Fyrstur kemur fyrstur fær.

02
Jul

Ábyrgð og laun sundlaugavarða

Að undanförnu hafa fjölmiðlar fjallað um þau skelfilegu slys sem nýverið hafa orðið í sundlaugum landsins og einnig þá miklu ábyrgð sem fylgir því að vera sundlaugavörður.

Í Morgunblaðinu á laugardaginn sl. var t.d. viðtal við Eyjólf Sæmundsson forstjóra Vinnueftirlitsins.  Í því viðtali segir Eyjólfur m.a. "Sundlaugavarsla er ekki íhlaupastarf sem hver sem er getur gengið í án þjálfunar"  Hann segir einnig: " Þetta er mjög ábyrgðarmikið starf eins og reynslan sýnir".

Formaður VLFA tekur undir hvert orð hjá forstjóra Vinnueftirlitsins í þessum efnum.  Það þarf ekkert að velkjast í neinum vafa um að ábyrgð sundlaugavarða er mikil.

En komum þá að tilgangi þessara skrifa.  Eru laun sundlaugavarða í anda þeirrar miklu ábyrgðar sem forstjóri Vinnueftirlitsins nefnir? Svarið er einfalt: NEI.  

Hjá sundlaugaverði eru grunnlaun hjá byrjanda 130.719 + 6000 kr. í mánaðarlegum eingreiðslum.  Á þessu sést að laun sundlaugavarða er til skammar sé tekið tillit til þeirrar miklu ábyrgðar sem fylgir starfi þeirra.

Það er alveg ljóst að þetta er eitt af því sem kippa þarf í liðinn í komandi kjarasamningum og hefur formaður VLFA t.d. átt samtal við þann aðila sem sér um starfsmat sveitarfélaga vegna þess mikla álags sem hvílt getur á starfsfólki sundlauga.  

29
Jun

Fréttir af skrifstofu VLFA

Óhætt er að segja að ferðahugur sé mikill hjá félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness þetta sumarið. Mikil aðsókn hefur verið í lausar vikur í orlofshúsum félagsins og nú er svo komið að hver einasta vika sem í boði var eftir endurúthlutun er bókuð þar til 24. ágúst nk.

Auk anna við orlofshúsabókanir hefur undanfarið verið mikið að gera á skrifstofu félagsins við afgreiðslu á hinum ýmsu styrkjum sem félagsmönnum standa til boða. Merkjanleg aukning hefur verið á fjölda umsókna eftir að nýjar bótareglur sjúkrasjóðs tóku gildi þann 1. maí sl. Þá bættust við nokkrar nýjar styrktartegundir sem gera félagsmönnum nú kleift að sækja um endurgreiðslu vegna gleraugnakaupa, kaupa á kortum í ýmiskonar heilsurækt (sund, þrek, Curves, golf og fl.), kaupa á heyrnartækjum og vegna rannsóknar hjá Hjartavernd. Hægt er að lesa bótareglur sjúkrasjóðs í heild sinni með því að smella hér og eru félagsmenn hvattir til að skoða þá möguleika sem í boði eru.

27
Jun

Uppbygging á Grundartanga hefur haft mjög jákvæð áhrif á Akranesi

Ekkert lát virðist vera á fjölgun íbúa á Akranesi.  Það sem af er þessu ári hefur Akurnesingum fjölgað um 162 íbúa, sem er fjölgun um 2,72% og hafa íbúar á Akranesi ekki verið fleiri frá upphafi og eru nú 6117 talsins samkvæmt upplýsingum frá bæjaryfirvöldum.

Félagsmönnum í Verkalýðsfélagi Akraness hefur einnig fjölgað gríðarlega að undanförnu og eru félagsmenn nú orðnir 2.254 eða sem nemur 28,7% af öllum bæjarbúum.  Rétt er að geta þess að VLFA á þó nokkra félagsmenn sem búa fyrir utan Akranes.

Þessi mikla fjölgun hér á Akranesi á rætur að rekja til þeirrar miklu og jákvæðu uppbyggingar sem átt hefur sér stað á Grundartanga á undaförnum árum.  Þessi uppbygging á Grundartanga hefur skapað mörg hundruð störf.  Sem dæmi þá eru 356 félagsmenn VLFA að störfum hjá Norðuráli, rétt tæplega 100 hjá Íslenska járnblendinu, hjá Klafa, sem sér um upp- og útskipanir, eru 40 manns og hjá Fangi, sem sér um eldhúsið og ræstingar hjá IJ, eru um 20 manns.

Á þessu sést hversu mikilvæg stóriðjan á Grundartanga er okkur Skagamönnum og sérstaklega í ljósi þess að samdráttur í tengslum við fiskvinnslu hér á Akranesi hefur verið gríðarlegur á undanförnum árum. 

Hér á heimsíðunni hefur áður verið minnst á að störfum hjá HB-Granda hefur fækkað mjög mikið síðustu misseri og nemur sú fækkun tugum starfa.  Og útlitið er ekki gott ef marka má tillögur sem Hafró hefur lagt fram.

Smábátaútgerð hefur nánast horfið á liðnum árum og hafa yfir 1.500 þorsksígildistonn verið seld héðan á síðustu árum. 

Eins og áður sagði þá væri illa komið fyrir okkur Skagamönnum og nærsveitungum ef hinni miklu uppbyggingu á Grundartanga hefði ekki notið við. 

Mikil gróska er nú í íbúðabyggingum og segja má að ásýnd bæjarins breytist dag frá degi.  Samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa eru nú í byggingu á Akranesi hátt á þriðja hundruð íbúða.  Einnig er í gangi talsverð uppbygging atvinnuhúsnæðis.

Það er í raun og veru ekkert skrítið þótt fólk streymi inní bæinn. Öll aðstaða hér á Akranesi er til mikillar fyrirmyndar og nánast alveg sama hvert litið er í þeim efnum.  Það nægir að nefna aðgengi að mjög góðri heilsugæslu, frábærum skólum og ekki má gleyma einni af glæsilegustu íþróttaaðstöðu sem fyrirfinnst á landinu.  Eða með öðrum orðum það er gott að búa á Akranesi. 

25
Jun

Aukinn útflutningur á gámafiski mun koma hart niður á fiskvinnslufólki

Í dag funduðu formaður og varaformaður Matvælasviðs Starfsgreinasambands Íslands með Einari K. Guðfinnssyni sjávarútvegsráðherra vegna fyrirhugaðrar skerðingar á aflaheimildum fyrir komandi fiskveiðiár.  Formaður sviðsins er Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur og varaformaður er Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Fundur með sjávarútvegsráðherra stóð í rúman einn og hálfan tíma og var hann mjög góður og gagnlegur.  Ráðherra fór yfir þær tillögur sem Hafrannsóknarstofnun hefur lagt til fyrir komandi fiskveiðiár, en í tillögum frá Hafró er lagt til þorskvótinn verði skertur um allt að 30%.  

Fram kom í máli ráðherra að ekki væri búið að taka neina ákvörðun um skerðingu á komandi fiskveiðiári. Ráðherra taldi þó fullvíst að um skerðingu verði að ræða en hversu mikil hún verður liggur ekki fyrir þessa stundina.

Fram kom í máli Vilhjálms og Aðalsteins að þeir hafa verulegar áhyggjur af afkomu fiskvinnslufólks ef tillögur Hafró verða að veruleika.  Fram kom í máli þeirra félaga að þeir telja að stórauka þurfi rannsóknir á nytjastofnum hafsins og einnig telja þeir að auka þurfi eftirlit fiskistofu með fiskveiðibrotum t.d. löndunum framhjá vigt.

Þeir félagar gagnrýndu þá ákvörðun ráðherra harðlega að afnema 10% álag á gámafiski og telja þeir að þessi ákvörðun muni leiða til mun meiri útflutnings á fiski í gámum en nú er.

Það er alls ekki heppilegt að íslensk stjórnvöld skuli hafa tekið ákvörðun um að afnema þetta álag á sama tíma og fyrirhugað er að skerða aflaheimildir um allt að 30%.

Á árinu 2002 nam útflutningur á gámafiski 21 þúsund tonnum og á árinu 2006 var útflutningur á gámafiski kominn uppí 56 þúsund tonn og algerlega ljóst að útflutningur muni aukast enn frekar eftir afnám 10% álagsins.  Þessi ákvörðun mun bitna illilega á íslensku fiskvinnslufólki og líkur eru á að töluverður fjöldi fiskvinnslufólks muni missa vinnuna sökum þessa.

Það verður að vera krafa um að dregið verði úr útflutningi á gámafiski til minnka það áfall sem fiskvinnslufólk verður fyrir ef verulegur samdráttur á veiðiheimildum verður á komandi fiskveiðiári. 

Árið 1984 þegar kvótakerfið var sett á þá mátti veiða um 260 þúsund tonn af þorski. Nú rúmum 20 árum síðar kemur tillaga frá Hafró sem felur í sér heimild til veiða á 130 þúsund tonnum af þorski.  Á þessu sést að tilgangur kvótakerfisins, sem var að byggja upp þorskstofninn, hefur algerlega mistekist að mati formanns VLFA

25
Jun

Fundað með sjávarútvegsráðherra

Einar K GuðfinnssonFormenn Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Húsavíkur munu funda með Einari K. Guðfinnssyni sjávarútvegsráðherra í dag.  Þeir félagar Vilhjálmur og Aðalsteinn gegna formennsku í Matvælasviði Starfsgreinasambands Íslands.

Tilefni fundarins er væntanlegur niðurskurður á aflaheimildum á þorski en eins og fram hefur komið í fréttum þá leggur Hafró til að niðurskurður verði 30%.

Ljóst er að ef tillögur Hafró verða að veruleika þá munu þær hafa mjög víðtæk áhrif á laun bæði hjá fiskvinnslufólki og ekki síður hjá sjómönnum.

Heyrst hefur að íslensk stjórnvöld hafi tekið ákvörðun um að fella úr gildi 10% álag sem greitt hefur verið vegna útflutnings á gámafiski frá Íslandsmiðum. Fréttavefurinn Fishupdate.com greinir frá því í gær að mikil gleði sé nú meðal þeirra sem starfa í sjávarútvegi í Hull og Grimsby vegna þessa samnings við íslensk stjórnvöld. Menn sjá fram á betri tíma vegna bættra möguleika á að keppa um íslenskan fisk. Fram kemur að hagsmunaaðilar í Bretlandi hafi þrýst á um þessa breytingu ásamt íslenskum fiskútflytjendum og eigendum íslenskra togara.

Þessi ákvörðun mun ekki bæta stöðu fiskvinnslufólks svo mikið er víst því allt útlit er á því að við afnám á umræddu 10% álagi á gámafiski muni útflutningur á fiski aukast og mun það bætast ofaná þann niðurskurð sem fyrirhugaður er 1. september.  Þessi atriði verða klárlega til umræðu á fundinum sem og tillögur Hafró almennt, en formaður VLFA telur að menn verði að horfast í augu við það að tilgangurinn með kvótakerfinu sem var að byggja upp þorskstofninn hefur gersamlega mistekist.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image