• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Sep

Gríðarleg vonbrigði

Það voru vægast sagt sorgleg tíðindi sem okkur Skagamönnum bárust í morgun þegar forsvarsmenn HB Granda tilkynntu að fyrirtækið væri hætt við að flytja alla landvinnslu fyrirtækisins upp á Akranes, eins og þeir höfðu tilkynnt 10 ágúst sl.

Akurnesingar fylltust gríðarlegri bjartsýni fyrir um mánuði síðan þegar HB Grandi tilkynnti að það hygðist reisa nýtt fiskviðjuver og að öll landvinnsla fyrirtækisins yrði flutt upp á Akranes.  Fram kom hjá forsvarsmönnum HB Granda að forsendan fyrir því að þessi áform myndu ganga upp væru að Faxaflóahafnir myndu flýta gerð nýrrar landfyllingar og hafnargarðs á Akranesi. HB Grandi stefndi að því að reisa á þeirri uppfyllingu nýtt fiskiðjuver sem yrði tilbúið síðla árs 2009. 

Nú hefur komið svar frá stjórn Faxaflóahafna um að þeir telja sig ekki geta verið tilbúna með nýja hafnaraðstöðu fyrir HB Granda fyrr en 2012 og á þeirri forsendu hefur stjórn HB Granda ákveðið að hætta við fyrirhuguð áform um að flytja alla landvinnsluna upp á Akranes. 

Það er með ólíkindum að forsvarsmenn HB Granda skuli nota þessa afsökun fyrir því að hætta við þessi áform sérstaklega í ljósi þess að Gísli Gíslason, forstjóri Faxaflóahafna, sagði í samtali við Skessuhorn að einn af hornsteinum í sameiningu hafnanna undir merkjum Faxaflóahafna hafi verið það að styrkja Akranes sem fiskihöfn. Þessi fyrirhugaða breyting myndi augljóslega falla mjög vel að því markmiði, sagði Gísli Gíslason.  Einnig sagði Gísli í þessu viðtali 10. ágúst að ekkert sé tæknilega því til fyrirstöðu að verða við þessari beiðni HB Granda.  Að stjórn HB Granda skuli hætta við allt saman vegna þess að Faxaflóahafnir telja sig þurfa örlítið meiri tíma til vera klárir með nýja hafnaraðstöðu, þetta er eins og áður sagði léleg afsökun hjá stjórn HB Granda.

Formaður VLFA taldi að loksins hefði óvissu fiskvinnslufólks á Akranesi verið eytt eftir að tilkynnt var um að landvinnsla HB Granda yrði flutt upp á Akranes.  Hver hefði getað trúað því að einungis einum mánuði seinna kæmi tilkynning um að stjórn HB Granda væri hætt við allt saman.  Hafi einhvern tímann ríkt óvissu ástand hjá fiskvinnslufólki hér á Akranesi þá er það núna.

Hvernig má það vera að forsvarsmenn HB Granda tilkynna áform um að reisa nýtt fiskiðjuver án þess að vera búnir að vinna sína heimavinnu, ef þannig má að orði komast?  Vekja upp tilhæfulausar væntingar án þess að nein innistæða sé fyrir slíkum væntingum.

Það má ekki gleyma því að eftir að Haraldur Böðvarsson & co sameinaðist Granda þá hefur störfum hjá fyrirtækinu hér á Akranesi fækkað á bilinu 60 til 80 manns.  Á þeirri forsendu er þessi tilkynning í dag gríðarlegt áfall fyrir samfélagið allt hér á Akranesi.

Formaður VLFA gerir þá kröfu að forsvarsmenn Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar, Faxaflóahafna og HB Granda setjist niður og finni farsæla lausn á þessu máli sem allir geta verið ásáttir með. 

Viðtal var við formann félagsins í kvöldfréttum sjónvarpsins varðandi þetta mál og er hægt að horfa á fréttina með því að smella á HB Grandi

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image