• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Jul

Vinnsla byrjuð aftur eftir sumarlokun hjá HB Granda

Vinnsla hófst aftur í morgun eftir sumarhlé í frystihúsi HB Granda.  Eins og undanfarin ár var frystihúsinu lokað frá 2. júlí til 23. júlí.

Formaður fór í morgun og tók púlsinn á nokkrum starfsmönnum sem voru að hefja störf eftir sumarleyfi.  Fram kom í máli starfsmanna að vinnslan væri ekki komin á fulla ferð enda væru þó nokkrir starfsmenn ennþá í sumarfríi og ugglaust yrði frekar rólegt fram yfir verslunarmannahelgi.

Í dag fara um 15 tonn í gegnum frystihúsið en þegar vinnslan verður komin á fullt skrið þá fara rúm 20 tonn á góðum degi.

Þorskur hefur verið uppstaðan í vinnslunni hér á Akranesi á undanförnum árum og því mun niðurskurður á aflaheimildum uppá 30%  væntanlega koma nokkuð hart niður á vinnslunni hér á Akranesi.

Samkvæmt upplýsingum sem formaður hefur aflað sér þá hafa forsvarsmenn HB Granda ekki ákveðið hvernig niðurskurði uppá 30% verður mætt.  En eðlilega mun allstaðar koma til einhvers samdráttar og sér í lagi þar sem vinnsla byggist að stórum hluta á þorski.

Nú er bara að vona að þessi niðurskurður komi eins mildilega niður á sjómönnum og fiskvinnslufólki og kostur er, þótt vissulega megi gera ráð fyrir umtalsverðum tekjumissi sökum þessa aflasamdráttar.

20
Jul

Kolmunna landað á Akranesi

Tvö kolmunnaskip lönduðu hér á Akranesi í gær.  Þetta voru skipin Áskell frá Grenivík sem landaði um 700 tonnum og Lundey NS sem var með fullfermi eða nálagt 1.500 tonnum.

Formaður fór og hitti starfsmenn síldarbræðslunnar í morgun og voru þeir bara nokkuð kátir og töldu að búið yrði að bræða þennan afla á sunnudaginn kemur.  Þessi afli veiddist fyrir vestan land og því var styst að landa kolmunnanum hér á Akranesi.  Síðast var brætt í byrjun maí hér á Akranesi og því var þessi kolmunnaafli kærkominn fyrir starfsmenn bræðslunnar en stór hluti af tekjum starfsmanna koma þegar vaktir eru staðnar í verksmiðjunni.

Ingunn AK hélt til kolmunnaveiða í gær eftir að hafa verið í vélaviðgerð í um tvær vikur að sögn starfsmanna bræðslunnar og því verða í það minnsta þrjú kolmunnaskip á miðunum vestur af landi.

18
Jul

Taka verður hart á ólöglegum mótmælaaðgerðum

Eins og fram hefur komið í fréttum þá hafa um 20 umhverfisverndarsinnar frá aðgerðarsamtökunum Saving Iceland hlekkjað sig saman og lokað veginum sem liggur upp að álveri Norðuráls á Grundartanga.

Formaður félagsins var staddur á Grundartangasvæðinu í dag og sá hvar umhverfisverndarsinnar höfðu hlekkjað sig saman og með því náð að loka veginum sem liggur upp að álverinu.  Hins vegar var lögreglan búin að opna hjáleið í gegnum vinnusvæði Íslenska járnblendifélagsins þannig að starfsmenn Norðuráls náðu bæði að komast til vinnu og eins frá vinnu.

Sigurður Harðarson, einn mótmælendanna, sagði, í samtali við mbl.is, mótmælin vera friðsöm og að verið væri að vekja athygli á náttúruspjöllum og þeirri mengun sem komi frá verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins og álverinu.

Formaður spyr sig: hvernig geta það verið friðsamleg mótmæli að loka vegi með því hlekkja sig saman með það eitt að markmiði að starfsmenn Norðuráls komist ekki til og frá vinnu.  Það liggur fyrir að starfsmenn Norðuráls vinna langan og strangan vinnudag þannig að ef ekki hefði verið hægt að opna áðurnefnda hjáleið þá hefði öryggi starfsmanna hugsanlega verið ógnað.  Slík mótmæli eru með öllu ólíðandi og ber yfirvöldum að taka hart á slíkum mótmælum.

Formaður veltir öðru atriði fyrir sér: hvað með löggæslu í Borgarfirði á meðan slík ólögleg mótmæli eiga sér stað?  Formaður VLFA gat ekki séð annað en að töluverður hluti lögreglumanna frá Borgarnesi hafi verið á vettvangi í dag, eðlilega.  Hvað ef alvarlegt slys hefði orðið t.d. uppá Holtavörðuheiði og stór hluti lögreglunnar í Borgarnesi að sinna ólöglegum mótmælaaðgerðum.  Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan mjög alvarlegt banaslys varð hér í nágrenninu og í því slysi þurfti að sameina löggæslu frá Akranesi og Borgarnesi.

Á þeirri forsendu er algerlega ólíðandi að ólögleg mótmæli af þessu tagi ógni öryggi íslenskra þegna vegna þess að lögreglan sé upptekin af því að kljást við umhverfissinna af þessu tagi. 

Það eru grundvallar mannréttindi að mega mótmæla, um það er ekki deilt. Hins vegar verða allir mótmælendur að fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda hér á landi og mega ekki undir neinum kringumstæðum ógna öryggi annarra.  Þess vegna ber yfirvöldum að taka hart á þeim mótmælendum sem ekki virða lög og reglur hér á landi. 

18
Jul

Nú er komið að verkafólki

Það er óhætt að segja að töluvert annríki verði í starfsemi félagsins þegar líður á haustið en um áramótin eru þónokkrir kjarasamningar lausir.

Þeir kjarasamningar sem verða lausir nú um áramótin eru t.d. kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði, sérkjarasamningur starfsmanna sem starfa í gjaldskýlinu við Hvalfjarðagöng og einnig sérkjarasamningur starfsmanna síldarbræðslu HB Granda hér á Akranesi.

það er alveg ljóst að þónokkur eftirvænting er hjá verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði vegna komandi kjarasamninga.  Eftirvæntingin hjá verkafólki byggist á því að laun þeirra sem lægstu hafa tekjurnar verði í eitt skipti fyrir öll leiðrétt í næstu samningum.

Við í verkalýðshreyfingunni verðum að standa þétt saman í komandi kjarasamningum og lyfta lágmarkslaunum úr 125.000 í átt að þeim markaslaunum sem almennt er nú verið að greiða.  Samkvæmt könnum sem SGS lét gera í september 2006 eru meðal dagvinnulaun í kringum 176.000.

Til að það náist þarf eins og áður sagði víðtæka samstöðu innan verkalýðshreyfingarinnar og ekki mun standa á Verkalýðsfélagi Akraness í þeim efnum, svo mikið er víst. 

Við sem erum í forystu stéttarfélaga getum ekki lengur horft uppá þá lágmarkstaxta sem nú eru í gildi, launataxtar sem ekki duga fyrir lágmarksframfærslu og eru verkalýðhreyfingunni til skammar.  Þess vegna segir formaður VLFA, nú er komið að því að verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði fái leiðréttingu á sínum lúsarlaunum.  Formaður VLFA vill að það komi skýrt fram að hann undirritaði ekki síðustu kjarasamninga sem gerðir voru 7. mars 2004 á þeirri forsendu hversu rýrir þeir voru. 

Ef verkalýðshreyfingin ætlar að lagfæra launakjör þeirra sem verst eru settir á hinum almenna vinnumarkaði þá verður hún að standa saman, öðruvísi verður það aldrei hægt.

17
Jul

Félagsmaður Verkalýðsfélags Akraness lést á leið til vinnu sinnar á Grundartangasvæðinu

Karlmaður á fertugsaldri lést er hann lenti í árekstri á mótorhjóli sínu við strætisvagn um kl. 19 í gærkvöldi. Hann var á leið til vinnu í Norðuráli ásamt tveimur samstarfsfélögum sínum.  Hinn látni var félagsmaður í Verkalýðsfélagi Akraness. 

Slysið varð á Akrafjallsvegi við gatnamót Innnesvegar og Akrafjallsvegar. Bifhjólinu var ekið austur Akrafjallsveg og strætisvagninum í vestur með fyrirhugaða akstursstefnu suður Innnesveg, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Bifhjólið lenti framan á strætisvagninum og hafnaði ökumaður þess utan vegar. Talið er að hann hafi látist samstundis. Hinn látni var á leið til vinnu eins og áður sagði ásamt tveimur félögum sínum og missti annar þeirra stjórn á hjóli sínu við slysið og féll í götuna. Hann meiddist þó ekki.

Tildrög slyssins voru ekki ljós seint í gærkvöldi en ekkert á vettvangi bendir til hraðakstur.

Formaður félagsins er ánægður með hvernig forsvarsmenn Norðuráls hafa brugðist við þessu skelfilega slysi.  Þeir kölluðu strax út áfallateymi frá sjúkrahúsi Akraness til að ræða við samstarfsfók hins látna.

Vinnuveitendur hins látna og formaður félagsins hafa verið í sambandi í gær og í dag vegna þessa skelfilega slys enda voru þetta allt félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem komu að þessu hörmulega slysi. 

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill votta eiginkonu hins látna, börnum hans, ættingum sem og samstarfsfólki hans, okkar dýpstu samúð.

16
Jul

Formaður fundaði með forsvarsmönnum Norðuráls

Á föstudaginn átti formaður fund með Ragnari Guðmundssyni framkvæmdastjóra Norðuráls og Skúla Skúlasyni starfsmannastjóra. 

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur formaður félagsins átt í viðræðum við forsvarsmenn Norðuráls að undanförnu.  Viðræðurnar eru vegna nokkurra atriða sem tengjast hagsmunum þeirra félagsmanna VLFA sem starfa hjá Norðuráli.

Unnið er að lausn á þessum ágreiningi en á þessari stundu er alls óvíst hvort það takist eða ekki.

Eins og formaður hefur sagt áður þá er gríðarlega mikilvægt að gæta vel að hagsmunum starfsmanna Norðuráls í ljósi þess að Norðurál er orðin langstærsti vinnustaðurinn á Vesturlandi.  Í dag eru um 430 starfsmenn að störfum í Norðuráli og eru 360 þeirra félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image