• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Oct

Tökum frumkvöðlana til fyrirmyndar

Það hefur örugglega ekki farið fram hjá neinum þeim sem fylgst hefur með íslenskri þjóðmálaumræðu undanfarið að framundan eru kjarasamningaviðræður á hinum almenna vinnumarkaði. Undirbúningsvinna var hafin snemma á þessu ári og eru kröfugerðir verkalýðsfélaganna nú að líta dagsins ljós.

Snemma árs lýsti formaður Verkalýðsfélags Akraness því yfir að eitt af meginbaráttumálum í  væntanlegum kjarasamningaviðræðum væri hækkun lágmarkslauna. Það á ekki að vera hægt að bjóða fólki 125 þúsund króna lágmarkslaun sem eru undir fátæktarmörkum. Taldi hann að færa ætti lágmarkslaun nær markaðslaunum sem skv. könnun SGS eru 176.000 kr á mánuði.

Í tillögu að kröfugerð VLFA, sem lögð verður fyrir félagsfund nk. mánudag, verður m.a. lagt til að lágmarkslaun hækki í 170.000 krónur. Þannig væri hægt að leiðrétta þau kjör sem þeir lægst launuðu hafa þurft að una við og er sú krafa, að mati formanns, síður en svo óraunhæf.

Sunnudaginn 14. október nk. verður Verkalýðsfélag Akraness 83 ára.

Fyrir 83 árum ruddi kraftmikið fólk brautina og varðaði veginn til framtíðar þegar það kom saman í Báruhúsinu á Akranesi í þeim tilgangi að stofna verkalýðsfélag. Eftir langvinna baráttu og þrátt fyrir harða mótspyrnu atvinnurekenda og tilraunir þeirra til að grafa undan einingu félagsmanna tókust loks samningar fyrir verkafólk þar sem kaup þess hækkaði úr 65 aurum í eina krónu á tímann. Með samstilltu átaki náði samninganefndin s.s. 56% hækkun launa í þessum fyrsta samningi verkafólks á Akranesi.

Við sem berjumst fyrir réttindum íslensks verkafólks eigum að taka okkur þessa frumkvöðla til fyrirmyndar, snúa bökum saman og beygja okkur ekki enn eina ferðina fyrir þeim rökum að of mikil hækkun launa verkafólks ógni stöðugleika í þjóðfélaginu. Stöðuleikinn er auðvitað gríðarlega mikilvægur, því andmælir enginn, en hann er ekki eingöngu á ábyrgð verkafólks og nú er komið að öðrum að axla þá ábyrgð.

Við verðum að krefjast mannsæmandi launa til handa verkafólki, fólki sem þegar hefur gert sitt til að viðhalda stöðugleikanum, fólki sem sættir sig ekki við að sitja eftir enn eina ferðina á meðan aðrir þjóðfélagshópar sitja einir að þeim auðævum sem greinilega eru til í þessu landi.

Tími verkafólks er runninn upp, við bíðum ekki lengur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image