• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Aug

Umbætur í samskiptum við nýbúa á sjúkrahúsi Akraness

Það er óhægt að segja að þjónusta við erlenda félagsmenn hafi stóraukist á síðastliðnum þremur árum. Samkvæmt félagskrá VLFA eru um 300 erlendir félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness þessa stundina og fer þeim ört fjölgandi.

Skrifstofa félagsins hefur aðgang að mjög öflugum túlki frá Póllandi, því að töluverður hluti af erlendum félagsmönnum talar hvorki íslensku né ensku.

Það er ekki bara Verkalýðsfélag Akraness sem finnur fyrir þessari miklu fjölgun sem orðið hefur á erlendu verkafólki hér á Akranesi á liðnum árum og nægir að nefna sjúkrahúsið hér á Akranesi í þeim efnum.

Umbætur í þágu nýbúa hefur verið sérstakt viðfangsefni vinnuhóps á SHA undanfarna mánuði.  Leitað hefur verið lausna til að bæta samskipti og auka öryggi í upplýsingamiðlun við erlenda sjúklinga sem í vaxandi mæli leita eftir þjónustu á SHA.

Stjórn Verkalýðsfélag Akeaness fagnar þessu viðfangsefni hjá SHA og munu þessar umbætur tryggja öryggi erlendra verkamanna hér á Akranesi enn frekar.

Það er engin vafi að þjónustan sem SHA er að veita okkur skagamönnum er ein sú besta sem þekkjast á landinu, enda er afar hæft starfsfólk sem starfar á sjúkrahúsi Akraness bæði læknar sem almennt starfsfólk.

Þessi frétt birtist inná heimasíðu SHA:

"Ástæða þess að hópurinn var skipaður er sú að undanfarin misseri hefur erlendum viðskiptavinum SHA fjölgað mjög.  Nánast daglega leita einhverjir erlendir einstaklingar sem tala mjög takmarkaða ensku á slysastofu, rannsóknarstofu, til myndgreiningar og á heilsugæslustöð. 

Einnig er nokkuð um að þeir komi í aðgerð á dagdeild og talsvert er um innlagnir á legudeildir spítalans, t.d. á fæðingadeild. 
Ekki er hægt að reiða sig á tjáskipti á ensku þar sem stór hluti þessa fólks hefur lítið vald á því tungumáli og lítið framboð hefur verið á leiðbeiningaefni fyrir íslenskar heilbrigðisstéttir að styðjast við.  Ákveðið var því að bregðast við og stuðla þannig að öruggari samskiptum starfsfólks við þessa einstaklinga, fyrirbyggja mistúlkun og misskilning og gera vinnu sem fer í móttöku, innritun og þjónustu við erlenda einstaklinga markvissari.


Fjölmennastir eru Pólverjar og var því ákveðið að byrja á að skoða atriði sem snúa að þeim.  Hægt verður í framhaldinu að nýta vinnu hópsins til að þýða á önnur tungumál ef þörf reynist, t.d.  fyrir Portúgali, Rússa og Litháa sem einnig búa og starfa hér í all miklum mæli.


Tekin var ákvörðun um að vinna skýra, einfalda og gagnreynda orðalista og eyðublöð sem innihalda bæði íslenska og pólska orðið hlið við hlið svo sjúklingur eigi tök á að krossa við já/nei.  Uppsetning orðalistanna er mismunandi eftir deildum þar sem þarfir eru breytilegar.  Þá var einnig unninn fræðslubæklingur fyrir dagdeild.


Þess er vænst að orðalistarnir geti orðið starfsfólki til verulegs stuðnings en  ljóst er að þessir orðalistar munu ekki leysa af hólmi nema að litlu leyti þörfina fyrir túlk. Vinnuhópurinn hefur jafnframt samið verklagsreglur um kaup á túlkaþjónustu fyrir sjúklinga sem leggjast inn á SHA eða koma á göngu- og dagdeild.  
 

 

r".

31
Jul

Íbúð til leigu á Akureyri í vetur

Stjórn orlofssjóðs Verkalýðsfélags Akraness hefur ákveðið að hafa allar þrjár íbúðir félagsins á Akureyri í fastri útleigu í vetur.

Enn er ein íbúð laus og eru áhugasamir félagsmenn sem vantar íbúð á Akureyri í vetur fyrir sig eða börn sín hvattir til að hafa samband við skrifstofu félagsins í síma 4309900 sem fyrst.

Íbúðin er 53 m2 með tveimur svefnherbergjum. Hún er leigð með húsgögnum, þvottavél og öllum húsbúnaði. Hægt er að skoða myndir úr íbúðinni með því að smella hér.

Íbúðin verður fyrst og fremst leigð út til félagsmanna eða barna þeirra, en fáist ekki félagsmaður í íbúðina verður mögulegt fyrir aðra að fá hana leigða.

30
Jul

Nóg að gera hjá starfsmönnum síldarbræðslunnar

Það er óhætt að segja að það sé líf og fjör hjá starfsmönnum síldarbræðslunnar hér á Akranesi en töluvert magn af kolmunna hefur borist til bræðslu að undanförnu.

Á föstudaginn landaði Faxi RE 1.036 tonnum og í gær sunnudag lönduðu bæði Lundey og Ingunn Ak fullfermi.  Lundey var með 1.327 tonn og Ingunn var með 1.846 tonn.

Að sögn starfsmanna síldarbræðslunnar þá hefur verið nokkuð góð kolmunnaveiði að undanförnu og hefur sú veiði verið vestur af landinu en það eru um 20 tíma sigling á miðin frá Akranesi.

Það er mjög jákvætt fyrir starfsmennina að veiðin skuli vera fyrir vestan land vegna þess að þá er styst fyrir kolmunnaskipin að landa aflanum til bræðslu hér á Akranesi.  Síldarbræðslan hér á Akranesi er ein sú allra fullkomnasta á landinu.

Það skiptir starfsmenn gríðarlega miklu máli að fá þennan afla til bræðslu hér á Akranesi því tekjur starfsmanna byggjast að miklu leyti upp á því að staðnar séu vaktir verksmiðjunni.

27
Jul

Viðtal var við formann félagsins í þættinum Í bítið

Formaður félagsins var í viðtali á Bylgjunni í þættinum Í bítið á fimmtudag var.  Til umræðu í viðtalinu var t.d komandi kjarasamningar og hvað Verkalýðsfélag Akraness telji að eigi að vera forgangskrafa í komandi kjarasamningum.

Formaður fór víða í þessu viðtali og koma m.a. fram hjá honum að það sé algert lykilatriði í næstu samningum að lagfæra lágmarkslaunin.  Krafan þarf að vera sú að lágmarkstaxtar verði hækkaðir upp að þeim markaðslaunum sem almennt er verið að greiða á íslenskum vinnumarkaði.

Það kom einnig fram hjá formanninum að það sé til skammar fyrir verkalýðshreyfinguna að bjóða uppá lágmarkslaun sem duga alls ekki fyrir lágmarksframfærslu.

Hér á heimasíðunni hefur áður verið fjallað um að nú sé komið að öðrum en íslensku verkafólki að viðhalda hér stöðugleika.

Nægir að nefna í því sambandi að lágmarkslaun verkafólks hafa  hækkað frá árinu 1997 til 2007 einungis um 105% á meðan þingfarakaupið hefur hækkað um 145% á sama tímabili, sem er 40% meiri hækkun.

Pétur Blöndal þingmaður sjálfstæðismanna og Atli Gíslason þingmaður Vinstri Græna voru í þessum sama þætti á fimmtudaginn var og Pétur Blöndal var m.a. spurður um þá kröfu að hækka lágmarkslaun úr 125.000 í 176.000 eins og formaður VLFA hefur lagt til.

Pétur Blöndal svaraði því til að búið væri að hækka lágmarkslaunin í tvígang og þær hækkanir hefðu verið hlutfallslega meiri en aðrir hópar hafi fengið.  Það er með ólíkindum að heyra þingmanninn tala með þessum hætti.  Sérstaklega í ljósi þeirra staðreynda að laun þingmanna hafa hækkað um 40% meira en lágmarkslaun verkafólks á síðustu 10 árum.

Ef verkafólk hefði fengið sömu prósentuhækkun og þingmenn á síðustu 10 árum þá væru lágmarkslaunin ekki 125.000 heldur 149.000 í dag.  Síðan er rétt að nefna óréttlætið sem fólgið er í lífeyrisréttindum þingmanna samanborið við verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði og verður þeirri mismunun ekki með tárum tekið.

Pétur Blöndal nefndi einnig að ef lágmarkslaunin myndu fá umtalsverða hækkun í næstu samningum þá myndi það ganga upp allan launastigann og það gengi alls ekki að mati Péturs.  Pétri Blöndal finnst það allt í lagi að hann og aðrir þingmenn fái 40% meiri kauphækkanir en þeir sem vinna á lágmarkslaunum og virðist ekki gera athugasemdir við að laun seðlabankastjóra eigi að hækka um 200.000 þúsund á mánuði.

Það virðist vera að þingmaðurinn vilji alls ekki taka þátt í því með verkalýðshreyfingunni að eyða þessum skammarlegu lágmarkslaunum sem ekki duga fyrir lágmarksframfærslu og er það með ólíkindum, svo ekki sé fastar að orði kveðið. 

Hægt að hlusta á viðtalið við Pétur Blöndal og formann félagsins með því að smella  hér

25
Jul

Hrós frá DV

Aðalsteinn Á. Baldursson og Vilhjálmur Birgisson formenn Verkalýðsfélags Húsavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélags Akraness fengu sérstakt hrós í DV í gær fyrir störf þeirra í þágu verkafólks.

Þar segir m.a. þessir verkalýðsforkólfar sækja í gamla hefð og fara ekki sparlega með orðaforðann þegar kemur að kjarabaráttu fyrir umbjóðendur sína.

24
Jul

Formaður fór í vinnustaðaheimsókn í gjaldskýlið við Hvalfjarðagöng

Formaður félagsins fór í vinnustaðaheimsókn til starfsmanna Spalar sem starfa í gjaldskýlinu við Hvalfjarðagöng.  En sérkjarasamningur starfsmanna rennur út nú um áramótin.

Undirbúningur að kröfugerð fyrir komandi sérkjarasamning starfsmanna  mun væntanlega hefjast von bráðar.

Það er alveg óhætt að segja að það geti verið afar krefjandi að vera starfsmaður í gjaldskýli Spalar við Hvalfjarðagöng, enda hefur umferð um göngin stóraukist ár frá ári.  Sem dæmi er það alþekkt að starfsmenn skýlisins ná vart að standa upp alla vaktina  þegar umferðin er hvað mest að sumarlagi.

Starfsmenn gjaldskýlisins sjá ekki eingöngu um að innheimta veggjald af vegfarendum heldur gegna þeir afar stóru hlutverki hvað varðar að tryggja öryggi þeirra vegfarenda sem um göngin aka.

Fyrstu viðbrögð starfsmanna í gjaldskýlinu geta skipt sköpum þegar slys eða önnur óhöpp verða í göngunum, það hefur reynslan sýnt oftar en einu sinni á þeim 9 árum sem göngin hafa verið starfrækt.

Sem dæmi þá má nefna að það getur verið gríðarlega mikilvægt að starfsmenn gjaldskýlisins séu snöggir að loka göngunum þegar slys verður, til að forða en frekari slysum.

Það er einnig óhætt að fullyrða að í gjaldskýli Spalar við Hvalfjarðagöng starfar úrvals fólk sem hefur ávalt hagsmuni og öryggi vegfarenda að leiðarljósi. Því miður kemur það þó fyrir að starfsmenn fá að heyra ljót fúkyrði frá reiðum vegfarendum sem láta gjaldtökuna bita á starfsmönnum.  Slík framkoma er til vansa, enda eru starfsmenn gjaldskýlisins eingöngu að sinna sínu starfi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image