• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Sep

Formaður fundaði með bæjarráði í gær

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá átti formaður félagsins fund með bæjarráði síðdegis í gærdag. Tilefni fundarins var m.a. sá launamunur sem ríkt hefur á milli leiðbeinenda á leikskólum bæjarins eftir félagsaðild. Bæjarráð samþykkti erindi Verkalýðsfélags Akraness og mun 4% álag sem þeir félagsmenn STAK sem störfuðu sem leiðbeinendur höfðu einnig gilda fyrir félagsmenn VLFA í sömu störfum.

Formaður félagsins fagnar þessari ákvörðun bæjarráðs og telur hann bæjarráð hafa sýnt það í verki oftar en einu sinni að þeim er umhugað um þá starfsmenn bæjarins sem eru með hvað lægstu tekjurnar og sýnir þessi samþykkt það einnig.  Vissulega má alltaf gera betur þegar kemur að kjörum þeirrra sem lægstu hafa launin.

Formaður ræddi einnig við bæjarráð um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin er lýtur að málefnum HB-Granda á Akranesi eftir að fyrirtækið ákvað að hætta við að flytja alla sína landsvinnslu upp á Akranes eins og þeir höfðu áður tilkynnt. Formaður óskaði eftir því við bæjarráð að Akraneskaupstaður fundaði með forsvarsmönnum HB-Granda, Faxaflóahafna og Reykjavíkurborgar þar sem reynt yrði að finna farsæla lausn á þessu máli, einfaldlega vegna þess að hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða fyrir samfélagið hér á Akranesi.

18
Sep

Fundur með bæjarráði Akraness

Formaður félagsins mun eiga fund með bæjarráði Akranesskaupstaðar í dag. Tilefni fundarins eru kjör leiðbeinenda á leikskólum bæjarins. Einnig ætlar formaður að ræða við bæjarráð vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin vegna þeirrar ákvörðunar stjórnar HB-Granda að hætta við að flytja alla landvinnslu sína upp á Akranes.

Hér er um gríðarlega mikið hagsmunamál Akurnesinga að ræða og mun formaður óska eftir því að bæjaryfirvöld beiti sér af fullum þunga fyrir því að fundað verði með forsvarsmönnum HB-Granda, Reykjavíkurborgar og stjórnendum Faxaflóahafna vegna þessa máls. Mjög mikilvægt er að farsæl niðurstaða náist í þessu máli sem allir aðilar geta verið ásáttir með. 

16
Sep

Félagsleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði samfélagslegt mein

Norðurál hefur rift samningi við pólska verktakafyrirtækið Dabster eftir að Verkalýðsfélag Akraness og Félag-iðn og tæknigreina bentu forsvarsmönnum Norðuráls á að starfsmennn Dabster væru ekki með tilskilin leyfi til að starfa hér á landi eins og lög kveða skýrt á um. 

Ragnar Guðmundsson forstjóri Norðuráls sagði í viðtali við RUV í gærkveldi að um klárt lögbrot hafi verið að ræða. Mennirnir höfðu hvorki kennitölur, dvalarleyfi né önnur tilskilin leyfi til að starfa hér á landi.

Í september á síðasta ári gerði Norðurál samning við pólska verktakafyrirtækið Dabster. Alls var um fimm stöðugildi að ræða. Stöðurnar urðu þó tólf þegar mest var. Pólsku verkamennirnir sem komu hingað til lands til að manna þessar stöður störfuðu hér ólöglega í þrjá mánuði í senn, fóru þá úr landi og komu aftur til baka eða aðrir menn voru sendir í þeirra stað. Samningur Norðuráls við Dabster hefur gilt í ár. Því má gera ráð fyrir að um tuttugu til þrjátíu ólöglegir starfsmenn hafi komið til landsins og starfað á vegum Dabster fyrir Norðurál.

Það er ljóst að opinber gjöld vegna starfsmannanna ekki hafa verið greidd hér á landi. Slíkt skekkir alla samkeppnisstöðu gagnvart heiðarlegum fyrirtækjum og gjaldfellir kjör íslenskra launþega. Sterkar grunsemdir eru um að skort hafi á launagreiðslur til pólsku starfsmannanna.  Formanni félagsins er kunnugt um að Félag-iðn og tæknigreina er að kalla eftir gögnum til að ganga úr skuggum hvort brotið hafi verið á réttindum pólsku starfsmannana.  Einnig eru grunsemdir um að pólsku starfsmenirnir hafi ekki haft réttindi til að starfa hér á landi sem rafsuðumenn.

Það liggur fyrir að stéttafélögin sem eiga aðild að kjarasamningunum á Grundartangasvæðinu líða ekki lögbrot og félagsleg undirboð eins og í þessu tilviki.

Formaður félagsins fagnar þeirri ábyrgð sem Norðurál sýndi með því að rifta samningnum við Dabster. Félagsleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði er samfélagslegt mein sem allir verði að taka höndum saman um að útrýma og lætur Verkalýðsfélag Akraness ekki sitt eftir liggja í þeim efnum. 

Hægt er að horfa á frétt um málið á RÚV með því að smella á Debster.

14
Sep

Gríðarleg vonbrigði

Það voru vægast sagt sorgleg tíðindi sem okkur Skagamönnum bárust í morgun þegar forsvarsmenn HB Granda tilkynntu að fyrirtækið væri hætt við að flytja alla landvinnslu fyrirtækisins upp á Akranes, eins og þeir höfðu tilkynnt 10 ágúst sl.

Akurnesingar fylltust gríðarlegri bjartsýni fyrir um mánuði síðan þegar HB Grandi tilkynnti að það hygðist reisa nýtt fiskviðjuver og að öll landvinnsla fyrirtækisins yrði flutt upp á Akranes.  Fram kom hjá forsvarsmönnum HB Granda að forsendan fyrir því að þessi áform myndu ganga upp væru að Faxaflóahafnir myndu flýta gerð nýrrar landfyllingar og hafnargarðs á Akranesi. HB Grandi stefndi að því að reisa á þeirri uppfyllingu nýtt fiskiðjuver sem yrði tilbúið síðla árs 2009. 

Nú hefur komið svar frá stjórn Faxaflóahafna um að þeir telja sig ekki geta verið tilbúna með nýja hafnaraðstöðu fyrir HB Granda fyrr en 2012 og á þeirri forsendu hefur stjórn HB Granda ákveðið að hætta við fyrirhuguð áform um að flytja alla landvinnsluna upp á Akranes. 

Það er með ólíkindum að forsvarsmenn HB Granda skuli nota þessa afsökun fyrir því að hætta við þessi áform sérstaklega í ljósi þess að Gísli Gíslason, forstjóri Faxaflóahafna, sagði í samtali við Skessuhorn að einn af hornsteinum í sameiningu hafnanna undir merkjum Faxaflóahafna hafi verið það að styrkja Akranes sem fiskihöfn. Þessi fyrirhugaða breyting myndi augljóslega falla mjög vel að því markmiði, sagði Gísli Gíslason.  Einnig sagði Gísli í þessu viðtali 10. ágúst að ekkert sé tæknilega því til fyrirstöðu að verða við þessari beiðni HB Granda.  Að stjórn HB Granda skuli hætta við allt saman vegna þess að Faxaflóahafnir telja sig þurfa örlítið meiri tíma til vera klárir með nýja hafnaraðstöðu, þetta er eins og áður sagði léleg afsökun hjá stjórn HB Granda.

Formaður VLFA taldi að loksins hefði óvissu fiskvinnslufólks á Akranesi verið eytt eftir að tilkynnt var um að landvinnsla HB Granda yrði flutt upp á Akranes.  Hver hefði getað trúað því að einungis einum mánuði seinna kæmi tilkynning um að stjórn HB Granda væri hætt við allt saman.  Hafi einhvern tímann ríkt óvissu ástand hjá fiskvinnslufólki hér á Akranesi þá er það núna.

Hvernig má það vera að forsvarsmenn HB Granda tilkynna áform um að reisa nýtt fiskiðjuver án þess að vera búnir að vinna sína heimavinnu, ef þannig má að orði komast?  Vekja upp tilhæfulausar væntingar án þess að nein innistæða sé fyrir slíkum væntingum.

Það má ekki gleyma því að eftir að Haraldur Böðvarsson & co sameinaðist Granda þá hefur störfum hjá fyrirtækinu hér á Akranesi fækkað á bilinu 60 til 80 manns.  Á þeirri forsendu er þessi tilkynning í dag gríðarlegt áfall fyrir samfélagið allt hér á Akranesi.

Formaður VLFA gerir þá kröfu að forsvarsmenn Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar, Faxaflóahafna og HB Granda setjist niður og finni farsæla lausn á þessu máli sem allir geta verið ásáttir með. 

Viðtal var við formann félagsins í kvöldfréttum sjónvarpsins varðandi þetta mál og er hægt að horfa á fréttina með því að smella á HB Grandi

13
Sep

Formaður félagsins í viðtali í þættinum Morgunvaktin

Formaður félagsins var í viðtali í morgun hjá Gísla S Einarssyni fréttamanni í þættinum Morgunvaktin.

Formaðurinn fór víða í umræddu viðtali t.d. voru komandi kjarasamningar, félagsleg undirboð og mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar til umræðu. 

Hægt er að hlusta á viðtalið við formann félagsins með því að smella á Morgunvaktin

12
Sep

Kallað verður eftir gögnum frá Formaco

Eins fram kom hér á heimasíðunni í gær þá fundaði formaður félagsins, ásamt Halldóri Grönvold aðstoðarframkvæmdarstjóra ASÍ, með aðstoðarmanni félagsmálaráðherra, lögmanni Vinnumálastofnunar og forstjóra Vinnumálastofnunar í gærmorgun.  

Tilefni fundarins var eins og áður hefur komið fram málefni er lúta að fyrirtækjum sem eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu en aðallega var mál er tengist fyrirtækinu Formaco til umfjöllunar á fundinum. Verkalýðsfélag Akraness kærði áðurnefnt fyrirtæki til lögreglunnar þann 1. júní sl. vegna hinna ýmsu brota sem lúta m.a. að skráningu á erlendu vinnuafli.

Fundurinn var mjög góður og gagnlegur og algjörlega ljóst, miðað við fyrirliggjandi gögn, að fyrirtækið Formaco hefur ekki verið að fara eftir þeim lögum og reglum er gilda á íslenskum vinnumarkaði og lúta að erlendu vinnuafli.

Fram kom á fundinum að kallað yrði eftir ítarlegum skýringum frá Formaco, ásamt litháenska fyrirtækinu Statinu Statybos Centras (SSC) sem Formaco leigir erlenda starfsmenn af, verði krafið skýringa á hinum ýmsu atriðum sem lúta að skráningu og öðru slíku. Formaður gagnrýndi Vinnumálastofnun harðlega á umræddum fundi, sérstaklega í ljósi þess að ekki er komin niðurstaða í þetta mál þó svo að liðið sé á fjórða mánuð frá því VLFA lagði fram kæru á hendur fyrirtækinu.

Aðstoðarmaður félagsmálaráðherra Hrannar B Arnarsson lætur hafa eftir sér í dag í DV að margt sé óunnið í máli Formaco og að fyrirtækið beri klárlega einhverja ábyrgð í þessu máli.  Hrannar segir einnig að Formaco verði krafið ítarlegri skýringa og gengið verði hart í að afla svara frá fyrirtækinu.  Þessum ummælum fagnar formaður VLFA.

Ekki má gleyma því að það var Vinnumálastofnun sem hvatti VLFA eindregið til að kæra fyrirtækið fyrir brot á skráningum erlendra starfsmanna þess. Nú telur formaður víst að Vinnumálastofnun muni fara í þetta mál af festu og einurð, sérstaklega vegna fyrirliggjandi gagna og niðurstaða í þetta mál ætti því að vera komin fljótlega.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image