• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Lágmarkslaun verði 170.000 kr. og skattalækkanir beinist að þeim tekjulægstu Frá félagsfundinum í gær
16
Oct

Lágmarkslaun verði 170.000 kr. og skattalækkanir beinist að þeim tekjulægstu

Í gærkvöldi var haldinn opinn félagsfundur hjá Verkalýðsfélagi Akraness. Á dagskrá fundarins voru aðallega tvö mál, annars vegar kynning Gylfa Arnbjörnssonar, framkvæmdastjóra ASÍ, á hugmyndum um breytingar á veikinda- og slysa rétti og stofnun nýs áfallatryggingasjóðs. Hins vegar var rætt um mótun kröfugerðar Verkalýðsfélags Akraness vegna komandi kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði.

Fundurinn samþykkti að halda áfram þeirri vinnu sem ASÍ hefur verið að vinna í tengslum við breytingar á veikinda- og slysarétti og stofnun nýs áfallatryggingasjóðs. Það kom einnig fram á fundinum að það eru viss atriði sem menn vilja fá nánari skýringar á, en á heildina litið leist fundarmönnum ágætlega á framkomnar tillögur.

Á fundinum lagði stjórn félagsins fram tillögu að kröfugerð fyrir komandi kjarasamninga. Þar kemur m.a. fram að krafa félagsins er sú að lágmarkslaun hækki úr 125.000 kr. í 170.000 kr á samningstímanum og samið verði til tveggja ára. Einnig samþykkti fundurinn að gera þá kröfu á ríkisvaldið að fyrirhugaðar skattalækkanir muni beinast fyrst og fremst að þeim tekjulægstu og væri slíkt t.d. hægt að gera með nýju skattþrepi.

Mikill einhugur og samstaða ríkti á fundinum og fram kom hjá fundarmönnum að menn vonast til að víðtæk sátt náist um stórhækkun lágmarkslauna því það er ekki hægt að bjóða íslensku verkafólki upp á lágmarkslaun sem eru undir fátæktarmörkum.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa lágmarkslaun hækkað á síðustu 10 árum um 105% en á sama tíma hefur þingfararkaup hækkað um 145%. Hefði lágmarkslaun fengið sömu hækkun og þingmenn síðustu 10 ár þá væru lágmarkslaun 160.000 kr. Á slíkri forsendu vill verkafólk fá leiðréttingu á sínum launum í komandi kjarasamningum.

Kröfugerð Verkalýðsfélags Akraness má lesa með því að smella á meira.

 

Kröfugerð Verkalýðsfélags Akraness vegna komandi kjarasamninga.

 

  • Samningstíminn verði tvö ár með endurskoðunarákvæðum.
  • Lágmarkslaun hækki í 170.000 kr. á samningstímanum.
  • Ekki verði launataxtar til sem eru undir lágmarkslaunum.
  • Almennar launahækkanir verði verulegar á samningstímanum, þar sem verkafólk á landsbyggðinni hefur setið eftir hvað varðar aðra hópa.
  • Fjölga starfsaldursþrepum.
  • Leggja þarf sérstaka áherslu á að lagfæra laun fiskvinnslufólks, ræstingafólks, sorphirðumanna og síðast en ekki síst hópferðabílstjóra og annarra tækjastjórnenda.
  • Orlofsréttur starfsmanna sem starfað hafa lengur en 10 ár á vinnumarkaði hækki úr 28 dögum í 30 daga. Þá verði gengið frá því að starfsmenn flyti áunninn orlofsrétt milli fyrirtækja.
  • Að kynbundnum launamun verði útrýmt.
  • Hækkun á orlofs- og desemberuppbótum.

 

Aðkoma ríkisvaldsins að komandi kjarasamningum.

 

  • Skattalækkanir beinist fyrst og fremst að þeim tekjulægstu.  Tillaga frá VLFA að tekið verði upp nýtt skattþrep þar sem launþegi með tekjur undir 2 milljónum gerði 18% skatt.
  • Barnabætur hækki.  Það er hægt að gera með því að hækka tekjustofninn verulega áður en til skerðingar kemur.  Einnig er hægt að lækka hlutfall á skerðingarprósentunni.
  • Stimpilgjald af skuldabréfum uppá 1,5% verði aflagt og einnig stimpilgjald af kaupsamningum upp á 0,4%

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image