• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Sep

Kallað verður eftir gögnum frá Formaco

Eins fram kom hér á heimasíðunni í gær þá fundaði formaður félagsins, ásamt Halldóri Grönvold aðstoðarframkvæmdarstjóra ASÍ, með aðstoðarmanni félagsmálaráðherra, lögmanni Vinnumálastofnunar og forstjóra Vinnumálastofnunar í gærmorgun.  

Tilefni fundarins var eins og áður hefur komið fram málefni er lúta að fyrirtækjum sem eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu en aðallega var mál er tengist fyrirtækinu Formaco til umfjöllunar á fundinum. Verkalýðsfélag Akraness kærði áðurnefnt fyrirtæki til lögreglunnar þann 1. júní sl. vegna hinna ýmsu brota sem lúta m.a. að skráningu á erlendu vinnuafli.

Fundurinn var mjög góður og gagnlegur og algjörlega ljóst, miðað við fyrirliggjandi gögn, að fyrirtækið Formaco hefur ekki verið að fara eftir þeim lögum og reglum er gilda á íslenskum vinnumarkaði og lúta að erlendu vinnuafli.

Fram kom á fundinum að kallað yrði eftir ítarlegum skýringum frá Formaco, ásamt litháenska fyrirtækinu Statinu Statybos Centras (SSC) sem Formaco leigir erlenda starfsmenn af, verði krafið skýringa á hinum ýmsu atriðum sem lúta að skráningu og öðru slíku. Formaður gagnrýndi Vinnumálastofnun harðlega á umræddum fundi, sérstaklega í ljósi þess að ekki er komin niðurstaða í þetta mál þó svo að liðið sé á fjórða mánuð frá því VLFA lagði fram kæru á hendur fyrirtækinu.

Aðstoðarmaður félagsmálaráðherra Hrannar B Arnarsson lætur hafa eftir sér í dag í DV að margt sé óunnið í máli Formaco og að fyrirtækið beri klárlega einhverja ábyrgð í þessu máli.  Hrannar segir einnig að Formaco verði krafið ítarlegri skýringa og gengið verði hart í að afla svara frá fyrirtækinu.  Þessum ummælum fagnar formaður VLFA.

Ekki má gleyma því að það var Vinnumálastofnun sem hvatti VLFA eindregið til að kæra fyrirtækið fyrir brot á skráningum erlendra starfsmanna þess. Nú telur formaður víst að Vinnumálastofnun muni fara í þetta mál af festu og einurð, sérstaklega vegna fyrirliggjandi gagna og niðurstaða í þetta mál ætti því að vera komin fljótlega.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image