• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Sep

Allsherjar úttekt á Íslenskum vinnumarkaði

Koma þarf í veg fyrir félagsleg undirboðKoma þarf í veg fyrir félagsleg undirboðÞað er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að herða þurfi stórlega eftirlit með þeim fyrirtækjum sem eru með erlent vinnuafl í sinni þjónustu.  Því miður hefur sagan sýnt okkur svo ekki verður um villst að til eru fyrirtæki sem eru alls ekki að fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.

Það þarf að gera víðtæka úttekt á þeim fyrirtækum sem eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.  Best væri að verkalýðshreyfingin ásamt starfsmönnum Vinnumálastofnunnar myndu framkvæma slíka úttekt og yrði slík úttekt framkvæmd með því að fara og heimsækja þau fyrirtæki sem eru með erlenda starfsmenn í vinnu.

Í slíkri úttekt yrði kannað hvort viðkomandi starfsmenn hafi verið skráðir eins og lög kveða á um og hvort verið sé að greiða laun eftir þeim kjarasamningum sem hér gilda.  Í slíkri allsherjar úttekt væri hægt að útrýma þeim félagslegum undirboðum sem því miður hafa verið alltof algeng á íslenskum vinnumarkaði á síðustu misserum.  Félagsleg undirboð sem sum fyrirtæki ástunda gjaldfella launakjör hjá íslensku verkafólki, við því verður að bregðast af fullri hörku.

 

Það eru gríðarlegir hagsmunir hér í húfi fyrir íslenskt samfélag.  Það er alvitað að hundruðir ef ekki þúsundir erlendra starfsmanna eru hér að störfum án þess að hafa verið skráðir hér á landi með lögformlegum hætti.  Dæmin sýna einnig að alltof mörg fyrirtæki hafa ekki sótt um kennitölur fyrir sína starfsmenn og þar af leiðandi eru ekki greidd opinbergjöld af þeim starfsmönnum.

Það er því ljóst að íslenskt samfélag verður að töluverðum fjármunum þegar fyrirtæki koma sér hjá því að greiða til hins opinbera eins og lög kveða á um.  Heiðarleg fyrirtæki eru einfaldlega ekki samkeppnishæf gagnvart þeim fyrirtækjum sem koma sér hjá því að greiða þau opinberugjöld sem þeim ber.

Verkalýðsfélag Akraness hefur átt nokkuð gott samstarf við Vinnumálastofnun hvað varðar öflun gagna tengt erlendu vinnuafli.  Hins vegar er formaður félagsins afar ósáttur með að Vinnumálastofnun hefur ekki verið tilbúin að grípa til þeirra refsinga sem hún hefur samkvæmt lögunum, þegar sannast hefur að fyrirtæki hefur gerst brotlegt.

Vinnumálastofnun verður að senda skýr skilaboð út á vinnumarkaðinn að brot á skráningum og félagslegum undirboðum verða ekki liðin á íslenskum vinnumarkaði lengur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image