• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
May

Verkalýðsfélag Akraness rannsakar félagslegt undirboð

Eins og margoft hefur komið fram hér á heimsíðunni þá heldur VLFA úti öflugu eftirliti með okkar félagssvæði.  Er það gert til að tryggja að félagsleg undirboð séu ekki viðhöfð á okkar svæði.  Einnig er þetta eftirlit nauðsynlegt til að tryggja að samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem hér starfa verði ekki raskað vegna félagslegra undirboða sem einstaka atvinnurekendur ástunda því miður, dæmin sanna það svo sannarlega.

Þessa dagana vinnur Verkalýðsfélag Akranes að því að kanna íslenskt fyrirtæki sem hefur töluverðan fjölda Litháa í vinnu samkvæmt upplýsingum sem félagið hefur fengið.  Formaður fór og hitti þrjá Lithána sem eru að starfa hjá þessu áðurnefnda íslenska fyrirtæki en þeir eru að reisa hér stórt og mikið iðnaðarhúsnæði hér á Akranesi.

Litháarnir tjáðu formanni það að þeir væru búnir að vera starfandi hér á landi á annað ár og síðast hafi þeir verið að störfum í Reykjanesbæ.  Það er ekkert til um þessa menn hjá íslenskum yfirvöldum, þeir eru ekki með kennitölur og ekki hefur verið skilað ráðningarsamningum af mönnum né þeir skráðir á nokkrun hátt hjá Vinnumálastofnun eins og lögin kveða skýrt á um.

Það lítur út fyrir að Liháarnir séu að starfa eftir lögum um starfskjör starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja.  Vinnumálastofnun er að kalla eftir hinum ýmsu göngum um málið frá þessu umrædda íslenska fyrirtæki.   Íslenska fyrirtækið greiðir einhverju Litháísku fyrirtæki eina greiðslu mánaðarlega. Litháíska fyrirtækið sér síðan um að greiða mönnunum laun.  Við höfum enga vitneskju hvort farið sé eftir lögum hvað varðar laun til Litháanna. 

Aðalmálið er að af öllum þeim Litháum sem hér starfa eru grunsemdir um að ekki séu greidd nein opinber gjöld og það skekkir klárleg samkeppnisstöðu annarra íslenskra fyrirtækja. Einnig er rétt að hafa í huga hvernig við Íslendingar eigum að halda út öflugu velferðarsamfélagi ef fyrirtæki ætla að koma sér hjá því að greiða opinber gjöld af sínum erlendu starfsmönnum eins og greinilega er gert í þessu máli.

10
May

Endurúthlutun sumarsins 2007 er nú lokið

Nú er endurúthlutun vegna sumarsins 2007 lokið. Allir þeir sem ekki fengu úthlutað í fyrri úthlutun áttu umsókn í endurúthlutun auk þeirra sem lagt hafa inn umsókn á skrifstofu félagsins á undanförnum dögum. Þeir sem fengu úthlutað í endurúthlutuninni hafa nú fengið sent bréf þar sem þeim er tilkynnt um það hvaða viku þeir fengu og hvernig á að ganga frá greiðslu.

Eindagi endurúthlutunar er 16. maí og eftir það verður hægt að bóka ógreiddar vikur.

Á skrifstofu félagsins er verið að ganga frá lista yfir þær vikur sem ekki var úthlutað og verður hann auglýstur hér á heimasíðunni á mánudagsmorgun 14. maí. Frá þeim tíma geta félagsmenn haft samband við skrifstofu og bókað lausar vikur af listanum. Gildir þá hin ágæta regla: Fyrstur kemur, fyrstur fær.

09
May

Fréttablað félagsins kom út rétt fyrir 1. maí

Rétt fyrir 1. maí sl. kom fréttablað félagsins út og var það borið út í öll hús hér á Akranesi og einnig í nærsveitir.  Félagið gefur árlega út tvö fréttablöð, annars vegar rétt fyrir 1. maí og hins vegar rétt fyrir jól.  Fréttablað félagsins hefur fengið mjög góð viðbrögð frá okkar félagsmönnum.  Þessi góðu viðbrögð lúta að útgáfu fréttablaðsins sem og öðru því sem stjórn félagsins hefur verið að vinna að á undanförnum þremur árum.  Þessi viðbrögð eru stjórn félagsins hvatning til að halda áfram á þeirri braut uppbyggingar sem stjórn félagsins hefur verið að vinna að frá því hún tók við Verkalýðfélagi Akraness 19. nóvember 2003.  Hægt er lesa fréttablaðið hér

07
May

Réttindi úr sjúkrasjóði félagsins stóraukin

Á síðasta aðalfundi var samþykkt að auka verulega við þá styrki sem sjúkrasjóður félagsins býður sínum félagsmönnum.  Á fundinum var t.d. samþykkt að taka fimm nýja styrki inn og var það gert vegna góðrar afkomu sjóðsins.  Þessi fjölgun á styrkveitingum til félagsmanna er einnig einn liður í því að láta félagsmenn njóta ávinnings af góðri afkomu félagsins.

Þeir styrkir sem nú standa fullgildum félagsmönnum til boða eru eftirfarandi:

  • 80% af launum eftir að greiðsluskyldu atvinnurekanda lýkur
  • Styrkur vegna glasa-, tæknifrjóvgunar eða ættleiðingar
  • Styrkur vegna sjúkranudds/ sjúkraþjálfunar
  • Styrkur vegna krabbameinsskoðunar
  • Styrkur vegna skoðunar hjá Hjartavernd
  • Styrkur vegna heyrnatækjakaupa
  • Styrkur vegna gleraugnakaupa
  • Styrkur vegna heilsueflingar
  • Útfararstyrkur
  • Fæðingarstyrkur

Þessi listi er ekki tæmandi yfir þá styrki sem eru í boði hjá félaginu 

Stjórn félagsins skorar á félagsmenn að kynna sér vel hvaða réttindi þeir eiga hjá félaginu og eru einnig hvattir til að hafa samband við skrifstofu félagsins til að fá nánari upplýsingar sé þess þörf.

04
May

Tveir pólskir verkamenn fá vel á annað hundrað þúsund krónur í leiðréttingu á launum sínum

Í dag gekk félagið frá leiðréttingu á launum fyrir tvo pólska verkamenn og nam leiðréttingin tæpum 100.000 á hvorn fyrir sig eða samtals um 200 þúsund krónur. Tímabilið sem umrædd leiðrétting nær til er um fjórir vinnumánuðir. 

Pólsku verkamennirnir leituðu til Verkalýðsfélags Akraness eftir að þeir létu af störfum hjá fyrirtæki sem kemur af höfuðborgarsvæðinu.  Þeir leituðu til félagsins vegna grunsemda um að þeim hafi ekki verið greidd laun í samræmi við íslenska kjarasamninga.

Tímakaupið sem þeir fengu greitt var einungis 648 kr. í dagvinnu og 1.166 kr í yfirvinnu en hér er um að ræða sérhæfða byggingaverkamenn með áratuga langa reynslu í þeim efnum.  Það vantaði því 13,5% uppá laun pólsku verkamannanna til að þau uppfylltu einungis lágmarkstaxta kjarasamninga.

Eins og áður sagði þá náði félagið sátt við fyrirtækið og greiðsla vegna þessa vanefnda hefur nú þegar borist.

Þetta sýnir okkur að stéttarfélögin verða að halda vöku sinni fyrir þeim félagslegu undirboðum sem því miður eru alltof algeng eins og dæmin sanna svo rækilega.

03
May

Erlendir byggingarverkamenn látnir vinna á 1. maí hátíðar- og baráttudegi verkafólks

Það var dapurleg sjón að sjá að í það minnsta tvö byggingarfyrirtæki hér á Akranesi sáu sér ekki fært að gefa sínum erlendu starfsmönnum frí og það á sjálfan 1. maí, baráttudegi verkalýðsins.

Að sjálfsögðu koma upp tilfelli þar sem verkafólk verður að vinna á þessum hátíðardegi verkamanna og nægir þar að nefna starfsmenn sem starfa í öllum stóriðjunum. Við því er að sjálfsögðu ekkert að gera.

Hins vegar er það með öllu óþolandi að sjá að til eru atvinnurekendur og þá sér í lagi í byggingariðnaði sem víla ekki fyrir sér að láta sína erlendu starfsmenn vinna á þessum hátíðar- og baráttudegi verkamanna.  Með þessum gjörðum sínum sýna þessir sömu atvinnurekendur íslensku verkafólki mikla lítilsvirðingu.

Á baráttufundi á Akranesi 1. maí sl. kom fram í ræðu Halldórs Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóra ASÍ að til væru atvinnurekendur sem misnotuðu erlent vinnuafl illilega og væru um leið að grafa undan íslenskum vinnumarkaði.  Þessi þvingun atvinnurekenda, að láta erlenda starfsmenn vinna á þessum baráttudegi verkamanna, er einn liður í því að gjaldfella íslenskan vinnumarkað.  Það er alveg ljóst að erlendir verkamenn hafa að sjálfsögðu hvorki kjark né þor til að neita sínum atvinnurekendum um að vinna á þessum hátíðardögum af ótta við að vera vísað úr starfi. 

Slík framkoma þessara atvinnurekanda sem hér eiga hlut að máli er til háborinnar skammar og alveg ljóst að með þessu áframhaldi mun þeim takast að eyðilega þennan hátíðardag íslenskra verkamanna.  Við því verður verkalýðshreyfingin í heild sinni að bregðast af fullum þunga og ekki mun Verkalýðsfélag Akraness láta sitt eftir liggja í þeim efnum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image