• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Jul

Viðtal var við formann félagsins í þættinum Í bítið

Formaður félagsins var í viðtali á Bylgjunni í þættinum Í bítið á fimmtudag var.  Til umræðu í viðtalinu var t.d komandi kjarasamningar og hvað Verkalýðsfélag Akraness telji að eigi að vera forgangskrafa í komandi kjarasamningum.

Formaður fór víða í þessu viðtali og koma m.a. fram hjá honum að það sé algert lykilatriði í næstu samningum að lagfæra lágmarkslaunin.  Krafan þarf að vera sú að lágmarkstaxtar verði hækkaðir upp að þeim markaðslaunum sem almennt er verið að greiða á íslenskum vinnumarkaði.

Það kom einnig fram hjá formanninum að það sé til skammar fyrir verkalýðshreyfinguna að bjóða uppá lágmarkslaun sem duga alls ekki fyrir lágmarksframfærslu.

Hér á heimasíðunni hefur áður verið fjallað um að nú sé komið að öðrum en íslensku verkafólki að viðhalda hér stöðugleika.

Nægir að nefna í því sambandi að lágmarkslaun verkafólks hafa  hækkað frá árinu 1997 til 2007 einungis um 105% á meðan þingfarakaupið hefur hækkað um 145% á sama tímabili, sem er 40% meiri hækkun.

Pétur Blöndal þingmaður sjálfstæðismanna og Atli Gíslason þingmaður Vinstri Græna voru í þessum sama þætti á fimmtudaginn var og Pétur Blöndal var m.a. spurður um þá kröfu að hækka lágmarkslaun úr 125.000 í 176.000 eins og formaður VLFA hefur lagt til.

Pétur Blöndal svaraði því til að búið væri að hækka lágmarkslaunin í tvígang og þær hækkanir hefðu verið hlutfallslega meiri en aðrir hópar hafi fengið.  Það er með ólíkindum að heyra þingmanninn tala með þessum hætti.  Sérstaklega í ljósi þeirra staðreynda að laun þingmanna hafa hækkað um 40% meira en lágmarkslaun verkafólks á síðustu 10 árum.

Ef verkafólk hefði fengið sömu prósentuhækkun og þingmenn á síðustu 10 árum þá væru lágmarkslaunin ekki 125.000 heldur 149.000 í dag.  Síðan er rétt að nefna óréttlætið sem fólgið er í lífeyrisréttindum þingmanna samanborið við verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði og verður þeirri mismunun ekki með tárum tekið.

Pétur Blöndal nefndi einnig að ef lágmarkslaunin myndu fá umtalsverða hækkun í næstu samningum þá myndi það ganga upp allan launastigann og það gengi alls ekki að mati Péturs.  Pétri Blöndal finnst það allt í lagi að hann og aðrir þingmenn fái 40% meiri kauphækkanir en þeir sem vinna á lágmarkslaunum og virðist ekki gera athugasemdir við að laun seðlabankastjóra eigi að hækka um 200.000 þúsund á mánuði.

Það virðist vera að þingmaðurinn vilji alls ekki taka þátt í því með verkalýðshreyfingunni að eyða þessum skammarlegu lágmarkslaunum sem ekki duga fyrir lágmarksframfærslu og er það með ólíkindum, svo ekki sé fastar að orði kveðið. 

Hægt að hlusta á viðtalið við Pétur Blöndal og formann félagsins með því að smella  hér

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image