• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
Jan

Kosning um nýgerða kjarasamninga fer vel af stað

Kosning um nýgerða kjarasamninga er nú í fullum gangi og er þátttakan einstaklega góð það sem af er. Kynningarfundurinn sem haldinn var í vikunni á var afar gagnlegur, þátttakan hefði mátt vera betri en það var þó hiti í fundarmönnum og heilmiklar umræður spunnust um innihald samninganna. Þeir sem þess óska geta haft samband við skrifstofu félagsins og fengið kynningu á vinnutíma, eða eftir samkomulagi.

Frestur til að skila kjörseðli er til kl. 12:00 miðvikudaginn 22. janúar og er félagsmönnum bent á að póststimpill gildir ekki því talningu verður lokið fyrir kl. 16:00 þann saman dag. Eru félagsmenn hvattir til að láta í sér heyra og skila atkvæðinu fyrir tilskildan tíma.

13
Jan

Félagsmenn munið kynningarfundinn í kvöld!

Kynningarfundur vegna nýrra kjarasamninga verður haldinn í kvöld á Gamla Kaupfélaginu, Akranesi kl. 20:00.

Á fundinn eru boðaðir þeir félagsmenn sem tilheyra Almennri deild, Matvæladeild og Iðnsveinadeild. Formaður félagsins mun kynni efni kjarasamninga og opið verður fyrir umræður. Kaffiveitingar verða í boði.

Athugið er að þeir sem komast ekki á fundinn í kvöld geta haft samband við skrifstofu VLFA og fengið kynningu eftir samkomulagi.

Póstatkvæðagreiðsla um nýju kjarasamningana er hafin og kjörgögn hafa verið póstlögð til félagsmanna. Félagar eru hvattir til að láta skoðun sína í ljós og koma atkvæðaseðlinum til skila fyrir hádegi 22. janúar en þá lýkur kosningu.
 

09
Jan

Póstatkvæðagreiðsla um nýja kjarasamninga

Nú í þessari viku eru að hefjast kosningar um kjarasamningana sem undirritaðir voru þann 21. desember síðastliðinn. Kosið er hjá flestöllum stéttarfélögum vítt og breitt um landið og lýkur henni þann 22. janúar 2014. Hjá Verkalýðsfélagi Akraness fer fram póstatkvæðagreiðsla um samninginn og voru kjörgögn póstlögð til félagsmanna Almennrar deildar, Matvæladeildar og Iðnsveinadeildar í dag. Atkvæðaseðlar þurfa að hafa borist kjörstjórn VLFA fyrir kl. 12:00 miðvikudaginn 22. janúar næstkomandi og eru félagsmenn hvattir til að láta skoðun sína í ljós og koma atkvæði sínu til skila í tæka tíð.

Það er ekkert launungarmál að stjórn Verkalýðsfélags Akraness leggst alfarið gegn því að þessi samningur verði samþykktur, enda skrifaði formaður félagsins ekki undir hann og vildi hann með því lýsa yfir vanþóknun sinni á rýru innihaldi hans. Það eru þó félagsmenn sjálfir sem þurfa að kjósa um samninginn og hafa þannig endanlegt ákvörðunarvald.

Á þingi Starfsgreinasambands Íslands (SGS) sem haldið var í október sl. var samþykkt ályktun sem kvað skýrt á um að SGS ætlaði sér að brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hér hefur ríkt á undanförnum árum og áratugum. Í þessari sömu ályktun kom einnig skýrt fram að hvergi yrði hvikað frá í þeirri baráttu. SGS er landssamband íslensks verkafólks og þing SGS er æðsta vald sambandsins. Það skýtur því skökku við að núna liggur fyrir þessi kjarasamningur, sem er að mati samninganefndar Verkalýðsfélags Akraness afar rýr fyrir íslenskt verkafólk. Krafan var sú að lægstu taxtar innan SGS myndu hækka um 20.000 kr. og með samstöðu er vel hægt að ná slíkri launahækkun fram. Sérstaklega í ljósi þeirrar staðreyndar að atvinnugreinar eins og t.d. ferðaþjónustan og fiskvinnslan, er að skila mjög góðri afkomu. Nægir að nefna í því samhengi að heildarhagnaður íslensks sjávarútvegs á síðasta ári nam 80 milljörðum. Að auki hefði verið hægt að ná betri árangri í viðræðum við ríkisvaldið, en þar eru engar skattalækkanir fyrirhugaðar á laun undir 250.000 á meðan skattalækkun á laun yfir 700.000 nemur 42.000 krónum á ársgrundvelli. Við slíkt er ekki hægt að una.

Í nýja samningnum eru launataxtar undir 235.000 kr. hækkaðir um 9.750 krónur. Þetta þýðir að þegar búið er að draga skatta og aðrar skyldur frá þá standa einungis eftir um 5.700 krónur í vasa launafólks á mánuði, sem gerir launahækkun upp á einungis 190 kr. pr. dag. Að auki þvingaði samninganefnd ASÍ samninganefnd Starfsgreinasambandsins til að taka þátt í svokallaðri samræmdri launastefnu þar sem ekkert tillit er tekið til góðrar afkomu útflutningsgreinanna.

Það er hins vegar alveg ljóst að eitt, tvö eða þrjú stéttarfélög munu ekki ná fram meiri launahækkunum ef meirihluti stéttarfélaga mun samþykkja samninginn. Því er það von stjórnar VLFA að þessi samningur verði felldur í öllum aðildarfélögum ASÍ. Ef það gerist mun hugsanlega skapast á nýjan leik betri samningsstaða til handa íslensku verkafólki og hugsanlega verður hægt að ná fram frekari kjarabótum.

Stjórn VLFA skorar á þá félagsmenn sem taka laun eftir þessum samningi að segja nei við honum, með von um að verkafólk vítt og breitt geri slíkt hið sama. Ef ekki mun ríkja samstaða á meðal verkafólks um að fella þennan samning þá er ljóst að félagið mun þurfa að ganga frá sambærilegum samningi við SA, enda verður samningsstaðan engin fyrir fámenn félög að gera betri samning við Samtök atvinnulífsins, ef mikill meirihluti stéttarfélaga samþykkir samninginn.

Grundvallaratriði er hins vegar að með samstöðu alls íslensks verkafólk er æði margt hægt að gera og á þeirri forsendu er það óskandi að verkafólk taki höndum saman vítt og breitt um landið og sýni vanþóknun sína í verki og felli þennan samning. Þó ekki sé nema til þess eins að sýna Samtökum atvinnulífsins að það eru fleiri í íslensku samfélagi sem þurfa að axla ábyrgð en íslenskt lágtekjufólk.

30
Dec

Aðalfundur sjómannadeildar VLFA ályktar um viðmiðunarverð Verðlagsstofu skiptaverðs

Rétt í þessu var að ljúka aðalfundi sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness, en á fundinum var samþykkt ályktun þar sem skorað er á sjávarútvegsráðherra að taka verðlagsmál sjávarafurða til gagngerrar endurskoðunar í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að þjóðarbúið í heild sinni verður af milljörðum króna ár hvert vegna þess nú er í gildi tvöföld verðlagning á sjávarafurðum.

Einnig krafðist aðalfundur sjómannadeildar VLFA þess að allur fiskur færi á markað eða að fiskmarkaðsverð verði ætíð látið gilda þegar veiðar og vinnsla eru á einni og sömu hendi og afla landað beint inní vinnsluna.

Einnig samþykkti aðalfundurinn ályktun þar sem því var harðlega mótmælt að búið sé að afnema sjómannaafslátt, í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að sjómannaafslátturinn hefur verið hluti af kjörum sjómanna um áratugaskeið. Fundurinn krafðist þess að sjómönnum verði bætt upp það fjárhagstjón sem þeir verða fyrir vegna afnámsins með einum eða öðrum hætti og taldi fundurinn rétt að minna almenning hér á landi á að skattaívilnanir sjómanna á Norðurlöndum eru umtalsverðar og því grátlegt að vita til þess að búið sé að afnema þessi réttindi sjómanna eins og raunin er orðin. 

Hægt er að lesa ályktun aðalfundar í heild sinni hér.

30
Dec

Fundur í sjómannadeild VLFA í dag kl. 14

Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness minnir félagsmenn sína á aðalfund deildarinnar sem haldinn verður í dag í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13. Fundurinn hefst kl. 14. Auk venjubundinna aðalfundarstarfa verður farið yfir komandi kjaraviðræður vegna smábátasamningsins sem rennur út í byrjun nýs árs og einnig mun liggja fyrir á fundinum ályktun vegna verðlagsmyndunar á sjávarafurðum hér á landi.

Sjómenn í Verkalýðsfélagi Akraness eru eindregið hvattir til að mæta.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image