• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
31
Mar

Umsóknir um orlofshús sumarið 2014

Nú er opið fyrir umsóknir um dvöl í orlofshúsum félagsins Sumarið 2014. Umsóknareyðublöð og bæklingar fóru í póst í dag og ættu því að berast félagsmönnum í vikunni, en einnig er hægt að leggja inn umsókn á Félagavefnum og eru félagsmenn eindregið hvattir til að nýta sér þann möguleika. Athugið að þegar sótt er um á Félagavefnum er farið í liðinn Orlofshús og þar í Umsókn (en ekki liðinn Laus orlofshús, sá liður er aðeins notaður til að bóka orlofshús á vetrartíma og til að bóka þær vikur sem ganga af eftir að báðum úthlutunum er lokið).

Í sumar verður sem fyrr boðið upp á dvöl í orlofshúsum félagsins í Húsafelli, Efstaási-SvínadalBláskógum-Svínadal, Hraunborgum, Ölfusborgum, í þremur íbúðum á Akureyri og í Kjós. Að auki hefur félagið tekið á leigu íbúðir í Stykkishólmi og Vestmannaeyjum. Upplýsingar um þá orlofskosti koma hingað inn á heimasíðuna (vinstra megin, undir Orlofssjóður) á morgun.

Úthlutun fer þannig fram að allar umsóknir eru skráðar inn í tölvukerfi félagsins. Kerfið raðar öllum umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli. Ef punktar tveggja eru jafnir fær sá úthlutað sem fyrr sótti um. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu. Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar. Leyfilegt er að breyta umsóknum og leggja inn nýjar fyrir endurúthlutun.

 

Helstu dagssetningar:

11. apríl - Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús

14. apríl - Fyrri úthlutun fer fram, allir umsækjendur fá svarbréf í pósti (einnig er hægt að sjá strax hvort bókun hafi myndast inni á félagavefnum)

02. maí  - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur

06. maí  - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

06. maí - Kl. 12:00 - Fyrstir koma, fyrstir fá! Þeir sem fyrstir koma geta bókað lausar vikur (athugið að eftir eindaga endurúthlutunar getur lausum vikum fjölgað)

13. maí  - Eindagi endurúthlutunar 

31
Mar

Fundað hjá Ríkissáttasemjara vegna Klafa

Í dag var fundað hjá Ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Klafa á Grundartanga, en þeir sjá um út- og uppskipanir á Grundartangasvæðinu fyrir Elkem Ísland og Norðurál. En eins og fram hefur komið hér í fréttum var gengið frá samningi við starfsmenn Elkem Ísland og er launakrafa starfsmanna Klafa byggð að langstærstum hluta á því sem um samdist í þeim samningi.

Þetta var góður og árangursríkur fundur og unnið er nú að því að útfæra þær launabreytingar sem munu taka gildi í kjarasamningi starfsmanna Klafa, og gefa samningsaðilar sér viku til að útfæra það. En skilningur beggja aðila er á að launabreytingar starfsmanna Klafa verði algerlega í takti við það sem um samdist fyrir starfsmenn Elkem Ísland á Grundartanga. Reiknar formaður með því að hægt verði að ganga frá nýjum kjarasamningi í byrjun næstu viku ef ekkert óvænt kemur upp á.

28
Mar

Nýr kjarasamningur fyrir Elkem Ísland samþykktur með 70% greiddra atkvæða

Rétt í þessu lauk talningu atkvæða í kosningu um kjarasamning Elkem Ísland á Grundartanga við Samtök Atvinnulífsins sem Verkalýðsfélag Akraness gekk frá síðastliðinn föstudag. Á kjörskrá voru 134. Alls greiddu 111 manns atkvæði sem gerir 82,8% kjörsókn. Já sögðu 77, eða 70% starfsmanna. Nei sögðu 33 eða 29% starfsmanna. Einn seðill var auður, eða 1%. Samningurinn telst því samþykktur með 70% atkvæða.

Formaður félagsins er afar ánægður með þessa niðurstöðu, enda er að hans mati hér um mjög góðan samning að ræða, samning sem er að gefa starfsmönnum launahækkun frá rúmum 30.000 krónum upp í tæpar 36.000 krónur í heildarhækkun á mánuði. Það er morgunljóst að þetta er umtalsvert betri samningur en samræmda launastefnan á hinum almenna vinnumarkaði kvað á um.

Formaður vill þakka trúnaðarmönnum kærlega fyrir frábærlega vel unnin störf í þessari gríðarlega erfiðu kjaradeilu, og ekki síður starfsmönnum fyrir frábæra samstöðu og einhug, en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefði verkfall skollið á síðastliðinn þriðjudag, ef ekki hefði tekist að ganga frá nýjum kjarasamningi.

21
Mar

Nýr samningur undirritaður fyrir starfsmenn Elkem - verkfalli afstýrt

Rétt í þessu undirritaði Verkalýðsfélag Akraness nýjan kjarasamning við forsvarsmenn Elkem Ísland og Samtök atvinnulífsins, en eins og fram hefur komið átti verkfall að skella á í verksmiðjunni næsta þriðjudag tækist ekki að semja fyrir þann tíma.

Formaður félagsins skal fúslega viðurkenna að það var afar ánægjulegt og mikilvægt að ná að klára undirritun á nýjum kjarasamningi áður en til verkfalls kæmi, enda er það morgunljóst að í verkfallsátökum stendur sjaldan einhver upp sem sigurvegari.

Þessi nýi kjarasamningur fyrir starfsmenn Elkem Ísland á Grundartanga gildir frá 1. janúar 2014 og gildir í þrjú ár. Við lausn á þessari deilu var reynt að finna leið sem gæti skilað báðum aðilum ávinningi, þ.e.a.s. bæði fyrirtækinu og starfsmönnum.  Eftir mikla yfirlegu og vinnu komust menn að niðurstöðu um lausn sem byggist á því að taka upp nýja bónusa til handa starfsmönnum, sem mun klárlega einnig nýtast fyrirtækinu ef vel tekst til.

Formaður félagsins er mjög sáttur með þennan samning, enda er hann að skila starfsmönnum góðum ávinningi og mun formaður fara ítarlega yfir innihald samningsins með starfsmönnum á tveimur kynningarfundum sem haldnir verða þriðjudaginn 25. mars á Gamla Kaupfélaginu kl. 13:00 og 19:00. Hægt verður að kjósa um samninginn að kynningum afloknum. Starfsmenn geta haft samband við formann félagsins til að fá nánari upplýsingar um innihald samningsins og er síminn hjá formanni 8651294. Formaður ítrekar það að hann er afar ánægður með að farsæl lausn hafi náðst þar sem hagsmunir starfsmanna og fyrirtækisins voru hafðir að leiðarljósi við að leysa þessa mjög svo erfiða kjaradeilu.

19
Mar

Enn ber töluvert í milli í kjaradeilu við Elkem Ísland

Glitti í smá vonarglætu á síðasta fundiGlitti í smá vonarglætu á síðasta fundiÍ gær var haldinn fundur vegna þeirrar alvarlegu kjaradeilu sem nú stendur yfir vegna Elkem Ísland á Grundartanga. Eins og fram hefur komið mun skella á verkfall í verksmiðjunni þriðjudaginn 25. mars sem þýðir að það eru einungis 6 dagar til stefnu og því morgunljóst að menn þurfa að hafa hraðar hendur ef koma á í veg fyrir verkfall. 

Það er ljóst að enn ber töluvert í milli samningsaðila þó formaður vilji samt viðurkenna að hann sjái örlitla vonarglætu um að hægt verði að ganga frá kjarasamningi áður en verkfall skellur á. Forsvarsmenn Elkem Ísland viðruðu nokkrar hugmyndir á fundinum í gær sem félagið telur vert að skoða og lúta þær að bónuskerfi fyrirtækisins og það má segja að það sé eðlilegt að fyrirtækið vilji horfa á slíka hluti því það getur jafnframt skilað fyrirtækinu ávinningi ef vel tekst til í slíku bónuskerfi. Enda eru bónuskerfi ætíð þannig að bæði starfsmenn og fyrirtæki geta hagnast ágætlega.

En eins og áður sagði ber töluvert í milli hjá samningsaðilum ennþá en næsti fundur er á morgun hjá ríkissáttasemjara. Þá munu þessi mál skýrast enn frekar en það liggur fyrir að samstaða og einhugur starfsmanna er gríðarlegur í þessari kjarabaráttu og það eru viss þolmörk sem Verkalýðsfélag Akraness og starfsmenn hafa sett sér í þessari kjaradeilu og morgunljóst er að frá þeim þolmörkum verður ekki hvikað.

Hinsvegar liggur það algjörlega fyrir að Verkalýðsfélag Akraness telur það afar brýnt að finna leið til að ganga frá kjarasamningi við fyrirtækið því það skiptir miklu máli að hægt verði að forðast verkfall því það er morgunljóst að í verkfalli tapa allir. En ef með þarf er það alveg hvellskýrt að félagið mun fara í verkfallsátök til að knýja fram sínar sanngjörnu, eðlilegu og réttlátu launakröfur. Það er ljóst að kröfugerð félagsins er hvorki ósanngjörn né yfirhlaðin.  

19
Mar

Framtalsaðstoð fyrir félagsmenn VLFA

Eins og undanfarin ár býður félagið upp á aðstoð við gerð einfaldra skattframtala og geta félagsmenn pantað tíma á skrifstofu VLFA eða í síma 4309900. Síðasti dagur til að skila framtali er föstudagurinn 21. mars, en hægt er að sækja um frest á síðunni www.skattur.is. Framtalsfrestur er lengst veittur til 1. apríl.

Framtalsaðstoðin er félagsmönnum að kostnaðarlausu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image