• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Stefnir í 420 ný störf á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness Frá undirrituninni í dag
28
May

Stefnir í 420 ný störf á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness

Formaður félagsins var nú í hádeginu viðstaddur þegar þau stórtíðindi gerðust að undirrituð var viljayfirlýsing á milli bandaríska sólarkísilfyrirtækisins Silicor materials og Faxaflóahafna um að fá úthlutað lóð undir verksmiðjuhús fyrirtækisins á Grundartanga.

Þetta eru gríðarlega jákvæð tíðindi fyrir atvinnulífið hér á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit enda er hér um að ræða fyrirtæki sem mun veita allt að 420 manns atvinnu og þar af uppundir 150 sérmenntuð störf. Þessi verksmiðja flokkast sem umhverfisvæn enda er sáralítil ef nokkur mengun af þessari starfsemi. Með öðrum orðum hér er um græna og vistvæna stóriðju að ræða. Það er morgunljóst að þetta mun hafa gríðarlega jákvæð áhrif á samfélagið hér í kring enda skiptir höfuðmáli fyrir íslenskt samfélag að til verði vel launuð gjaldeyrisskapandi störf. Með gjaldeyrisskapandi störfum náum við að halda úti því velferðarsamfélagi sem við viljum búa í.

Stefnt er að því ef engin ljón verða í veginum að framkvæmdir við byggingu verksmiðjunnar hefjist strax í október á þessu ári og verði lokið um mitt ár 2016. Síðari áfangi verði síðan tilbúinn síðari hluta árs 2017. Ef allar áætlanir um uppbyggingu ganga eftir mun framleiðsla vera komin í fullan gang um mitt ár 2017. Hér er um fjárfestingu að ræða við byggingu verksmiðjunnar og tækjakaup sem nemur allt að 80 milljörðum íslenskra króna.

Á þessu sést að hér er um alvöru verkefni að ræða og þetta mun skipta íslenskt verkafólk gríðarlega miklu máli enda liggur fyrir að störf í stóriðjum hafa sem betur fer verið betur launuð heldur en almenn verkamannastörf á hinum almenna vinnumarkaði. Þetta mun ugglaust líka leiða til þess að þegar svona stór vinnustaður kemur inn á atvinnusvæðið okkar þá mun myndast samkeppni um gott vinnuafl og til að vera samkeppnishæf þurfa fyrirtæki að greiða viðunandi laun.

Formaður félagsins fagnar þessum tímamótum innilega enda er þetta merki og vísbending um enn bjartari tíma fyrir okkur Akurnesinga og íbúa Hvalfjarðarsveitar því það skiptir höfuðmáli fyrir öll sveitarfélög að hafa styrkar og sterkar stoðir þegar kemur að atvinnutækifærum. Það er ekkert sem bendir til annars en að þetta fyrirtæki uppfylli öll þau skilyrði.

Formaður félagsins getur einnig ekki annað en hrósað Gísla Gíslasyni, hafnarstjóra Faxaflóahafna, fyrir hans þátttöku í þessu máli enda hefur hann lagt sig allan fram við að láta þetta verkefni verða að veruleika á Grundartanga. Það var ekkert sjálfgefið að Grundartangi yrði fyrir valinu, þess vegna skiptir máli að menn vinni ötullega að því að fá góð, öflug og vistvæn fyrirtæki á Grundartanga og allt bendir til þess að hafnarstjóranum hafi tekist vel til í þeim efnum núna. Hér má sjá myndir frá því að viljayfirlýsingin var undirrituð í dag.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image