• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Nov

Áskorun til sveitarfélaga - engar gjaldskrárhækkanir um áramót

Nú þegar sveitarfélög landsins eru hvert af öðru að leggja fram fjárhagsáætlanir fyrir árið 2014 vaknar sú spurning hvort sveitarfélögin ætli að hækka gjaldskrár sínar um áramótin. Reykjavíkurborg hefur þegar tilkynnt að þar á bæ hafi fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir verið dregnar til baka, en sums staðar annars staðar hafa sveitarfélög kynnt hækkanir á gjaldskrám sínum um allt að 4-5%.

Verkalýðsfélags Akraness skorar á sveitarfélög hvar á landinu sem þau eru, að standa með sínu fólki og halda aftur af gjaldskrárhækkunum. Bæjarstjóra Akraneskaupstaðar hefur verið sent bréf þess efnis og vonast félagið eftir jákvæðum viðbrögðum við þeirri áskorun.

29
Nov

Framtíð við Faxaflóa - stefnumótun um atvinnumál á Akranesi

Þann 30. nóvember næstkomandi verður haldinn stefnumótunarfundur í atvinnumálum á Akranesi. Fundurinn fer fram í Tónbergi kl. 10:00-15:00 og er yfirskrift fundarins: Framtíð við Faxaflóa – sköpum 1000 ný störf.

Á fundinum verða flutt ávörp frá ýmsum aðilum sem tengjast málaflokknum og örfyrirlestrar frá frumkvöðlum á Akranesi. Einnig verða pallborðsumræður um það hvernig efla má atvinnulífið á Akranesi og eftir hádegisverð sem er í boði Akraneskaupstaðar verður fundargestum boðið að setjast í vinnuhópa þar sem ræddar verða leiðir sem færar eru til að fjölga atvinnutækifærum á Akranesi. Barnagæsla verður í boði á staðnum.

Dagskrá þessar fundar er afar metnaðarfull og rétt að taka fram að allir eru velkomnir á fundinn. Skráning fer fram á heimasíðu Akraneskaupstaðar þar sem einnig er að finna frekari upplýsingar um fyrirkomulag og dagskrá.

Verkalýðsfélag Akraness fagnar átaki sem þessu og vonar að þessi vinna leiði af sér fjölgun starfa á Akranesi eins og að er stefnt. Til mikils er að vinna að auka atvinnumöguleika á svæðinu og jafnvel laða fleira fólk til búsetu hér í bæ, en trygg atvinna er grunnforsenda þess að svo verði. Einnig er vert að minna á að útsvar rennur að sjálfsögðu til þess sveitarfélags sem starfsmaðurinn er búsettur í, svo það skiptir máli fyrir Akraneskaupstað að sem flestir þeirra sem vinna á Akranesi, búi á Akranesi. Til upplýsinga hefur félagið tekið saman gróflega hversu margir félagsmenn VLFA búa utan Akraness og kom á óvart hversu stór sá hópur er, en 26% félagsmanna VLFA búa í öðrum póstnúmerum en 300.

23
Nov

Andsvar VLFA við áróðursauglýsingu Samtaka atvinnulífsins vekur mikla athygli

Eins og kunnugt er gangsettu Samtök atvinnulífsins í síðustu viku áróðursherferð þar sem athygli er vakin á því að launahækkanir séu verðbólguhvetjandi og hækki skuldir heimilanna. Þess vegna eigi verkafólk að samþykkta hófstillta kjarasamninga og viðhalda þannig stöðugleika hér á landi. Í þessari glansmynd sem m.a. var sýnt á RUV á besta áhorfstíma er nú ekki allur sannleikurinn leiddur í ljós. Til dæmis kemur ekki fram að launaþróunin á Íslandi hefur verið langt umfram það sem samið hefur verið um í kjarasamningum, en frá febrúar 2008 til dagsins í dag hafa almennar launahækkanir verið 24,6% en launavísitalan hækkað um 38,6%. Með öðrum orðum, fyrir hverjar 1.000 krónur sem verkafólk hækkar um, eru meðallaun í landinu að hækka um 1.569 krónur. Það er því ómögulegt að kröfuhörku verkafólks á töxtum sé um að kenna þegar ekki tekst að halda verðbólgu í skefjum og ná viðvarandi stöðugleika og líklegra er að þau hjá Samtökum atvinnulífsins ættu að líta sér nær þegar leita skal leiða til að viðhalda stöðugleika hér á landi og skoða launaþróunina innan sinna eigin raða.

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær sendu Verkalýðsfélag Akraness og stéttarfélagið Framsýn á Húsavík frá sér ályktun þar sem þessi auglýsingaherferð er fordæmd. Einnig gerði starfsfólk Verkalýðsfélag Akraness myndband sem ætlað er sem mótsvar við áróðursauglýsingu Samtaka atvinnulífsins. VLFA hefur nú kannski ekki sama fjármagn til að veita í markaðssetningu og Samtök atvinnulífsins hafa, enda telur félagið því fé yrði þá betur varið í launahækkanir til verkafólks.

Myndband Verkalýðsfélags Akraness sem birt var á Youtube í gærkvöldi hefur farið víða um netheima í gær og í dag og höfðu yfir 11.000 manns horft á myndbandið um hádegisbil í dag. Einnig hafa flestir fjölmiðlar landsins tekið myndbandið til birtingar eins og ruv.isvisir.is og dv.is. Myndbandið hefur fallið í góðan jarðveg og hefur félagið fengið mjög jákvæð viðbrögð vegna þess.

Myndbandið sjálft er hægt að sjá hér:

 

22
Nov

Ályktun vegna hræðsluáróðurs Samtaka atvinnulífsins

Í kjölfar hræðsluáróðursins sem birtist svo glöggt í auglýsingaherferð Samtaka atvinnulífsins þessa dagana hafa Verkalýðsfélag Akraness og stéttarfélagið Framsýn á Húsavík samþykkt eftirfarandi ályktun:

Ályktun

Samtök atvinnulífsins, hafið skömm fyrir!

Stéttafélögin Framsýn og Verkalýðsfélag Akraness fordæma harðlega ósmekklega auglýsingaherferð Samtaka atvinnulífsins er miðar að því að gera lítið úr kröfum verkafólks um hækkun lægstu launa.

 

Samtök atvinnulífsins!  „Þið berið fyrst og fremst ábyrgð á því launaskriði sem verið hefur á íslenskum vinnumarkaði, ekki íslenskt lágtekjufólk. Lítið því í eigin barm í stað þess að sverta aðra fyrir ykkar eigin verk!“

 

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er launaskriðið 54% hærra en umsamdar almennar launahækkanir frá gerð síðustu kjarasamninga verkafólks. Þetta er minnisvarðinn sem þið reistuð ykkur til heiðurs og berið ábyrgð á skuldlaust.

 

Framsýn og Verkalýðsfélag Akraness skora á Samtök atvinnulífsins að ganga í takt með launafólki í stað þess að slá ryki í augu almennings. Himinháum auglýsingakostnaði Samtaka atvinnulífsins er án efa betur varið í vasa launafólks en í hræðsluáróður í fjölmiðlum.

21
Nov

Stefnir enn og aftur í samræmda láglaunastefnu!

Rétt í þessu lauk fundi hjá samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands og er óhætt að segja að formaður VLFA sé afar vonsvikinn með það sem þar var samþykkt. En nú liggur fyrir að meirihluti samninganefndar SGS hefur samþykkt að fara í samflot með öðrum landssamböndum innan ASÍ við gerð nýs kjarasamnings.

Þetta er svo sorgleg niðurstaða í ljósi þeirrar gríðarlegu vinnu sem aðildarfélög SGS hafa lagt í mótun kröfugerðar, en SGS hefur skilað metnaðarfullri kröfugerð til Samtaka atvinnulífsins þar sem farið var fram á að lágmarkstaxtar myndu hækka um 20.000 krónur í árssamningi, eða með öðrum orðum að lægsti taxti á hinum almenna vinnumarkaði færi úr 191.752 í 211.752 krónur. Auk þess krafðist SGS að tekið yrði sérstakt tillit til starfsmanna í útflutningsgreinunum eins og t.d. í ferðaþjónustu og fiskvinnslu, enda hafa t.d. útgerðarfyrirtæki verið að skila allt að 80 milljörðum í hagnað ár hvert undanfarin ár. Á þeirri forsendu var krafa gerð um að fiskvinnslufólk fengi sanngjarna hlutdeild í þessari góðu afkomu.

Nú liggur hins vegar fyrir að önnur landssambönd hafa látið hafa það eftir sér að kröfugerð samninganefndar SGS sé of innihaldsmikil og hafa í raun og veru gert kröfu um að slegið verði af kröfugerð SGS. Einnig hefur forseti ASÍ sagt að kröfugerð SGS sé of há! Nú vilja þessir menn enn og aftur fara í svokallaða samræmda launastefnu eins og gert var árið 2011, og mun hún væntanlega byggjast á því að allir fái sömu launahækkun algjörlega óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Þetta er eins ömurlegt og mest má vera, einfaldlega vegna þess að staða Starfsgreinasambandsins í þessum viðræðum er gríðarlega sterk, enda liggja fyrir þær bláköldu staðreyndir sem hér hafa verið raktar um góða afkomu útflutningsgreinanna.

Þetta er líka sorglega grátlegt í ljósi þess að á grundvelli áðurnefndra staðreynda var samninganefnd SGS búin að samþykkja að fara eitt og sér í þessar kjaraviðræður. En nú hafa menn tekið algjöra vinkilbeygju með þessari samþykkt um samflot með hinum landssamböndunum, samflot sem byggir á engu öðru samræmdri launastefnu. Það er líka rétt að vekja athygli á að á þingi SGS fyrir nokkrum vikum var samþykkt ályktun sem kvað á um að í komandi kjarasamningum ætlaði sambandið að brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hér hefur ríkt svo um munaði. Vissulega kom fram hjá forsvarsmönnum SGS á fundinum áðan að það stæði ekki til að gefa afslátt á okkar kröfum í þessu samfloti, en formaður VLFA sagði að hann væri búinn að vera nógu lengi í þessari baráttu til að skynja það sem framundan væri. Nú væri að fara af stað sama samræmda láglaunastefnan og var rekin 2011. Og það undir forystu forseta Alþýðusambands Íslands.

Formaður VLFA skal algjörlega viðurkenna að þetta eru gríðarleg vonbrigði. Að menn skuli ekki standa í lappirnar og fylgja eftir því sem áður hefur verið samþykkt, eins og að vera ein og sér og gera allt til þess að brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hér hefur ríkt. Formaður ætlar að vona að hann hafi rangt fyrir sér í því sem hann telur að framundan sé, en byggir á eigin reynslu þegar hann segist óttast að hér sé enn og aftur verið að búa til samræmda launastefnu þar sem hagsmunir verkafólks verða svo sannarlega ekki hafðir að leiðarljósi.

Og það er ekki bara að hann óttist áðurnefnd atriði, heldur liggur fyrir að eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur ASÍ lagt fram tillögu um að skattatillögur nái ekki til fólks undir 250.000 krónum í launum. Það er með ólíkindum að ætla að skilja lágtekjufólk sem stendur hvað höllustum fæti í íslensku samfélagi eftir þegar kemur að aðkomu stjórnvalda hvað skattalækkanir varðar, og hafi Alþýðusambandi skömm fyrir þessa tillögu sína.

Að lokum hvetur formaður VLFA verkafólk vítt og breitt um landið til að fara að láta í sér heyra því hann trúir ekki að það sé vilji hins almenna verkamanns að stéttarfélögin vítt og breitt um landið standi ekki lappirnar og krefjist leiðréttingar á launum þeirra. Það er afar mikilvægt fyrir okkur formenn stéttarfélaga að átta okkur á því að við erum í vinnu fyrir fólkið, en fólkið þarf að segja okkur með afgerandi hætti hvernig við eigum að vinna að ykkar hagsmunum. Látið í ykkur heyra í ykkar stéttarfélagi!

21
Nov

Meira af tillögum um skattalækkanir

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni hefur Verkalýðsfélag Akraness lagst gegn því hvernig fyrirhugaðar breytingar á skattkerfinu eru útfærðar, en ríkisstjórnin áætlar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að lækka miðþrepið úr 25,8% í 25%. Fram hefur komið að áætlaður kostnaður vegna þessa er 5 milljarðar króna.


Ekki leggst VLFA gegn því að ráðstafa eigi 5 milljörðum til skattalækkunar, síður en svo. Það sem félagið hefur gagnrýnt er útfærslan sjálf, en með þessari aðferð fá þeir sem eru tekjulágir sáralítið sem ekki neitt í sinn hlut. Reyndar fá þeir sem eru með undir 250.000 krónum í mánaðarlaun enga skattalækkun, og þeir sem eru með 500.000 krónur fá tæplega 2.000 kr.

ASÍ hefur einnig lagst gegn þessum breytingum og hefur lagt fram eigin tillögur, en þegar þær eru skoðaðar nánar sést að þeir sem eru með undir 250.000 kr. á mánuði fengju ennþá ekki krónu í skattalækkun.

Verkalýðsfélag Akraness leggur til að í stað þess að lækka skattprósentu verði persónuafsláttur hækkaður, en slík aðgerð myndi koma öllum vel óháð tekjum. Það eru greinilega til 5 milljarðar í ríkiskassanum sem á að ráðstafa í þennan málaflokk og þeir fjármunir duga til að hækka persónuafslátt sem nemur 2.000 krónum. Auðvitað mætti þessi upphæð vera mun hærri, en þetta eru þó 24.000 krónur á ári og lágtekjufólk munar um minna. Það sem VLFA vill benda á er að aðgerð sem þessi gagnast betur öllum þeim sem eru með undir 500.000 kr. á mánuði, aðgerðirnar sem ríkisstjórnin og ASÍ hafa lagt til gagnast betur þeim sem eru með yfir 500.000 í mánaðarlaun. Það er kjarni málsins.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur nú þegar fundað með ráðamönnum um þessi mál og standa vonir til að náist að koma þessum málum í betri horf áður en fjárlög verða afgreidd á Alþingi. Það er ekki hægt að misbjóða íslensku verkafólki með tillögum sem ganga út að þær skattalækkanir sem þó verði ákveðið að fara í renni í vasa þeirra sem hæstu hafa launin, en þeir sem lægst hafa launin verði skildir eftir. Við það verður ekki unað.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image