• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Dec

Áskorun til verkafólks um að fella nýgerðan kjarasamning

Á laugardagskvöld var undirritaður kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði í húsakynnum Ríkissáttasemjara. Þessi kjarasamningur var svo slæmur að mati 5 aðildafélaga Starfsgreinasambands Íslands að fulltrúar þeirra sáu sér á engan hátt fært að setja nafn sitt undir slíkan samning. Málið var að Starfsgreinasamband Íslands var búið að móta og leggja mikla vinnu í kröfugerð sem byggðist á því að reyna að lagfæra skammarlega lága launataxta sambandsins. Því til viðbótar var samþykkt á þingi Starfsgreinasambandsins, sem haldið var í október á Akureyri, ályktun sem hljóðaði með þeim hætti að SGS ætlaði að brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hér hefur ríkt og lagfæra launataxta verkafólks. Þessi kjarasamningur sem undirritaður var um helgina, er langt frá þeim markmiðum.

Kröfugerðin sem SGS hafði mótað var hógvær og hljóðaði upp á 20.000 kr. hækkun á lægstu töxtum. Þessi samningur hljóðar hins vegar einungis upp á 9.565 króna launahækkun, eða með öðrum orðum: lægsti taxtinn fór úr 191.752 kr. í 201.317 kr. Því til viðbótar kemur engin skattalækkun til þeirra tekjulægstu sem eru með laun undir 250.000 kr. Þetta þýðir að einstaklingur sem er að vinna á þessum töxtum er að fá 114.000 króna launahækkun á ársgrundvelli en í vasann er þetta einungis að skila í hverjum mánuði í kringum 5.600 krónum. Það gerir heilar 185 krónur sem íslenskt verkafólk mun fá í launahækkun í vasann á dag. Þetta er upphæð sem vart dugar fyrir tveimur lítrum af mjólk. Það er rétt að geta þess að rausn Samtaka atvinnulífsins er nú ekki meiri en svo að þeir ætla ekki einu sinni að láta samninginn gilda frá þeim tíma sem hann rann út, eða frá 1. desember, heldur taka þessar smánarlegu launahækkanir ekki gildi fyrr en frá og með 1. janúar 2014. Svo segja þessir menn sem bera ábyrgð á þessum samningi að áhersla hafi verið lögð á lægstu launin!

Hins vegar er það þannig að einstaklingur sem er með eina milljón í laun er að hækka um 28.000 á mánuði og því til viðbótar fær hann skattalækkun sem nemur tæpum 42.000 kr. á ári. Þetta er litlu minna en verkafólk fær í launahækkun á ári þegar búið er að draga skatta og önnur gjöld frá, en það sem verkafólk hefur í vasann er rétt rúmar 67.000 krónur á ársgrundvelli. Því spyr formaður, hvar er réttlætið og sanngirnin í slíkri mismunun?

Það er sorglegt að verkalýðshreyfingin í heild sinni hafi ekki staðið þétt saman í að bæta kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi því það er morgunljóst að staða verkafólks er nokkuð sterk og þá sérstaklega hjá þeim sem starfa í útflutningsfyrirtækjunum og nægir að nefna í því samhengi að sjávarútvegurinn hefur aldrei nokkurn tímann hagnast eins gríðarlega og á undanförnum árum og nemur hagnaðurinn sem dæmi rétt tæpum 80 milljörðum á þessu ári. Að verkalýðshreyfingin hafi ekki verið tilbúin að standa í lappirnar og leiðrétta kjör þessa fólks er formanni gjörsamlega hulin ráðgáta. En rétt er að geta þess að grunnlaun fiskvinnslufólks sem starfað hefur 30 ár í greininni og er sérhæft eru rétt rúm 218.000 kr. á mánuði.

Á sama tíma og íslensku verkafólki eru skammtaðar þessar smánarlaunahækkanir er tilkynnt t.d. frá Arion-banka að verið sé að taka upp afkastahvetjandi bónuskerfi fyrir stjórnendur og ekki má gleyma að fyrir örfáum dögum síðan birtist í fréttum að nýtt bónuskerfi til handa lykilstjórnendum N1 verði tekið upp um áramótin, en slíkt bónuskerfi á að geta skilað lykilstjórnendum allt að 19 milljónum í bónus á ári. Setjum þessar tölu í samhengi við þær 5.600 krónur sem íslenskt lágtekjufólk fær í vasann í launahækkun á mánuði. Veruleikafirring þeirra sem hafa samvisku í að auka þessa misskiptingu í íslensku samfélagi er alger, enda er morgunljóst að þeir sem stjórna íslenskum fyrirtækjum í dag myndu ekki undir nokkrum kringumstæðum geta lifað af þeim smánarlaunum sem launataxtar Starfsgreinasambands Íslands kveða á um.

Það er alveg ljóst að íslensk verkalýðshreyfing þarf svo sannarlega að fara í naflaskoðun því þessir kjarasamningsgerð hefði svo sannarlega gefið hreyfingunni tækifæri til að sýna að hún hefur kjark og þor til að standa með sínu fólki og berjast fyrir bættum hag lágtekjufólks, en því miður þá brást verkalýðshreyfingin þessu fólki illilega. Það voru fleiri skemmdarverk unnin í þessum samningi, en Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins gerðu bókun sem gengur út á það að allir kjarasamningar sem stéttarfélög eiga eftir að gera við SA skulu bera sömu skammarlegu launahækkanir og sá samningur sem undirritaður var á laugardaginn. Meira að segja stendur í bókuninni að samningsaðilar skuldbinda sig til að framfylgja þeirri launastefnu sem mótuð var í nýgerðum kjarasamningi. Þetta þýðir á mannamáli að allir sérkjarasamningar stéttarfélaganna, t.d. við stóriðjurnar, síldarbræðslurnar o.s.frv. eiga að taka sömu launahækkunum og áðurnefndur samningur kveður á um. Formaður reyndar dregur það stórlega í efa að slíkt standist lög um stéttarfélög og vinnudeilur að ASÍ og SA geti tekið samningumboðið þannig af stéttarfélögum og samið um launahækkanir í kjarasamningum sem á eftir að gera á komandi ári.

Það er von formanns að íslenskt verkafólk kolfelli þessa kjarasamninga, en það er hins vegar morgunljóst að ef það á að nást samstaða um að lagfæra kjör lágtekjufólks, þá verður verkalýðshreyfingin í heild sinni að standa þétt saman, því það er útilokað fyrir eitt eða örfá stéttarfélög að ætla sér að ná meiri launahækkunum en meirihluti stéttarfélaga hefur samið um. Þess vegna skorar formaður á íslenskt verkafólk að sýna vanþóknun sína í verki með því að greiða atkvæði gegn þessum samningum, því að hans mati er íslenskt verkafólk nánast jafndautt fyrir 185 krónur í vasann á dag. Þetta er og verður gríðarlega erfitt, en með samstöðu alls íslensks verkafólks er margt hægt að gera. En til þess þarf, eins og áður sagði, samstöðu verkalýðshreyfingarinnar í heild sinni.

19
Dec

Oft er þörf en nú er nauðsyn á samstöðu

Eins og allir vita er óhætt að segja að kjarasamningsviðræður Samtaka atvinnulífsins við verkalýðshreyfinguna séu botnfrosnar þessa dagana. Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins ráku upp stór augu fyrir nokkrum vikum síðan þegar gerð var krafa um að lágmarkstaxtar skyldu hækka um heilar 20 þúsund krónur eða úr 191 þúsund upp í 211 þúsund. Þeir spruttu fram og veifuðu framan í alþýðuna hagfræðiskírteinum sínum og sögðu að slíkar ofurkröfur myndu setja hér íslenskt samfélag á hliðina með óðaverðbólgu.

Á sama tíma og þetta er að gerast koma tilkynningar, meðal annars frá Arion banka, um að verið sé að taka upp alvöru afkastahvetjandi bónusaskerfi til handa lykilstjórnendum. N1 kom og bætti um betur í síðustu viku og tilkynnti að frá og með næstu áramótum yrði tekið upp bónuskerfi, já og takið eftir, handa lykilstjórnendum, og slíkt bónuskerfi á að geta gefið þeim allt að 19 milljónir í bónus á ári.

Og í dag barst síðan tilkynning frá kjararáði um að ráðið hafi samþykkt að hækka laun forstjóra Íbúðalánasjóðs um 79 þúsund krónur og er það til viðbótar við 110 þúsund króna launahækkunina sem hann fékk í júlí á þessu ári. Samtals hefur forstjóri Íbúðalánasjóðs fengið launahækkun sem samsvarar lægsta taxta verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði og það bara á þessu ári.

Svo koma þessir snillingar fram og segja að ef að almennt verkafólk fái nokkur þúsund krónur í launahækkun þá muni slíkt hríslast upp allan launastigann með skelfilegum afleiðingum fyrir íslenskt þjóðarbú. Hvernig væri nú að þessar ofurlaunahækkanir æðstu stjórnenda íslenskra fyrirtækja færu nú að hríslast niður stigann. Því sem dæmi þá þyrftu lágmarkslaun að hækka um 41% til að ná 79 þúsund króna launahækkun eins og forstjóri Íbúðalánasjóðs fékk í dag.

Formaður getur ekki annað séð en að verkalýðshreyfingin í heild sinni þurfi nú að sýna mátt sinn strax í byrjun nýs árs og fara í þær kjaraviðræður sem nú eru komnar í strand af fullri hörku. Og ef Samtök atvinnulífsins sjá ekki að sér og lagfæra kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi svo um munar þá er ekkert annað í stöðunni en að beita vopninu, já verkfallsvopninu sem ekki hefur verið notað hér síðustu áratugina. Með samstöðu getur íslenskt verkafólk látið vel finna fyrir sér. Oft er þörf fyrir íslenskt verkafólk að standa saman en nú er nauðsyn.

12
Dec

Ráðamenn og atvinnurekendur! Setjið ykkur í spor atvinnuleitanda og lágtekjufólks

Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að því að stjórnvöld ætli sér ekki að sjá til þess að atvinnuleitendur fái desemberuppbót greidda eins og aðrir landsmenn. En hér erum við að tala um hóp fólks sem fær í atvinnuleysisbætur rétt rúmar 170.000 krónur á mánuði og því morgunljóst að það getur vart horft til gleðilegrar hátíðar hjá þessu fólki.

Það er formanni VLFA óskiljanlegt það skilningsleysi sem ríkir, ekki bara hjá stjórnvöldum, heldur einnig hjá Samtökum atvinnulífsins gagnvart lágtekjufólki og atvinnuleitendum hér á landi. Það er ekki bara að nú standi til að atvinnuleitendur fái ekki umrædda desemberuppbót, heldur stefnir allt í að fyrirhugaðar skattalækkanir stjórnvalda muni ekki ná til lágtekjufólks, atvinnuleitenda og annarra sem hafa tekjur undir kr. 250.000.

Formaður hefur trú á að þolinmæði íslensks lágtekjufólks hljóti að vera komin að þrotum og það skilningsleysi sem mætir þessum hópi í íslensku samfélagi er orðinn æpandi og ólíðandi. Það er æði margt sem bendir til þess að íslenskt verkafólk þurfi svo sannarlega að fara að stilla saman strengi sína og berjast af alefli fyrir því að réttlæti og sanngirni ríki í íslensku samfélagi. Það er dapurlegt til þess að vita að allar horfur eru á því að engar breytingar ætla að verða hvað varðar aðgerðir til handa þeim sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Það er mikilvægt fyrir ráðamenn þessarar þjóðar og fulltrúa Samtaka atvinnulífsins að setja sig í spor látekjufólks og atvinnuleitenda og fróðlegt væri að vita hvort þessir aðilar myndu treysta sér til að reka heimili fyrir 173.000 krónur á mánuði og halda jafnframt gleðilega hátíð á sama tíma. Formaður VLFA skorar á Alþingi Íslendinga að taka höndum saman og finna fjármagn til þess að atvinnuleitendur geti fengið desemberuppbót og eigi því örlitla möguleika að halda jól eins og aðrir landsmenn.

11
Dec

Engar hækkanir á gjaldskrá Akraneskaupstaðar árið 2014

Á fundi bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar í gærkvöldi var samþykkt að engar gjaldskrár hækkanir verði á árinu 2014, nema hækkun á sorphirðugjöldum. Þannig verður gjald í leikskólum, fæðisgjald í skólum, frístundaheimilum, gjaldskrá tónlistarskóla, bókasafns, heimaþjónustu,  í íþróttamannvirkjum og fleira óbreytt á milli ára. Þýðir þetta rúmlega 8 milljóna króna tekjuskerðingu sveitarfélagsins, miðað við áætlaða hækkun samkvæmt neysluverðsvísitölu eða 3%.

Þessari ákvörðun bæjaryfirvalda ber að fagna, en rétt er að geta þess að VLFA hafði sent áskorun til bæjarstjóra um að Akraneskaupstaður frestaði gjaldskrárhækkunum á næsta ári.

Það er gríðarlega mikilvægt að ríki, sveitafélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar taki nú höndum saman og fresti öllum gjaldskrár og verðlagshækkunum svo hægt verði að vinna bug á verðbólgunni og auka kaupmátt almennings. Það er jafnvel hægt að segja sem svo að almenningur eigi það inni hjá áðurnefndum aðilum, enda hafa allir þessir aðilar varpað sínum vanda yfir á almenning frá hruni á meðan launafólk hefur þurft að sæta kjaraskerðingum.

06
Dec

Kjaradeilunni vísað til ríkissáttasemjara – aðgerðahópur virkjaður

Eins og fram kom í fréttum í gær þá sleit samninganefnd ASÍ viðræðum við Samtök atvinnulífsins í ljósi þeirra staðreynda að Samtök atvinnulífsins höfnuðu kröfunni um krónutöluhækkun á lægstu laun. Í ljósi þess kom samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands saman í morgun og er óhætt að segja að afar þungt hljóð hafi verið í fulltrúum hennar. Það kom skýrt fram að það er með ólíkindum að Samtök atvinnulífsins skuli ekki vilja fara í þá vegferð með SGS að lagfæra hér þau skammarlega lágu lágmarkslaun sem ríkja á íslenskum vinnuamarkaði. Við erum að tala um launataxta sem einungis eru frá 191 þúsund upp í 227 þúsund krónur. Krafa Starfsgreinasambandsins sem byggð er á afar hóflegri kröfugerð hljóðar upp á að þessir taxtar hækki um 20 þúsund krónur sem myndi gera það að verkum að lægsti taxtinn færi upp í rétt rúmar 211 þúsund krónur.

Það er með ólíkindum að forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafi yfir höfuð samvisku í sér til að bjóða sínum starfsmönnum upp á slík launakjör. Það er gríðarlega mikilvægt að almenningur átti sig á því að það eru fjölmargar atvinnugreinar að skila milljarða hagnaði, og samt starfar þar lágtekjufólk. Þetta á t.d. við um ferðaþjónustuna svo ekki sé nú talað um útgerðarfyrirtækin þar sem fiskvinnslufólkið starfar. En í útgerðinni nemur hagnaður í kringum 80 milljarða ár hvert á undanförnum árum.

Það er morgunljóst að það er himinn og haf á milli Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands hvað varðar hugmynd að nýjum kjarasamingi og má þar segja að þar sé vægt til orða tekið. Samtök atvinnulífsins hafa í raun og veru boðið upp á launahækkun sem nemur í kringum 5.000 krónum. Þegar búið er að draga skatta og launatengd gjöld af þeirri upphæð þá dugar slíkt ekki einu sinni fyrir 12“ pizzu og kóki með. Í ljósi þessa djúpstæða ágreinings sem er á milli samningsaðila ákvað samninganefnd SGS því að vísa kjarasamningsviðræðum til ríkissáttasemjara, enda er talið vonlítið um frekari árangur í samningaumleitunum. Jafnframt var samþykkt að virkja aðgerðarhóp SGS í framhaldinu. Það þýðir á mannamáli að ef ekki nást samningar á næstu dögum og vikum þá er ljóst að það getur stefnt í einhvers konar verkföll ef aðilar Samtaka atvinnulífsins sjá ekki að sér og koma verulega til móts við lágtekjufólk hér á landi.

Það er gríðarlega mikilvægt að verkalýðshreyfingin í heild sinni standi nú þétt saman og hviki hvergi frá þeirri sanngjörnu kröfu sem lýtur að því að lagfæra kjör lágtekjufólks með sanngjörnum hætti eins og kröfugerð SGS kveður á um. Nú er tækifæri fyrir íslenska verkalýðshreyfingu að ávinna sér aftur það traust sem hreyfingin hefur tapað á undanförnum árum með því að standa þétt saman og hvika hvergi frá því að bæta kjör sinna félagsmanna með afgerandi hætti.

04
Dec

Óþolandi vinnubrögð

Nú eru fjórir dagar liðnir frá því að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði runnu út og óþreyja verkafólks eftir kjarabótum fer vaxandi. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá lagði Starfsgreinasamband Íslands, sem er stærsta landssambandið innan ASÍ, fram metnaðarfulla en jafnframt hófstillta launakröfu. Launakröfu sem byggðist á því að launataxtar SGS myndu hækka um 20.000 kr. En rétt er að geta þess að lægsti taxtinn innan SGS er einungis 191.752 kr. og hæsti taxtinn er einungis rétt rúmar 227.000 kr. Eins og áður sagði hafði mikil vinna verið lögð í að búa til nýja launatöflu og kröfugerðina í heild sinni.

Gríðarleg samstaða og einhugur var á meðal aðildarfélaga SGS um að reyna að bæta kjör lágtekjufólks eins vel og kostur væri og því voru launakröfurnar að mati samninganefndar sanngjarnar enda var einungis verið að tala um að ná lægsta taxta SGS upp í 211.752 kr. í árssamningi. Á þingi Starfsgreinasambands Íslands sem haldið var á Akureyri fyrir nokkrum vikum síðan ríkti einnig mikill einhugur og baráttuandi. Enda var samþykkt þar ályktun sem kvað á um að SGS ætlaði að brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hér hefur ríkt og yrði ekki gefið eftir í þeirri baráttu.

Á grundvelli þessarar ályktunar voru vonbrigðin gríðarleg á samningafundi SGS í gær. Þar ákvað meirihluti samninganefndar SGS að lækka kröfugerð sambandsins, sem lögð hefur verið mikil vinna í, um 50% og fara í fullt samstarf með samninganefnd ASÍ. Með öðrum orðum það var samþykkt að kröfugerðin skyldi hljóða upp á 10.000-11.000 kr. taxtahækkun og að almenn hækkun hjá þeim sem ekki starfa eftir launatöxtum yrði 3,25%.

Það er sorglegt miðað við þá miklu samstöðu sem hafði ríkt og áðurnefnda ályktun að menn skyldu voga sér að hverfa frá þessari hófstilltu 20.000 kr. kröfu. Það er gríðarlega mikilvægt að menn átti sig á því að samningsstaða landsbyggðarstéttarfélaganna er griðarlega sterk um þessar mundir. Nægir að nefna í því samhengi að ferðaþjónustunni hefur verið að vaxa fiskur um hrygg og skilað góðri afkomu og síðast en ekki síst liggur fyrir að sjávarútvegsfyrirtækin hafa verið að skila allt að 80 milljörðum í hagnað ár hvert á undanförnum árum. Á þeirri forsendu var sóknarfærið til að leiðrétta kjör fiskvinnslufólks gríðarlegt. Einnig er staða stóriðjunnar sterk sem og annarra útflutningsfyrirtækja.

En enn og aftur ríður samninganefnd ASÍ fram með forseta ASÍ í broddi fylkingar og krefst samræmdrar launastefnu þar sem virðist alls ekki mega taka tillit til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja. Þetta eru sömu skemmdarverkin og þessir sömu aðilar ástunduðu í kjarasamningunum árið 2011. Það er formanni VLFA gjörsamlega hulin ráðgáta það andvaraleysi verkafólks að láta slík vinnubrögð yfir sig ganga. Því ef hann hefur skilið það rétt á fundinum í gær þá er samninganefnd ASÍ að velta því alvarlega fyrir sér að framlengja samninginn um 12 mánuði sem þýðir á mannamáli að almennt launafólk mun ekki einu sinni geta kosið um framlenginguna.

Það er ljóst að það er búið að eyðileggja samningsstöðu verkafólks vítt og breytt um landið með þessari samræmdu launastefnu. Eitt, tvö eða þrjú stéttarfélög hafa klárlega ekki nokkra samningsstöðu þegar forsvarsmenn ASÍ hafa tekið ákvörðun um að fara í þessa samræmdu launastefnu. Það má segja að það sé þyngra en tárum taki að horfa upp á þessi vinnubrögð.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image