• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Dec

Kjaraviðræður vegna Norðuráls komnar á fulla ferð

Nú eru kjaraviðræður vegna kjarasamnings Norðuráls komnar á fulla ferð. Haldnir hafa verið einir þrír formlegir fundir með forsvarsmönnum Norðuráls en á fyrsta fundinum var lögð fram ítarleg kröfugerð sem hefur verið til umræðu á þeim fundum sem nú eru liðnir. Forsvarsmenn Norðuráls hafa ekki tekið efnislega afstöðu til kröfugerðarinnar þó þeir hafi gefið í skyn að þeim hugnist ekki til dæmis krafan um að tekið verði upp sambærilegt vaktakerfi og er hjá Elkem Ísland.

Það er mat formanns að framundan séu gríðarlega erfiðar kjaraviðræður, ekki bara varðandi Norðurál heldur alla þá kjarasamninga sem eru lausir og Verkalýðsfélag Akraness á aðild að. Það er til dæmis morgunljóst að væntingar til dæmis starfsmanna Norðuráls til verulegra launahækkana eru miklar og eru þær væntingar svo sannarlega eðlilegar í ljósi þeirrar staðreyndar að rekstur Norðuráls hefur ætíð gengið gríðarlega vel og er það hið besta mál. Það liggur fyrir að hagsmunir stéttarfélagsins, starfsmanna og fyrirtækisins liggja algjörlega saman þegar kemur að góðri afkomu fyrirtækja. Það er eins eðlilegt og hugsast getur að starfsmenn Norðuráls hafi miklar væntingar til veglegra launahækkana vegna þeirra afkomutalna sem nú þegar liggja fyrir varðandi rekstur fyrirtækisins.

Það jákvæða í þessu öllu saman er að samstaða starfsmanna Norðuráls er gríðarleg og með slíkri samstöðu er hægt að ná æði langt þegar kemur að bættum kjörum. En eins og áður sagði er framundan harður kjaravetur og óttast formaður að ef líkja á komandi kjaraviðræðum við veðrið þá megi segja að viðræðurnar gætu orðið suðvestan útsynningur með hvössum éljum. Vonandi hefur formaður rangt fyrir sér hvað þetta varðar en þetta er tilfinning hans á þessari stundu. 

Næsti fundur verður haldinn 17. desember næstkomandi og á þeim fundi munu forsvarsmenn fyrirtækisins leggja fram hugmyndir að hækkun launaliðar og svara kröfunni efnislega frá A til Ö. Eins og áður hefur komið fram hafa þeir ýjað að því að þeir ætli að hafna því að taka upp fjölskylduvænt vaktakerfi og ef það verður lokaniðurstaðan er ljóst að brugðið getur til beggja vona hvað varðar framhald þessara viðræðna. Enda eru háværar raddir innan verksmiðjunnar um að hverfa frá þessu 12 tíma vaktakerfi og taka upp 8 tíma kerfi eins og tíðkast hjá Elkem Ísland og Alcan í Straumsvík.

Það er mikilvægt fyrir öll góð fyrirtæki að átta sig á því að það skiptir höfuðmáli að vera með gott starfsfólk. Án góðra starfsmanna næst aldrei góður árangur í rekstri og afkomu fyrirtækja. Þess vegna er mikilvægt að hlusta á starfsfólkið og stéttarfélögin og þær ábendingar og athugasemdir sem það hefur fram að færa. Ein af ábendingunum sem starfsmenn hafa komið með er að álag á starfsmenn hafi á undanförnum misserum aukist allverulega vegna framleiðsluaukningar og hagræðingar innan fyrirtækisins. Sem betur fer hefur þessu verið mætt að hluta til og er það einlæg von formanns að það náist farsæl lausn í þessum kjaraviðræður þar sem hagsmunir starfsmanna verði hafðir að leiðarljósi því þeir eiga það svo sannarlega skilið.

05
Dec

Þing sjómannasambandsins

Í gær og í dag stendur yfir þing Sjómannasambands Íslands en fulltrúi sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness á þessu þingi er formaður félagsins. Þetta þing er haldið í skugga þess að sjómenn hafa verið kjarasamningslausir í tæp 4 ár.

Formaður hélt stutta ræðu á þinginu í gær og sagði að það væri þyngra en tárum taki fyrir sjómenn að vera búnir að vera samningslausir í 4 ár í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að afkoma sjávarútvegsins á þessum fjórum árum hefur verið ævintýraleg. Nefndi formaður sem dæmi að skuldir sjávarútvegsins 2008 hefðu verið 564 milljarðar en væru í dag rúmir 360 milljarðar og hefðu því lækkað um allt að 200 milljarða á þessum árum. Formaður benti einnig á að hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja hafi einnig verið gríðarlegur, hann var 53 milljarðar árið 2013 eftir skatta en 47 milljarðar árið þar á undan.

Það kom fram í ræðu formanns að stærsta hagsmunamálið hjá sjómönnum væri verðmyndun á sjávarafurðum en þar hafi útgerðarmenn geta fengið að skýla sér á bakvið Verðlagsstofu skiptaverðs sem væri handónýtt apparat sem þyrfti að breyta án tafar. Það verður að markaðstengja allar sjávarafurðir og það er ljóst að með slíku myndi komast á eðlileg verðmyndun en það er einnig ljóst að sjómenn eru að verða af umtalsverðum tekjum ár hvert sem og samfélagið allt.  

05
Dec

Sólarkísilverksmiðjan á fleygiferð

Þessa dagana berast afar jákvæðar fréttir af Silicor materials sólarkísilverksmiðjunni sem til stendur að reisa á Grundartanga. Hvalfjarðarsveit sem fer með aðalskipulag svæðisins lét óháða aðila gera umhverfismat á þessari nýju verksmiðju og það er skemmst frá því að segja að í niðurlagi þeirrar skýrslu kemur fram að þessi nýja sólarkísilverksmiðja verði umhverfisvænasta stóriðjan til þessa.

Í gær samþykkti Hvalfjarðarsveit breytingu á aðalskipulagi og eftir upplýsingum formanns ganga aðrir þættir mjög vel hjá forsvarsmönnum Silicor eins og til dæmis fjármögnun og samningar við orkufyrirtæki. Því er æði margt sem bendir til þess í ljósi þess að ýmsum ljónum á veginum hefur verið rutt úr vegi að framkvæmdir gætu jafnvel hafist í byrjun næsta árs. En það er eins og með allar framkvæmdir, ekki er hægt að fagna endanlega fyrr en allir samningar hafa verið undirritaðir og skóflustungan hefur verið tekin.

Það er morgunljóst að hér er um gríðarlega jákvæða uppbyggingu að ræða sem mun skipta sköpum fyrir Akurnesinga og Hvalfjarðarsveit sem og reyndar landið allt, einfaldlega vegna þess að hér er um 440 vel launuð gjaldeyrisskapandi störf að ræða enda þarf íslenskt þjóðarbú á gjaldeyrisskapandi störfum að halda til að geta rekið menntakerfi, heilsugæslu, löggæslu og önnur mikilvæg innviði samfélagsins.  

05
Dec

Fundað um kjarasamning Norðuráls

Eftir miklar uppákomur í samninganefnd Norðuráls óskuðu trúnaðarmenn allra félaga eindregið eftir því við formann Verkalýðsfélags Akraness á fundi í síðustu viku að hann kæmi aftur inn í samninganefndina og myndi leiða þessar viðræður ásamt aðaltrúnaðarmanni. Fram kom hjá formanni á þessum fundi að trúnaður á milli félaganna sem eiga aðild að stóriðjusamningunum á Grundartanga væri alls ekki til staðar en hinsvegar samþykkti formaður að gera lokatilraun til að eiga samstarf við áðurnefnd félög við gerð þessa kjarasamnings.

Haldnir hafa verið þrír fundir í húsakynnum sáttasemjara. Eins og staðan er í dag er lítið að frétta, búið er að fara ítarlega yfir alla kröfugerðina og útskýra alla liðina er lúta að henni. Næsti fundur hefur verið boðaður á mánudaginn kemur. Má vænta einhverra viðbragða af hálfu forsvarsmanna Norðuráls hvað kröfugerðina sjálfa varðar á þeim fundi.

28
Nov

Flottur fundur í Bíóhöllinni á Akranesi með starfsmönnum Norðuráls

Fjölmennur fundur var haldinn í Bíóhöllinni á Akranesi í gær með starfsmönnum Norðuráls. Á fundinum fór formaður félagsins yfir þá ótrúlegu atburðarás sem átti sér stað á fyrsta samningafundi með forsvarsmönnum Norðuráls. Sú atburðarás hefur þegar verið rakin í frétt hér á síðunni.

Það fór ekkert á milli mála að stuðningurinn, samstaðan og einhugurinn sem ríkir á meðal starfsmanna var gríðarlegur á fundinum. Fram kom í máli fundarmanna að þessum skemmdarverkum sem ástunduð hafa verið í kjarasamningsgerð á Grundartangasvæðinu skuli ljúka í eitt skipti fyrir öll. Það voru skýr fyrirmæli um að starfsmenn Norðuráls muni ekki og ætli sér aldrei að taka þátt í einhverju sem heitir samræmd láglaunastefna eins og tíðkast hefur á undanförnum árum á hinum almenna vinnumarkaði.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fékk mikinn stuðning og hvatningu frá fundarmönnum um að halda áfram á þeirri braut sem félagið hefur verið á í að bæta og efla réttindi starfsmanna Norðuráls. Það komu fram skýr fyrirmæli á fundinum um að starfsmenn muni ekki undir nokkrum kringumstæðum sætta sig við að ekki verði hlustað á kröfuna um 8 tíma vaktakerfi með sambærilegum hætti og gerist hjá Elkem Ísland. Þetta var mjög hávær krafa á fundinum. 

Formaður fór yfir það með fundarmönnum að framundan séu erfiðar og krefjandi kjaraviðræður og því skiptir samstaða starfsmanna lykilmáli ef nást á viðunandi og góður árangur til handa starfsmönnum Norðuráls. Formaður fór einnig yfir það að rekstur Norðuráls hefur ætíð gengið vel sem skiptir miklu máli og er jákvætt fyrir alla. Einnig benti formaður á að álverð fari nú hækkandi á heimsmarkaði og sé nú að nálgast 2.100 dollara og hafi ekki verið hærra um alllanga hríð. Þessu til viðbótar liggur fyrir að allt stefnir í að í byrjun næsta árs verði hafnar framkvæmdir á stóru og öflugu stóriðjufyrirtæki, Silicor sólarkísilverksmiðju, á Grundartanga sem mun þurfa uppundir 440 manns í vinnu. Samkeppni um vinnuafl hefur jákvæð áhrif því öll samkeppni er af hinu jákvæða sem gerir það að verkum að fyrirtæki þurfa að vera vel samkeppnishæf í launum, aðbúnaði og öðru slíku.

Núna klukkan 10 mun hefjast fundur með forsvarsmönnum Norðuráls í húsakynnum Ríkissáttasemjara og væntanlega mun samninganefndin fá einhver viðbrögð við kröfugerðinni sem lögð var fram á fyrsta fundinum.

25
Nov

Starfsmenn Norðuráls - fundur í Bíóhöllinni á fimmtudaginn

Starfsmenn Norðuráls hafa hingað til mætt vel á fundi VLFA í BíóhöllinniStarfsmenn Norðuráls hafa hingað til mætt vel á fundi VLFA í BíóhöllinniFimmtudaginn 27. nóvember næstkomandi hefur Verkalýðsfélag Akraness boðað starfsmenn Norðuráls á fund í Bíóhöllinni Akranesi og hefst hann kl. 20:00.

Efni fundarins er óvænt uppákoma sem varð á fyrsta fundi samninganefndarinnar þann 20. nóvember síðastliðinn, en hægt er að lesa frétt um þá uppákomu með því að smella hér.. Einnig verður farið verður yfir kröfugerð þá sem mótuð hefur verið.

Nauðsynlegt er að sem allra flestir sjái sér fært að mæta því framundan er ströng barátta og nauðsynlegt að starfsmenn láti vilja sinn í ljós og sýni samstöðu

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image