• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Jan

Hroki Samtaka atvinnulífsins algjör

Í gær lagði Starfsgreinasamband Íslands fram kröfugerð sína en þeir sem eiga aðild að þessari kröfugerð eru öll verkalýðsfélög á landsbyggðinni. Kröfugerðin er metnaðarfull en samt sem áður hógvær og réttlát enda byggist hún á að stígin verði jöfn og ákveðin skref í átt að því að dagvinnulaun verkafólks dugi fyrir lágmarksframfærslu samkvæmt þeim viðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út. Krafan hljóðar upp á að innan þriggja ára verði lágmarkslaun á Íslandi orðin 300.000 kr.

Það var eins og við manninn mælt að hrokinn og yfirgangurinn í forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins var algjör þegar þeir svöruðu opinberlega þessari sanngjörnu kröfugerð SGS. Þeir voru náttúrulega búnir að umvarpa þessari krónutöluhækkun yfir í prósentur til að reyna að láta þetta líta út fyrir að vera afar óraunhæfar kröfur en grundvallaratriðið er að prósentur eru til þess fallnar að blekkja. Það vita allir að ef 1 króna er lögð ofan á aðra krónu þá er það 100% hækkun. Með öðrum orðum, þegar krónutala er lögð ofan á afar lág laun þá verður prósentutalan há. Semsagt, prósentur blekkja.

Það er nöturlegt að hlusta á málflutning Samtaka atvinnulífsins þar sem talað er nánast um stórfellt efnahagshrun ef að lágmarkstaxtar á Íslandi hækka um 33.000 kr. á ári næstu 3 árin og verði komin upp í 300.000 kr. í lok samningstímans. Forsvarsmenn SA öskra hátt og skýrt: hafið þið reiknað út áhrifin, til dæmis af verðbólgu og öðrum slíkum þáttum? En skyldu þessir sömu aðilar hafa reiknað út áhrifin af því þegar forstjórar og framkvæmdastjórar hækkuðu um 200.000-300.000 kr. á mánuði á árinu 2013 samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar svo ekki sé talað um hækkun millistjórnenda um 600.000 kr. á mánuði? Nei, svo koma þessir ágætu menn og tala hér um ragnarök ef þess er krafist að íslenskt verkafólk geti lifað af sínum dagvinnulaunum samkvæmt þeim viðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út.

Það liggur fyrir að allir hópar sem hafa samið að undanförnu hafa verið að semja um þetta frá 50.000 og upp í allt að 200.000 kr. hækkun á mánaðarlaunum og nægir þar að nefna læknastéttina, kennarana, flugstjórana, flugvirkjana og svo framvegis. Og hvað með formann Samtaka atvinnulífsins sem að jafnframt er formaður Icelandair Group, sem samdi við flugstjóra um allt að 9% um mitt ár í fyrra í nokkurra mánaða samningi og heimildir herma að samið hafi svo verið við þá um 22% hækkun í desember 2014. Skyldi hann hafa látið reikna út áhrifin af verðbólgu og öðrum efnahagsforsendum þegar hann samdi við sína starfsmenn?

Nei, nú þarf íslenskt verkafólk stuðning þjóðarinnar við að lagfæra og leiðrétta kjör íslenskrar alþýðu. Launakjör sem eru á bilinu 201.000 kr. til 238.000 kr. Kjör sem eins og áður sagði duga ekki fyrir lágmarksframfærslu og í raun og veru kosta íslenskt samfélag gríðarlega fjármuni vegna þeirra afleiðinga sem bág kjör geta valdið. Nægir að nefna þar verri heilsu, aukið álag á heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið og félagslega kerfið og jafnvel stóraukna örorkubyrði vegna verri lýðheilsu. Það er alveg ljóst að það verður að lagfæra kjör íslensks verkafólks til að fólk geti haldið mannlegri reisn og það liggur hvellskýrt fyrir að það er nægt svigrúm til slíkra leiðréttinga. Nægir að nefna í því samhengi ofsagróða íslenskra útflutningsfyrirtækja eins og til dæmis í ferðaþjónustunni, stóriðjunni og svo ekki sé talað um í fiskvinnslunni þar sem hagnaður og arðgreiðslur eru gríðarlegar um þessar mundir.

Samtök atvinnulífsins skulu átta sig á því að íslenskt verkafólk mun ekki og ætlar sér ekki að láta þetta ofbeldi yfir sig ganga. Að það skuli ætíð standa bunan út úr þessum mönnum þegar kemur að því að semja um laun verkafólks, um skelfilegar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf ef þessi tiltekni hópur fær einhverjar leiðréttingar á sínum launum. Það stenst ekki skoðun núna og hefur í raun aldrei staðist neina skoðun. Þessum hroka Samtaka atvinnulífsins, honum verður mætt af fullri hörku og nú er mikilvægt að íslenskt verkafólk standi þétt saman í eitt skipti fyrir öll og búi sig undir grjóthörð verkfallsátök ef þurfa þykir.  

23
Jan

Mögnuð stemmning á fundi með starfsmönnum Norðuráls í gær

Verkalýðsfélag Akraness hélt hörkufund með starfsmönnum Norðuráls í sal Tónlistarskóla Akraness í gær þar sem farið var yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu stéttarfélaganna við Norðurál. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur nánast öllum kröfum stéttarfélaganna fyrir hönd starfsmanna verið hafnað.

Tilboð fyrirtækisins er vægast sagt rýrt en það hljóðar upp á 2,5% launahækkun, 75.000 kr. eingreiðslu og að tengja aðrar launahækkanir svo við það sem mun gerast á almennum vinnumarkaði. Skilaboðin til samninganefndar stéttarfélaganna voru hvellskýr frá starfsmönnum: Þið hafið ekki heimild til að hvika frá meginkröfum þeirrar kröfugerðar sem stéttarfélagin hafa lagt fram til Norðuráls.

Það er mat formanns VLFA að krafa starfsmanna sé í raun og veru afar hófstillt. Hún byggist meðal annars á að grunnlaun byrjanda hækki úr rúmum 206.000 kr. í rúmar 249.000 kr. Á þessu sést að grunnlaun byrjanda í stóriðju Norðuráls eru algjörlega til skammar og það er morgunljóst að það verður ekki hvikað frá því að grunnlaun starfsmanna hækki verulega í þeim samningum sem framundan eru.

Það var afar jákvætt að finna þá samstöðu og þann einhug sem ríkti á fundinum. Skilaboðin voru skýr eins og áður sagði, ekki gefa þumlung eftir, við höfum nægan tíma og því er mikilvægt fyrir forsvarsmenn Norðuráls að átta sig á því að það verður að verða algjör hugarfarsbreyting af hálfu fyrirtækisins ef samningar eiga að nást. Formaður fór yfir það að Norðurál er glæsilegt fyrirtæki, hefur blessunarlega gengið gríðarlega vel allt frá því það hóf starfsemi sína og skilað tugmilljarða hagnaði frá því það hóf starfsemi. Því er það skýlaus krafa að þessum ávinningi sé skilað með afgerandi hætti til þeirra sem skapa þennan hagnað sem eru jú starfsmennirnir sem vinna í verksmiðjunni.

Það er gott að vita að þessi samstaða er svo sannarlega til staðar og meðal annars kom fram á fundinum að það komi ekki til greina að hvika frá því að tekið verði upp fjölskylduvænt vaktakerfi sem byggist á þrískiptum 8 tíma vöktum og krafan er skýr um að starfsmenn haldi sambærilegum útborguðum launum og þeir eru með fyrir 12 tíma vaktirnar. Þetta er síður en svo óraunhæf krafa. Framhaldið er óljóst en næsti fundur verður haldinn hjá ríkissáttasemjara á þriðjudaginn. Eins og áður sagði þarf að verða mikil stefnubreyting af hálfu forsvarsmanna fyrirtækisins ef þessi kjaradeila á að leysast á næstu vikum eða mánuðum. En ljóst er að starfsmenn eru svo sannarlega tilbúnir til að fylgja sínum kröfum eftir af fullri einurð og hörku ef þurfa þykir eins og sést á myndinni sem birtist með þessari frétt þar sem starfsmenn risu úr sætum á fundinum í gær og sögðust vera tilbúnir til að fylgja sínum kröfum eftir af fullri hörku.

22
Jan

Fiskvinnslunámskeið haldið hjá HB Granda

Í gær hélt HB Grandi fiskvinnslunámskeið sem veitir þátttakendum tveggja launaflokka hækkun. Þegar launin eru lág skiptir hver króna miklu máli. Þessi námskeið hækka ekki bara launin heldur öðlast fiskvinnslumaðurinn meiri þekkingu á hinum ýmsu sviðum enda fjölbreytt efni sem kennt er á slíkum námskeiðum.

Eins og svo oft áður kom formaður félagsins á þetta námskeið og hélt erindi er lýtur að réttindum og skyldum á íslenskum vinnumarkaði. Í kjölfarið sköpuðust miklar umræður og fram komu spurningar um hin ýmsu atriði sem tengjast þessum málefnum. Þetta námskeið var flott og HB Grandi á skilið hrós fyrir að halda reglulega slík námskeið en því miður er slíku ekki til að dreifa hjá öllum fiskvinnslufyrirtækjum á landinu.  

22
Jan

Góður fundur með félagsmálaráðherra

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá óskaði Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, eftir að funda með formanni Verkalýðsfélags Akraness og fór sá fundur fram í velferðarráðuneytinu í morgun. Er óhætt að segja að á þessum fundi hafi verið farið yfir mörg mál er lúta að hagsmunum íslensks verkafólks, meðal annars sem tengjast húsnæðismálum, kjaramálum og öðrum hagsmunamálum.

Formaður fór yfir komandi kjarasamninga með ráðherranum og þótti afar ánægjulegt að heyra og finna að hún telur vera svigrúm til að lagfæra kjör íslensks verkafólks og þá sérstaklega hjá útfluningsfyrirtækjum af ýmsum toga. Eygló var einnig sammála formanni um mikilvægi þess að samið verði í formi krónutöluhækkana í komandi kjarasamningum enda ljóst að krónutöluhækkanir koma verkafólki og millitekjufólki hvað best.

Það var ánægjulegt að heyra að Eygló telur að fyrirtæki sem eru sköpuð góð rekstrarskilyrði á íslenskum vinnumarkaði eins og til dæmis í stóriðju og ekki síður í sjávarútvegi sem hafa fengið lækkun á auðlindagjöldum sem nemur milljörðum, skili því í formi hærri launa til þeirra sem starfa í greininni. Enda er morgunljóst að slíkt skilar sér með jákvæðum hætti út í samfélagið, jafnt til sveitarfélaga og til ríkis í formi hærri skatttekna.

Ráðherrann var líka sammála formanni í því að of lág laun íslensks verkafólks geti leitt til mikils samfélagslegs kostnaðar því ef að laun duga ekki fyrir lágmarksframfærslu þá veldur það verri lýðheilsu sem endurspeglast síðan í hærri kostnaði í heilbrigðiskerfinu og félagslega kerfinu. Hún tók undir með formanni um mikilvægi þess að lagfæra kjör íslensks verkafólks, þó með þeirri undantekningu að það hríslist ekki upp allan launastigann til þeirra allra tekjuhæstu.

Þetta var flottur fundur og gott að finna jákvætt viðhorf félagsmálaráðherra til mikilvægis þess að lagfæra hér þann ójöfnuð og þá misskiptingu sem ríkir í íslensku samfélagi.

22
Jan

Kröfugerð SGS mótuð

Rétt í þessu lauk hörkufundi hjá samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands en það er landssamband verkafólks á landsbyggðinni. Á þessum fundi var kröfugerð sambandsins endanlega mótuð og samþykkt og það var gjörsamlega frábært að finna þá gríðarlegu samstöðu og einhug sem ríkir innan aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands við mótun þessarar kröfugerðar. Það er morgunljóst að aðildarfélög SGS ætla sér að lagfæra og leiðrétta kjör íslensks verkafólks svo um munar í komandi kjarasamningum.

Kröfugerðin verður afhent forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins á mánudaginn og verður hún ekki gerð opinber fyrr en eftir að Samtök atvinnulífsins hafa fengið hana í hendur. Það kom skýrt fram á þessum fundi að aðildarfélög SGS á landsbyggðinni eru tilbúin til að standa þétt saman í því að bæta kjör okkar félagsmanna og verður það gert með góðu eða illu. Var samninganefndin sammála því að aðildarfélögin þyrftu að búa sig undir verkfallsátök ef þurfa þykir og ríkti algjör einhugur um það að standa saman í því ef til verkfallsátaka kæmi í komandi kjaraviðræðum.  

21
Jan

Formaður fundar með félags- og velferðarráðherra

Formaður félagsins mun funda með Eygló Harðardóttur, félags- og velferðarráðherra, á morgun og hefst fundurinn kl. 10. Það verða næg umræðuefni við ráðherrann enda er málaflokkur félagsmálaráðherra afar víðtækur og tengist ýmsum hagsmunum íslensks verkafólks og þeirra sem minna mega sín í íslensku samfélagi.

Það var afar ánægjulegt að heyra haft eftir Eygló um daginn að hún teldi vera nægt svigrúm til frekari launahækkana til handa íslensku verkafólki. Nefndi hún, eins og formaður hefur margoft bent á, það mikla svigrúm sem er til staðar hjá fyrirtækjum í útflutningsgreinunum. Formaður mun fara yfir hin ýmsu mál með ráðherranum er lúta að hagsmunum íslensks verkafólks og reyna að koma áherslunum vel á framfæri.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image