• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Dec

Við viljum ekki hafa verðtryggð jól

Barátta Verkalýðsfélags Akraness gegn verðtryggingunni hefur víða fengið hljómgrunn. Nú hefur hljómsveitin Grasasnar frá Borgarbyggð og sönghópurinn Stúkurnar frá Akranesi gefið út nýtt jólalag: (við viljum ekki hafa) Verðtryggð jól.

Í fréttatilkynningu vegna útgáfu lagsins segir: "Allir aðstendur lagsins og myndbandsins eru frá Vesturlandi og vilja með þessu verki sínu lýsa yfir samstöðu með Verkalýðsfélagi Akraness svo og Hagsmunasamtökum heimilanna  sem tekið hafa forystu og stefnt stjórnvöldum á grundvelli þess að lög um verðtryggingu séu ólögleg.  Flytjendur líta svo á verðtygging sé mannréttindabrot sem skapi óbærilega stöðu fyrir fjölskyldufólk og heimili í landinu. Með framlagi sínu vilja þeir leggja sitt litla lóð á vogarskálarnar í  von um að vekja fólk til umhugsunar og aðgerða gegn þessu séríslenska óréttlæti."

Verkalýðsfélag Akraness þakkar innilega fyrir þennan hljómfagra stuðning enda munar um hvert einasta lóð sem lagt er á vogarskálarnar gegn verðtryggingunni. Stuðningur sem þessi er algerlega ómetanlegur. Það er gaman að geta þess að ein úr sönghópnum Stúkurnar er starfsmaður á skrifstofu VLFA. Rétt í þessu var að berast myndband sem Friðþjófur Helgason hefur gert við lagið og er hægt að sjá það með því að smella hér.

Textinn með laginu er svohljóðandi:

Syngjum saman lítið lag um jólin,

saman skulum finna okkur skjól.

Syngjum hátt og snjallt, svo það heyrist út um allt.

Við viljum ekki hafa verðtryggð jól.

 

Þingmenn svíkja sannfæringu sína,

fjármagnsfurstar spinna flækjustig.

Leiðast hönd í hönd með belti og axlabönd

á meðan sigla heimili í slig.

 

Öfugsnúið réttlæti hér ríkir,

gjafirnar fá glæframenn og fól.

Fjölskyldanna lán, skuldaklafi og smán

Aftengjum vitlaus vísitölu tól.

 

Kominn tími til að opna  augun

blekkingarnar blasa öllum við.

Forsendan er falin og afleiðingin galin,

Koma svo, þetta þolir ekki bið. 

04
Dec

Fréttabréf VLFA er komið út

Fréttabréf Verkalýðsfélags Akraness er komið út og verður lokið við að dreifa því til allra heimila og fyrirtækja á Akranesi og nágrenni í dag. Þeir félagsmenn sem búa í öðrum póstnúmerum fá blaðið sent heim til sín. Hægt er að lesa fréttabréfið hér.

30
Nov

VLFA skorar á HB Granda að greiða starfsmönnum sínum álíka uppbót og Samherjamenn

Það er óhætt að segja að starfsmenn Samherja geti glaðst um þessar mundir í ljósi þess að fyrirtækið hefur nú tilkynnt starfsmönnum að það ætli enn eitt árið að greiða þeim jólaumbun sem nemur tæpum 400.000 krónum. Samherji hefur verið iðinn við að láta starfsmenn sína njóta góðrar afkomu fyrirtækisins á liðnum árum og hefur fyrirtækið nú greitt hverjum starfsmanni 810.000 krónur umfram þá kjarasamninga sem undirritaðir voru í maí í fyrra. Á síðustu 4 árum hefur fyrirtækið greitt hverjum starfsmanni upp undir 1,5 milljón umfram gildandi kjarasamninga.

Samherji er ekki eina fyrirtækið sem hefur látið starfsmenn sína njóta góðrar afkomu í sjávarútvegi, en fyrirtæki eins og Eskja, Vinnslustöðin, Brim og fleiri hafa gert slíkt hið sama. En því miður hefur eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtækið hér á landi, HB Grandi sem er m.a. með starfsstöð hér á Akranesi, ekki séð sér fært að greiða starfsmönnum sínum slíkar greiðslar þrátt fyrir afar góða afkomu undanfarin ár vegna hagstæðs gengis útflutningsfyrirtækja. Fyrirtækið hefur skilað milljörðum í hagnað og greitt hundruði milljóna í arðgreiðslur til eigenda. Á þeirri forsendu er það þyngra en tárum taki að fyrirtækið hafi hingað til ekki verið tilbúið til að umbuna sínum starfsmönnum líkt og Samherji hefur gert ár eftir ár.

Hins vegar er sorglegt til þess að vita að þegar kjarasamningar voru lausir í fyrra þá barðist Verkalýðsfélag Akraness hart fyrir því að laun fiskvinnslufólks yrðu lagfærð og leiðrétt í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að staða sjávarútvegsfyrirtækja er gríðarlega sterk um þessar mundir sökum hagstæðra ytri skilyrða, en  Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins komu í veg fyrir að þessi leiðrétting á launum fiskvinnslufólks yrði að veruleika. Enda gengu þeir frá kjarasamningum sem kváðu á um samræmda launastefnu þar sem ekki mátti taka tillit til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja, þ.e.a.s. sjávarútvegsfyrirtækja. Rök Verkalýðsfélags Akranses voru ætíð þau að staða þessara fyrirtækja væri sterk og láta ætti fiskvinnslufólk njóta góðs af þessari sterku stöðu. Enda hefur það nú verið staðfest svo ekki verður um villst þegar horft er á þessar glæsilegu umframgreiðslur Samherja og annarra sterkra sjávarútvegsfyrirtækja. Þess vegna er það ömurlegt til þess að vita að svona sterk fyriræki eins og HB Grandi skuli skýla sér á bak við þennan kjarasamning sem gerður var í maí 2011 og láta ekki sína starfsmenn njóta góðs af góðri afkomu.

Verkalýðsfélag Akraness eygir þá von að forsvarsmenn og eigendur HB Granda fylgi nú þessu frábæra fordæmi Samherjamanna og greiði sínum starfsmönnum álíka upphæð. Formaður félagsins skrifaði í dag bréf til yfirstjórnar HB Granda og fór þess á leit við fyrirtækið að það myndi fylgja áðurnefndu fordæmi Samherjamanna og umbuna sínu góða starfsfólki fyrir góð störf í gegnum árin með álíka eingreiðslu og Samherjamenn hafa greitt sínu starfsfólki. Vonandi munu forsvarsmenn HB Granda taka jákvætt í þetta erindi, en þegar þessi orð eru skrifuð hefur ekkert svar borist við þessari beiðni.

29
Nov

Munið eftir desemberuppbótinni!

Skrifstofa VLFA vill hvetja félagsmenn til að fylgjast vel með því að desemberuppbót skili sér rétt. Desemberuppbót skal greiða ekki síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eða eru í starfi fyrstu viku í desember.

Upphæð desemberuppbótar er mismunandi eftir kjarasamningum. Helstu upphæðir eru:

- Almennur vinnumarkaður, Samiðn og Ríkið kr. 50.500,-

- Sveitarfélög kr. 78.200

- Elkem og Klafi kr. 141.971

- Norðurál kr. 146.522

26
Nov

Réttinda- og hagsmunagæsla skilar árangri

Á síðasta föstudag skilaði hagsmunagæsla félagsins tæpum þremur milljónum til tveggja starfsmanna en þeim hafði verið sagt upp störfum og áttu ekki að fá greiddan umsaminn uppsagnarfrest. Eftir nokkura vikna baráttu tókst félaginu að fá fyrirtækið til að hverfa frá því að greiða þeim ekki áðurnefndan uppsagnarfrest enda voru hér umtalsverðir hagsmunir í húfi fyrir umrædda starfsmenn.

Ný stjórn tók við Verkalýðsfélagi Akraness þann 19. nóvember 2003 og er óhætt að segja að hagsmunagæsla og það að verja kjör félagsmanna VLFA hafi gengið frábærlega á þessum tíma en félagið hefur náð að verja réttindi þar sem kjarasamningsbrot fyrirtækja hafa átt sér stað um sem nemur rúmum 200 milljónum á áðurnefndu tímabili. Það er stefna stjórnar félagsins að hvika hvergi frá þegar réttinda- og hagsmunagæsla er í húfi og horfir félagið ekki í krónur og aura í þeirri baráttu. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir hina almennu félagsmenn að vera með öflug stéttarfélög á bakvið sig sem eru tilbúin til þess að berjast af alefli gegn hinum ýmsu kjarasamningsbrotum sem félagsmenn verða því miður alltof oft fyrir af hálfu sinna atvinnurekenda. Það er því miður bláköld staðreynd að leikurinn á milli launþegans og atvinnurekandans er afar ójafn þegar kemur að hinum ýmsu málum er lúta að réttindum launþegans.

Verkalýðsfélag Akraness er stolt af þessum árangri enda er hér ekki um neinar smáupphæðir að ræða og stærsta einstaka málið sem félagið hefur innheimt fyrir félagsmenn nemur á þriðja tug milljóna króna.

22
Nov

Fréttabréf VLFA í vinnslu

Um þessar mundir er Fréttabréf Verkalýðsfélags Akraness í vinnslu á skrifstofu félagsins. Félagið gefur fréttabréfið út tvisvar á ári í þeim til gangi að kynna starfsemi og þjónustu félagsins og segja fréttir af þeim málum sem stjórn og starfsmenn félagsins eru að vinna að hverju sinni.

Efni blaðsins er fjölbreytt og verður því dreift til allra heimila og fyrirtækja á Akranesi og nágrenni í fyrstu viku desember, auk þess sem félagsmenn búsettir annars staðar fá blaðið heimsent í pósti.

Áður útgefin fréttabréf eru aðgengileg hér á heimasíðunni.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image