• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Oct

Ánægjuleg heimsókn starfsmanna Starfsgreinasambands Íslands

Í morgun komu í heimsókn á skrifstofu félagsins tveir nýráðnir starfsmenn Starfsgreinasambands Íslands, þau Drífa Snædal framkvæmdastjóri og Árni Steinar Stefánsson sérfræðingur. Þetta var afar ánægjuleg heimsókn, enda stóð hún yfir í um tvo tíma. Rætt var um hin ýmsu mál er lúta að hagsmunum íslensks launafólks sem og mikilvægi verkalýðshreyfingarinnar og síðast en ekki síst starfsemi Starfsgreinasambands Íslands.

Starfsfólk skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness þakkar þeim Drífu og Árna kærlega fyrir ánægjulega heimsókn og vonar að samskiptin við þau verði jafn ánægjuleg í náinni framtíð og þessi heimsókn, en það er ljóst að vel fór á með starfsfólki VLFA og starfsmönnum SGS í þessari heimsókn.

05
Oct

Kjarasamningur smábátasjómanna samþykktur

Kjarasamningur Sjómannasambands Íslands við Landssamband smábátaeigenda um kaup og kjör smábátasjómanna var samþykktur með 64,3% atkvæða en 35,7% greiddu atkvæði gegn samningnum. Verkalýðsfélag Akraness er aðili að Sjómannasambandinu og vel á fjórða tug smábátasjómanna sem eru í VLFA munu taka laun eftir þessum samningi.

Þetta er mikill áfangasigur því smábátasjómenn eru nánast eina stéttin á Íslandi sem ekki hefur notið þeirra mannréttinda að hafa í gildi kjarasamning sem tryggir þeim lágmarksréttindi við sín störf. Á þeirri forsendu fagnar VLFA þessum samningi innilega því nú er komin samningur sem tryggir þessi lágmarkskjör og í komandi kjarasamningum verður eðli málsins samkvæmt hægt að byggja enn frekar ofan á þennan samning með hagsmuni smábátasjómanna að leiðarljósi.  

04
Oct

Kosningu um kjarasamning smábátasjómanna lokið - Talning á morgun

 Kosningu er nú lokið um kjarasamning Sjómannasambands Íslands annars vegar og Landssambands smábátaeigenda hins vegar en samningurinn var undirritaður þann 29. ágúst sl. Hægt er að skoða samninginn hér.

Þeir smábátasjómenn sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness kusu um samninginn með póstatkvæðagreiðslu og var kosningaþátttakan 67%.

Ekki er ennþá ljóst hvernig atkvæði féllu, því atkvæði frá landinu öllu verða talin saman í húsakynnum Ríkissáttasemjara á morgun. Fréttir af niðurstöðu kosningarinnar verða birtar hér á heimasíðunni um leið og talningu er lokið.

01
Oct

Formaður með fyrirlestur í Háskóla Íslands

Formaður hélt í morgun fyrirlestur í Háskóla Íslands fyrir nemendur Gylfa Dalmanns Aðalsteinssonar, en fyrirlesturinn laut að verkalýðshreyfingunni og verkefnum henni tengdri. Formaður fór víða yfir í fyrirlestri sínum, fjallaði m.a. um verkalýuðshreyfinguna, lífeyrissjóðina og stöðu og framtíð verkalýðshreyfingarinnar í heild sinni.

Þetta er í þriðja sinn sem formaður félagsins heldur slíkan fyrirlestur um starfsemi verkalýðshreyfingarinnar og það er óhætt að segja að á þessum fyrirlestrum fái formaður fjölda spurninga er lúta að starfsemi stéttarfélaganna og tilgangi þeirra. Það er mikill heiður fyrir Verkalýðsfélag Akraness að háskólasamfélagið skuli leita til félagsins um að halda slíka fyrirlestra og kann félagið þakkir fyrir að fá tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við þá sem eru í námi tengdu vinnumarkaðsfræðum í Háskóla Íslands.

27
Sep

Verðtryggingin fer fyrir dómstóla

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness samþykkti í kvöld að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort að verðtrygging hér á landi standist lög. Eins og öllum er kunnugt lét VLFA gera lögfræðilegt álit á því hvort verðtrygging hér á landi stæðist íslensk lög og var niðurstaða þess álits sú að verulegur vafi léki á slíku.

Félagið mun kosta þennan málarekstur og eru nú þegar hafnar viðræður við lögfræðistofu um að reka þetta mál fyrir dómstólum. Það liggur nú þegar fyrir að óskað verður eftir flýtimeðferð hjá dómstólum vegna þessa máls enda eru miklir almannahagsmunir í húfi hvað þetta varðar. Einnig er mjög mikilvægt að dómstólar skeri fljótt og vel úr um það hvort að verðtryggingin standist lög eður ei í ljósi þeirra staðreynda að margir aðilar sem hafa tjáð sig opinberlega draga það verulega í efa að verðtrygging á neytendalánum standist lög.

Það er engum vafa undirorpið að verðtryggingin hefur leikið íslensk heimili skelfilega á liðnum árum og sem dæmi þá hafa verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað um uppundir 400 milljarða frá 1. janúar 2008 til dagsins í dag. Og bara í dag var tilkynnt að neysluvísitalan hefði hækkað um 0,76% á milli mánaða sem þýðir að verðtryggðar húsnæðisskuldir landsmanna hækkuðu í síðasta mánuði um 11 milljarða króna. Það er sama upphæð og er áætlað að framkvæmdirnar við Vaðlaheiðagöng  kosti. Það er einnig rétt að upplýsa að meðalverðtryggð skuld íslenskra heimila í dag er í kringum 22 milljónir króna, sem þýðir að slík lán hafi hækkað um 167 þúsund krónur á milli mánaða. Það sér hvert einasta mannsbarn hverslags miskunnarlaust óréttlæti það er að varpa allri ábyrgð verðtryggingarinnar á skuldsett heimili á meðan lánveitendur eru tryggðir í bak og fyrir.

Ástæðan fyrir því að Verkalýðsfélags Akraness ætlar að fara í þennan málarekstur er einnig að nú er orðið deginum ljósara að íslensk stjórnvöld ætla sér ekki að leiðrétta þá stökkbreyttu hækkun sem orðið hefur á verðtryggðum húsnæðislánum frá hruni heldur hafa stjórnvöld tekið ákvörðun um að slá skjaldborg um fjármálastofnanir, erlenda vogunarsjóði og aðra aðila sem fjármagnið eiga í þessu landi.

Það er heldur ekki hægt að horfa upp á það að verðtryggingin fari eins og skýstrókur um íslensk heimili og sogi allan eignarhluta í burtu og færi hann yfir til fjármálastofnana og erlendra vogunarsjóða og á sama tíma sé íslenskum heimilum fórnað á altari verðtryggingarinnar. Það er hins vegar sorglegt til þess að vita að verðtryggingin skuli vera varin meðal annars af stjórnvöldum svo ekki sé nú talað um forystu Alþýðusambands Íslands í þessum efnum. Það á að vera hlutverk ASÍ að gæta hagsmuna sinna félagsmanna og VLFA telur að hvergi séu eins miklir hagsmunir fyrir alþýðu þessa lands eins og að tekið verði á verðtryggingu á neytendalánum.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness er afar stolt af því að ætla sér að keyra þetta brýna hagsmunamál fyrir alþýðu þessa lands í gegnum dómstóla og mun félagið fylgja þessu máli eftir af fullum þunga og vonandi kemst niðurstaða í það hvort verðtryggingin sé lögleg eða ekki eins fljótt og mögulegt er.

24
Sep

Trúnaðarmannanámskeið á Sunnubrautinni

Í dag og á morgun stendur yfir trúnaðarmannanámskeið í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13. Í dag var farið yfir lestur launaseðla og sátu trúnaðarmenn sveittir yfir launaútreikningum, vaktaálagi og skattþrepum. Á morgun verður farið yfir samskipti á vinnustað og þau skoðuð frá ýmsum hliðum.

Kennarar á námskeiðinu eru þau Guðmundur Hilmarsson og Sigurlaug Gröndal, en þau starfa hjá Félagsmálaskóla Alþýðu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image