• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Jul

Stjórnarkjör 2019

Samkvæmt 29. gr.laga Verkalýðsfélags Akraness ber að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu um kjör stjórnar.

Framboðslistum til stjórnarkjörs í Verkalýðsfélagi Akraness árið 2019, ásamt meðmælendum skv. reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur, ber að merkja kjörstjórn og skila á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13 fyrir kl. 12:00 þann 12. ágúst nk. Hvert það framboð er gilt sem fram kemur innan þess tíma og hefur skriflegt samþykki þeirra sem framboðslistann skipa.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hefur lagt fram framboðslista til stjórnar sem hægt er að skoða hér.

Berist kjörstjórn ekki aðrir listar telst framboðslisti stjórnar og trúnaðarráðs sjálfkjörinn samkvæmt 29. gr. laga Verkalýðsfélags Akraness.

23
Jul

Félagsmenn VLFA sem starfa hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit fá allt að 105.000 kr. eingreiðslu

Í dag undirritaði formaður Verkalýðsfélags Akraness samkomulag við Samband íslenskra sveitafélags sem tryggir öllum félagsmönnum VLFA sem starfa hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit 105.000 kr. eingreiðslu sem kemur til útborgunar 1. ágúst.

Umrædd eingreiðsla er tilkomin vegna þess að samningsviðræður hafa dregist, en eins og flestir vita þá rann samningur á milli samningsaðila út 31. mars. Þessi eingreiðsla er innágreiðsla vegna væntanlegs kjarasamnings á milli aðila sem verður trúlega kláraður um miðjan ágúst mánuð, nema eitthvað óvænt komi upp í viðræðum milli aðila.

Eingreiðslan greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall á tímabilinu frá og með 1. apríl 2019 til og með 30. júní 2019. Starfsmenn í fæðingarorlofi og tímakaupsfólk mun einnig eiga rétt á umræddri greiðslu og miðast eingreiðslan hjá tímakaupsfólki við unnar vinnustundir á áðurnefndu tímabili.

Í þessu samkomulagi var einnig samið um að Samband íslenskra sveitafélaga fellst á að hækka launatöflu um 1,5% og mun sú hækkun koma til viðbótar öðrum hækkunum á launatöflu aðila.

Formaður félagsins er afar ánægður með að hægt hafi verið að tryggja að félagsmenn VLFA fengju umrædda eingreiðslu um næstu mánaðarmót og einnig að hægt hafi verið að tryggja að 1,5% komi til hækkunar á launatöflu til viðbótar öðrum launahækkunum sem eftir á að semja um.

Það liggur fyrir að krafa Verkalýðsfélags Akraness er að launahækkanir verði með sambærilegum hækkunum og samið var um í Lífkjarasamningum sem og svokallaður hagvaxtarauki.

Ákveðið var að funda næst 13. ágúst og er formaður verulega bjartsýnn að það takist fljótt og vel að ganga frá nýjum kjarasamningi enda ekki viðunandi að kjarasamningsviðræður séu búnar að dragast í hartnær fjóra mánuði.

Formaður vill þakka bæjarstjóra Akraneskaupstaðar fyrir að leggja sitt lóð á vogaskálarnar til að hægt væri að ganga frá þessu samkomulagi sem tryggir tekjulægstu starfsmönnum sveitafélagsins margnefnda eingreiðslu.

03
Jul

Verkalýðsfélag Akraness stefnir Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir félagsdóm

Verkalýðsfélag Akraness hefur stefnt Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir félagsdóm vegna brota á kjarasamningi sem félagið gerði við sambandið þann 5. febrúar 2016.

En málið lýtur að öllum starfsmönnum sem starfa hjá sveitarfélögum sem eru svokallað tímakaupsfólk en í samningum frá árinu 2016 var samið um eingreiðslu að fjárhæð 42.000 kr. sem átti að koma til útborgunar 1. febrúar 2019.

Þessi eingreiðsla kom til vegna þess að ákveðið var að lengja gildistíma kjarasamningsins um 3 mánuði og átti þessi eingreiðsla að dekka það tekjutap sem hlaust að því að lengja í samningum.

En orðrétt segir um þessa eingreiðslu í samningum frá 2016:  „Um er að ræða kjarasamningsbundna eingreiðslu sem greiðist hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem var við störf í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall í desember 2018.

Það ótrúlega gerist síðan að þegar til eingreiðslunnar kemur í febrúar á þessu ári þá túlkar Samband íslenskra sveitarfélaga þessa eingreiðslu með þeim hætti að allir sem taka laun eftir tímakaupi en ekki föstum mánaðarlaunum eigi ekki rétt á þessari eingreiðslu.

Nokkrir félagsmenn sem starfa sem tímakaupsfólk hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðarsveit höfðu samband við Verkalýðsfélag Akraness og óskuðu skýringa hví þessi eingreiðsla hefði ekki skilað sér til þeirra.

Í framhaldi af þessum athugsemdum okkar félagsmanna sem starfa hjá umræddum sveitarfélögum var haft samband bæði við Akraneskaupstað sem og Hvalfjarðarsveit og svör þeirra voru á þá leið að þetta væri túlkun Sambands íslenskra sveitarfélaga að tímakaupsfólk ætti ekki rétt á þessari eingreiðslu.

Formaður félagsins fundaði með Samráðsnefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga og krafðist skýringa hví tímakaupsfólk hefði ekki fengið umrædda 42.000 króna eingreiðslu eins og aðrir starfsmenn sveitarfélaganna. Enda kemur skýrt fram í greininni um eingreiðsluna að um kjarasamningsbundna eingreiðslu sé að ræða sem greiðist hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem var við störf í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall í desember 2018.

Þessi túlkun hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um að tímakaupsfólk hafi ekki átt rétt á eingreiðslu stenst ekki nokkra skoðun, enda varð tímakaupsfólk að sjálfsögðu fyrir tekjutapi alveg eins og starfsfólk sem tekur laun föstum mánaðarlaunum.

Mat Verkalýðsfélags Akraness og lögmanns félagsins er hvellskýrt: það er að tímakaupfólk eigi klárlega rétt á eingreiðslunni miðað við starfstíma og starfshlutfalli. Enda afar auðvelt að finna út hvert réttur tímakaupsfólks til eingreiðslunnar er hafi það verið í starfi í desember 2018 og janúar 2019. Sem dæmi þá ætti tímakaupsmaður sem uppfyllir þessi skilyrði og unnið t.d. 86 tíma í janúar 2019 rétt á að fá  50% af þessri 42.000 króna eingreiðslu.

Það er þyngra en tárum taki hvernig Samband íslenskra sveitarfélaga hagar sér gagnvart tekjulægsta fólkinu sem sinnir gríðarlega mikilvægum störfum fyrir sveitarfélögin en stór hluti þeirra sem eru tímakaupsfólk sinnir störfum í félagsþjónustu með fötluðum.

Það er líka dapurlegt hvernig fulltrúar sveitarfélaganna skýla sér á bakvið Samband íslenskra sveitarfélaga þegar upp koma erfið ágreiningsmál en í þessu máli liggur fyrir að umrædd eingreiðsla var til þess að bæta starfsmönnum upp tekjutap vegna þess að samningurinn var lengdur um 3 mánuði og því fráleitt að halda því fram að tímakaupsfólk eigi að fá eingreiðsluna til að brúa það tekjutap sem hlaust að því að lengja samninginn um þessa þrjá mánuði.

Rétt er geta að um umtalsvert fordæmismál er að ræða því ein af rökum Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir því að greiða ekki tímakaupsfólki þessa eingreiðslu var að Ríkið og Reykjavíkurborg gerðu það ekki, en kjarasamningur þeirra var einnig lengdur um þrjá mánuði og því samið um samskonar eingreiðslu í samningum hjá ríkinu og Reykjavíkurborg.

30
Jun

Eingreiðsla til ríkisstarfsmanna vegna dráttar á nýjum kjarasamningi

Samninganefnd SGS og Samninganefnd ríkisins hafa komist að samkomulagi um að endurskoða viðræðuáætlun milli aðila og stefna að því að ljúka kjarasamningi fyrir 15. september næstkomandi.

Meginástæðan fyrir þessari framlengingu er sú að á vettvangi heildarsamtaka launafólks er nú verið að ræða launaþróunartryggingu, breytt fyrirkomulag vinnutíma og fleiri veigamikil atriði. Þessi vinna hefur tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir og því er þessi endurskoðun nauðsynleg.

Jafnframt hefur náðst samkomulag um að vegna þess hve langt er síðan gildistími síðustu samninga rann sitt skeið þá verði greidd eingreiðsla að upphæð 105 þúsund kr. fyrir fullt starf þann1. ágúst 2019. Sú greiðsla er hluti af fyrirhuguðum launabreytingum þegar þar að kemur.

Flestir félagsmenn sem starfa hjá ríkinu vinna á Heilbrigðisstofnun Vesturlands og munu þeir því fá umrædda eingreiðslu 1. ágúst næstkomandi.

30
Jun

Bjarg íbúðarfélag afhenti fyrstu íbúðirnar á föstudaginn

Fyrstu leigjendur Bjargs íbúðafélags fengu á föstudaginn afhenta lyklana af íbúðum sínum við Asparskóga 12 og 14 á Akranesi.

Bjarg íbúðarfélag er á vegum verkalýðsfélaga innan ASÍ en um er að ræða leigufélag sem rekið verður án hagnaðarmarkmiða og ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Við afhendingu íbúðanna við Asparskóga var bæjarstjórn Akraness viðstödd sem og formaður Verkalýðsfélags Akraness. Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri ávarpaði viðstadda og þakkaði öllum þeim sem komu að byggingu húsanna fyrir þetta skref til að tryggja öruggt leiguhúsnæði á Akranesi á viðráðanlegum kjörum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði að verkalýðshreyfingin væri afar stolt af þessu verkefni sem lýtur að því að tryggja tekjulágu fólki öruggt húsnæði á hagstæðum kjörum. Formaður VLFA þakkaði Akraneskaupstað sérstaklega fyrir það stofnframlag sem bærinn kom með sem er umtalsvert hærra en Reykjavíkurborg lagði fram gagnvart íbúðum sem Bjarg er með í byggingu í Reykjavík.

Allt þetta gerir það að verkum að leiguverð á þessum íbúðum er það hagstæðasta sem Bjarg íbúðarfélag getur boðið eins og staðan er núna. Formaður VLFA óskaði nýjum leigjendum innilega til hamingju og vonar að allir verði ánægðir í þessum nýju glæsilegu húsakynnum verkalýðshreyfingarinnar.

25
Jun

Verkalýðsfélag Akraness vísar kjaradeilu við Akraneskaupstað til ríkissáttasemjara

Nú eru að verða liðnir þrír mánuðir frá því kjarasamningar starfsmanna sveitarfélaga runnu út gagnvart Sambandi íslenska sveitarfélaga og enn er ekki komin á kjarasamningur.

Verkalýðsfélag Akraness lagði fram ýtarlega kröfugerð þann13. maí til fulltrúa kjaramálanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, en félagið hefur hvorki heyrt né fengið viðbrögð frá sambandinu eftir þann fund.

Á þessum eina fundi sem VLFA hefur átt með sambandinu gerði félagið alvarlegar athugasemdir við þann hægagang sem einkennt hefur viðræðurnar er lýtur að nýjum kjarasamningi til handa starfsmönnum sveitarfélaga. Enda ótrúlegt að ekki sé hægt að ganga hratt og örugglega frá nýjum kjarasamningi í anda lífskjarasamningsins sem undirritaður var á hinum almenna vinnumarkaði þann 3. apríl 2019.

Það er mat félagsins að þessi hægagangur og tregða til að ganga frá nýjum kjarasamningi sé alls ekki boðleg fyrir alla þá sem starfa hjá sveitarfélögunum. Það er mat formanns félagsins að það ætti að geta verið fljótlegt að ganga frá nýjum samningi í anda lífkjarasamningsins eins og kröfugerð félagsins byggist á.

Í ljósi þess að nú eru þrír mánuðir frá því kjarasamningur VLFA við Samband íslenskra sveitarfélaga rann út og ekkert er að gerast í viðræðum þá sér Verkalýðsfélag Akraness sig knúið til að vísa deilunni til ríkissáttasemjara.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image