• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Jun

Gísli Hallbjörnsson heiðraður á sjómannadaginn

Á sunnudaginn var Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur, en Verkalýðsfélag Akraness leggur sitt af mörkum til hátíðarhaldanna eins og undanfarin ár. Aðkoma félagsins að sjómannadeginum er meðal annars fólgin í því að standa fyrir athöfn við minnismerki um týnda sjómenn í kirkjugarðinum, en þar er árlega lagður blómsveigur til að minnast þeirra sem drukknað hafa og týnst á sjó.

Að þeirri athöfn lokinni er haldið í hátíðarsjómannamessu í Akraneskirkju þar sem meðal annars er heiðraður sjómaður fyrir vel unnin störf í þágu þjóðar. Í ár var það Gísli Hallbjörnsson sem fékk æðstu viðurkenningu sjómannadagsráðs Verkalýðsfélags Akraness, en Gísli starfaði mjög lengi sem vélstjóri á hinum ýmsum fiskiskipum vítt og breitt um landið

Þessu til viðbótar kom Verkalýðsfélag Akraness að fjármögnun á fjölskyldudagskrá á hafnarsvæðinu vegna sjómannadagsins, en eins og undanfarin ár er það Björgunarfélag Akraness sem sá um framkvæmd dagskrárinnar. 

05
Jun

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands fundar á Akranesi

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mun funda á Akranesi í dag en einu sinni á ári er fundur miðstjórnar haldinn fyrir utan höfuðborgarsvæðisins og fyrir valinu í ár varð Akranes eins og áður var getið.

Miðstjórnarfundurinn mun fara fram á Gamla kaupfélaginu en auk hefðbundinnar dagskrár miðstjórnar munu miðstjórnarmenn skoða nýju íbúðirnar sem Bjarg íbúðarfélag er að reisa á Akranesi en þær eiga að verða klárar til afhendingar 1. Júlí næstkomandi.

Einnig mun bæjarstjóri Akarnaneskaupstaðar Sævar Þráinsson koma og ávarpa fundinn og fara yfir stöðu og horfur hér á Akranesi. Einnig mun miðstjórn fara í heimsókn í Norðurál þar sem forstjóri Norðuráls Gunnar Guðlaugsson mun kynna fyrir miðstjórn starfsemi fyrirtækisins á Grundartanga.

28
May

Kauptaxtarnir SGS við Samtök atvinnulífsins komnir

Nýir kauptaxta fyrir þá sem starfa á almennum vinnumarkaði eftir samningi Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins eru nú aðgengilegir á vef Verkalýðsfélags Akraness og má nálgast hér.

Viðkomandi kauptaxtar gilda frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2020. Samkvæmt töxtunum hækkuðu kauptaxtar frá 1. apríl 2019 um 17.000 kr. á mánuð og almenn hækkun á mánaðarlaun fyrir fullt starf nam 17.000 kr. á mánuði  frá 1. apríl sl. Lágmarkstekjur fyrir fullt starf eru í dag kr. 317.000 á mánuði. Þá hækka kjaratengdir liðir kjarasamninga um 2,5% á sömu dagsetningum, nema um annað hafi verið samið.

Einnig er rétt að vekja athygli á nýjum launatöxtum fyrir starfsmenn sem starfa hjá ríki og sveitafélögum en þeir eru einnig aðgengilegir undir kauptaxtar.

22
May

Stýrivextir lækka um 0,5%

Eins og fram kom í máli formanns félagsins fyrir gerð lífskjarasamningsins var að eitt af brýnustu hagsmunamálum alþýðunnar, heimilanna og fyrirtækja væri að ná niður okurvöxtum fjármálakerfisins.

Nú hefur komið í ljós að sú aðferðafræði sem við notuðum við gerð lífkjarasamningsins hefur klárlega leitt til þess að peningamálanefnd Seðlabanka Íslands  ákvað á sínum fyrsta vaxtaákvörðunardegi eftir samninganna að lækka stýrivextina um 0,5% og ekki bara það heldur ýjaði seðlabankastjóri að frekari vaxtalækkun geti komið til fljótlega.

Hugmyndafræðin við að skapa þessi skilyrði til vaxtalækkunar var að nota það svigrúm sem til var til launabreytinga til handa tekjulægsta fólkinu á íslenskum vinnumarkaði. Það gerðum við með því að semja eingöngu með krónutöluhækkunum en alls ekki prósentum. Enda hefur formaður VLFA ætíð sagt að prósentuhækkanir séu aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og geri ekkert annað en að auka á ójöfnuð í íslensku samfélagi.

Það er rétt að upplýsa að formaður Verkalýðsfélags Akraness ásamt Halldóri Benjamín framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, Stefáni Ólafssyni prófessor og Bryndísi Hlöðversdóttur ríkissáttasemjara áttum fund með Seðlabankastjóra ásamt tveimur fulltrúum úr peningamálanefndinni fjórum dögum áður en við skrifuðum undir lífkjarasamninginn.

Á þessum fundi kölluðum við eftir því hvað samningsaðilar þyrftu að gera til þess að hægt væri að auka líkurnar á því að forsendur væru til að lækka vexti á Íslandi. Fram kom í máli Seðlabankastjóra að vissulega gætu kjarasamningar haft mikil áhrif á hvort hægt væri að lækka vexti eða ekki en ítrekaði þó að vissulega væru önnur atriði sem gætu haft áhrif á lækkun vaxta. Nefndi hann til dæmis gengi íslensku krónunar og þróun á heimsmarkaðsverði á hráolíu í því samhengi og ítrekaði það einnig að Seðlabankinn væri sjálfstæð stofnun.

En það kom skýrt fram að launabreytingar í lífkjarasamningum mundu klárlega hafa áhrif á hvort hægt væri að lækka vextina eða ekki. Samningsaðilar ákváðu því að semja með þeim hætti að launabreytingar rúmuðust innan þeirra þolmarka sem Seðlabankinn teldi að atvinnulífið þyldi með von um að vextirnir myndu lækka.

Dagurinn í dag staðfestir að okkur tókst það og núna liggur fyrir að stýrivextirnir lækka um 0,5% eða nánar tilgetið fara úr 4,5% niður í 4%

Þetta þýðir að fjölskylda sem skuldar 30 milljónir í húsnæðislán  með breytilegum vöxtum getur átt von á að ráðstöfunartekjur þeirra aukist um 150.000 á ársgrundvelli eða 12,500 á mánuði.

Rétt er að geta þess að Íslensk heimili skulda rúma 2000 milljarða þannig að ávinningurinn getur numið allt að 10 milljörðum á ári.

Formaður VLFA hefur sagt að lífskjarasamningurinn hafi verið besti samningur sem hann hefur komið að hvað verkafólk varðar og er þessi stýrivaxtalækkun enn ein staðfesting á því.

22
May

82% iðnaðarmanna í VLFA samþykktu nýgerðan kjarasamning

Í gær lauk kosningu um kjarasamning iðnaðarmanna við Samtök atvinnulífsins, en Verkalýðsfélag Akraness er með iðnaðarmannadeild innan félagsins og heyra þeir iðnaðarmenn sem tilheyra VLFA og starfa á hinum almenna vinnumarkaði undir þann kjarasamning sem kosið var um í gær.

Þessi kjarasamningur var í stórum atriðum eins og lífkjarasamningurinn sem var undirritaður 3. apríl fyrir verkafólk með örfáum breytingum þó.

Niðurstaða kosningar um kjarasamning iðnaðarmanna var nokkuð afdráttarlaus en 82% iðnaðarmanna í VLFA sögðu já við samningum og einungis 5,9% nei. Kosningarþátttaka var dræm en um 15% iðnaðarmanna sem heyra undir samninginn greiddu atkvæði.

21
May

Ragnar Guðmundsson forstjóri Norðuráls lætur af störfum

Þau óvæntu tíðindi bárust í dag að Ragnar Guðmundsson forstjóri Norðuráls hafi óskað eftir að láta að störfum sem forstjóri fyrirtækisins en Ragnar var einn af fyrstu starfsmönnum Norðuráls og vann náið með stofnendum að uppbyggingu fyrirtækisins.

Formaður félagsins hefur þurft að eiga í umtalsverðum samskiptum við Ragnar á liðnum áraum, enda sá Ragnar um alla kjarasamningsgerð fyrir hönd fyrirtækisins. Eðli málsins samkvæmt gengur oft mikið á við að koma á kjarasamningi og einnig þegar ágreiningur er um túlkun á einstökum greinum í kjarasamningum.

Þrátt fyrir að oft hafi mikið gengið á þá hefur ætíð ríkt traust á milli fyrrverandi forstjóra Norðuráls og Verkalýðsfélags Akraness og oft hefur náðst að leysa erfið mál í sátt og samlyndi, en þegar það hefur ekki tekist þá höfum við verið sammála um að vera ósammála og láta dómstóla skera úr um hvort fyrirtækið hefur rétt fyrir sér eða VLFA.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill fyrir hönd félagins þakka Ragnari Guðmundssyni kærlega fyrir samstarfið á liðnum árum og áratugum og óskar honum velfarnaðar í þeim störfum sem hann tekur sér fyrir hendur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image