• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Aug

Ferð eldri félagsmanna á lokastigi

Undirbúningur fyrir hina árlegu ferð með eldri félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness er nú á lokastigi. En í ár verður farið um Reykjanesið, enda æði margt þar að sjá og hægt að skoða, en í gegnum árin hefur þátttaka verið gríðarlega góð en um eða yfir 100 eldri félagsmenn þiggja boð í þessar árlegu ferðir sem eru að eldri félagsmönnunum okkar að sjálfsögðu að kostnaðarlausu.

Farið er frá Akranesi um 8:30 á næsta þriðjudag og er áætluð heimkoma um 19:00, en í ár verður Gísli Einarsson fyrrverandi þingmaður og bæjarstjóri farastjóri en hann var einnig fararstjóri í fyrra og stóð sig gríðarlega vel en þá var Suðurlandið skoðað.

Það er stjórn Verkalýðsfélags Akraness mikill heiður að geta þakkað eldri félagsmönnum okkar fyrir sitt framlag við að taka þátt í að byggja upp okkar öfluga stéttarfélag með því að bjóða þeim í dagsferð eins og við höfum gert í fjölmörg ár.

16
Aug

Launaþjófnaður og kjarasamningsbrot í boði Hæstaréttar

Launaþjófnaður og kjarasamningsbrot stórfyrirtækja í boði Hæstaréttar

Síðasta þriðjudag kynnti ASÍ niðurstöðu rannsóknar um launaþjófnað og kjarasamningsbrot á íslenskum vinnumarkaði. Í fréttum af rannsókninni hefur aðallega verið fókuserað á að mest hafi verið brotið á erlendu launafólki og að hæstu kröfurnar væru í ferðaþjónustu og mannvirkjagerð. Niðurstöður rannsóknarinnar eru grafalvarlegar og því var leitt að sjá

framkvæmdastjóra Samtaka aðila í ferðaþjónustu gera lítið úr alvarleikanum og halda því fram að það væri „gjarnan um heiðarleg mistök að ræða“ hjá ungum, óreyndum fyrirtækjum.

Ekki bara lítil óreynd fyrirtæki sem hlunnfara starfsmenn sína heldur líka stór og rótgróin fyrirtæki

Ég ætla ekki að eltast við þessar ótrúverðugu skýringar enda er mikilvægara að minna á að launaþjófnaður er alls ekki einskorðaður við lítil, ung og óreynd fyrirtæki. Á undanförnum árum hef ég orðið vitni að því að sum af rógrónustu og stærstu fyrirtækjum landsins hlunnfara starfsmenn sína og hafa af þeim lágmarksréttindi samkvæmt kjarasamningum. Ég verð að viðurkenna að það hefur komið mér verulega á óvart hvað stórfyrirtæki sem velta milljörðum árlega, eiga eignir upp á milljarða og hagnast um hundruð milljóna ef ekki milljarða geta engu að síður verið miskunnarlaus í því að hafa nokkra hundraðþúsundkalla af starfsmönnum sínum. Oft eru þessi fyrirtæki að hafa réttindi af þeim sem síst skyldi, harðduglegu starfsfólki sem hefur unnið myrkranna á milli jafnvel í margar vikur í senn. Hér er ég að tala um stórfyrirtæki eins og Skagann hf. ogHval hf. Bæði þessi fyrirtæki hafa haft kjarasamningsbundin réttindi af starfsfólki sínu á síðustu árum.

Fyrirtækin þráast við þótt þeim sé bent á brotin og þau liggi skýrt fyrir.

Stórfyrirtækin hafa öll fengið tækifæri til þess að lagfæra brot sín. Ef um væri að ræða „heiðarleg mistök“ þá myndi maður ætla að fyrirtækin leiðréttu þau um leið og „mistökin“ koma í ljós. Því miður er það allt of sjaldgæft. Hér má sem dæmi nefna stórfyrirtækið Hval hf. sem á eignir upp á marga milljarða og er meðal annars einn stærsti eigandi Arion banka. Dómstólar komust að þeirri niðurstöðu í fyrra að Hvalur hf. hefði hlunnfarið starfsmann sinn um ca. hálfa milljón í laun á hvalvertíðinni 2015. Auk þess hafði Hvalur hf. lögbundna frídaga af starfsmanninum þegar hann vann á stanslausum vöktum allan sólarhringinn í fleiri vikur. Rúmlega hundrað starfsmenn á hvalvertíðum undanfarinnar ára voru einnig hlunnfarnir með sama hætti. Einhver hefði haldið að stórt, öflugt og síðast en ekki síst forríkt fyrirtæki eins og Hvalur hf. myndi strax leiðrétta kjör harðduglegra starfsmanna sem hafa unnið í fyrirtækinu daga og nætur til þess að fyrirtækið geti haldið úti hvalvertíðum sínum. Einhver hefði haldið til að fyrirtækið myndi hlaupa til og greiða það sem óumdeilanlega vantaði upp á umsamin laun og kjarasamningsbundna frídaga starfsmanna. Hvalur hf. sá þó ekki sóma sinn í að greiða starfsmönum það sem þeir áttu rétt á og báru því við að starfsmennirnir væru of seinir að koma með kröfur (svokallað „tómlæti“). Slík afstaða stenst enga heilbrigða skynsemi enda er það skylda vinnuveitanda að greiða rétt laun og veita réttindi samkvæmt lögum og kjarasamningum. Það er ekki skylda starfsmannsins. Því miður virðist þó sem Hæstiréttur Íslands hafi á síðustu mánuðum ákveðið að taka sér stöðu með stórfyrirtækjum gegn starfsmönnum í málum sem þessum.

Hæstiréttur vinnur markvisst gegn gildi og markmiðum kjarasamninga

Ef starfsmaður stelur frá vinnuveitanda er starfsmaðurinn umsvifalaust rekinn þegar þjófnaðurinn kemst upp og honum jafnvel refsað af hinu opinbera. Þetta gildir þó ekki þegar málinu er snúið við. Ef vinnuveitandi stelur frá starfsmanni er vinnuveitanda ekki refsað. Öllu verra er þó að Hæstiréttur hefur á síðustu mánuðum lagt upp í þá furðulegu vegferð að hlífa vinnuveitandanum við því að borga þau laun og kjör sem ranglega voru höfð af starfsmanninum. Með öðrum orðum þá leggur Hæstiréttur blessun sína yfir að vinnuveitendur standi ekki við lágmarksréttindi.

Í forkastanlegum dómi Hæstaréttar í lok mars síðastliðnum var niðurstaðan sú að vinnuveitandi gæti látið starfsmann sinn vinna á kjörum sem eru undir þeim lágmarkskjörum sem fram koma í kjarasamningi og lögum. Þessi dómur fékk litla opinbera umfjöllun en fór alls ekki framhjá verkalýðshreyfingunni sem trúði varla sínum eigin augum. Dómurinn felur einfaldlega í sér grundvallarbreytingu á lagareglum sem hafa verið óumdeildar á íslenskum vinnumarkaði í tugi ára. Með dóminum ákvað Hæstiréttur bara upp á sitt einsdæmi að víkja frá þeirri grundvallarreglu að kjarasamningar stéttarfélaga feli í sér lágmarksréttindi. Hæstiréttur tók það einfaldlega upp hjá sjálfum sér að veikja stoðir og grundvöll kjarasamninga gríðarlega. Niðurstaða Hæstaréttar er að vinnuveitendur geta nú gert ólögmæta ráðningarsamninga og komist algerlega upp með það.

Það er forkastanlegt að Hæstiréttur sé á þeirri vegferð að blessa gróf kjarasamningsbrot á íslenskum vinnumarkaði á grundvelli þess að ef launafólk áttar sig ekki á því nánast innan þriggja mánaða að verið sé að brjóta á réttindum þeirra, þá skuli sýkna fyrirtæki vegna þess að launamaðurinn á að hafa sýnt af sér „tómlæti“

Hvernig á launafólk sem veit ekki að verið sé að brjóta á réttindum sínum að geta sýnt af sér tómlæti?  Hugsið ykkur með allt erlenda fólkið sem starfar hjá íslenskum vinnumarkaði og hefur ekki þekkingu né kunnáttu til að þekkja frumskóg kjarasamningsgreina.  Það er þyngra en tárum taki að Hæstiréttur sé að blessa launaþjónað á grundvelli þess að launafólk áttar sig ekki strax á því að verið sé að hlunnfara það, þetta er svo mikill skandall að það nær ekki nokkurri átt!

Eftir dóminn er ekki hægt að treysta því að kjör launþega fari eftir umsömdum lágmarksréttindum. Með dóminum heimilaði Hæstiréttur að vinnuveitendur gætu haft lágmarksréttindi af starfsmönnum án nokkurra afleiðinga. Dómurinn hafði strax áhrif á dómsúrlausnir héraðsdóms og Landsréttar enda hlýða þeir Hæstarétti. Á þeim tæpu fimm mánuðum sem liðnir eru frá dóminum hefur hann því nú þegar valdið gríðarlegu tjóni en það er aðeins sýnishorn af því tjóni sem verður ef þessari niðurstöðu verður ekki breytt.

Það er sérstakt að þessi vegferð Hæstaréttar byrjaði nánast á sama tíma og verið var að skrifa undir lífskjarasamningana um mánaðamótin mars/apríl þar sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld voru sammála um að taka þyrfti af hörku á brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði.

Já, það er t.d. kaldhæðnislegt að Hæstiréttur hafi með „tómlætisdómi“ sínum verið að kippa fótunum undan kjarasamningum á Íslandi á sama tíma og aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld voru að klára lífskjarasamningana til þess að reyna að ná jafnvægi og sanngirni á vinnumarkaði m.a. með loforði frá stjórnvöldum um að heimildir til refsinga verði auknar, í samráði við aðila vinnumarkaðarins, ef atvinnurekandi brýtur gegn lágmarkskjörum launamanns.

Skilaboð Hæstaréttar Íslands er til fyrirtækja sem vilja ástunda launaþjónað er að það er í lagi svo lengi sem starfsmaðurinn áttar sig ekki strax á því að verið sé að brjóta á réttindum hans og á sömu forsendu er það að mati dómsins líka í lagi að gera ólöglega ráðningarsamninga.  Já, skilaboð Hæstaréttar til fyrirtækja sem ástunda launaþjónað er að þið fáið sýknu ef starfsmaðurinn áttar sig ekki strax á því að verið sé að hlunnfara hann!  

Það er ekki nóg að stoppa óheiðarleg fyrirtæki, það þarf að stoppa dómstólana

Viðbrögð framkvæmdastjóra SA við skýrslu ASÍ um launaþjófnað voru að lýsa því yfir að samtökin standi fyrir „ábyrgu atvinnulífi“ og þegar fyrirtæki standi ekki við kjarasamninga brjóta þau ekki bara gegn sínu starfsfólki heldur á samfélaginu í heild og öðrum atvinnurekendum með því að skekkja samkeppnisstöðuna. Ég get tekið undir þetta enda eru kjarasamningar gríðarlega mikilvægir fyrir stöðugleikann á Íslandi (eins og SA hefur ítrekað stanslaust) og þegar brotið er gegn kjarasamningum er því í raun ekki bara verið að stela af starfsfólkinu heldur samfélaginu öllu.

Þegar áðurnefnd rannsókn ASÍ um launaþjófnað var kynnt var um leið nefnt að verið væri að leita leiða til þess að finn leiðir til að berjast gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. SA segist taka heilshugar undir það enda var það hluti af lífskjarasamningunum að skoða hvort hægt væri að skerpa á ábyrgð vinnuveitanda með því að beita launaþjófa refsingu eins og öðrum þjófum.

Það þarf að vinna fljótt og vel í þessu: ASÍ, SA og stjórnvöld þurfa að búa svo um hnútana að það sé ekki með nokkru móti hægt að komast upp með að brjóta kjarasamninga. Eitt af því sem þarf að gera er að setja lög ekki seinna en í haust til þess að stöðva Hæstarétt Íslands og vegferð réttarins, enda er það mat mitt að þessir tómlætisdómar séu ein mesta ógn sem íslenskt launafólk á íslensk verkalýðshreyfing hefur staðið frammi fyrir.

13
Aug

Samningafundur með Sambandi íslenskra sveitafélaga

Verkalýðsfélag Akraness fundaði með Sambandi íslenskra sveitafélaga vegna kjarasamnings sem gildir fyrir félagsmenn sem starfa hjá Akraneskaupstað og í Hvalfjarðasveit. Rétt er að geta þess að töluvert langt er síðan samningurinn rann út eða nánar tilgetið 31. mars sl.

En eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá gerði VLFA samkomulag við Samband íslenskra sveitafélaga um að félagsmönnum sem starfa hjá umræddum sveitafélögum fengu greidda eingreiðslu vegna þess dráttar sem orðið hefur á samningsgerðinni. En þessi eingreiðsla var einskonar fyrirframgreiðsla vegna þess hversu lengi hefur tekið að ganga frá nýjum kjarasamningi. Einnig er Samband íslenskra sveitafélaga búið að skuldbinda sig til að hækka laun okkar félagsmanna um 1,5% til viðbótar þeim almennu launabreytingum samið verður um.

Þessi fundur var haldinn í húskynnum ríkissáttasemjara og var fundurinn góður og ljóst er að ekki ber mikið á milli deiluaðila. En krafa VLFA er sú að launabreytingar verði með sambærilegum hætti og gert var í hinum svokallaða lífkjarasamningi þ.e.a.s að sömu krónutöluhækkanir og svokallaður hagvaxtarauki komi til handa þeim sem taka laun eftir kjarasamningi við sveitafélögin.

Í þessum kjarasamningsviðræðum eru samningisaðilar sammála um að finna sameiginlega niðurstöðu hvað styttingu vinnuvikunnar varðar og á formaður VLFA von á að niðurstaða muni nást hvað það varðar.

Einnig var farið yfir aðrar kröfur sem félagið hefur lagt fram eins og t.d. réttindi tímakaupsfólks, en eins og áður sagði þá var þetta góður fundur og á formaður von á að hægt verði að undirrita nýjan kjarasamning eigi síðar en 15. september nk.

Næsti fundur verður haldinn á næstu dögum.

13
Aug

Stjórn VLFA sjálfkjörin

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness lagði fram framboðslista til stjórnar félagsins samkvæmt 29. gr. laga félagsins . Auglýst var eftir öðrum framboðum hér á heimasíðunni og í Skessuhorni.

Þar sem ekki bárust aðrir listar til kjörstjórnar telst listi stjórnar og trúnaðarráðs vera sjálfkjörinn samkvæmt 29 gr. laga félagsins.  Hægt er að skoða stjórn félagsins til næstu fjögra ára, hér

09
Aug

VLFA hafnar að pumpa meira inní lífeyrishítina

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni sem og í fjölmiðlum þá gekk Verkalýðsfélag Akraness frá samkomulagi við Samband íslenskra sveitafélaga 23. júlí síðastliðinn.

Samkomulagið gekk út á m.a. að tryggja að félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit fengu 105.000 króna eingreiðslu vegna þess hversu lengi hefur tekið að ganga frá nýjum kjarasamningi. En þessi eingreiðsla var fyrirframgreiðsla vegna þess dráttar sem orðið hefur á við að ganga frá nýjum samningi.

Samkomulagið laut einnig að Þeim ágreiningi sem önnur félögin innan Starfsgreinasambands Íslands hafa átt við Samband íslenskra sveitafélaga og lýtur að svokölluðum lífeyrisauka sem SGS telur að Sambandið hafi verið búið að skuldbinda sig til að greiða. Það er óhætt að segja að þetta sé afar flókið mál, en eina sem er öruggt í þessu máli er að Samband íslenskra sveitafélaga hefur viðurkennt að hafa verið búið að skuldbinda sig til að leggja til 1,5% til launabreytingar samkvæmt rammasamkomulagi sem gert var árið 2015. Hins vegar hafnar sambandið alfarið að hafa verið búið að samþykkja að þetta yrði gert með sambærilegum hætti og ríki og Reykjavíkurborg gerðu eða nánar tilgetið í gegnum svokallaðan lífeyrisauka.

Það er mat Verkalýðsfélags Akraness að enginn gögn liggi fyrir í málinu sem staðfestir að Samband íslenskra sveitafélaga hafi verið búið að samþykkja að fara sömu leið og ríki og Reykjavíkurborg. Það liggja hins vegar fyrir gögn að Samband íslenskra sveitafélaga hafnaði að fara slíka leið.

Það er hins vegar rétt að segja það strax í upphafi að Verkalýðsfélag Akraness vill ekki sjá að setja þessi 1,5% inn sem lífeyrisauka, en 1,5% er sú meðaltalshækkun sem það kostar að fara þá leið.

Félagið vill hins vegar nota þetta svigrúm til að hækka laun sinna félagsmanna sem starfa hjá áðurnefndum sveitafélögum og í samkomulaginu sem VLFA gerði 23 júlí er skýrt kveðið á um að sambandið er tilbúið að hækka launataxta um þessi 1,5% til viðbótar þeim launabreytingum sem samið verður um.

Þetta þýðir að t.d. skólaliði mun fá rúmar 5.000 króna hækkun á sínum grunnlaunum á mánuði vegna þessa 1,5% hækkunar eða sem nemur rúmum 60.000 á ári. Þessi 1,5% mun t.d. skila skólaliða sem vinnur alla sína starfsævi hjá sveitafélaginu um 5 milljónum.

Það er mikilvægt að fólk átti sig á þessum staðreyndum, en ef þetta yrði sett inní lífeyrisauka eins og SGS vill gera þá myndu allir starfsmenn sem hófu störf hjá sveitafélögunum eftir 1. Júní 2017 ekki fá neitt, en þeir sem voru fyrir þann tíma í starfi myndu njóta lífeyrisávinnings. VLFA er alls ekki tilbúið að skilja alla félagsmenn eftir sem hófu störf eftir umræddan tíma með ekki neitt og búa þannig í raun til tvöfalt lífeyriskerfi eftir því hvenær þú hófst störf. Rétt er að geta þess að starfsmannavelta hjá sveitafélögunum er umtalsverð.

Hins vegar vill VLFA að allir félagsmenn okkar fái þessa 1,5% hækkun og engum verði mismunað, enda mikilvægt að reyna allt sem hægt er til að lyfta kjörum starfsmanna sveitafélaganna upp enda kjör hjá sveitafélögunum ein þau lökustu sem þekkjast á íslenskum vinnumarkaði.

Það er einnig mat félagsins að það séu alveg takmörk fyrir því hversu gríðarlegum fjármunum eigi endalaust að pumpa inní þetta lífeyriskerfi, en nú þegar eru félagsmenn að greiða 15,5% og þeir sem eru með séreignasparnað uppá 6% eru að greiða 21,5% af sínum heildartekjum inní kerfið.

Það er mikilvægt að allir átti sig á því um hvað þetta mál snýst en 15,5% sem allir starfsmenn sveitafélaga hafa verið að greiða í lífeyrissjóð áttu að duga fyrir því að starfsmenn ættu að eiga rétt á 76% af meðaltekjum sínum á starfsævi frá sínum lífeyrissjóði. Hins vegar hefur komið í ljós að svo er ekki vegna tryggfræðilegs halla á sjóðunum og þessi lífeyrisauki á að nota til að uppfylla loforð sem búið var að gefa sjóðsfélögum. VLFA er alls ekki tilbúið eins og áður sagði að pumpa meira inní þessa lífeyrishít þar sem endalaust er verið að setja meiri fjármuni inn til að réttlæta „ágæti“ kerfisins.

Eins og áður sagði höfnum við þessari leið og viljum nýta þessa fjármuni sem standa til boða til að hækka strax laun allra félagsmanna okkar sem starfa hjá sveitafélögnum um þessi 1,5% sem skilar eins og áður sagði rúmum 60.000 krónum á ári og yfir starfsævina um 5 milljónum og munar um minna.

Félagið ítrekar einnig að það komi ekki til greina að skilja hluta okkar félagsmenna eftir eða eins og áður hefur komið fram nær þessi lífeyrisauki ekki til starfsmanna sem hófu störf hjá sveitafélögunum eftir 1. júní 2017.

Það er einnig rétt að geta þess að þeir félagsmenn sem starfa hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit sem formaður hefur talað við eru algerlega sammála því að nota þessi 1,5% til að hækka launin strax en ekki setja þetta inní lífeyrishítina enn og aftur.

01
Aug

Lokað föstudaginn 2. ágúst

Skrifstofa félagsins verður lokuð föstudaginn 2. ágúst vegna sumarleyfa.

Við opnum aftur kl 8 þriðjudaginn 6. ágúst

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image