• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Dec

Gleðileg jól kæru félagsmenn

Starfsmenn og stjórn Verkalýðsfélags Akraness óska félagsmönnum sínum sem og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með þökk fyrir árið sem nú er að líða.

Rétt er að upplýsa félagsmenn um að skrifstofa félagsins verður lokuð  mánudaginn 23.desember (Þorláksmessu)

Skrifstofan opnar síðan klukkan 08:00 föstudaginn 27. desember.

17
Dec

Akraneskaupstaður hefur þurft að leiðrétta laun fyrir á þriðja tug milljóna.

Það er aldrei of oft ítrekað mikilvægi þess að launafólk fari ætíð vel og vandlega yfir launaseðla sem og kjör og önnur réttindi sem kveðið er á um í kjarasamningum.

En nýlega átti formaður samtal við matráð sem starfar á einum af leikskólum Akraneskaupstaðar en í þessu samtali áttaði formaður VLFA sig á því að starfshlutfall viðkomandi starfsmanns hafði verið vanreiknað um 6%. En það leiðir til þess að mánaðarlaun viðkomandi starfsmanns eru vanreiknuð að mati formanns VLFA um tæpar 20.000 kr. á mánuði.

En þetta vanreiknaða starfshlutfall var búið að eiga sér stað í 5 ár og væntanlega mun leiðréttingin eiga sér stað þessi 5 ár aftur í tímann og því ljóst að um umtalsverða fjárhæð er um að ræða.

Þetta er ekki það eina sem Akraneskaupstaður hefur þurft að leiðrétta hvað laun starfsmanna sinna varðar en nýlega kom í ljós að starfsmenn í mötuneytum voru ekki að fá greitt eins og grein 3.1.6 kveður á um, en í þeirri grein segir orðrétt: „Vegna takmörkunar á matartíma skal telja viðveru starfsmanna 30 mín styttri en ella hefði verið“

Þessar 30 mínútna stytting vegna takmörkunar á matartíma hafði ekki verið framkvæmd sem skyldi og þurfti Akraneskaupstaður að leiðrétta laun allra sem starfa í mötuneytum á leikskólum bæjarins og nam sú leiðrétting um eða yfir 20 milljónum króna með launatengdum gjöldum.

Þessum leiðréttingum er síður en svo lokið því eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá vann Verkalýðsfélag Akraness dómsmál fyrir Félagsdómi nýverið er laut að eingreiðslu tímakaupsfólks og er formanni kunnugt um að byrjað sé að reikna út þá leiðréttingu en ljóst er að sú leiðrétting mun nema hundruðum þúsunda. En dómur félagsdóms gerði það einnig að verkum að í ljós kom að sveitafélög vítt og breitt um landið eru að reikna hlutfall af orlofs og desemberuppbótum vitlaust út en þau hafa einungis tekið tillit til dagvinnustunda en ekki alls vinnuframlags tímakaupsfólks.

Á þeirri forsendu hefur Verkalýðsfélag Akraness gert þá skýlausu kröfu að orlof-og desemberuppbætur verði leiðréttar 4 ár aftur í tímann hjá tímakaupsfólki en um verulegar fjárhæðir er hér um að ræða.

Allt þetta sýnir svo ekki verður um villst mikilvægi þess að vera í öflugum stéttarfélögum sem verja réttindi sinna félagsmanna og víla ekki fyrir sér að fara með mál fyrir dómstóla leiki einhver vafa á að verið sé að brjóta á réttindum þeirra.

17
Dec

Fundað með samninganefnd Sambands íslenskra sveitafélaga í morgun

Í morgun var haldinn samningafundur með Sambandi íslenskra sveitafélaga en eins og allir vita þá hefur samningsgerðin dregist með ótrúlegum hætti í alltof langan tíma en það eru  rúmir 8 mánuðir frá því að síðasti samningur rann út.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness kom því enn og aftur á framfæri við samninganefnd sambandsins að þessi vinnubrögð væru algerlega fyrir neðan allar hellur enda ekki boðlegt að launafólk þurfi að bíða eftir launabreytingum og nýjum samningi í 8 mánuði.

Formaður fór yfir með Samninganefnd Sambands íslenskra sveitafélaga að aðilar vinnumarkaðarins hafa á tyllidögum talað um að mikilvægt sé að taka upp öguð og vönduð vinnubrögð við kjarasamningsgerð þar sem ætíð verði reynt að láta nýjan kjarasamning taka við af þeim eldri. Meira segja hefur verð blásið til kostnaðarsamra námskeiða af hálfu ríkissáttasemjara til að skerpa á þessum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga. En árangurinn er ekki meiri en svo að nú eru liðnir 8 mánuðir frá því eldri samningur rann út eins og áður sagði.

Formaður skilur ekki þessi vinnubrögð einfaldlega vegna þess að lífskjarasamningurinn mótaði rammann utan um kjarasamning við sveitafélögin en kröfugerð félagsins byggist  99%  á því sem kemur í lífkjarasamningum.

Nú kom það í ljós á þessum fundi að Samband íslenskra sveitafélaga leggur til að svokallaður hagvaxtarauki verði ekki inni heldur einhver launaþróunartrygging en þessari hugmynd hafnaði VLFA algerlega enda byggist lífskjarasamningurinn m.a. á hagvaxtaraukanum.

Það kom skýrt fram í máli formanns að alls ekki eigi að vera að flækja styttingu vinnuvikunnar en fyrir liggur að sambandið er tilbúið að stytta vinnuvikuna um 13 mínútur á dag en VLFA vill að starfsmenn fái að velja í samráði við stjórnendur hvernig þessar 13 mínútur séu teknar út.   T.d. leggur VLFA mikla áherslu á að starfsmenn geti safnað þessum mínútum upp yfir árið og tekið út í heilu lagi. En uppsöfnun á þessum 13 mínútum yfir árið ætti að geta gefið 7 auka frídaga á ári.

Einnig fór formaður yfir réttindi tímakaupsfólks en eftir málið sem Verkalýðsfélag Akraness vann fyrir Félagsdómi þá liggur algerlega fyrir að óheimilt er að mismuna tímakaupsfólki eins og gert hefur verið á liðnum árum og afar auðvelt er að lagfæra það í kjarasamningum. Enda á tímakaupsfólk að njóta sambærilegra réttinda og fastráðið fólk en að sjálfsögðu í samræmi við starfshlutfall sem fundið er út með öllu unnu vinnuframlagi hjá tímakaupsfólki.

Einnig var deilt um gildistíma samningsins en það kom skýrt fram hjá formanni að 1. Desember gengur ekki upp enda mun skynsamlegra að miða við 1. Ágúst vegna þess að búið er að leiðrétta laun aftur til þess tíma.

Formaður fór skýrt yfir það að langlundargeð félagsins og starfsmanna Akraneskaupstaðar er algerlega að þrotum komið í þessum viðræðum og kom skýrt fram í máli formanns við samninganefnd sveitafélaga að ef ekki tekst að semja í byrjun næsta árs mun félagið grípa til aðgerða til að knýja fram nýjan kjarasamning til halda sínum félagsmönnum.  Formaður krafðist þess að drög að nýjum samningi myndi liggja fyrir á næsta fundi sem verður 10. janúar 2020.

17
Dec

Annar samningafundur við Norðurál haldinn í gær

Í gær var annar samningafundur haldinn með forsvarsmönnum Norðuráls vegna kjarasamnings stéttarfélaganna við Norðurál, en eins og komið hefur fram hér á heimasíðunni þá rennur samningurinn út um komandi áramót.

Á fyrsta samningafundinum var farið yfir kröfugerðina en hún er í 16 liðum en fyrir liggur að stéttarfélögin leggja mestu áhersluna á að haldið verið áfram að miða við að launavísitala Hagstofunnar myndi grunn til launahækkana starfsmanna Norðuráls.

Fundurinn í gær fór í að ræða aðra þætti en þann sem lýtur að launaliðnum svo sem stóriðjuskólann, bakvaktir, vaktarálög og bónuskerfi starfsmanna.

Þetta var ágætis fundur og var t.d. ákveðið að trúnaðarmenn og forsvarsmenn Norðuráls myndu vinna á milli funda við að móta og koma með tillögur að breyttum bónusþáttum. En næsti fundur verður haldinn á Þorláksmessu og hefst hann kl 09:00

09
Dec

Kjarasamningsviðræður við Norðurál hafnar

Í dag var fyrsti samningafundurinn á milli stéttarfélaganna og Norðuráls, en núverandi kjarasamningur rennur út um komandi áramót og því stuttur tími sem samningsaðilar hafa til að ganga frá nýjum kjarasamningi áður en sá eldri rennur út.

Á þessum fyrsta samningafundi var lögð fram kröfugerð stéttarfélaganna og var gerð ítarleg grein fyrir henni en kröfugerðin er í 16 liðum. Eins og alltaf var kröfugerðin unnin í samvinnu við starfsmenn Norðuráls m.a með því að halda tvo opna fundi með starfsmönnum þar sem áherslur í kröfugerðinni voru mótaðar.

Nú liggur fyrir að okkar samningsaðilar hafa fengið kröfugerðina í hendur og var ákveðið að næsti fundur yrði á næsta mánudag en á þeim fundi munu forsvarsmenn Norðuráls væntanlega svara efnislega þeim liðum í kröfugerðinni sem eru undir í þessum viðræðum.

Það er svo sem ekkert launungarmál að aðalkrafan sem starfsmenn leggja langmestu áherslu á er að samið verði með sambærilegum hætti og gert var í síðasta kjarasamningi á milli aðila þ.e.a.s að laun taki mið að launavísitölu Hagstofunnar en það er ófrávíkjanleg krafa af hálfu starfsmanna.

05
Dec

Málið sem VLFA vann í gær í Félagsdómi hefur mikið fordæmisgildi

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá vann Verkalýðsfélag Akraness mál gegn Sambandi íslenskra sveitafélaga er laut að rétti tímakaupsfólks til eingreiðslu að fjárhæð 42.500 kr. sem greidd var þann 1. febrúar á þessu ári.

En á óskiljanlegan hátt túlkaði Samband íslenskra sveitafélaga þessa eingreiðslu með þeim hætti að skilja ætti tímakaupsfólk eitt eftir án réttar til greiðslunnar.

Það er skemmst frá því að segja eins áður hefur komið fram að Félagsdómur tók undir allar dómkröfur Verkalýðsfélags Akraness og vann félagið því fullnaðar sigur í málinu sem kom formanni ekki á óvart enda blasti við að málatilbúnaður Sambands íslenskra sveitafélaga stóðst ekki eina einustu skoðun.

En það er morgunljóst að þessi dómur hefur mikið fordæmisgildi enda voru rök lögmanns Sambands íslenskra sveitafélaga þau að hvorki Reykjavíkurborg né ríkið hafi greitt umrædda eingreiðslu til starfsmanna sem tóku laun eftir tímakaupi.

Það er ekki bara það að Sveitafélögin, Ríkið og Reykjavíkurborg þurfi að greiða tímakaupsfólki umrædda eingreiðslu sem kemur út úr þessum dómi, heldur einnig það að búið er að hlunnfara tímakaupsfólk illilega þegar kemur að því að reikna út rétt til orlofs-og desemberuppbótar.

En sveitafélögin hafa einungis reiknað dagvinnutíma út þegar verið er að reikna út starfshlutfall sem myndar rétt til hversu háar orlofs-og desemberuppbætur tímakaupsfólk á rétt á, en ekki allt vinnuframlag þeirra eins og vinnu sem unnin er utan dagvinnutíma. En í dómi Félagsdóms er skýrt kveðið á um að starfshlutfall eigi að reiknast í samræmi við vinnuframlag.

Þetta hefur gert það að verkum að Verkalýðsfélag Akraness hefur nú þegar gert þá kröfu á Akraneskaupstað að sveitafélagið leiðrétti útreikning á orlofs-og desemberuppbótum tímakaupsfólks 4 ár aftur í tímann.

En það er alveg ljóst að þó nokkuð margir starfsmenn sveitafélaganna vítt og breitt um landið eiga rétt á leiðréttingu og það er verulega umhugsunarvert  hvernig Samband íslenskra sveitafélaga túlkar ranglega réttindi þeirra sem lökustu kjörin hafa hjá sveitafélögunum.

En eins og áður sagði hefur þessi dómur umtalsvert fordæmisgildi fyrir tímakaupsfólk og hvetur formaður Verkalýðsfélags Akraness starfsmenn vítt og breitt um landið sem og þá sem starfa hjá ríki og Reykjavíkurborg að kanna réttarstöðu sína í ljósi þessa dóms.

 

HÉR má lesa dóinn í heild.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image