• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Jan

Fjórði samningafundur með Norðuráli

Fjórði samningafundur Verkalýðsfélags Akraness við forsvarsmenn Norðuráls var haldinn mánudaginn 6. janúar síðastliðinn.

Á þessum fundi kom fram að forsvarsmenn Norðuráls hafna að viðhalda launavísitölunni með sama hætti og gert var í síðasta samningi á milli aðila og er óhætt að segja að það séu gríðarleg vonbrigði.

En formaður VLFA kom því skýrt á framfæri að forsenda fyrir nýjum kjarasamningi milli samningsaðila sé að launabreytingar starfsmanna haldi áfram að taka mið af launavísitölunni með sömu formerkjum og gert var í síðasta samningi. Á þessi kröfu verður ekki gerður afsláttur, en rétt er að geta þess að á þeim fundum sem Verkalýðsfélag Akraness hélt með starfsmönnum kom skýrt fram að ekki þýddi að leggja á borð fyrir starfsmenn kjarasamning þar sem þessi launavísitölutenging væri ekki inni.

En á fundinum kom einnig fram að fyrirtækið er tilbúið í fyrsta skipti að ræða þann möguleika að taka upp 8 tíma vaktakerfi í stað 12 tíma kerfisins eins og nú er. Hér er um mikla stefnubreytingu af hálfu forsvarsmanna Norðuráls að ræða.

En breyting sem byggist á því að fara yfir á 8 tíma vaktakerfi kallar á gríðarlega mikla vinnu og undirbúnings en hingað til hafa verið skiptar skoðanir hjá starfsmönnum um að breyta vaktakerfinu með þessum hætti. Hins vegar er æði margt sem bendir til þess alltaf séu fleiri og fleiri sem vilja breyta yfir í 8 tíma vaktakerfi enda ákall í samfélaginu fyrir að stytta vinnutíma hjá starfsfólki og gera vinnustaði fjölskylduvænni.

En núna er verið að skoða hvaða áhrif þessi breyting myndi hafa á laun starfsmanna, en það blasir við að þegar tekið er upp vaktakerfi þar sem vinnuskylda er einungis 145,6 vinnustundir á mánuði í stað 182 stunda þýðir það breytingar á launum. Allt þetta er til skoðunar núna en formaður er ekki í neinum vafa um að það yrði gríðarlega jákvæð breyting að fara úr 12 tíma vaktakerfi yfir í 8 tíma vaktarkerfi. Enda eru flest allar verksmiðjur komnar í svoleiðis vaktakerfi og síðast var vaktarkerfinu breytt hjá Fjarðaráli og er það mat starfsmanna að þessi breyting hafi gjörbreytt vinnustaðnum til hins betra.

Ekki er búið að boða til næsta fundar en menn eru að skoða öll þessi mál gaumgæfilega m.a. með því að heyra í starfsmönnum til að hlera hver vilji þeirra sé í sambandi við breytt vaktakerfi.

03
Jan

Hinn árlegi jóla-trúnaðarráðsfundur VLFA var haldinn 30. des

Hinn árlegi jólafundur stjórnar-og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness var haldinn 30. desember síðastliðinn og var fundurinn haldinn á Gamla kaupfélaginu.

Eins og alltaf á þessum hátíðarfundi félagsins fer formaðurinn nokkuð ítarlega yfir starfsemi félagsins á árinu 2019. Fram kom í máli formanns að mjög mikið hafi verið í gangi á árinu 2019, enda nánast allir kjarasamningar félagins og annríkið í samræmi við það.

En þeir kjarasamningar sem voru og eru við það að losna eru eftirfarandi samningar:

 

  • Kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði
  • Sveitafélagasamningurinn
  • Fiskimjölssamningurinn
  • Kjarasamningur Norðuráls
  • Kjarasamningur Elkem Ísland
  • Kjarasamningur Sjómanna

 

Eðlimálsins samkvæmt fór mesta vinnan í kjarasamninginn í samningnn á hinum almenna vinnumarkaði, en í honum lék Verkalýðsfélag Akraness stórt hlutverk, en félagið myndaði bandalag með Eflingu, VR og Verkalýðsfélagi Grindavíkur, en kröfugerð þessara stéttarfélaga miðaðist að því að semja með þeim hætti að það sem væri til skiptanna myndi renna krónutölulega og hlutfallslega meira til þeirra sem væru á lökustu kjörunum á hinum almenna vinnumarkaði.

Það var gert með því að gera kröfu um að eingöngu yrði samið með krónutöluhækkunum en ekki með prósentum. Einnig voru þessi félög með skýra sýn á að gera markvissa kröfu á hendur ríkinu sem byggðist á að ráðist yrði í róttækar kerfisbreytingar. En samspil þessara þátta miðuðust að því að auka ráðstöfunartekjur okkar félagsmanna með margvíslegum hætti eins og t.d. að gera kjarasamning sem myndi leiða til lækkunar vaxta á Íslandi ásamt skattabreytingum sem kæmu þeim tekjulægstu hvað best.

Formaður rifjaði upp að þessi hugmyndarfræði gekk öll upp og 4. apríl var undirritaður nýr kjarasamningur sem fékk nafnið lífkjarasamningurinn. Eins og formaður fór yfir á fundinum þá er það hans mat að lífskjarasamningurinn sé sá besti sem hann hefur tekið þátt í að gera hvað verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði varðar þau 15 ár sem hann hefur verið í verkalýðshreyfingunni.

Formaður rifjaði einnig upp þær launahækkanir sem eru í samningum sem og þá snilldar hugmynd er lýtur að svokölluðum hagvaxtarauka sem mun skila launafólki viðbótar krónutöluhækkunum ef hagvöxtur pr. mann verður til staðar.

Formaður nefndi að allt væri á áætlun eins að stýrivextir Seðlabankans væru búnir að lækka um 1,5% og hefðu ekki verið lægri um langt áratugaskeið en fjölmargir hafa endurfjármagnað lán sín og lækkað greiðslubyrgði sína jafnvel um tugi þúsunda. Einnig kom fram í erindi formanns að verðbólga hefi verið 3,3% við undirritun lífskjarasamningsins en í dag væri verðbólgan búin að lækka um 1,3% og stæði í 2%   Þetta þýddi að verðtryggðarskuldir heimilanna væri 22 milljörðum lægri ef ekki hefðu skapast þessi skilyrði fyrir lækkun verðbólgunnar niður í 2%

Formaður fór yfir aðra kjarasamninga eins og t.d. fiskimjölssamninginn en hann var algerlega í anda þess sem um var samið í lífskjarasamningum. Um aðra samninga væri lítið að segja þar sem þeir væru á viðkvæmu stigi eins og viðræðurnar við stóriðjunnar en þeir samningar runnu út um áramótin.

Hins vegar kom fram í máli formanns að sveitafélagasamningarnir sem runnu út í lok mars á síðasta ári væru komnir á það stig að þolinmæði starfsmanna væri að þrotum komin enda liðnir tæpir 10 mánuðir frá því þeir runnu út. Ekki væri hægt að útiloka að til verkafallsátaka kæmi hjá félaginu til að knýja fram nýjan samning. En rétt er að geta þess að félagið er ekki að fara fram á neitt meira en það sem um var samið í lífskjarasamningum og því ótrúlegur sá dráttur sem hefur verið á því að fá nýjan samning við Samband íslenskra sveitafélaga.

Formaður fór einnig fyrir innheimtu og dómsmál sem félagið er með í gangi en það kom fram í máli formanns að honum sé það til efs að nokkurt stéttafélag sé með jafnmörg dómsmál og VLFA en það er yfirlýst stefna stjórnarfélagsins að ef minnsti vafi er á að verið sé að brjóta á réttindum okkar félagsmanna þá ver félagið þau réttindi með kjafti og klóm.

Í lokin nefndi formaður að félagið stæði mjög vel ekki bara félagslaga heldur einnig fjárhagslega og birtist það m.a. í því að félagið lætur félagsmenn ætíð njóta góðs af jákvæðri rekstrarafkomu birtast í fjölgun styrkja eða hækkun þeirra.

Í lok fundarins var öllum boðið uppá góðan fiskrétt að hætti Gunna Hó!

31
Dec

Aðalfundur sjómannadeildar VLFA haldinn í gær

Í gær var haldinn aðalfundur sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness, en auk venjubundina aðalfundastarfa var farið yfir komandi kjarasamninga við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

En eins og flestir sjómenn vita þá rennur kjarasamningur sjómanna út núna um áramótin, en fundarmenn voru sammála að töluvert erfitt yrði að ná saman nýjum samningi.

En fram kom á fundinum að sjómenn sem tilheyra sjómannadeild VLFA vilja leggja ofuráherslu á verðmyndun á sjávarafurðum, enda með ólíkindum sá gríðarlegi verðmunur sem er á milli Noregs og Íslands t.d. á makríl eins og fram kom í skýrslu frá Verðlagsstofu skiptaverðs.

Einnig kom fram á fundinum að það væri með ólíkindum að nánast allar stórútgerðir á Íslandi skuli komast upp með það að stofna sölufyrirtæki erlendis, nánast í þeim eina tilgangi að selja sjálfum sér fiskafurðir, en eftir að útgerðin hefur selt sjálfum sér er nánast órekjanlegt á hvaða fiskverði hann er seldur áfram til þriðja aðila.

Það var ánægjulegt að heyra þá sjómenn sem komu á fundinn lýsa yfir gríðarlegri ánægju með Verkalýðsfélag Akraness, hvað varðar að benda á þessa bláköldu staðreynd að allt bendi til þess að útgerðir séu að ástunda gríðarlegt svindl og svínarí á verðlagningu á uppsjávarafurðum.

Það kom líka fram að þeim fyndist undarlegt að einu aðilarnir sem eru að benda þessar brotlamir séu Verkalýðsfélag Akraness og Kári Stefánsson og þeim fannst ótrúlegt að Sjómannasamband Íslands skili ekki hafi komið sterkt inní þessa umræðu um verðlagsmálin.

Formaður gat ekki svarað af hverju forysta SSÍ hefur ekki tekið þátt í því á opinberum vettvangi að gagnrýna þetta fyrirkomulag og kalla eftir opinberi rannsókn eins og Verkalýðsfélag Akraness hefur margoft gert.

Formaður VLFA sagði hins vegar að hann ætti í mjög góðu sambandi við forystu SSÍ og hann væri viss um að þeir séu á sömu blaðsíðu og við hvað varðar að finnast þessi verðlagsmál þarfnist opinbera rannsóknar.

Einn fundarmanna nefndi að hann hafi verið að horfa á Alþingi og heyrt sjávarútvegsráðherra segja að hann ætlaði að skipa opinbera rannsóknarnefnd um þann gríðarlega verðmun sem er á milli Noregs og Íslands hvað uppsjávarafurðir varðar. En sjávarútvegsráðherra nefndi að þetta ætlaði hann að gera vegna athugsemda frá Verkalýðsfélagi Akraness um þessi mál, hins vegar óttast fundarmenn að þessi nefnd verði í raun ekki óháð.

Þetta var fínn fundur, en sjómenn lögðu einnig mikla áherslu á að fá einnig 3,5% lífeyrisframlag eins og annað launafólk en að öðru leiti leyst sjómennum nokkuð vel á þau kröfugerðardrög sem formaður kynnti fyrir fundarmönnum.

26
Dec

Aðalfundur sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness

Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness minnir félagsmenn sem tilheyra deildinni á aðalfund sjómannadeildar sem haldinn verður mánudaginn 30. desember klukkan 14:00 í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13.

Dagskrá:

  • Venjubundin aðalfundarstörf
  • Komandi kjarasamningar 
  • Önnur mál.

Félagsmenn í sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness eru eindregið hvattir til að mæta

25
Dec

Hækkun á hámarki einstaklingsstyrkja vegna námsstyrkja

Stjórnir sjóðanna Landsmenntar, Sjómenntar, Ríkismenntar og Sveitamenntar sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að samþykktu nú í desember að hækka hámark einstaklingsstyrkja úr 100 þúsund í 130 þúsund.

Samþykkt er að hækka um næstu áramót hámark einstaklingsstyrkja í kr. 130.000.- þar með hækkar einnig hámark á uppsöfnuðum rétti til styrks í kr. 390.000.

Hækkunin tekur gildir frá 1.janúar 2020 og gildir gagnvart því námi sem hefst frá og með þeim þeim tíma.

25
Dec

Þriðji samningafundurinn vegna kjarasamnings Norðuráls var haldinn á Þorláksmessu

Þriðji samningafundur vegna kjarasamnings Verkalýðsfélags Akraness við Norðurál var haldinn á Þorláksmessu en á þessum fundi var farið vítt og breitt yfir kröfugerðina.

Fram kom hjá forsvarsmönnum Norðuráls að þeim fyndist reynslan af því að tengja launavísitöluna við launabreytingar hafa ekki komið „vel“ út fyrir fyrirtækið og að þeir hækkanir sem þar hefðu komið séu mun hærri en gerst hefur hjá sambærilegum fyrirtækjum í orkusæknum iðnaði.

Fram kom einnig í máli þeirra að þeim fyndist undarlegt að koma með töluverðar kröfur um upphafs launahækkanir, á sama tíma og launavísitölutengingin sé á samningstímanum búin að tryggja starfsmönnum allt launaskrið á íslenskum vinnumarkaði.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði á fundinum að það sé rétt að launavísitölutengingin sé búin að reynast starfsmönnum farsæl, en það sé hins vegar morgunljóst að þetta sé aðalkrafa starfsmanna að viðhalda henni áfram. Það kom einnig fram hjá formanni að ekki komi til greina að breyta viðmiðinu í launavísitölunni.

Samþykkt var að næsti samningafundur verði 6. janúar og á þeim fundi komi forsvarsmenn Norðuráls með tilboð til stéttarfélaganna, en samningsaðilar eru sammála að stefna á að ljúka við kjarasamningsgerðina eigi síðar en 15. janúar. Nú er bara að sjá hvort það takist eða ekki.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image