• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Apr

Fimmtán starfsmönnum hjá Vigni G. Jónssyni sagt upp störfum

Rétt í þessu var Verkalýðsfélagi Akraness tilkynnt um hópuppsögn hjá fyrirtækinu Vignir G. Jónsson ehf. En 15 manns var sagt upp sem eru um 35% af öllum starfsmönnum fyrirtækisins.

Fyrirtækið Vignir G. Jónsson hefur unnið við vinnslu á ýmsum hrognum en vegna markaðsaðstæðna og loðnubrests síðustu tvö ár eru ástæður þessara uppsagna.

Rétt er að rifja upp að fyrirtækið Skaginn3X sagði upp 43 starfsmönnum fyrir síðustu mánaðarmót.

Þessi uppsögn hjá Vigni G. Jónssyni eru enn eitt risahöggið sem við Akurnesingar verðum fyrir hvað varðar atvinnumissi tengdum vinnslu sjávarafurða en formanni reiknast til að uppundir 300 fiskvinnslustörf hafi tapast í byggðarlaginu á síðustu tveimur og hálfa ári eða svo.

En eins og flestir vita töpuðust öll störf þegar HB Grandi ákvað að hætta vinnslu hér á Akranesi, á svipuðum tíma misstu allir vinnuna hjá hausaþurrkunarfyrirtækinu Laugafiski og fyrir tveimur mánuðum varð fiskvinnslufyrirtækið Ísfiskur gjaldþrota og núna ofan á þetta allt missa 35% starfsmanna hjá Vigni G. Jónssyni vinnuna.

Það er óhægt að fullyrða að staðan á íslenskum vinnumarkaði sé vægast sagt hrollvekjandi, en uppundir 56 þúsund manns eru búnir að missa vinnuna að fullu eða að hluta til. Formaður viðurkennir að hann hefur svo sannarlega áhyggjur af komandi mánuðum í ljósi þess gríðarlega tekjufalls sem launafólk er og á eftir að verða fyrir á næstu mánuðum.

Formaður er ekki í neinum vafa um að það verður að finna leiðir til að verja þau störf sem eftir eru á íslenskum vinnumarkaði með öllum tiltækum ráðum sem og réttindi sem Lífskjarasamningurinn tryggði. En núna eru eins og áður sagði um 56 þúsund manns af 140 þúsundum sem starfa á hinum almenna vinnumarkaði búnir að missa vinnuna að fullu eða að hluta eða sem nemur um 40%

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image