• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Apr

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að standa vörð um heimilin og launafólk

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að standa vörð um heimilin og launafólk vegna óvissunnar sem nú ríkir vegna Kórónufaraldursins.

 

  • Stjórn Verkalýðsfélag Akraness vill að þak verði sett á vísitölu neysluverðs við útreikning á verðtryggðum húsnæðislánum, í ljósi þess að samfélagið er hugsanlega að sigla inní eina dýpstu efnahagslægð síðustu 100 ára.
  • Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að tryggja að íslensk heimili eigi kost á að sækja um greiðsluhlé, bæði hvað varðar afborganir af lánum, sem og leigu húsnæðis í allt að eitt ár.
  • Stjórn Verkalýðsfélag Akraness skorar á að stjórnvöld að standa við loforð sín sem gerð voru samhliða Lífskjarasamningum er lúta að nýjum hlutdeildarlánum, sem og bann á 40 ára verðtryggðum húsnæðislánum.
  • Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að þau beiti sér af fullum þunga fyrir því að fjármálakerfið skili stýrivaxtalækkun Seðlabankans að fullu til neytenda og fyrirtækja.
  • Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að tryggja afkomu launafólks sem t.d. eru með undirliggjandi sjúkdóma og falla ekki undir lög um hlutabætur eða um laun í sóttkví.

Greinargerð:

Óvissan í íslensku efnahagslífi sem og óvissan á íslenskum vinnumarkaði kallar á að heimilin verði varin fyrir hugsanlegu verðbólguskoti. Það er ekki bara að óvissa um þessa þætti heldur liggur einnig fyrir að grunnur neysluvísitölunnar er svo bjagaður að vart er mark á neysluvísitölunni takandi, enda fjöldinn allur af undirvísitölum neysluvísitölunnar orðin óvirkur vegna gjörbreytts neyslumynstur almennings. Íslensk heimili eiga að njóta vafans við þessar fordæmalausu aðstæður og því á að festa neysluvísitöluna við neðrivik mörk verðbólgumarkmiða Seðlabankans. Það er mat stjórnar VLFA að hér fari ekki saman hljóð og mynd hjá stjórnvöldum og Seðlabankanum, enda lítið mál að setja slíkt þak á neysluvísitöluna til varnar heimilunum ef ekki sé gert ráð fyrir að á slíkt þak muni reyna á. Stjórn VLFA trúir ekki öðru en að núverandi stjórnvöld tryggi að fortíðarvandi verðtryggingar eins og gerðist í hruninu verði ekki látið raungerast með skelfilegum afleiðingum fyrir íslensk heimili.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Nú liggur fyrir að uppundir 50 þúsund einstaklingar eru komnir að fullu eða að hluta á atvinnuleysisbætur með tilheyrandi tekjuskerðingum og á þeirri forsendu er afar mikilvægt að heimilum sem þess þurfa verði boðið uppá að taka greiðsluhlé í allt að 12 mánuði til að forða fólki frá því að missa húsnæði sín. Hægt er að setja afborganir sem safnast upp á umræddu tímabili ofan á höfuðstólinn og lengja í lánum þeirra til jafns við greiðsluhléið sem viðkomandi nýtir sér.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Í Lífskjarasamningunum skuldbundu stjórnvöld sig með aðgerðapakka þar sem m.a. var loforð um að koma til móts við fyrstukaupendur með svokölluðum hlutdeildarlánum. Það er afar mikilvægt að koma þessu frumvarpi í gegn enda mun það örva byggingarmarkaðinn og hjálpa fyrstukaupendum eða eignast þak yfir höfuðið. Það var líka loforð um að banna hinn baneitraða kokteill sem 40 ára verðtryggðu jafngreiðslulán en núna er tækifærið að stíga þau skerf samhliða frumvarpinu um hlutdeildarlánin.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Eitt af aðalmarkmiðum Lífskjarasamningsins var að semja með þeim hætti að hægt yrði að ná niður vaxtastiginu til að auka ráðstöfunartekjur heimilanna og fyrirtækja. Það tókst en stýrivextir Seðlabankans voru 4,5% þegar Lífskjarasamningarnir voru undirritaðir en eru í dag 1,75% og hafa því lækkað um 2,75%. Það sorglega í þessu er að bæði viðskiptabankarnir og lífeyrissjóðirnir hafa því miður einungis skilað litlum hluta af þessari vaxtalækkun til neytenda og fyrirtækja og því mikilvægt að stjórnvöld grípi inní og krefji fjármálageirann að skila vaxtalækkuninni í meira mæli til heimila og fyrirtækja.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Það eru mjög margir sem eiga hvorki rétt á launum vegna þess að þau falla ekki undir lög um hlutabætur né lög um laun í sóttkví, vegna þess að það er með undirliggjandi sjúkdóma, eða eru með langveik börn og framvegis að fara í sjálfskipaða sóttkví. Þessum hópi mega stjórnvöld alls ekki gleyma í þeim úrræðum sem á eftir að kynna.

____________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________________

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image