• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Mar

Sexándi samningafundurinn hjá ríkissáttasemjara haldinn í gær

Í gær var haldinn sextándi samningafundur Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðsfélags Grindavíkur, VR, Framsýnar, Eflingar, og LÍV var haldinn hjá ríkissáttasemjara í gær í kjaradeilu félaganna við Samtök atvinnulífsins.

Á þessum fundi lögðu forsvarsmenn Samtaka atvinnulísins  fram tölur í launaliðnum ásamt öðrum hugmyndum að nýjum kjarasamningi og eftir dágóða yfirlegu áðurnefndara stéttarfélaga var ákveðið að leggja til að gerð yrði krafa um að gera atlögu að nýjum samningi næstu daga.

En rétt er að geta þess að það var gert með nokkrum skilyrðum af hálfu stéttarfélaganna er lýtur að því að öllum hugmyndum um vinnutímabreytingar sem hefðu leitt til tekjuskerðinga hjá okkar félagsmönnum var endanlega ýtt útaf samningsborðinu.

Eftir þessa nálgun var samþykkt að VR og Efling myndu aflýsa tveggja daga verkfalli sem átti að hefjast á miðnætti og var ákveðið að funda aftur í dag og hefst fundurinn klukkan 13.00

28
Mar

Hæstiréttur-trúnaðarmenn njóta lakari réttarstöðu!

Í gær fell dómur í Hæstarétti í máli félagsins gegn Skaganum 3x. Málið laut að starfsmanni sem var trúnaðarmaður og átti inni lágmarksréttindi sem lutu að lágmarkshvíldartímum og svokölluðum vikulegum frídegi.

En Verkalýðsfélag Akraness hafði unnið málið fyrir Landsrétti þar sem starfsmanninum voru dæmdar rúmlega ein milljón vegna þessara lágmarkshvíldar og vikulega frídags.

Eftir dóm Landsréttar óskuðu forsvarsmenn Skagans 3x. eftir því að málinu yrði áfrýjað til Hæstaréttar á grundvelli þess að trúnaðarmaðurinn hafi sýnt af sér tómlæti við fylgjast með sínum réttindum. Vildi Skaginn 3x  meina að um fordæmisgildi gæti verið um að ræða þar sem um trúnaðarmann væri um að ræða og hann ætti að hafa mun betri stöðu til að átta sig á að verið væri að „brjóta“ á honum en hinn almenni starfsmaður.

Á óskiljanlegan hátt samþykkti Hæstiréttur þessa áfrýjun og er skemmst frá því að semja að meirihluti Hæstaréttar tók undir það með Skaganum 3x að trúnaðarmenn hefðu ekki sömu réttindi til að sækja rétt sinn ef verið væri að brjóta á réttindum þeirra eins og almennir starfsmenn.

Með öðrum orðum þá tapaði VLFA málinu á þessum forsendum og Hæstiréttur lét það algerlega ótalið að bæði Héraðsdómur og Landsréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að ráðningarsamningur starfsmanna væru ólöglegir enda var skýrt kveðið á í þeim að starfsmenn ættu ekki rétt að greiðslu á hvíldartímum því þeir væru á jafnaðarkaupi!

Einn dómari fyrir Hæstarétti skilaði séráliti sem er algerlega í anda dóms Landsréttar en í þessu séráliti er tekið undir allar kröfur Verkalýðsfélags Akraness. Í þessu séráliti segir m.a orðrétt:

„Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi ver ráðningarsamningur þessi í andstöðu við 7. Gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og 1. Gr. nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda“  Þetta þýðir á mannamáli eins og áður hefur komið fram að ráðningarsamningurinn sem starfsmaðurinn var með var ólöglegur!

Einnig segir í þessu séráliti orðrétt:

Hvíli á áfrýjanda sem atvinnurekenda sú afdráttarlausa skylda að virða þau lágmarksréttindi til hvíldar starfsmanna sinna sem sérstaklega eru bundin í lög, sbr. 53. Og 54. Gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað og hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Eru réttindi þessi jafnframt tíunduð og útfærð í viðkomandi kjarasamningi, en þar segi meðal annars í 5. mgr. Greinar 2.8.2 kjarasamnings um uppgjör þeirra: "Við starfslok skal ónýttur frítökuréttur starfsmanns gerður upp og teljast hluti ráðningartíma“

Á þessu sést að dómur Hæstaréttar er kolrangur enda er hér um lágmarksréttindi sem á að gera upp við starfslok og krafa á hendur Skaganum 3x var gerð um leið og starfslok áttu sér stað og því fráleitt að sýkna Skagann 3x á grundvelli þess að starfsmaðurinn var trúnaðarmaður og hann hafi sýnt af sér tómlæti.

Þessi dómur er alvarleg aðför að trúnaðarmannakerfi verkalýðshreyfingarinnar, enda ljóst með þessum dómi að trúnaðarmenn njóta ekki sömu réttinda og almennir starfsmenn fyrir það eitt að gegna stöðu trúnaðarmanns.

Það er sorglegt að stór og öflug fyrirtæki skuli komast upp með að brjóta á réttindum starfsmanna sinna og komast hjá greiðslu á grundvelli þess að viðkomandi sýndi af sér tómlæti sem trúnaðarmaður.  Ömurleg skilaboð sem Hæstiréttur sendir íslensku launafólki með þessum dómi!

Það er ljóst að verkalýðshreyfingin verður að bregðast við þessum dómi í komandi kjarasamningum þannig að tryggt verði að trúnaðarmenn njóti ekki lakara réttarstöðu en almennir starfsmenn fyrir það eitt að gegna stöðu trúnaðarmanns.

26
Mar

Fimmtánda árangurslausa samningafundi hjá ríkissáttasemjara lokið.

Rétt i þessu lauk fimmtánda árangurslausa samningafundi Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðsfélags Grindavíkur, VR, LÍV , Framsýnar og Eflingar-stéttarfélags við Samtök atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara.

Það er orðið dálítið dapurlegt að forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins skuli enn og aftur víkja sér undan því að leggja tölur á launaliðnum á borðið gagnvart áðurnefndum stéttarfélögum í ljósi þess að nú eru liðnir þrír mánuðir frá því að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði runnu út.

Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins bera það nú fyrir sig ítrekað að ekki séu forsendur til að leggja fram tölur hvað launaliðinn varðar vegna þeirra óvissu sem uppi er vegna WOW air.

Stéttarfélögin gera sér algerlega grein fyrir þeirri stöðu sem uppi er varðandi WOW air en sú óvissa hefur verið uppi um allanga hríð og á því ekki að koma neinum á óvart. Hugur formanna stéttarfélaganna vegna þessara óvissu sem ríkir um atvinnuöryggi starfsmanna er hjá starfsmönnum WOW air og starfsmönnum sem starfa hjá fyrirtækjum sem eru að þjónusta flugfélagið.

Það vekur athygli formanna áðurnefndra stéttarfélaga að sú sviðsmynd sem forsvarsmenn SA draga upp ef WOW air fer í þrot endurspeglar alls ekki þá sviðsmynd sem t.d. Björgólf­ur Jó­hanns­son, fyrr­ver­andi for­stjóri Icelanda­ir, sagði í sam­tali við mbl.is. En orðrétt sagði hann:

Það er orðið ljóst að WOW air er orðið helm­ing­ur­inn af því sem að var þannig að áhrif­in eru kom­in fram. Ég velti því fyr­ir mér hvort verið sé að mála skratt­ann á vegg­inn í þessu sam­bandi,“

Formaður VLFA ítrekar að vissulega verður það skellur fyrir starfsfólkið ef það missir lífsviðurværi sitt vegna þess að WOW air fari í þrot og hugur okkar verður að sjálfsögðu hjá þeim ef til þess kemur en það liggur fyrir að um tímabundið áfall verður um að ræða fyrir efnahagslífið í heild sinni.

Rétt er líka að geta þess að formaður VLFA sagði á fundinum í morgun að hugur hans væri líka hjá íslenskum heimilum því ef þessar sviðmyndir væru réttar þá mættu íslensk heimili eiga von á því að verðtryggðar skuldir þeirra myndu hækka á skömmum tíma um allt að 60 milljarða.

Þetta sýndi hverslags skaðvaldur íslensk verðtrygging er fyrir almenning og heimili, sem endurspeglast í því að ef eitt fjólublátt lítið flugfélag fer í þrot þá geti verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað um allt að 60 milljarða vegna falls íslensku krónunnar.

Það er algjörlega fráleitt hjá forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins að halda kjaraviðræðum tugþúsunda launamanna í gíslingu vegna þeirra óvissu, óvissu sem launafólk ber ekki nokkra ábyrgð á og vegna tímabundina áhrifa sem hlytist af gjaldþroti fyrirtækisins.

Rétt er að geta þess að næsti fundur hefur verið boðaður á morgun klukkan 14:00 hjá ríkissáttasemjara

25
Mar

Fjórtánda samningafundi hjá ríkissáttasemjara lokið

Rétt i þessu lauk fjórtánda samningafundi Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðsfélags Grindavíkur, VR, LÍV og Eflingar-stéttarfélags við Samtök atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara.

Það er óhætt að segja að afar lítið hafi komið út úr þessum samningafundi annað en það að áðurnefnd stéttarfélög hafa ítrekað óskað eftir að SA leggi fram tölu í launaliðnum til að hægt sé að meta hvort viðræðugrundvöllur sé til áframhaldandi samningaviðræðna.

En Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað vikið sér undan því að leggja fram tölur í launaliðnum og núna telja forsvarsmenn SA að sú óvissa sem uppi er hjá flugfélaginu WOW air geri það að verkum að þeir treysta sér ekki til að leggja neitt fram í þeim efnum fyrr en þeirri óvissu hafi verið eytt.

Það er rétt að geta þess að áðurnefnd stéttarfélög gera alls ekki lítið úr þeirri óvissu sem uppi er hvað varðar WOW air, enda liggur fyrir að óvissa er um störf þúsunda starfsmanna fyrirtækisins, sem eru margir í einhverjum af þeim stéttarfélögum sem nú eru í viðræðum við Samtök atvinnulífsins.

Það er einnig rétt að geta þess að forsvarsmenn stéttarfélagana hafa áhyggjur af því að ef WOW air lifir þetta ekki af þá muni verðbólgan geta farið af stað og félögin spyrja hvernig á að tryggja að verðtryggðar skuldir heimilanna aukist ekki um t.d. 34 milljarða ef verðbólgan eykst t.d. um 2% vegna falls WOW air?  Eða á bara að senda þannig reikning enn og aftur á heimilin sem bera ekki nokkra ábyrgð á rekstri viðkomandi flugfélags? 

Hins vegar liggur fyrir að það þarf að ganga frá kjarasamningi og það verkefni fer ekkert frá samningsaðilum, en erfið staða einstakra fyrirtækja á ekkert með að raska þeirri staðreynd. En í ljósi óvissunnar sem nú er uppi hvað WOW air varðar var ákveðið að fresta viðræðum til 10 i fyrramálið, en stéttarfélögin ítrekuðu mikilvægi þess að SA myndi leggja fram hugmyndir að launaliðnum á fundinum á morgun.

Einnig ítrekuðu félögin enn og aftur á fundinum í morgun að stéttarfélögin hafna með öllu þeim vinnutímabreytingum sem uppi hafa verið enda klárt mál að þær muni leiða til kjaraskerðingar hjá afar stórum hópi okkar félagsmanna.

23
Mar

Málflutningur fyrir Hæstarétti í máli félagsins gegn Skagnum var flutt í gær

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefndi Verkalýðsfélag Akraness fyrirtækinu Skaganum vegna grófra kjarasamningsbrota gagnvart einum af okkar félagsmönnum.

Málið vannst fyrir Landsrétti í október á síðasta ári.  En það er skemmst frá því að segja að Landsréttur var algerlega sammála Verkalýðsfélagi Akranes og lögmanni félagsins, enda var Skaginn dæmdur í dag til að greiða starfsmanninum rétt rúma eina milljón króna ásamt dráttarvöxtum frá 19. febrúar 2017 í vangöldin laun vegna hvíldartíma og vikulegs frídags. Skaginn var einnig dæmdur til að greiða eina milljón í málskostnað til Verkalýðsfélag Akraness.  Sjá dóm Landsréttar

Verkalýðsfélag Akraness átti nú von á því að forsvarsmenn Skagans myndu nú unna dómi Landsréttar, en sú var nú hinsvegar ekki raunin enda óskaði Skaginn eftir áfrýjunar leyfi til Hæstaréttar á grundvelli þess að umræddur starfsmaður hafi verið trúnaðarmaður og hafi á þeirri forsendu átt að hafa "meiri" vitneskju um að verið væri brjóta á réttindum sínum en almennur starfsmaður.

Það kom lögmanni og formanni Verkalýðsfélags Akraness á óvart að Hæstiréttur skyldi samþykkja áfrýjunar leyfi í þessu máli á grundvelli þess að um fordæmisgefandi mál væri að ræða þar sem um trúnaðarmann væri að ræða.

En málflutningur var í Hæstarétti í gær og er það mat formanns VLFA sem fór í Hæstarétt í gær til að hlusta á málflutning lögmannanna að Verkalýðsfélag Akraness hlýtur að vinna þetta mál fyrir Hæstarétti.  Enda myndi annað leiða það af sér að núverandi trúnaðarmannakerfi á íslenskum vinnumarkaði væri nánast lagt í rúst ef trúnaðarmenn þurfi að búa við það að tapa málum þegar verið væri verið að brjóta á réttindum þeirra fyrir það eitt að þeir hafi verið trúnaðarmenn.

Óbilgirni forsvarsmanns Skagans er löngu hætt að koma formanni Verkalýðsfélags Akraness á óvart, enda hefur eigandi Skagans ítrekað reynt að koma sér hjá því að greiða kjör eins og kjarasamningar kveða á um, en í því samhengi er VLFA nú þegar búið að fá Skagann dæmdan til að greiða kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest til starfsmanns sem fyrirtækið hafði hafnað að greiða.  En einnig er rétt að geta þess að Skaginn var bæði dæmdur í Héraðsdómi og Landsrétti fyrir að hafa verið með ólöglega ráðningarsamninga, enda brutu þeir í bága við lög um stéttarfélög og vinnudeilur.

Formaður telur að dómsuppkvaðning í þessu máli liggi fyrir í næstu eða þarnæstu viku.

23
Mar

Þrettándi fundurinn haldinn hjá ríkissáttasemjara

Á síðasta fimmtudag var haldinn þrettándi samningafundur Verkalýðsfélags Akraness, VR, Eflingar-stéttarfélags og Verkalýðsfélags Grindavíkur við Samtök atvinnulífsins.  En þessi fundur var haldinn í skugga þess að einungis örfáir klukkustundir voru þar til verkfall starfsmanna á hótelum og hópferðabílstjórum myndi skella á.

Rétt er að geta þess að fyrir þennan samningafund hjá ríkissáttasemjara voru fleiri félög búin að óska eftir að fá að koma inní okkar hóp, en það voru Framsýn stéttarfélag og Landssamband verslunarmanna og að sjálfsögðu var það samþykkt af félögunum fjórum .

Þessi samningafundur hjá sáttasemjara stóð yfir í níu klukkustundir og má segja að þetta hafi verið eiginlega fyrsta alvöru samtalið sem þessi stéttarfélög hafa átt við Samtök atvinnulífsins í þessari kjaradeilu.  Að því leytinu var þetta jákvæður fundur þótt en sé morgunljóst að mikið beri á milli deiluaðila.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa Samtök atvinnulífsins viljað taka upp mjög margar róttækar vinnustundabreytingar á íslenskum vinnumarkaði og munu sumar þessar hugmynda klárlega leiða til kjaraskerðingar hjá hluta okkar félagsmanna ef þessar hugmyndir yrðu að veruleika.

En þetta eru t.d. hugmyndir um að lengja dagvinnutímabilið um 2 tíma á dag, taka upp svokallað eftirvinnuálag og lengja í uppgjörstímbili á yfirvinnu.  Öllum þessum hugmyndum hafa áðurnefnd stéttarfélög hafnað algerlega, enda um kjaraskerðingu og réttindaeftirgjöf um að ræða.

Það er ljóst að mikið ber á milli aðila ennþá en mjög mikilvægt að halda samtalinu áfram, enda einungis nokkrir dagar þar til verkfallshrina númer 2 byrjar, en þá skella á tveggja daga verkföll hjá sömu hópum á höfuðborgarsvæðinu og nefndir voru hér að ofan .

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá setti ríkissáttasemjari algert fjölmiðlabann um  hvað er verið að ræða um á fundum hjá sáttasemjara og samkvæmt lögum verða deiluaðilar að virða þá ákvörðun sáttasemjara í hvívetna.

Næsti fundur hjá ríkissáttasemjara verður á mánudaginn kemur en um helgina verða hinsvegar vinnufundir hjá stéttarfélögunum m.a. yfirferð á hinum ýmsu greinum í kjarasamningum sem þarf að breyta.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image