• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Mar

Afhverju eru ekki viðræður við Samtök atvinnulífsins?

Það er þyngra en tárum taki að ekkert hafi þokast í samkomulagsátt í kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness,  Verkalýðsfélagi Grindavíkur, VR og Eflingu stéttarfélags í ljósi þess að nú er að verða liðnir tveir og hálfur mánuður frá því að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði runnu út.

Það er einnig rétt að geta þess að það eru að verða liðnir fimm mánuðir frá því að þessi stéttarfélög afhentu Samtökum atvinnulífsins kröfugerð sína, kröfugerð sem byggist á því að auka verulega ráðstöfunartekjur þeirra sem eru á lægstu launatöxtunum í samfélaginu.

Þessi stéttarfélög hafa ætíð litið á að hægt væri að auka ráðstöfunartekjur tekjulægstu hópanna með þríhliða samkomulagi verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og stjórnvalda, enda er allt samfélagið á Íslandi sammála að lagfæra verði kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Það er eins og áður sagði þyngra en tárum taki í ljósi þess að einungis 8 dagar eru þar til verkföll hjá Eflingu og VR hefjast og ekkert samtal á sér stað. En margir spyrja sig af hverju er ekkert samtal að eiga sér stað við áðurnefnd stéttarfélög.

Í því ljósi er gríðarlega mikilvægt að almenningur og atvinnurekendur vítt og breitt um landið viti að ástæða þess að ekkert samtal er að eiga sér stað á milli þessara félaga er krafa Samtaka atvinnulífsins um róttækar breytingar sem SA vill gera á íslenskum vinnumarkaði. Breytingar sem lúta að t.d. að því að lengja dagvinnutímabilið um tvo tíma á dag og breyta deilitölu í vinnutímanum sem leiðir til lægri yfirvinnuprósentu og einnig að taka upp svokallað eftirvinnuálag.

Öllum þessum atriðum hafa áðurnefnd stéttarfélög ítrekað hafnað í viðræðum við Samtök atvinnulífsins og hafa meira segja látið bóka það hjá ríkissáttasemjara að þessum hugmyndum sé alfarið hafnað. Þrátt fyrir það byrja fulltrúar Samtaka atvinnulífsins alltaf á því að ræða þessar hugmyndir aftur og aftur þrátt fyrir skýlausa höfnun félaganna á þessum hugmyndum.

Eftir að stéttarfélögin fjögur höfnuðu þessum hugmyndum enn og aftur ákváðu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins að hætta að ræða við áðurnefnd stéttarfélög og hafa því einhent sér í að ræða við Starfsgreinasamband Íslands, Iðnaðarmenn og Landssamband verslunarmanna og hafa fundað nánast alla daga hjá ríkissáttasemjara í rúmar tvær vikur.

Eftir upplýsingum sem Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindarvíkur, VR og Eflingar hafa aflað sér þá eru þessar vinnustundarbreytingar að einhverju leyti til umræðu hjá þeim félögum sem eru að ræða við Samtök atvinnulífsins í húsakynnum ríkissáttasemjara.

Eins og áður sagði þá kemur það ekki til greina að fara í viðræður um þessar róttæku breytingar á vinnufyrirkomulagi á íslenskum vinnumarkaði í þessum kjarasamningum, enda kemur alls ekki til greina að íslenskt verkafólk kaupi að hluta sínar launahækkanir sjálft í gegnum þessar breytingar t.d. með tveggja tíma lengingu á dagvinnutímabilinu sem myndi leiða til þess að vaktaálagstímar vaktavinnufólks fækki með tilheyrandi tekjuskerðingu. Þetta er galin hugmynd sem þessi félög munu aldrei taka þátt í.

Enn og aftur er mikilvægt að almenningur, félagsmenn okkar og líka atvinnurekendur átti sig á því að ástæða þess að viðræður eru ekki að eiga sér stað á milli okkar er þessi botnlausa krafa Samtakanna um að við föllumst á þessar breytingar.

Ég hef tekið Þátt í kjarasamningsgerð í 14 ár og hef aldrei áður lent í því að atvinnurekendur komi aftur og aftur með kröfur að borðinu sem hefur verið hafnað af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, en það hafa fulltrúar SA ítrekað gert í þessum viðræðum.

Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur, VR og Efling stéttarfélag eru svo sannarlega tilbúið að setjast að samningsborði og leysa þessa deilu enda fullur samningsvilji til staðar. En það verður alls ekki gert með afar kostum Samtaka atvinnulífsins um róttækar breytingar á vinnumarkaðnum sem byggjast á því að launafólk kaupi sínar launahækkanir dýru verði!

14
Mar

Formaður fundar í samstarfsnefnd milli Sambands íslenskra sveitafélaga og VLFA

Verkalýðsfélag Akraness vísaði ágreiningi um túlkun á réttindarávinnslu til greiðslu á orlofs-og desemberuppbótum hjá tímakaupsfólki til samstarfsnefndar Sambands íslenskra sveitafélaga og Verkalýðsfélags Akraness. Einnig var VLFA búið að vísa ágreiningi til samstarfsnefndarinnar um að tímakaupsfólk hjá sveitafélögum ætti ekki rétt á eingreiðslu vegna þess að síðasti kjarasamningur var látinn gilda þremur mánuðum lengur. En þessi eingreiðsla kom til útborgunar 1. febrúar og fengu allir starfsmenn hana nema tímakaupsfólk.

Þetta telur Verkalýðsfélag Akraness fráleidda túlkun hjá Sambandi íslenskra sveitafélaga enda ljóst að bæði fólk í föstu starfshlutfalli og tímakaupfólk sem varð fyrir fjárhagslegum skaða með því að lengja í samningum um þrjá mánuði.

Í gær átti formaður fund í samstarfsnefnd Sambands íslenskra sveitafélaga og Verkalýðsfélags Akraness en það er vettvangur þar sem svona ágreiningsmál eru tekin fyrir og var niðurstaða samstarfsnefndar að aðilar voru sammála um að fjalla um viðeigandi ákvæði í kjarasamningi í komandi kjarasamningum þar sem fundin verði lausn á þessu ágreiningsefni er lýtur að ávinnslu tímakaupsfólks til greiðslu á orlofs-og desemberuppbótum. Voru aðilar sammála um að þar sem fólk vinnur eingöngu yfirvinnu vegna eðli starfsins þá þurfi að finna réttláta niðurstöðu við þá ávinnslu.

Varðandi eingreiðsluna þá óskaði Samband Íslenskra sveitafélaga að afgreiðslu á því máli yrði frestað í nokkra daga til að afla frekari gagna til upplýsinga. En formaður VLFA tjáði fulltrúum Sambands íslenskra sveitafélaga að þetta mál myndi enda fyrir dómstólum ef tímakaupsfólk yrði ekki afgreitt með sama hætti og fólk í föstu starfshlutfalli þegar kæmi að umræddri eingreiðslu.

08
Mar

Tólfti fundurinn hjá ríkissáttasemjara haldinn í gær

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá slitu Verkalýðsfélag Akraness, Grindavíkur, VR og Efling- stéttarfélag kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara 21. febrúar síðastliðinn.

Í gær var haldinn sáttafundur milli samningsaðila en sá fundur var boðaður á grundvelli laga sem byggist á því að ríkissáttasemjari ber að boða til fundar að lágmarki 14 daga fresti á milli deiluaðila til að taka stöðuna.

Á fundinum í gær kom svo sem ekkert nýtt fram annað en það að SA hefur átt í þéttum viðræðum við SGS en samflotsfélögin er ekki kunnugt um hvað sé verið að ræða nákvæmlega í þeim viðræðum.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni og á opinberum vettvangi þá hafna félögin fjögur alfarið öllum hugmyndum er lúta að vinnutímabreytingum eða svokölluðum yfirhellingum á milli yfirvinnu og dagvinnu.

Það er ljóst að viðræðurnar eru í algjörum hnút en megin krafa stéttarfélaganna er að hækka ráðstöfunartekjur lágtekju- og lægri millitekjuhópanna þannig að hægt sé að lifa af þeim frá mánuði til mánaðar en slíku er alls ekki til að dreifa í dag.

Einnig er það algjör krafa áðurnefndra félaga að samið verði í krónutöluhækkunum en alls ekki í prósentum enda eru prósentur aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gerir ekkert annað en að auka á misskiptingu í íslensku samfélagi.

Ekki hefur verið boðað til annars fundar af hálfu ríkissáttasemjara.

07
Mar

Aðalmálflutningur fyrir Héraðsdómi Vesturlands gegn Hval hf. flutt í gær

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá vann Verkalýðsfélag Akraness mál gegn Hval hf. fyrir félagsmann sinn en málið vannst bæði fyrir Héraðsdómi Vesturlands og Hæstarétti en endalegur dómur fyrir Hæstarétti var kveðinn upp 14. júní 2018.

Rétt er að geta þess áður en lengra er haldið að Verkalýðsfélag Akraness ákvað að fara með eitt mál sem prófmál fyrir dómstóla til að láta á það reyna hvort félagið hefði rétt fyrir sér um að Hvalur væri að brjóta á starfsmönnum.  Það er einnig rétt að geta þess að þau túlkunaratriði sem farið var með fyrir dómstóla voru í öllum atriðum eins hjá öllum starfsmönnum enda ráðningarsamningar starfsmanna allir eins.

Aðalkrafa félagsins sem staðfest var í Hæstarétti byggðist á því að í ráðningarsamningi starfsmanna er getið um að fyrir hverja 12 tíma vakt séu greiddar 33.142 kr. á virkum dögum og 36.997 kr. fyrir helgarvaktir.

Í öðrum lið í ráðningarsamningi starfsmanna kveður á um að í sérstakri greiðslu séu greiddar 5.736 kr. fyrir hverja 12 tíma vakt vegna skerðingar á frítökurétti og vegna ferða til og frá vinnustað.

Ágreiningurinn laut að því að Hvalur hf. vildi meina að þessi sérstaka greiðsla upp á 5.736 kr. fyrir hverja vakt vegna skerðingar á hvíldartíma og ferða til og frá vinnustað hafi verið inni í vaktakaupinu, en dómurinn tók undir það með VLFA að starfsmenn hefðu klárlega mátt skilja ráðningarsamninginn þannig að þessi greiðsla væri til viðbótar vaktarkaupinu.

Ein af kröfum félagsins til viðbótar aðalkröfunni um sérstöku greiðsluna var að þegar starfsmaður hefur unnið samfellt í sjö daga, eigi hann rétt til greiðslu á 8 tímum í dagvinnu vegna skerðingar á vikulegum frídegi. En í grein 2.4.3 í kjarasamningi SGS og SA segir að á hverju sjö daga tímabili skal starfsmaður hafa a.m.k einn vikulegan frídag.

Hvalur hf. vildi meina að hvergi í kjarasamningum væri kveðið á um að greiða ætti fyrir dagvinnu aukalega þó vikulegur frídagur væri ekki tekinn. Hæstiréttur tók undir þessi sjónarmið Hvals hf. en sagði hins vegar að það væri á ábyrgð fyrirtækisins að starfsmaðurinn fengi umræddan vikulega frídag og því bæri Hval hf. að greiða starfsmanninum 8 tíma í dagvinnu fyrir þá daga þar sem vinna var meira en sjö dagar samfellt.

Með þessu hefur Hæstiréttur kveðið upp með afgerandi hætti að ef launafólk vinnur meira en sjö daga samfellt þá beri atvinnurekendum að greiða 8 tíma í dagvinnu fyrir hverja sjö daga sem unnir eru samfellt.  En orðrétt segir í dómi Hæstaréttar:  Enda þótt ekki sé gert ráð fyrir að umræddir frídagar séu launaðir er ljóst að aðaláfrýjandi bar ábyrgð á því að gagnáfrýjandi fegni þá lágmarkshvíld sem í kjarasamningum greinir. Þar sem hann fór ekki að kjarasamningi að þessu leyti verður honum gert að greiða gagnáfrýjanda dagvinnulaun vegna þessara daga" 

Þetta var algjör tímamótadómur hvað þetta varðar, enda hæstiréttur búinn að kveða endanlega upp að greiðsluskylda atvinnurekanda er til staðar ef starfsmaður vinnur meira en sjö daga samfellt og fær ekki umræddan vikulega frídag.

Það var strax ljóst að þessi dómur hefur klárlega fordæmisgildi gagnvart öllum þeim starfsmönnum sem unnu hjá Hval hf. á vertíðunum 2013, 2014 og 2015 en dómurinn getur náð til allt að 200 starfsmanna eða svo. Það er erfitt að segja nákvæmlega hversu mikið fordæmisgildi þessi dómur hefur í krónum talið, en það má alveg áætla að hagsmunir allra starfsmanna geti numið allt að 400 milljónum.

Eftir að þessi fordæmisgefandi Hæstaréttardómur féll 14. júní í fyrra eygði formaður Verkalýðsfélag Akraness þá von að siðferðiskennd forstjóra Hvals væri þannig að hann myndi una niðurstöðu Hæstaréttar og leiðrétta vangreidd laun allra starfsmanna sem hefðu verið hlunnfærðir samkvæmt dómnum fyrir hvalvertíðarnar 2013, 2014 og 2015.

Nei, siðferðisvitund forstjóra Hvals var ekki á þeim stað að viðurkenna og una niðurstöðu Hæstaréttar þrátt fyrir að allir starfsmenn séu með eins ráðningarsamninga sem deilt var um.  Forstjóri Hvals hafnaði að leiðrétta laun allra starfsmanna og á þeirri forsendu varð Verkalýðsfélag Akraness að stefna Hval aftur fyrir dómstóla og nú fyrir hönd allra félagsmanna sinna. 

Aðalmálflutningur í því máli var í gær fyrir Héraðsdómi Vesturlands en núna var eina málsvörnin hjá forsvarsmönnum Hvals að starfsmenn hefðu sýnt af sér tómlæti með því að hafa ekki gert athugasemdir við að sérstaka greiðslan hafi ekki verið greidd og vegna skerðingar á svokölluðum vikulegum frídegi.

Það er þyngra en tárum taki að forstjóri Hvals ætli að reyna að koma sér undan að greiða starfsmönnum vangreidd laun sem Hæstiréttur hefur dæmt fyrirtækinu að greiða einum starfsmanni en ítreka að allir ráðningarsamningar starfsmanna eru eins.

Það er eins og áður sagði dapurlegt að fyrirtækið ætli sér að reyna að víkja sér undan dómi Hæstaréttar og bera fyrir sig tómlæti starfsmanna en starfsmenn höfðu ekki hugmynd að fyrirtækið væri að hlunnfara þá samkvæmt ákvæðum í ráðningarsamningi.

Í málflutningsræðu lögmanns Verkalýðsfélags Akraness kom skýrt fram að ekki er hægt að krefjast tómlætis starfsmanna í ljósi þess að þeir höfðu ekki hugmynd um að verið væri að brjóta á réttindum þeirra.  Tómlæti getur ekki átt við að okkar mati nema starfsmenn hafi vitað að verið væri að brjóta á réttindum þeirra og þeir hafi ekkert aðhafst fyrir en mörgum árum seinna.

Það yrði slæmt fordæmi ef dómstólar myndu taka undir sjónarmið Hvals um tómlæti því þá myndi það þýða að atvinnurekendur gætu ástundað að brjóta vísvitandi á réttindum starfsmanna með von um að þeir myndu ekki átta sig á brotunum fyrr en of seint og komast þannig hjá því að fara eftir gildandi kjarasamningum og ráðningarsamningum.

Formaður er vongóður um að félagið vinni þetta mál enda getur eins og áður sagði ekki verið um tómlæti að ræða hjá starfsmönnum sem vissu ekki að verið væri að brjóta á rétti þeirra, en um leið og það uppgötvaðist árið 2015 var farið í að leita réttar fyrir dómstólum.

Dómur mun væntanlega falla eftir fjórar til sex vikur.

01
Mar

Stjórn Verkalýðsfélag Akraness samþykkir að kosið verði um allsherjarverkfall

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hefur ákveðið að láta fara fram allsherjaratkvæðagreiðslu um verkfallsboðun meðal félagsmanna sinna sem heyra undir kjarasamning sem félagið á við Samtök atvinnulífsins vegna veitinga-, gisti-, þjónustu og greiðasölustaða, afþreyingarfyrirtækja og hliðstæðrar starfsemi.

Atkvæðagreiðslan mun hefjast 29. mars og og standa til 5. apríl og ef kosning um verkfall verður samþykkt mun allsherjarverkfall þeirra sem heyra undir áðurnefndan kjarasamning skella á 12. apríl.  Rétt er að geta þess að þessi kosning um verkfallsboðun er partur af aðgerðaplani sem stéttarfélögin fjögur standa sameiginlega að.

Verkalýðsfélag Akraness mun auglýsa kosninguna og önnur útfærsluatriði þegar nær dregur kosningunni.

27
Feb

Verkalýðsfélag Akraness styður heilshugar boðaðar verkfallsaðgerðir Eflingar stéttarfélags á hótelum á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars nk. 

Verkalýðsfélag Akraness styður heilshugar boðaðar verkfallsaðgerðir Eflingar stéttarfélags á hótelum á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars nk. 

Samningaviðræður VR og Eflingar ásamt Verkalýðsfélagi Akraness og Verkalýðsfélagi Grindavíkur báru engan árangur og tilboð Samtaka atvinnulífsins um launahækkanir, sem þýða ekki annað en kaupmáttarrýrnun fyrir stærstan hluta félagsmanna, er algjörlega óásættanlegt. Ekkert frekar liggur á borðinu og því er rökrétt næsta skref félaganna að beita verkfallsvopninu í þeirri von að viðsemjendur okkar komi aftur að samningaborðinu með réttlátara hugarfari.

Efling ríður á vaðið með sérstakri vinnustöðvun þann 8. mars en í framhaldi af því eru boðaðar samræmdar verkfallsaðgerðir félaganna.

Stöndum saman!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image