• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Feb

Fyrsti samningurinn undirritaður í húsakynnum Ríkissáttasemjara

Klukkan 9 í morgun var undirritaður sérkjarasamningur á milli VLFA og Samtaka atvinnulífsins vegna starfa í fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi.

Þetta er væntanlega fyrsti samningurinn sem hefur verið undirritaður hjá ríkissáttasemjara í þessari samningslotu sem nú stendur yfir. Hækkanir á launaliðum samningsins eru með sama hætti og fyrirhugaður er á hinum almenna vinnumarkaði, þ.e.a.s. 18.000 kr. hækkun gildir frá 1. febrúar 2008, 13.500 kr. frá 1. mars 2009 og 6.500 kr. frá 1. mars 2010.

Einnig var samið um ýmis önnur sérmál sem lúta að verksmiðjunni.

Kosið verður um samninginn á morgun.

14
Feb

Vel miðar áfram við gerð nýs kjarasamnings

Aðalsamninganefnd Starfsgreinasambands Íslands varð ásátt í morgun um meginútlínur launaliða nýs kjarasamnings.

Í þessum niðurstöðum er talað um að almennir taxtar hækki um 18.000 kr. við undirskrift, 13.500 kr. árið 2009 og 6.500 kr. árið 2010. Einnig er samkomulag um launaþróunartryggingu. Í því felst að þeir sem hafa verið í starfi hjá sama atvinnurekanda og hafa ekki náð að lágmarki 5,5% launahækkun frá 2. janúar 2007 til undirritunar samnings fái það sem upp á vantar.

18.000 þúsund króna hækkun á launataxtana á fyrsta árinu þýðir 216.000 hækkun á ársgrundvelli. 

Á árinu 2009 verði launaþróunartrygging 3,5%. Árið 2010 verði almenn launahækkun 2,5% og gildir sú hækkun fyrir þá sem ekki fá 6.500 króna taxtahækkunina.

Verið er að vinna í því sem lýtur að afturvirkni samningsins en það hefur verið skýr krafa samninganefndarinnar að einhvers konar greiðsla skuli koma til vegna dráttar á samningi. Einnig er unnið að því að ná launaþróunartryggingunni hærra upp.

Umtalsverðar líkur eru á að gengið verði frá nýjum kjarasamningi um helgina.

14
Feb

Staða kjaraviðræðna

Aðalsamninganefnd Starfsgreinasambands Íslands fundaði í allan gærdag vegna nýs kjarasamnings á hinum almenna vinnumarkaði í húsakynnum ríkissáttasemjara.

Samninganefndin mun koma aftur kl. 10 í dag og liggur fyrir að menn eru að hefja lokakaflann í samningalotunni. Hins vegar er ljóst að nokkur atriði standa ennþá útaf sem erfitt getur reynst að ganga frá. Þess vegna er alls óvíst á þessari stundu hvenær skrifað verður undir nýjan kjarasamning.

11
Feb

Hörð gagnrýni Verkalýðsfélags Akraness og ASÍ skilaði árangri

Það er morgunljóst sú harða gagnrýni sem Verkalýðsfélag Akraness og ASÍ hafa haldið uppi á forsvarsmenn HB Granda vegna brota á lögum um hópuppsagnir skilaði árangri.

Uppsagnir HB Granda á yfir 60 starfsmönnum fyrirtækisins á Akranesi hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu. Komið hefur fram sú afstaða Alþýðusambands Íslands að uppsagnir fyrirtækisins og hvernig að þeim var staðið hafi brotið í bága við lög um hópuppsagnir.

Eftir að umfjöllun um fyrirhugaðar uppsagnir HB Granda hófst og gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar á framgöngu fyrirtækisins var látin í ljós, hafa orðið umtalsverðar breytingar á afstöðu fyrirtækisins til málsins. Þær breytingar birtast með skýrum hætti í því samstarfi sem nú hefur tekist með forsvarsmönnum HB Granda, trúnaðarmönnum, Verkalýðsfélagi Akraness og Vinnumálastofnun um endurmenntunaráætlun og ráðgjöf til þeirra sem missa vinnuna þegar uppsagnir starfsfólks koma til framkvæmda. Viðkomandi starfsmönnum verður veitt aðstoð við atvinnuleit, aðgengi að viðeigandi námskeiðum, gerð ferilsskrár og greiningu áhugasviðs síns.

Full ástæða er til að fagna þessu framtaki og því samstarfi sem tekist hefur, enda er það mjög í anda laganna um hópuppsagnir og markmiða þeirra.

Þá liggur fyrir að í framhaldi af þeim ágreiningi og deilum sem ítrekað hafa komið upp um framkvæmd laga um hópuppsagnir og hlutverk stjórnvalda í þeim efnum hefur félags- og tryggingamálaráðherra ákveðið að kanna í samráði við aðila vinnumarkaðarins hvort rétt sé að styrkja reglur um hópuppsagnir, þ.m.t. að skýra og taka af öll tvímæli um hvernig standa á að framkvæmd þeirra.

Að mati ASÍ felur það í sér að skýra þurfi hvaða ferli upplýsinga og samráðs þurfi að fara fram áður en ákvörðun er tekin um uppsagnir og tilkynning um þær sendar vinnumiðlun þannig að fullnægjandi teljist. Jafnframt verði tekin af tvímæli um hvaða stjórnvald skuli fara með eftirlit og framkvæmd laganna.

Alþýðusamband Íslands telur að með því sem að framan greinir hafi náðst mikilvægur árangur í málinu. Markmiðið með afskiptum ASÍ og aðildarfélaga þess af framkvæmd laganna um hópuppsagnir er að tryggja að launafólk njóti þeirra réttinda sem lögin kveða á um og sjá til þess að stjórnvöld grípi í taumana ef útaf er brugðið.

Í ljósi framanritaðs hefur Verkalýðsfélag Akraness í samráði við ASÍ ákveðið að aðhafast ekki frekar varðandi hugsanleg málaferli vegna uppsagna hjá HB Granda á Akranesi.

08
Feb

Fundað um málefni innflytjenda

Formaður félagsins átti fund í morgun með félagsmálastjóra Akraneskaupstaðar og tveimur öðrum fulltrúum bæjarins vegna málefna innflytjenda sem búa á Akranesi. 

Í dag eru um 500 erlendir félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness og hefur þeim farið fjölgað hratt á undanförnum tveimur árum. Langstærsti hluti erlendra félagsmanna VLFA kemur frá Póllandi.

Hugmyndin með þessum fundi var fyrst og fremst sú að efla samstarf þeirra aðila sem eru að vinna að málefnum innflytjenda á svæðinu.  Var rætt um að skipa samstarfshóp þeirra aðila sem vinna hvað mest með innflytjendum og var rætt um að funda reglulega þar sem aðilar gætu skipst á hinum ýmsu upplýsingum er varða málefni innflytjenda á Akranesi.

Formaður fór á fundinum í morgun yfir þá aðstoð og þjónustu sem Verkalýðsfélag Akraness hefur verið að veita sínum erlendu félagsmönnum og er sú aðstoð og þjónusta æði margbreytileg.  Félagið hefur t.d. innheimt á síðustu þremur árum rúmar 6,2 milljónir vegna brota og félagslegra undirboða á erlendu verkafólki. 

Því miður eru enn til atvinnurekendur sem misbjóða þessum erlendu félagsmönnum okkar gróflega og með slíku háttarlagi er um leið verið að gjaldfella launakjör íslenskra verkamanna, við slíkt verður ekki unað.  Verkalýðsfélag Akraness hefur tekið og mun taka mjög hart á þeim óprúttnu atvinnurekendum sem ekki geta farið eftir íslenskum kjarasamningum og þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.

Það er alveg ljóst að það má alltaf gera betur í þessum málefnum og þess vegna er þetta framtak bæjaryfirvalda um að efla samstarf vegna innflytjenda hið besta mál.

07
Feb

Greiðslur úr starfsmenntasjóðum til félagsmanna námu vel á fimmtu milljón

Verkalýðsfélag Akraness, sem er aðili að starfsmenntsjóðum Landsmenntar, Ríkismenntar, Sveitamenntar og Sjómenntar, greiddi vel á fimmtu milljón í styrki á síðastliðnu ári og er um að ræða umtalsverða aukningu frá árinu áður.

Þeir styrkir sem Verkalýðsfélag Akraness greiddi til sinna félagsmanna voru m.a. vegna íslenskukennslu, tölvunámskeiða, aukinna ökuréttinda, framhaldsnáms, háskólanáms, starfsnáms og tungumálanáms.

Stjórn félagsins er afar ánægð að sjá hversu duglegir félagsmenn eru að nýta sér styrki úr áðurnefndum sjóðum. Markmiðið er að félagsmenn verði ennþá duglegri við að sækja námskeið á árinu sem nú er nýhafið.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image