• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Jan

Mikilvægt að nýr kjarasamningur gildi afturvirkt

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá var fyrsti stjórnarfundur ársins haldinn á mánudaginn var. Fjölmörg mál voru til umræðu en sérstaklega var fjallað um tvö mál, annars vegar kjaraviðræður við Samtök Atvinnulífsins og hins vegar málefni starfsmanna Glyms og þeim grófu félagslegu undirboðum sem þar hafa verið ástunduð.

Stjórn félagsins finnst kjaraviðræðurnar við SA ganga allt of hægt og fram kom hjá stjórnarmönnum að full ástæða sé til að fara að sýna fulla hörku hvað varðar þessar viðræður. Rétt er að minna á að í síðustu kjarasamningaviðræðum dróst að semja um nýjan kjarasamning í rúma tvo mánuði, eða til 7. mars. Því miður tók sá samningur ekki gildi um leið og sá eldri rann út og þegar svo er verður verkafólk af hækkunum á sínum launum allan þann tíma sem ekki tekst að ganga frá nýjum samningi.

Á þeirri forsendu telur stjórn félagsins fulla ástæðu til að krefjast þess við SA að nýr kjarasamningur gildi afturvirkt frá þeim tíma sem hann rann út, eða frá 1. janúar 2008.

Á stjórnarfundinum fór formaður einnig ítarlega yfir málefni Glyms, en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá liggur fyrir að gróf félagsleg undirboð hafa átt sér stað hjá umræddu fyrirtæki. Stjórn félagsins hefur ávalt haft það að leiðarljósi að taka fast á fyrirtækjum sem ekki fara eftir lögum og reglum á íslenskum vinnumarkaði, en gróf félagsleg undirboð gera ekkert annað en að gjaldfella launakjör íslensks verkafólks.

Það er grafalvarlegt mál að tveimur starfsmönnum Glyms skuli hafa verið sagt upp störfum vegna þess að þeir leituðu réttar síns hjá Verkalýðsfélagi Akraness. Mál starfsmanna Hótels Glyms er eitt það alvarlegasta sem félagið hefur fengið inn á sitt borð, og hefur félagið fjölda gagna undir höndum sem sum hver hafa verið birt hér á heimasíðunni og staðfesta þau grófu félagslegu undirboð sem þarna hafa verið ástunduð á liðnum árum.

14
Jan

Fleipur hvað!

Lagfæra þarf kjör starfsmanna GlymsLagfæra þarf kjör starfsmanna GlymsHöfum ekkert að fela og Verkalýðfélag Akraness fer með fleipur sagði Hansína B Einarsdóttir hótelhaldari á hótel Glymi í Hvalfjarðasveit í  fréttum rúv 18. desember 2007 vegna athugasemda sem VLFA gerði á kjörum starfsmanna Glyms.

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í desember þá óskuðu starfsmenn eftir aðstoð félagsins vegna þess að verið var að brjóta gróflega á hinum ýmsu kjaraatriðum starfsmanna.  Starfsmenn Glyms veitu félaginu skriflegt umboð til að gæta að sínum hagsmunum gagnvart sínum atvinnurekaenda.  Rekstraraðilar á hótel Glymi kröfðust þess hins vegar að starfsmenn afturkölluðu áðurnefnt umboð til félagsins þar sem Hótel Glymur væri ekki á félagssvæði VLFA og umboðið var því fært til Stéttarfélags Vesturlands. 

Nú hefur Stéttarfélag Vesturlands skoðað málið og sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem fram kemur að Stéttarfélagið fer fram á að rekstraraðilar Hótel Glyms í Hvalfirði yfirfari allar launagreiðslur áranna 2006 og 2007 og leiðrétti þær reynist þess þörf.  Einnig kemur í tilkynningunni að stéttarfélagið telur að þegar verði að lagfæra nokkur atriði svo lögum og kjarasamningum verði fullnægt.  Verkalýðsfélag Akraness telur reyndar fulla þörf á að farið verði fjögur ár aftur í tímann því að er mat formanns að þau félagslegu undirboð sem ástunduð hafa verið á hótel Glymi eigi rætur að rekja lengra aftur í tímann.

Nú er sannleikurinn hins vegar kominn í ljós og Verkalýðfélag Akraness hafði rétt fyrir sér í þessu máli þ.e.s. að launakjör starfsmanna voru ekki í samræmi við þau lög og kjarasamninga sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.

Það er skoðun stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að það eigi að taka af fullri hörku á þeim fyrirtækjum sem ástunda félagsleg undirboð og það gerir stjórn félagsins og mun gera.  Félagið er einfaldlega ekki tilbúið að veita neinn afslátt til þeirra fyrirtækja sem slíkt ástunda.

Hægt er að lesa ítarlega um málið í eldri fréttum frá 17. 18 og 20 desember 2007 hér á heimasíðunni.

14
Jan

Stjórnarfundur haldinn í kvöld

Fyrsti stjórnarfundur Verkalýðsfélags Akraness á nýju ári verður haldinn í kvöld.  Helstu málin sem verða til umfjöllunar í kvöld eru kjaraviðræðurnar við Samtök atvinnulífsins.  Einnig verða ákveðnar dagsetningar fyrir aðalfundi deildanna, en lög félagsins kveða á um að halda skuli aðalfundina fyrir janúarlok ár hvert.

11
Jan

Erfiðar kjaraviðræður framundan

Viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands kom saman til fundar í gær í húsakynnum ríkissáttasemjara, en formaður Verkalýðsfélags Akraness á sæti í viðræðunefndinni.

Eins og fram hefur komið fréttum í gær þá hafnaði ríkisstjórnin tillögum verkalýðshreyfingarinnar um sérstakan persónuafslátt á þá tekjulægstu sem gerir það að verkum að viðræður við Samtök atvinnulífsins eru komnar í hnút.  Það hefur ætíð legið fyrir af hálfu stéttarfélaganna að ríkisvaldið verði að koma að þessum viðræðum til að liðka fyrir því að hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi.  

Rétt er að minna enn og aftur á það að ríkisstjórnin gerði með sér stjórnarsáttmála þar sem fram kemur að stefnt skuli að frekari lækkun skatta á einstaklinga á kjörtímabilinu, meðal annars með hækkun persónuafsláttar.  Einnig kemur fram í stjórnarsáttmálanum að unnið skuli að endurskoðun á skattkerfinu með það að markmiði að bæta hag lágtekjufólks og millitekjufólks.  Með öðrum orðum er verkalýðshreyfingin einungis að biðja ríkisstjórnina um að standa við sín eigin loforð.

Formaður félagsins finnur að þolinmæði verkfólks er að þrotum komin og vill fólk að verkalýðshreyfingin sýni fulla hörku til að knýja fram viðunandi kjarasamning til handa verkafólki.  Verkafólk horfir uppá þá miklu misskiptingu sem orðin er á launum í þessu samfélagi.  Það liggur t.d. fyrir að laun æðstu stjórnenda ríkisins hafa hækkað um 18% á síðastliðnum 2 árum á með almennt fólk hjá hinu opinbera hefur einungis fengið 7% til 9% á sama tímabili.  Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni áður þá hafa sveitastjórnir á höfuðborgarsvæðinu verið með sértækar aðgerðir til handa sínu fólki og t.d. eru lágmarkslaun hjá Kópavogi komin uppí 160.000 kr. á meðan lágmarkslaun á almenna vinnumarkaðnum er einungis 125.000 kr.  Þessar sértæku aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu eru að koma þrátt fyrir að kjarasamningar séu ekki lausir hjá sveitarfélögunum fyrir en í nóvember.  Að sjálfsögðu ber að fagna þessum hækkunum enda kalla þær á að verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði fái leiðréttingu á sínum launum í samræmi við þær hækkanir sem orðið hafa hjá sveitarfélögunum.

Á fundinum í gær var farið yfir stöðu mála og því velt fyrir sér hvað sé í stöðunni og komu til að mynda hugmyndir um að semja einungis eins árs en ekki til tveggja ára eins og áður var fyrirhugað.  Formanni félagsins líst vel á þá hugmynd, en til að það geti orðið að veruleika þurfa taxtar að hækka um 20 þúsund krónur og lágmarkslaun þurfa að hækka úr 125.000 kr. í 150.000 kr. Einnig þyrfti að koma almenn 4% til 6% launahækkun til þeirra sem ekki væru að vinna eftir töxtum.

Það er alveg ljóst að framundan eru mjög erfiðar kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins en með fullri samstöðu á að vera hægt að knýja fram umtalsverðar kjarabætur handa þeim sem eru með hvað lægstu launin í komandi kjarasamningum.

Viðræðunefnd SGS mun koma aftur saman til fundar strax eftir helgi til að meta stöðuna.

10
Jan

Óvissu um starfssemi Laugafisks eytt

Það var mikið fagnaðarefni þegar bæjarstjórn Akraness ákvað á fundi sínum að gera ekki athugasemdir við tillögur Heilbrigðiseftirlits Vesturlands um að starfsleyfi Laugafisks á Akranesi verði endurnýjað.  En töluverð óvissa hefur ríkt um hvort starfsleyfi fyrirtækisins yrði endurnýjað eða ekki.

Með þessari ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og bæjarstjórnar Akraness hefur verið eytt þeirri óvissu sem ríkt hefur um störf allt að 30 starfsmanna Laugafisks.  Sú neikvæða umræða sem átt hefur sér stað um starfssemi fyrirtækisins á undanförnum árum og sú gríðarlega óvissa sem ríkt hefur um áðurnefnda starfssemi hefur valdið mörgum starfsmönnum fyrirtækisins töluverðri angist. 

Formaður félagsins hefur barist hart fyrir því að starfsleyfi Laugafisks yrði endurnýjað með hagsmuni starfsmanna að leiðarljósi og hefur t.d. fundað nokkrum sinnum með bæjarráði vegna málsins og einnig hefur formaður rætt við bæjarfulltrúa vegna málsins.

Formaður ætlar ekki að gera lítið úr þeim kvörtunum sem íbúar í námunda við fyrirtækið hafa komið á framfæri á undanförnum árum.  Hins vegar vita það allflestir að lyktarmengun frá Laugafiski hefur stórlagast á undanförnum árum, um það þarf ekki að deila.  Enda hefur fyrirtækið af fullum heilindum unnið að því að finna lausn á þessu hvimleiða vandamáli og hefur eins og áður sagði orðið verulega ágengt í þeim efnum.

Að sjálfsögðu þarf Laugafiskur eins og öll önnur fyrirtæki að fara eftir settum starfsleyfiskröfum og þeim skilmálum sem starfsleyfið er byggt á. 

Það var gríðarlegt fagnaðarefni að sjá hversu breiður pólitískur stuðningur var um málið og eiga bæjarfulltrúar heiður skilið fyrir hversu vel þeir settu sig inní málið. Það hefði ekki verið neitt grín að taka lífsviðurværið af allt að 30 einstaklingum í ljósi þess að stórlega hefur dregið úr lyktarmengun á undanförnum árum.

Formaður vill óska bæjarstjórn Akraness til hamingju með þessa ákvörðun en að sjálfsögðu þurfa forsvarsmenn Laugafisks að halda áfram á þeirri braut að draga úr mengun og formaður veit fyrir víst að svo verður.

08
Jan

Óþolinmæði farið að gæta hjá verkafólki

Starfsgreinasamband Íslands boðaði til formannafundar í gær í Reykjavík.  Á fundinum, var farið yfir stöðu kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins og kröfur ASÍ gagnvart ríkinu.

Á fundinum var kynnt ný hugmynd að nýrri kröfugerð sem til stendur að leggja fram fyrir atvinnurekendur á morgun. 

Formaður félagsins gat ekki undir nokkrum kringumstæðum samþykkt þessar nýju hugmyndir, einfaldlega vegna þess að þær hugmyndir sem þarna voru kynntar voru ekki fullmótaðar og því erfitt að vita hvað þær þýddu í raun fyrir okkar fólk.

Á þeirri forsendu lagði formaður Verkalýðsfélags Akraness áherslu á að Starfsgreinasambandið héldi sig við þá kröfu sem lögð hefur verið fram til Samtaka atvinnulífsins.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá telur félagið það vera höfuðkröfu í komandi kjarasamningum að kjör þeirra sem lægstu hafa launin hækki stórlega í komandi kjarasamningum.

Stjórn og trúnaðarráð félagsins hefur skorað á samninganefnd SGS að standa þétt saman að þeirri kröfu sambandsins að lágmarkslaun hækki úr 125.000 kr. í 150.000 kr. á árinu 2008 og lágmarkslaunin verði orðin 165.000 kr. 1.janúar 2009.

Einnig hefur stjórn og trúnaðarráð skorað á samninganefnd SGS að hvika hvergi frá þessum kröfum.  Enda telur formaður að áðurnefndar kröfur séu forsenda fyrir því að hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi.

Til að þessi krafa náist fram þurfa öll aðildarfélög SGS að standa þétt saman, án fullrar samstöðu er borin von að ná slíkri kröfu fram.

Vissulega mun skipta töluverðu máli hvernig aðkoma ríkisins verður að þessum samningum og þá sérstaklega hvað varðar skattalækkanir handa þeim tekjulægstu.  Rétt er að minna á að í stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar er talað um að lækka skatta á lágtekjufólk og millitekjufólk og því væri gott ef ríkisstjórnin efndi loforð sitt sem myndi klárlega liðka fyrir gerð nýs kjarasamnings.

Samninganefnd SGS mun koma saman til fundar á fimmtudaginn nk. kl. 13:00 þar sem farið verður yfir stöðuna eins og hún mun líta út þá.

Það er alveg orðið ljóst að farið er að gæta óþolinmæði hjá verkafólki hversu hægt þessar viðræður ganga, en nú eru liðnir 10 dagar frá því að kjarasamningar runnu út og ekki útlit fyrir að skrifað verði undir nýjan kjarasamning á næstu dögum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image