• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Dec

Verkalýðsfélag Akraness skorar á bæjarráð að greiða starfsmönnum Akraneskaupstaðar jólabónus

Rétt í þessu var að ljúka fundi sem formaður félagsins átti með bæjarráði Akraneskaupstaðar. Tilefni fundarsins voru þær sértæku launahækkanir sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að veita sínum starfsmönnum að undanförnu. Þær sértæku aðgerðir hafa fyrst og fremst beinst að þeim tekjulægstu og hafa laun einstaka hópa t.d. skólaliða og starfsmanna og leikskólum, hækkað um 6 - 16 þúsund á mánuði.

Einnig hafa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu verið að veita starfsmönnum sínum ýmis hlunnindi eins og líkamsræktarkort og annað slíkt.

Verkalýðsfélag Akraness skoraði á bæjarráð að greiða starfsmönnum Akraneskaupstaðar 30.000 kr. jólabónus líkt og starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar fá. Einnig skoraði Verkalýðsfélag á bæjarráð að skoða með jákvæðum hug þær launahækkanir sem beinst hafa að tekjulægstu starfsmönnum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, enda er það með öllu ólíðandi að laun fyrir sambærileg störf séu lakari á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Við slíkt verður ekki unað.

Bæjarráð ætlar að skoða þessi mál og nú er bara að vona að þeir fylgi fordæmi sveitarstjórnarmanna á höfuðborgarsvæðinu og geri vel við sína starfsmenn öllum til heilla.

12
Dec

Fundað með SA um sérkjarasamninga Verkalýðsfélags Akraness

Í morgun var fundað með Samtökum Atvinnulífsins vegna þeirra sérkjarasamninga sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að, þ.e.a.s. sérkjarasamningur starfsmanna Síldarbræðslunnar og einnig sérkjarasamningur starfsmanna Spalar.

Farið var yfir þær kröfur sem starfsmenn áðurnefndra fyrirtækja hafa lagt fram og viðbrögð fengin frá Samtökum Atvinnulífsins. Það er mat formanns eftir þessa fundi, að töluverð gjá sé á milli samningsaðila og er ljóst að ef takast á að ganga frá nýjum kjarasamningum fyrir áramót þá þurfi nánast kraftaverk til.

Næsti fundur hefur ekki verið ákveðinn, hvorki vegna sérkjarasamnings bræðslumanna né starfsmanna Spalar, en að öllum líkindum verður fundað aftur fyrir jól.

11
Dec

Formaður boðaður til fundar hjá bæjarráði

Eins fram hefur komið hér á heimasíðunni þá óskaði Verkalýðsfélag Akraness eftir fundi með bæjarráði vegna þeirra sértæku aðgerða í launamálum sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að grípa til á undanförnum dögum og vikum. Formaður hefur verið boðaður til fundar með bæjarráði á föstudaginn nk. kl. 16:30 vegna þessara mála.

Það liggur fyrir að Kópavogur, Hafnarfjörður og Reykjavíkurborg hafa verið að grípa til launahækkana til þeirra sem eru með hvað lægstu launin og nægir þar að nefna störf við umönnun, á leikskólum sem og í grunnskólum.

Það liggur einnig fyrir að Hafnarfjarðarbær hefur hækkað laun leiðbeinenda á leikskólum og skólaliða og nema þær hækkanir frá 6.000 upp í 16.000 krónur á mánuði.

Einnig liggur fyrir að Hafnarfjarðarbær ætlar að láta alla sína starfsmenn fá 30.000 króna jólauppbót, 16.000 kr. styrki til líkamsræktar og hálfsárs sundkort á einungis 1.000 krónur. Í Fréttablaðinu ekki alls fyrir löngu sagði Ellý Erlingsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, Hafnafjörð vilja vera til fyrirmyndar í launamálum sinna starfsmanna.

Á þeirri forsendu mun formaður Verkalýðsfélags Akraness spyrja bæjarráð Akraness hvort þeir ætli að fylgja fordæmi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar þær sértæku aðgerðir sem sveitarfélögin hafa veri að grípa til vegna launamála sinna starfsmanna. Formaður er ekki í neinum vafa um að bæjarstjórn Akraness vill vera til fyrirmyndar í þessum málum eins og t.a.m. Hafnarfjarðarbær hefur verið.

Það er með öllu óþolandi að launakjör á höfuðborgarsvæðinu séu með allt öðrum hætti en gengur og gerist fyrir sömu störf á landsbyggðinni. Það er skoðun formanns að slíkt eigi ekki að viðgangast og mun hann beita sér af fullum þunga fyrir því að laun starfsmanna sveitarfélaga á landsbyggðinni verði samræmd launakjörum á höfuðborgarsvæðinu, enda eru allir starfsmenn þessara sveitarfélaga að vinna eftir sama kjarasamningi.

10
Dec

Jólablað Verkalýðsfélags Akraness komið út

Í dag verður jólablaði Verkalýðsfélags Akraness dreift til allra Akurnesinga og nærsveitunga, sem og í fyrirtæki og stofnanir á svæðinu.

Fréttablaðið er mjög vandað og hefur aldrei verið jafn stórt og í ár, en blaðið er fjórum síðum stærra en vant hefur verið.

Eðli málsins samkvæmt er mest fjallað um komandi kjarasamninga í fréttablaðinu. T.a.m. er haft eftir formanni félagsins að sú kröfugerð sem Starfsgreinasambandið hefur lagt fram vegna komandi kjarasamninga á hinum almenn vinnumarkaði sé hófstillt og hvetur formaður til þess að ekki verði gefinn neinn afsláttur af þeirri kröfugerð sem lögð hefur verið fram til Samtaka atvinnulífsins.

Hægt er að lesa fréttablaðið með því að smella á myndina sem fylgir þessari frétt.

09
Dec

Góð vinnustaðaheimsókn til Norðuráls

Formaður fór í vinnustaðaheimsókn til Norðuráls síðasta föstudag, en stjórn félagsins leggur mikla áherslu á að vera í nánu og góðu sambandi við félagsmenn sína og var þessi vinnustaðaheimsókn einn liður í þeirri vinnu.

Á föstudaginn var það C vaktin sem formaður heimsótti og fór formaðurinn víða um verksmiðjuna og tók tugi starfsmanna tali en heimsóknin stóð í tæpa þrjá tíma.

Þau mál sem brunnu helst á starfsmönnum voru öryggis og launamál og fékk formaður fjölmargar spurningar þessum málum tengdar.  Formaður er ekki í neinum vafa um að öryggismál Norðuráls verða tekin föstum tökum á næstu misserum. Sérstaklega í ljósi þess að öll orka fyrirtækisins á liðnum árum hefur farið í stækkun verksmiðjunnar, nú er þeim kafla hins vegar lokið.  Á þeirri forsendu munu forsvarsmenn Norðurál geta einbeitt sér mun betur að þeim þáttum er lúta að innri kjarastarfsemi fyrirtækisins t.d. öryggismálum.

Fram kom í máli formanns að í næstu kjarasamningum verður gerð skýlaus krafa um að minnka launamuninn  á milli Alcan og Norðuráls enn frekar.  Enda er það með öllu óásættanlegt að það skuli ríkja launamunur á milli verkasmiðja í sömu starfsgrein.

Þessi heimsókn var feikilega vel heppnuð og mun formaður stefna að því að heimsækja allar vaktirnar á næstu vikum.  Í dag starfa um 500 manns hjá Norðuráli og eru um 400 þeirra félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness. 

07
Dec

Verkalýðsfélag Akraness styrkir góðgerðarmál á Akranesi

Í lok árs 2005 gerði stjórn Verkalýðsfélags Akraness mjög góðan samning við Landsbankann á Akranesi um öll bankaviðskipti félagsins. Í einu ákvæði samningsins er kveðið á um að Landsbankinn greiði Verkalýðsfélagi Akraness kr. 500.000 í sérstakan styrktarsjóð sem nota á til að styrkja góðagerðarmál á félagssvæði VLFA.

Þetta er í annað sinn sem stjórn félagsins útdeilir úr styrktarsjóðnum.  Þau félög og samtök sem fá styrki úr sjóðnum í ár eru:

  • Styrktar-og líknarsjóður Akraneskirkju 100.000 kr.
  • Björgunarfélag Akraness unglingastarf 100.000 kr.
  • Mæðrastyrksnefnd Akraness               100.000 kr.
  • Skátafélagið Akranesi unglingastarf     100.000 kr.
  • Sambýlið Akranesi Vesturgötu              50.000 kr.
  • Sambýlið Laugabraut                           50.000 kr

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image