• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Nov

Kröfugerð viðræðunefndar verður lögð fyrir formannafund á morgun

Viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands sem mun leiða viðræðurnar fyrir hönd SGS kom saman í morgun til að leggja lokahönd á kröfugerð við Samtök atvinnulífsins sem lögð verður fyrir formannafund á morgun.

Væntanlega verður kröfugerðin samþykkt á formannafundinum á morgun og í framhaldinu fá forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hana afhenta.

Töluverðrar væntingar gætir hjá íslensku verkafólki vegna komandi kjarasamninga. Því er það skylda okkar sem erum forystumenn stéttarfélaga innan SGS að gera allt sem í okkar valdi stendur til að lagfæra þau skammarlega lágu laun sem okkar félagsmenn hafa þurft að una við um alllanga hríð.

20
Nov

Stefnir í átök

Ekki byrjar það glæsilega ef marka má frétt sem birtist í 24 Stundum í dag. Þar kemur fram hjá Vilhjálmi Egilssyni framkvæmdastjóra Samtaka Atvinnulífsins að samtökin sjái engan fót fyrir þeirri kröfu aðildarfélaga SGS að lágmarkslaun hækki úr 125.000 kr. í 170.000 kr. 

Framkvæmdastjórinn gerir lítið úr þeim kröfum sem stéttarfélögin vítt og breitt um landið hafa verið að vinna að á undanförnum vikum og talar um "órökstudda kröfukeppni" í því samhengi. 

Hjá þeim aðildarfélögum SGS sem nefnt hafa krónutöluhækkun í sinni kröfugerð til SGS kemur fram skýlaus krafa um að lágmarkslaun verði ekki undir 170.000 kr. í samningslok. Hér er um fjölmörg aðildarfélög Starfsgreinasambandsins að ræða og á þeirri forsendu telur formaður VLFA að það stefni í hörð átök í komandi kjarasamningum.

Framkvæmdastjórinn talar um kröfukeppni sem ekki sé byggð á neinu sérstöku og ekki sett í samhengi.  Þetta er alrangt hjá framkvæmdastjóra SA. Krafa Verkalýðsfélags Akraness um að lágmarkslaun verði 170 þúsund krónur í lok samningsins byggist á könnun sem Starfsgreinasamband Íslands lét gera í september 2006.  Í þeirri könnun kom fram að meðaldagvinnulaun félaga innan SGS var í kringum 170 þúsund krónur, krafa VLFA byggist á þeirri könnun.

Eitt vekur furðu í þessari frétt í dag, það er að framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins telur að ekki sé langt á milli í áherslum aðila vinnumarkaðarins.  það liggur fyrir sú staðreynd að allflest aðildarfélög SGS hafa nefnt hækkun lágmarkslauna verði ekki undir 170.000 kr. í komandi kjarasamningum.  Slíkri kröfu hafna Samtök atvinnulífsins alfarið og sjá engan fót fyrir slíkri hækkun lágmarkslauna ef marka má fréttina í dag.  Því spyr formaður VLFA: hvað á framkvæmdastjóri SA við að ekki sé langt á milli áhersla og við hvern hefur framkvæmdastjóri SA verið að tala?

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur áður sagt að ef það á að ná að laga kjör þeirra sem eru með lægstu launin þá verður Starfsgreinasambandið að standa þétt saman og hvika ekki frá þeirri kröfu að lágmarkslaun hækki þannig að þau dugi fyrir lágmarksframfærslu, en það gera lágmarkslaunin ekki í dag.

16
Nov

Breytingar á bónuskerfi starfsmanna Íj skilar árangri

Eins og fram hefur komið hér á heimsíðunni þá hefur formaður félagsins að undanförnu verið með kynningarfundi um réttindi og skyldur fyrir starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins .  Á þessum kynningarfundum hefur formaður farið nokkuð ítarlega yfir nýja bónuskerfið sem tók gildi samhliða nýjum kjarasamningi árið 2005.

Samningsaðilar bundu nokkuð miklar vonir við að nýja bónuskerfið myndi skila báðum samningsaðilum töluverðum ávinningi þegar gengið var frá nýjum samningi árið 2005.  Reiknuðu samningsaðilar með að bónusinn gæti gefið starfsmönnum að meðaltali 5,2% þegar starfsmenn væru búnir að læra á þá þætti sem bónusinn byggist á, en hæst getur bónusinn gefið 7%.

Árið 2006 gaf bónusinn einungis 3,28% að meðaltali eða tæpum 2% minna heldur en samningsaðilar höfðu vonast til að hann gæfi.  Formaður hefur í samráði við trúnaðarmenn unnið lengi að því að fá breytingu á nokkrum þáttum sem bónusinn byggist á og var t.d. gengið frá breytingu á D liðnum í nýtingarbónusnum en sá liður hafði lítið sem ekkert gefið frá upphafi.  Samkomulag var um að fella D liðinn út og taka inn nýjan lið sem byggðist á fjarveru vegna slysa á vinnustað.  Þessi þáttur virkar þannig að ef ekkert fjarveruslys verður í heilan mánuð þá gefur það starfsmönnum 1,5% í bónus. 

Síðan voru nokkrir þættir í bónusnum sem starfsmenn sjálfir gátu hæglega haft veruleg áhrif á en sá þáttur lýtur að öryggis- og umhverfisþáttum.  T.d. skráningum á hættulegum aðstæðum, notkun á öryggisbúnaði og snyrtimennsku á vinnustað.  Það verður að segjast eins og er að þarna gátu starfsmenn staðið sig betur.  Formaður fór yfir þessa þætti með starfsmönnum á kynningarfundunum og hefur það svo sannarlega skilað árangri því bónusinn í september var 5,72% og hefur aldrei mælst jafn hár frá upphafi.  Í október var bónusinn 5,30% sem er einnig mjög gott.  Nú er bara mikilvægt fyrir starfsmenn ÍJ að halda þessum góða árangri í bónusmálunum áfram eins og þeir hafa gert síðastliðna tvo mánuði.

Bónusinn leggst ofaná öll laun starfsmanna og því er hér um töluvert hagsmunamál að ræða fyrir starfsmenn. Það skiptir máli hvort bónusinn sé rétt rúm 3% eða tæp 6% og alveg klárt að starfsmenn finna fyrir því í launaumslaginu.

15
Nov

Verðum að sýna tennurnar í komandi samningum

Lágmarkslaunin í dag eru íslensku samfélgi til skammarLágmarkslaunin í dag eru íslensku samfélgi til skammarAðalsamninganefnd Starfsgreinasambands Íslands kom saman til fundar í gær til að leggja lokahönd á kröfugerð fyrir komandi kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins, en nú eru einungis fimm vikur þar til samningur rennur út.

Á fundinum í gær tókst samninganefndinni ekki að ganga endanlega frá kröfugerðinni og hefur næsti fundur hjá samningarnefndinni verið boðaður miðvikudaginn 21. nóvember. 

Aðalkrafan í komandi kjarasamningum er hvellskýr, það er að lagfæra lágmarkslaunin þannig að þau dugi til lágmarksframfærslu og séu ekki íslensku samfélagi til skammar. 

Flest aðildarfélög SGS hafa skilað inn kröfugerð þar sem fram kemur krafa um verulega hækkun á lágmarkslaunum.   Í kröfugerðum flestra félaganna kemur fram að lágmarkslaun skuli hækka úr 125 þúsundum uppí 170-180 þúsund á samningstímanum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness mun ekki hvika frá þeirri kröfu að lágmarkslaun hækki úr 125 þúsund í 170 þúsund á samningstímanum sem yrði til tveggja ára.  Það er nánast útilokað fyrir samninganefnd SGS að fara fram með kröfu sem er undir 170 þúsundum króna lágmarkslaunum, einfaldlega vegna þess að flest aðildarfélög SGS eru búin að leggja fram sínar kröfur þar sem fram kemur að aðalkrafan sé að lágmarkslaun skuli hækka upp í 170-180 þúsund á samningstímanum.

Formaður VLFA gerir sér vel grein fyrir því að mjög erfitt verður að ná fram slíkri hækkun lágmarkslauna, ef slíkt á að ganga upp þarf að ríkja alger samstaða innan aðildarfélaga SGS.   Við forystumenn í SGS við getum ekki boðið okkar félagsmönnum uppá launataxta sem ekki duga fyrir lágmarksframfærslu og stór hluti þjóðarinnar hlær að. 

Þess vegna verðum við að sýna tennurnar í þessum samningum sem fram undan eru og hvika ekki frá því að lágmarkslaun hækki í það minnsta úr 125 í 170 þúsund í komandi samningum.

13
Nov

Viðræðunefnd SGS fundar á morgun

Viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands sem mun leiða viðræðurnar við Samtök atvinnulífsins í komandi kjarasamningum mun koma saman til fundar á morgun.  Á fundinum verður væntanlega reynt að leggja lokahönd á kröfugerð SGS fyrir komandi kjarasamninga, en nú eru einungis rúmar fimm vikur þar til núverandi kjarasamningur rennur út.

Formaður hefur farið víða að undanförnu til að heyra í félagsmönnum og það fer ekki á milli mála að íslenskt verkafólk hefur töluverðar væntingar til komandi kjarasamninga.  Langflestir félagsmenn eru sammála því að stórhækkun á lágmarkstöxtum eigi að vera forgangskrafan í komandi viðræðum við SA.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ávalt sagt að aðaláherslan í komandi samningum eigi að vera stór-hækkun lágmarkslauna eða nánar tilgetið úr 125.000 kr. í 170.000 kr. og samið verði til tveggja ára.  Það þarf að ríkja þjóðarsátt um slíka hækkun á lágmarkslaunum.

Formaður VLFA hefur sagt að nú sé tími verkafólks runninn upp og vonast innilega til þess að viðræðunefnd SGS hviki hvergi frá kröfunni um stór-hækkun lægstu launa.

12
Nov

Fundað með starfsmönnum síldarbræðslunnar

Í dag fór formaður félagsins í vinnustaðaheimsókn til þeirra starfsmanna HB Granda sem starfa í síldarbræðslunni.  Átti formaður gott samtal við starfsmennina, en sérkjarasamningur starfsmanna síldarbræðslunnar rennur út um áramótin. 

Fóru starfsmenn yfir þau atriði sem þeir vilja leggja mesta áherslu á í komandi kjarasamningum.  Einnig var rædd sú hugmynd að gera einn kjarasamning fyrir allar síldarbræðslurnar á landinu. 

Síldarbræðslum á landinu hefur verið að fækka jafn og þétt undanfarin ár og í dag eru ekki nema þrjár til fjórar sem eru í einhverjum rekstri sem heitið getur. 

Starfsmenn bræðslunnar hér á Akranesi tóku svosem ekkert fálega í þá hugmynd að gera einn kjarasamning fyrir allar bræðslurnar en þó var ekki tekin endanleg ákvörðun hvað það varðar.

 Það er alveg ljóst að lagfæra þarf kjör starfsmanna síldarbræðslunnar hér á Akranesi umtalsvert í komandi kjarasamningum einfaldlega vegna þess að bræðsla á uppsjávarafla hefur dregist verulega saman á undanförnum árum.  En samdráttur á bræðslu uppsjávarafla bitnar illilega á kjörum starfsmanna þar sem kjörin byggjast að verulegu leyti á vaktarálögum og öðru slíku. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image