• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
May

Starfsmenn síldarbræðslunnar fá ískaldar kveðjur fá forstjóra HB Granda

Eggert B Guðmundsson forstjóri HB GrandaEggert B Guðmundsson forstjóri HB GrandaÞað voru ískaldar kveðjur sem starfsmenn fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi fengu frá forstjóra fyrirtækisins í dag.  En í viðtölum við fjölmiðla í dag segir forstjórinn að ástæður uppsagna starfsmannanna séu þær að ekki hafi náðst sá árangur í rekstri verksmiðjunnar sem stefnt hafði verið að lengi.

Einnig sagði forstjórinn Eggert Guðmundsson að það verði ráðnir nýir starfsmenn í stað fjórmenninganna, en þessi ráðstöfun þýði engan veginn að áform sé uppi um að leggja niður rekstur verksmiðjunnar á Akranesi, heldur sé stefnt að því að tryggja að rekstur verksmiðjunnar verði ásættanlegur.

Hvað er forstjórinn að fara með þessum yfirlýsingum?  Hvurslags framkoma er þetta við starfsmenn sem eru búnir að vera lykilmenn í verksmiðjunni og það svo tugum ára skiptir.  Starfsmenn sem eytt hafa lungann af sinni starfsævi hjá umræddu fyrirtæki og gert það með mikilli elju og samviskusemi. 

Á skýringum forstjórans verður ekki annað skilið en að þeir starfsmenn sem um ræðir hafi á engan hátt verið starfi sínu vaxnir og þess vegna hafi þeim verið sagt upp störfum.  Allir Skagamenn sem þekkja umrædda starfsmenn vita að hér fara mjög vandaðir starfsmenn sem lagt hafa sig í líma við að vinna sitt starf af fullum heilindum og samviskusemi. 

Á þeirri forsendu er ekki annað hægt en að fordæma þessar uppsagnir þótt núorðið komi fátt okkur Skagamönnum á óvart hvað varðar uppsagnir af hálfu forsvarsmanna HB Granda.  Því ávallt er höggvið í sama knérunn hvað varðar uppsagnir og "hagræðingu"?

Það er algjör lágmarks kurteisi af hálfu forstjóra fyrirtækisins að hann gefi starfsmönnum nákvæma skýringu á þessum uppsögnum þó ekki væri til annars en að starfsmenn geti varið sitt mannorð.

Það liggur fyrir að starfsmenn hafa á undanförnum árum komið með ábendingar til forsvarsmanna fyrirtækisins um hvað betur má fara í rekstri verksmiðjunnar með það að markmiði að bæta reksturinn og afkomu hennar. 

Það liggur einnig fyrir að verksmiðjan hér á Akranesi er mun fullkomnari heldur en sú verksmiðja sem HB Grandi á og rekur á Vopnafirði, en sú verksmiðja hefur ekki tök á að framleiða hágæðamjöl eins og verksmiðjan hér á Akranesi hefur gert undanfarin ár.

Á þeirri forsendu veltir formaður félagsins því fyrir sér hvað forsvarsmenn fyrirtækisins hafi í hyggju með framtíð verksmiðjunnar hér á Akranesi.  Ætla þeir að flytja starfsmenn sína sem starfa í verksmiðjunum á Vopnafirði og Reykjavík til að vinna í verksmiðjunni hér á Akranesi þegar hráefni berst hingað.  Eða ætla þeir að rífa verksmiðjunna niður og flytja hana til Vopnafjarðar?  Þessum vangaveltum er ekki hægt að svara nú en tíminn einn mun leiða það í ljós hvað vakir fyrir forsvarsmönnum HB Granda með þessum uppsögnum.

Formaður vill hins vegar árétta það að Verkalýðsfélag Akraness er með sérkjarasamning við HB Granda vegna þeirra starfa sem um ræðir og félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness hafa forgang vegna þeirra starfa sem unninn eru í verksmiðjunni.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image