• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Apr

Unnið af krafti í Síldarbræðslunni

Í nótt landaði Lundey frá Vopnafirði 150 tonnum af kolmunna hér á Akranesi. Skipið varð fyrir einhverri bilun og gat því ekki klárað túrinn að fullu.

Hins vegar kom Faxinn strax í kjölfarið með um 1600 tonn af kolmunna sem er fullfermi. Stendur nú vinnsla í verksmiðju Síldarbræðslunnar á fullu yfir.  Ingunn Ak er nú á miðunum og samkvæmt upplýsingum sem formaður hefur fengið þá var Ingunin komin með rúm 400 tonn af kolmuna í gær.  Skipin eru að veiðum á Rockhallsvæðinu.

Verksmiðjan hér á Akranesi er ein fárra verksmiðja á landinu sem getur framleitt hágæðamjöl og samkvæmt starfsmönnum hefur nánast allt hráefni sem borist hefur til verksmiðjunnar að undanförnu farið í hágæðamjöl en slík afurð er mun auðseljanlegri en standard mjöl og einnig fæst betra verð fyrir hágæðamjölið en standard mjölið.

31
Mar

Gengið frá fyrirtækjasamningi við Spöl

Verkalýðsfélag Akraness ásamt starfsmönnum Spalar gengu frá fyrirtækjasamningi fyrir nokkrum dögum á milli Spalar ehf. annars vegar og starfsmanna í gjaldskýli hins vegar.

Fyrirtækjasamningurinn hefur sama gildistíma og kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði eða til 30. nóvember 2010.

Heildarhækkun launa starfsmanna gjaldskýlisins í nýjum samningi er um 32 þúsund krónur á mánuði.  Einnig hækkuðu orlofs- og desemberuppbætur umtalsvert.

Starfsmenn eru nokkuð vel sáttir við nýgerðan samning, þótt vissuleg hafi gengisfall krónunar og hækkun verðbólgunnar sett strik í reikninginn hvað varðar ávinning af nýgerðum samningi.

28
Mar

Samninganefnd SGS fundaði hjá ríkissáttasemjara í gær

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands vegna kjarasamnings við ríkið kom saman til fundar í húsakynnum ríkissáttasemjara í gær.

Farið var yfir kröfugerð SGS vegna komandi kjarasamnings en meginkrafan er stórhækkun launa ófaglærðs fólks hjá hinu opinbera.

Það er algerlega ljóst að ástandið í íslensku efnahagslífi þessa dagana mun alls ekki auðvelda gerð nýs samnings við ríkið, sérstaklega í ljósi þess að nú mælist verðbólgan 8,7%.

Ófaglærðir starfsmenn hjá ríkinu bera miklar væntingar til komandi kjarasamnings enda hafa þeir ekki notið þess mikla launaskriðs sem verið hefur á hinum almenna vinnumarkaði.

Með formanni á fundinum í gær voru þær Steinunn Guðjónsdóttir, Anna Signý Árnadóttir og Guðrún Guðbjartsdóttir, en þær eru allar starfsmenn Sjúkrahúss Akraness.

26
Mar

Viðræður við ríkið að hefjast að fullu

Viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands mun koma saman til fundar á morgun vegna kjarasamnings SGS við ríkið. Núverandi samningur rennur út um næstu mánaðarmót. 

Fundurinn verður haldinn í húskynnum ríkissáttasemjara og hefst kl 13:30.

Ófaglærðir starfsmenn hjá ríkinu bera töluverðar væntingar til komandi kjarasamninga enda hafa þeir ekki notið þess launaskriðs sem verið hefur á vinnumarkaðnum á undanförnum árum.

Krafan er skýr, það er stórhækkun á þeim launatöxtum sem gilda fyrir ófaglærða starfsmenn ríkisins.  Það er einnig alveg ljóst að það efnahagsvandamál sem nú ríkir í íslensku samfélagi mun ekki auðvelda gerð nýs kjarasamnings við ríkið. 

23
Mar

Fyrsti kolmuninn kominn til bræðslu

Ingunn Ak kom í land á skírdag með 1400 tonn af kældum kolmunna en skipið tekur rétt rúm 2000 tonn. Þetta er fyrsti kolmunaaflinn sem landað er á þessu ári til bræðslu hér á Akranesi. Aflinn veiddist á Rockhallsvæðinu.

Að sögn skipverja var tíðarfarið á miðunum nokkuð gott, en hins vegar fengu þeir leiðinda verður síðasta sólahringinn á leið sinni til hafnar.

Ingunn mun halda til veiða strax eftir páska og væntanlega munu Lundey og Faxi gera það einnig en öll þessi skip eru í eigu HB Granda.

Það tók starfsmenn síldarbræðslunnar tvo sólarhringa að bræða þann afla sem Ingunn kom með. 

Væntanlega mun sá afli sem skipin veiða á Rockhallsvæðinu koma til bræðslu á Akranes þar sem mun styttra er til hafnar á Akranesi heldur en til Vopnafjarðar.

Flestir skipverjar á Ingunni tilheyra sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness.

20
Mar

Gleðilega páska

Stjórn og starfsmenn Verkalýðsfélags Akraness óska félagsmönnum, fjölskyldum þeirra og landsmönnum öllum gleðilegra páska. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image