• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
Apr

Aðalfundur félagsins haldinn 26. apríl

Undirbúningur fyrir komandi aðalfund stendur nú yfir á fullu hjá starfsmönnum félagsins.  En aðalfundurinn verður haldinn laugardaginn 26. apríl kl. 13:00.  Rétt er að vekja athygli á því að aðalfundurinn verður haldinn í matsal Sementsverksmiðjunnar (Fortuna)  

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni var afkoma félagsins afar góð á síðasta ári og endurspeglast hún af gríðarlegri fjölgun á félagsmönnum á milli ára.  En félagsmönnum fjölgaði um 700 á síðasta ári.

Einnig eru starfsmenn félagsins að vinna að fréttablaði félagsins sem mun koma út rétt fyrir 1. maí og verður borið út í öll hús hér á Akranesi sem einnig í nærsveitir. 

Stjórn félagsins mun bjóða félagsmönnum uppá  lambalæri með öllu tilheyrandi í lok aðalfundar.  Stjórn félagsins hvetur félagsmenn eindregið til að mæta á aðalfundinn. 

15
Apr

Fundað verður með forstjóra HB Granda á morgun

Eggert B Guðmundsson forstjóri HB GrandaEggert B Guðmundsson forstjóri HB GrandaFormaður Verkalýðsfélags Akraness og bæjarstjóri Akraneskaupstaðar munu á morgun eiga fund með forstjóra HB Granda, Eggert B. Guðmundssyni.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá fól bæjarráð Akraneskaupstaðar áðurnefndum aðilum að leita skýringa hjá forsvarsmönnum HB Granda á því hvers vegna 7633 tonn af bolfiski hafi verið flutt frá skipum fyrirtækisins yfir á skip annarra útgerða.

Er þessara skýringa óskað vegna þess gríðarlegs samdráttar sem orðið hefur í landvinnslu fyrirtækisins á Akranesi og þeirra miklu hagsmuna sem um ræðir fyrir starfsfólk landvinnslunnar á Akranesi sem og allt bæjarfélagið.

HB Grandi hefur verið fjöregg okkar Skagamanna í rúm 100 ár og sú ákvörðun forsvarsmanna fyrirtækisins að segja upp öllum starfsmönnum nema 20 í landvinnslunni hefur lagst afar illa í samfélagið hér á Akranesi.

Eins og áður hefur einnig komið fram þá geta verið eðlilegar skýringar á þessum tilfærslum og ef svo er munu þær skýringar væntanlega vera lagðar fram á fundinum á morgun.  

14
Apr

Sumar 2008 - Nýtt orlofshús í boði

Sumarbústaður að Stóru SkógumNú er skráningu umsókna um sumardvöl í orlofshúsum félagsins lokið en frestur til að skila inn umsóknum rann út sl. föstudag. Öllum umsækjendum verður sent bréf, þar sem þeim verður tilkynnt hvort þeir hafi fengið úthlutað eður ei.

Ljóst er að aðsóknin hefur aldrei verið meiri og hefur stjórn orlofssjóðs því gripið til þess ráðs að leigja eitt orlofshús til viðbótar. Þetta hús er í eigu BSRB og er staðsett að Stóru Skógum, skammt frá Munaðarnesi. 

Í endurúthlutun sem fram fer þann 7. maí nk. verða þessar vikur að Stóru Skógum í boði, ásamt öllum þeim vikum sem ekki ganga út í fyrstu úthlutun.

Þeir sem ekki fá úthlutað nú í fyrri úthlutun eru sjálfkrafa með í seinni úthlutun. Þeir hafa, eins og vant er, möguleika á því að breyta umsókn sinni áður en til endurúthlutunar kemur. Þeir sem ekki náðu að senda umsókn sína inn fyrir sl. föstudag, hafa tækifæri til að senda inn umsókn í seinni úthlutun.

Upplýsingar um bústaðinn að Stóru Skógum er að finna hér.

12
Apr

Fundað stíft í húsakynnum ríkissáttasemjara

Aðalssamninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur fundað stíft síðustu daga með Samtökum atvinnulífsins í húsakynnum Ríkissáttasemjara.

Eins og fram hefur komið hér á síðunni þá lögðu Samtök atvinnulífsins fram samningstilboð á laugardaginn var og liggur fyrir að það tilboð er of rýrt og ljóst að bæta þarf í launaliði þess tilboðs.

Fundur hefur verið boðaður aftur á morgun og má allt eins reikna með því að reynt verði til þrautar næstu daga og væntanlega skýrist það fyrir helgi hvort samningsaðilar nái saman eður ei.

11
Apr

Formanni félagsins og bæjarstjóra Akraneskaupstaðar falið að kalla eftir skýringum

Bæjarráð Akraneskaupstaðar hefur falið formanni Verkalýðsfélags Akraness og bæjarstjóra Akranes að kalla eftir skýringum frá forsvarsmönnum HB Granda á því að 7.693 tonn af bolfiski (5.442 þorsksígildistonn) hafa farið frá fyrirtækinu yfir á önnur skip sem ekki eru í eigu HB Granda á yfirstandandi fiskveiðiári.

Ástæða þess að óskað er eftir þessum skýringum er sá gríðarlegi samdráttur sem orðið hefur í landvinnslu fyrirtækisins hér á Akranesi.  Eins og flestir muna var öllum nema 20 starfsmönnum fyrirtækisins í landvinnslunni sagt upp störfum vegna aflasamdráttar í þorskveiðum á yfirstandandi fiskveiðiári.

Á þeirri forsendu er eðlilegt að kallað sé eftir skýringum á því hvert áðurnefndar aflaheimildir hafa farið, sérstaklega í ljósi þess að verið er að taka lífsviðurværi af fólki sem starfað hefur hjá fyrirtækinu í tugi ára.  Vissulega geta verið eðlilegar skýringar á því að farin séu tæp 8.000 tonn frá fyrirtækinu yfir á önnur skip og ein skýring gæti verið sú að HB Grandi sé að láta önnur skip en sín eigin veiða umræddar aflaheimildir til vinnslu.  Það kemur þá væntanlega í ljós ef svo er og þá einnig hvert sá afli hefur farið í vinnslu.

Formaður félagsins telur það mjög mikilvægt að forsvarsmenn HB Granda útskýri þennan flutning á aflaheimildum fyrir bæjarfélaginu og stéttarfélaginu sérstaklega í ljósi þess gríðarlegs samdráttar sem orðið hefur á landvinnslu fyrirtækisins hér á Akranesi.  Enda eiga þeir aðilar sem hafa tímabundinn umráðarétt yfir auðlindum hafsins að sýna samfélagslega ábyrgð.

Það er alvitað að margar útgerðir eru að braska með aflaheimildir sínar. Það er hins vegar skoðun formanns félagsins að þær útgerðir sem ekki eru að nýta þær aflaheimildir sem þeim er úthlutað hafi lítið við þær að gera.  Það á að vera skýlaus krafa að útgerðir nýti að stærstum hluta þær aflaheimildir sem þeim eru úthlutaðar.

Samkvæmt opinberum gögnum frá Fiskistofu þá kemur fram að það hafa farið 7.693 tonn frá fyrirtækinu yfir á aðrar útgerðir eða nánar eins og hér segir:

 

Þorskur Ýsa Ufsi Karfi Langa Steinbítur Skötuselur Grálúða Samtals

296

tonn

2.343 tonn 427 tonn 4.927 tonn 7,5 tonn

8.5

tonn

110

tonn

1.5

tonn

7.693 tonn
10
Apr

Óskiljanleg ákvörðun forsvarsmanna HB Granda

Gríðarlegt kurr er komið í starfsmenn síldarbræðslunnar hér á Akranesi eftir að forsvarsmenn HB Granda gerðu samkomulag við Ísfélagið í Vestmannaeyjum um að landa þar einum kolmunnafarmi á hvert skip fyrirtækisins, en þau skip sem um ræðir eru Ingunn AK, Faxi RE og Lundey NS.

Ástæðan fyrir þessari ákvörðun um að láta skipin landa hjá Ísfélaginu í Vestmannaeyjum en ekki í síldarbræðslu sem HB Grandi á sjálft er sú að Ísfélagið er tilbúið að greiða mun hærra verð fyrir kolmunnann heldur en forsvarsmenn HB Granda voru tilbúnir að greiða sínum skipverjum fyrir.

Ísfélagið í Vestmannaeyjum er tilbúið að greiða 14,80 kr. fyrir pr. kíló af kolmunnanum, en það sem forsvarsmenn HB Granda buðu sínum áhöfnum var mun lægra verð eða frá 11,20 kr/kg upp í 12,50 allt eftir gæðum hráefnisins.  Skipverjarnir á öllum skipum HB Granda höfnuðu því verði sem eigendur HB Granda buðu í kosningu um borð í skipunum og fór atkvæðagreiðslan þannig að 39 höfnuðu þessu verði, einn samþykkti og einn sat hjá. 

Verkalýðsfélag Akraness skilur fullkomlega þá afstöðu skipverjanna að vilja fá sama verð og Ísfélagið er að greiða og það er í raun óskiljanlegt af hverju HB Grandi getur ekki greitt sama verð fyrir kg af kolmunnanum og Ísfélagið.  Sérstaklega í ljósi þess að verksmiðjan á Akranesi er ein sú allra fullkomnasta á landinu og nánast allt hráefnið sem til hennar berst fer í hágæðamjöl.

Ástæða þess að mikið kurr er komið í starfsmenn er sú að tekjur starfsmanna síldarbræðslunnar byggjast að langstærstum hluta á því að staðnar séu vaktir þegar bræðsla á sér stað og á þeirri forsendu eru starfsmenn að verða fyrir umtalsverðu tekjutapi vegna þess að aflanum er nú landað tímabundið í Vestmannaeyjum en ekki í verksmiðju HB Granda. 

Hvernig má það vera að forsvarsmenn HB Granda sem eiga og reka eina fullkomnustu síldarbræðslu á landinu skulu taka ákvörðun um að landa ekki afla af sínum eigin skipum í sína eigin verksmiðju.  Forsvarsmenn fyrirtæksins verða að átta sig á því að þeir hafa sterkar skyldur gagnvart þeim starfsmönnum sem starfa í síldarbræðslum fyrirtækisins sem verða eins og áður sagði af umtalsverðum tekjum vegna þessarar ákvörðunar.

Formaður hefur leitað svara hjá forsvarsmönnum HB Granda vegna þessarar ákvörðunar og svarið sem formaður fékk var það að verðið sem Ísfélagið væri að greiða væri einfaldlega alltof hátt og HB Grandi treysti sér ekki til að greiða slíkt verð.

Hví í ósköpunum getur Ísfélagið greitt þetta verð fyrir kolmunnann en ekki HB Grandi.  Varla eru eigendur Ísfélagsins að leika sér að því að greiða verð fyrir kolmunnann sem ekki stenst neina skoðun.

Það verður að segjast alveg eins og er að formaður Verkalýðsfélags Akraness skilur alls ekki ýmsar ákvarðanir sem forsvarsmenn HB Granda hafa tekið í rekstri fyrirtækisins og er þessi ákvörðun ein af þeim.  Áður hefur verið fjallað um það hér á heimasíðunni hvernig við Skagamenn höfum farið útúr sameiningunni við Granda sem átti sér stað árið 2004 en frá sameiningunni hafa tapast yfir 150 störf.  Eins og flestir vita hafa forsvarsmenn HB Granda sagt upp öllum starfsmönnum nema 20 í landvinnslunni hér á Akranesi. 

Eins og áður sagði þá er margt sem formaður félagsins skilur ekki í rekstri fyrirtækisins og nægir að nefna síðustu síldarvertíð í því samhengi.  Siglt var með allan síldarkvóta skipa fyrirtækisins, sem var veiddur rétt fyrir utan Grundarfjörð, til Vopnafjarðar til vinnslu, í siglingu sem tók yfir 40 klukkustundir.  Það virðist ekki hafa komið til greina að koma upp græjum til að vinna síldina hér á Akranesi þó svo að sigling af miðunum við Grundarfjörð til Akranes taki einungis rúma 8 tíma eða 32 tímum skemmur heldur en til Vopnafjarðar.  Formaður spyr sig hvað ef síldin mun halda áfram að veiðast í Grundarfirði ætla forsvarsmenn að halda þeirri vitleysu áfram að láta skip sín sigla í 40 tíma með aflann til vinnslu, hverlags vinnubrögð eru þetta?

Einnig er hægt að nefna vinnnubrögðin í kringum loðnufrystinguna, en ráðist hefur verið í mjög miklar framkvæmdir henni tengdri á Vopnafirði og frystigetan þar hefur verið aukin á síðustu árum í um 400 tonn á sólarhring en hér á Akranesi er frystigetan einungis 100 tonn á sólarhring.  Samt er megnið af loðnunni sem unnin er til hrognatöku veidd hér í námunda við Reykjanesið.  Umtalsverðu magni af loðnuhrognum var keyrt frá Akranesi bæði á þessari vertíð sem og á vertíðinni í fyrra frá Akranesi til Vopnafjarðar til frystingar.  Því spyr formaður sig ætla forsvarsmenn HB Granda að auka frystigetuna hér á Akranesi fyrir næstu vertíð eða ætlar fyrirtækið að halda áfram að keyra hrognum til Vopnafjarðar til frystingar með tilheyrandi kostnaði?

Eins og áður sagði þá er sorglegt að sjá hvernig við Skagamenn höfum farið útúr þessari sameingu við Grandamenn einfaldlega vegna þess að svo virðist sem öll "hagræðing" sé látin bitna á okkur Skagamönnum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image