• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Jul

Óskiljanleg afstaða stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Samband íslenskra sveitarfélagaSamband íslenskra sveitarfélagaEins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá samþykkti bæjarstjórn Akraness 13. maí sl. tillögu frá bæjarfulltrúanum Guðmundi Páli Jónssyni um að bæjarráð Akraneskaupstaðar skoði möguleika á að standa fyrir ráðstefnu á haustdögum um atvinnumál sjávarútvegsfyrirtækja og fyrirkomulag kvótamála í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Bréf barst bæjarráði Akraneskaupstaðar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 30.6.2008, þar sem tilkynnt er að sambandið sjái sér ekki fært að taka þátt í undirbúningi eða framkvæmd ráðstefnu um atvinnumál sjávarútvegsfyrirtækja og fyrirkomulag kvótamála, samkvæmt tillögu bæjarráðs Akraness frá 28. maí 2008.

Í bréfi frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að sambandið telji sér ekki fært að taka þátt í ráðstefnunni vegna þess að ráðstefnan snertir ekki öll sveitarfélög í landinu.  Fram kom í fundargerð Bæjarráðs Akraneskaupstaðar að það harmaði afstöðu Sambands íslenskra sveitarfélaga til tillögunar. 

Það verður að segjast alveg eins og er að þetta svar frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga um að sambandið sjái sér ekki fært að taka þátt í undirbúningi eða framkvæmd ráðstefnu um atvinnumál sjávarútvegsfyrirtækja og fyrirkomulag kvótamála er gjörsamlega óskiljanlegt.  Þessi afstaða sambandsins er óskiljanleg í ljósi þess að fjölmörgum sjávarútvegsplássum hefur nánast blætt út vegna þess að kvótinn hefur verið seldur úr byggðarlögunum.  Þessi afstaða sambandsins er sem blaut tuska framan í þá 500 einstaklinga sem misst hafa sitt lífsviðurværi við fiskvinnslu og sjósókn á undanförnum mánuðum og misserum vegna þess fyrirkomulags sem er hér við lýði í sjávarútvegsmálum. 

Rétt er að minna sveitarstjórnarmenn á að þeir eru kosnir af fólkinu í landinu og þeim ber skylda til að vinna að hagsmunum fólksins. Því er það afar undarlegt að stjórn sambandsins sjái sér ekki fært að taka þátt í ráðstefnu um þessi mál, ráðstefnu þar sem hægt hefði verið að fara yfir kosti og galla þess fiskveiðistjórnunarkerfis sem hér hefur verið við lýði á undanförnum áratugum. Einnig hefði verið hægt að krefjast þess af þeim sem fara með tímabundinn umráðarétt yfir auðlindum hafsins að þeir sýni samfélagslega ábyrgð. Á því hefur klárlega verið skortur á undanförnum árum. Þessi afstaða stjórnar sambandsins hlýtur að valda formanni hennar Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar vonbrigðum, sérstaklega í ljósi þess hvernig það fiskveiðistjórnunarkerfi sem nú er við lýði hefur leikið Vestfirði í heild sinni.

Það var eins og áður hefur komið fram Guðmundur Páll Jónsson bæjarfulltrúi sem lagði tillöguna fram.  Í máli Guðmundar Páls á sínum tíma kom fram að liðinn vetur hafi verið okkur Akurnesingum sérstaklega erfiður varðandi þróun í fiskvinnslu- og útgerðamálum.  Hann sagði einnig að almenning hér á Akranesi setti algjörlega hljóðan yfir þeirri þróun sem átt hefur sér stað í fiskvinnslumálum og átti hann við þann mikla samdrátt og uppsagnir sem átt hafa sér stað hjá HB Granda.

Í máli bæjarfulltrúans kom fram að ráðstefnuna yrði að halda í samvinnu eða á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga.  Á þeirri ráðstefnu vildi bæjarfulltrúinn að farið yrði yfir þær leikreglur sem gilda í íslenskum sjávarútvegi og í stjórnun fiskveiðistjórnunarkerfisins með tilliti til þeirra afleiðinga sem það hefur haft á byggðir landsins.

Guðmundur Páll vildi einnig að sveitarstjórnarmenn hefðu spurt sig á þessari ráðstefnu hvort þær leikreglur sem gilda í íslenskum sjávarútvegi í dag séu barn síns tíma og hvort þær þurfi ekki að vera með öðrum hætti en þær eru í dag.  Hann vildi að sveitarstjórnarstigið skoðaði á þessari ráðstefnu leikreglur fiskveiðistjórnunarkerfisins á hlutlausan og yfirvegaðan hátt með hagsmuni almennings sem í byggðunum býr og hafa búið að leiðarljósi.

Formaður félagsins fagnaði á sínum tíma því að bæjarstjórn Akraneskaupstaðar hefði haft frumkvæði að því að halda slíka ráðstefnu því það væri með öllu óþolandi hvernig það fiskveiðistjórnunarkerfi sem nú er við lýði hefur leikið þetta samfélag hér á Akranesi sem og aðrar byggðir þessa lands.  Þess vegna er þessi óskiljanlega afstaða stjórnar sambandsins grátleg.

Það er full ástæða til að kalla eftir nýjum leikreglum í íslenskum sjávarútvegi í ljósi þess að fjölda byggðarlaga hefur nánast blætt út vegna þess kerfis sem hér hefur verið í hart nær 24 ár.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image