• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Jul

Taka verður hart á ólöglegum mótmælaaðgerðum

Nú á þriðja tímanum í dag lokuðu 20 mótmælendur frá samtökunum Saving Iceland veginum niður á Grundartanga og hafa með því stöðvað umferð til og frá álverinu og Járnblendiverksmiðjunni.

Fólkið hefur hlekkjað sig saman og myndað vegartálma. Lögreglan á Akranesi er mætt á staðinn til að ræða við fólkið og fá það til að hætta aðgerðum sínum.

Saving Iceland hefur frá því aðgerðir hófust fyrir rúmri viku beitt kröftum sínum gegn Hellisheiðarvirkjun og byggingarframkvæmdum Norðuráls á lóð væntanlegs álvers í Helguvík. Nú beinast aðgerðirnar gegn Norðuráli og stóriðjustarfseminni á Grundartanga. Þess má geta að sami hópur mótmælti við Grundartanga í júlímánuði fyrir ári síðan.

Aðgerðir þessar eru með öllu óþolandi og Formaður spyr sig: hvernig geta það verið friðsamleg mótmæli að loka vegi með því hlekkja sig saman með það eitt að markmiði að starfsmenn Norðuráls og Íslenska járnblendifélagsins komist ekki til og frá vinnu?

Það liggur fyrir að starfsmenn stóriðjufyrirtækjanna á Grundartanga vinna langan og strangan vinnudag þannig að mótmæli af þessu tagi ógna hugsanlega öryggi starfsmanna.  Slík mótmæli eru með öllu ólíðandi og ber yfirvöldum að taka hart á slíkum mótmælum.

Formaður veltir öðru atriði fyrir sér: hvað með löggæslu í Borgarfirði á meðan slík ólögleg mótmæli eiga sér stað? Hvað ef alvarlegt slys hefði orðið t.d. uppá Holtavörðuheiði og stór hluti lögreglunnar í Borgarnesi að sinna ólöglegum mótmælaaðgerðum.  Fyrir einu ári síðan varð mjög alvarlegt banaslys hér í nágrenninu og í því slysi þurfti að sameina löggæslu frá Akranesi og Borgarnesi.

Það eru grundvallar mannréttindi að mega mótmæla, um það er ekki deilt. Hins vegar verða allir mótmælendur að fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda hér á landi og mega ekki undir neinum kringumstæðum ógna öryggi annarra.  Þess vegna ber yfirvöldum að taka hart á þeim mótmælendum sem ekki virða lög og reglur hér á landi. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image