• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
May

Fantaskapnum ætlar aldrei að ljúka

Síldarverksmiðja HB Granda á AkranesiSíldarverksmiðja HB Granda á AkranesiÍ morgun fengu allir starfsmenn síldar- og fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi uppsagnarbréf. Um er að ræða 5 starfsmenn sem sumir hverjir hafa áratuga langan starfsaldur hjá fyrirtækinu. Það er óhætt að segja að sá fantaskapur sem forsvarsmenn HB Granda sýna okkur Skagamönnum ætli engan enda að taka.

Formaður hitti starfsmenn í morgun og fór ekki á milli mála að starfsmenn voru bitrir og reiðir vegna þessarar ákvörðunar og ljóst að krafist verður skýringa á þessari ákvörðun. Samkvæmt þeim upplýsingum sem formaður hefur aflað þá stendur ekki til að leggja verksmiðjuna niður hér á Akranesi. Á þeirri forsendu er þessi ákvörðun gjörsamlega óskiljanleg.

Menn velta því fyrir sér hvernig eigendur HB Granda ætli sér að reka þessa verksmiðju eftir að sá mannauður sem þarna hefur starfað í áratugi hefur látið af störfum. Við Skagamenn spyrjum okkur líka, hví í ósköpunum er ávallt höggvið í sama knérunn þegar um hagræðingu hjá fyrirtækinu er að ræða, ef hagræðingu skyldi kalla.

Það er komin full ástæða til þess að óskað verði eftir fundi með stjórn fyrirtækisins og krafist verði skýringa á ýmsum þáttum í rekstri þess. Sem dæmi þá máttum við Skagamenn á síðust síldarvertíð horfa upp á skip fyrirtækisins sigla með megnið af síldarkvóta þess til Vopnafjarðar. Sú sigling tekur yfir 40 klukkustundir þegar einungis var 8 tíma sigling í höfn á Akranesi. Hvurslags hagræðingu er hér um að ræða? Það eru fleiri svona dæmi sem við Skagamenn höfum sem þarf að fá skýringar á.

Þegar uppsagnirnar í landvinnslunni áttu sér stað í febrúar, þá missti eiginkona eins starfsmanns fiskimjölsverksmiðjunnar vinnu sína og nú hefur eiginmaðurinn einnig misst sitt lífsviðurværi. Á þessu sést að það eru heilu fjölskyldurnar á Akranesi sem eru í sárum vegna þess sífellda niðurskurðar HB Granda sem hefur nánast  eingöngu bitnað á okkur Skagamönnum.

Þegar Haraldur Böðvarsson sameinast Granda árið 2004 þá störfuðu 15 manns í síldarbræðslunni. En nú, eftir þessar uppsagnir þá verður enginn eftir. Þetta er algjörlega í anda þess sem við Skagamenn höfum mátt þola frá því að við sameinuðumst Granda og því miður virðist sem þessum harmleik ætli aldrei að ljúka. Þegar uppsagnirnar í landvinnslunni hafa tekið gildi í júní næstkomandi verða einungis 20 manns í starfi hjá fyrirtækinu á Akranesi.

Það hefur áður komið fram hér á þessari heimasíðu að við Skagamenn höfum tapað 150 störfum frá sameiningunni 2004, og er sá fjöldi fyrir utan afleidd störf. Það er óhætt að segja að mælirinn hjá okkur Skagamönnum sé nú gjörsamlega fullur. Þessi framkoma sem forsvarsmenn fyrirtækisins hafa sýnt okkur er ekki hægt að líða og verður hún ekki liðin. En við Skagamenn komum með yfir 25.000 þorskígildistonn inn í sameininguna við Granda og var það sambærilegt magn og Grandamenn lögðu til. Nú hafa þeir hirt allar þessar aflaheimildir frá okkur og það verður að gera þá skýlausu kröfu á ráðamenn þessarar þjóðar að kallað verði eftir nýjum leikreglum hvað varðar stjórnun fiskveiða því það er ekki hægt að horfa upp á fólk sem hefur lagt alla sína starfsorku í sölurnar fyrir viðkomandi fyrirtæki missa sitt lífsviðurværi á augabragði.

Formaður spyr sig, hvernig ætla eigendur HB Granda að reka síldarmjölsverksmiðjuna á komandi vertíðum þegar þeir hafa kastað frá sér þeim mannauði sem þar hefur starfað í áratugi og eitt skal mönnum vera ljóst að Verkalýðsfélag Akraness er með sérkjarasamning við HB Granda vegna starfa í síldarmjölsverksmiðjunni og það mun ekki þýða fyrir þá að koma með starfsmenn frá öðrum landshlutum til að starfa í verksmiðjunni enda njóta félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness forgangs að þeim störfum sem þar eru.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image