• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Jul

Verkalýðsfélag Akraness vísaði kjaradeilunni við Fang ehf. til ríkissáttasemjara

 Verkalýðfélag Akraness vísaði kjaradeilunni við Fang til ríkissáttasemjara í dag.  Félagið hefur ítrekað óskað eftir viðræðum um nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn Fangs en án árangurs.  Verkalýðsfélag Akraness sendi  bréf til  Samtaka  atvinnulífsins og gaf þeim lokafrest til að svari þeirri beiðni félagsins,  um hvort og þá hvenær Samtökin gætu hafið viðræður um nýjan kjarasamning.  Það verður að segjast alveg eins og er að svarið sem barst frá SA í gær hefur valdið gríðarlegum vonbrigðum.  Samtök atvinnulífsins telja að í gildi sé bindandi kjarasamningur milli SA og vlf. Akraness sem nái til umræddra starfa hjá Fangi ehf.  Einnig telja Samtök atvinnulífsins að ekki sé lagaskilyrði fyrir vísun félagsins til sáttasemjara.   Fang ehf. var stofnað í júní 2002 tilgangur þess var að sjá um ræstingu, mötuneyti, þvott-þrif og launavinnslu.  Öll þessi ofangreindu störf voru unnin af starfsmönnum Íslenska járnblendifélagsins.  Þegar Fang var stofnað var starfsmönnum sem unnu við umrædd störf hjá Íj boðin áframhaldandi vinna hjá Fangi.  Verðandi starfsmönnum Fangs var réttur ráðningasamningur  og eftir þeim upplýsingum sem félagið hefur aflað sér var ekkert val um hvort starfsmenn vildu það sem í boði var eða ekki.  Ef starfsmenn vildu ekki ganga að þessum ráðningarkjörum sem þarna var í boði gátu starfsmenn einfaldlega hætt þetta voru skilaboðin sem starfsmenn fengu.   Nú er klárlega komið í ljós hver hinn eiginlegi tilgangur var með stofnun Fangs það var að lækka kjör starfsmanna.

Það sem er alvarlegast í þessum ráðningarsamningum er að í þeim kemur fram að kjarasamningur Íslenska járnblendifélagsins sem starfsmenn hafa unnið eftir í áratugi  fell úr gildi 30. nóvember 2004.  Eftir það á kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði að gilda.  Þennan gjörning gerðu eigendur Fangs algerlega án samráðs við þau stéttarfélög sem hafa samningsumboð fyrir þau störf sem um ræðir.  Lögfræðingur félagsins hefur skilað stjórn félagsins álitgerð um þetta mál.  Í áliti lögmannsins kemur skýrt fram að eigendur Fangs geta ekki einhliða ákveðið laun og önnur kjör án samráðs við þau stéttarfélög sem hafa samningsumboð fyrir starfsmenn Fangs.  Ef Samtök atvinnulífsins munu halda þessu til streitu mun Verkalýðsfélag Akraness senda málið fyrir félagsdóm.  Reyndar á félagið ekki von á öðru en að sáttasemjari boði til sáttafundar von bráðar, og vonandi leysist þessi deila þar.

04
Jul

Kemur í ljós í dag hvort kjaradeila við eigendur Fangs endi hjá ríkissáttasemjara

Verkalýðsfélag Akraness bíður eftir svari frá Samtökum atvinnulífsins um hvort og þá hvenær þeir geta hafið viðræður um nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn Fangs.  Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur stjórn Fangs ákveðið einhliða að fresta viðræðum þar til í haust.  Einnig hefur  stjórn Fangs tekið ákvörðun um hversu mikið laun starfsmanna skulu hækka.  Verkalýðsfélag Akraness vill ítreka það, að það er ekki á valdi stjórnar Fangs að ákveða þetta einhliða. Þessar ákvarðanir verða að vera teknar í samráði við þau stéttarfélög sem fara með  samningsumboðið fyrir umrædd störf.   Kjarasamningur starfsmanna Fangs rann út 30. nóvember og það mun ekki koma til greina að fresta viðræðum fram á haustið.  Verkalýðsfélag Akraness hefur óskað eftir því við Samtök atvinnulífsins að hefja viðræður um nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn Fangs strax.  Ef ekki berst jákvætt svar við þessari beiðni í dag frá Samtökum atvinnulífsins, mun félagið vísa deilunni til ríkissáttasemjara og það seinni partinn í dag.

01
Jul

Útlitið ekki gott hvað varðar nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn Fangs

Útlitið er er ekki gott hvað varðar nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn Fangs.  Verkalýðsfélag Akraness hefur verið í sambandi við Samtök atvinnulífsins en þau fara með samningsumboðið fyrir eigendur Fangs.  Stjórn Fangs tók einhliða ákvörðun um hversu mikið laun starfsmanna Fangs skyldu hækka.  Við þá ákvörðun var litið til þeirra almennu kjarasamninga sem um störfin gilda sem og annarra launabreytinga á vinnumarkaði vegna sambærilegra starfa.  Einnig ákvað stjórn fyrirtækisins að fresta viðræðum hvað varðar önnur kjaraatriði  þar til haustsins.  Við þetta getur Verkalýðsfélag Akraness alls ekki unað.  Það er ekki á valdi stjórnar Fangs að ákveða það einhliða hversu mikið laun starfsmanna hækka.  Eins og áður sagði tók stjórn Fangs líka ákvörðun um að fresta viðræðum um nýjan kjarasamning til haustsins, og það án nokkurs samráðs við þau stéttarfélög sem hafa samningsumboð fyrir þau störf sem hér um ræðir.  Rétt er að það komi skýrt fram að kjarasamningur starfsmanna Fangs rann út 30. nóvember 2004, og hafa starfsmenn því verið samningslausir í 7 mánuði. Félagið hefur sett sig í samband við fulltrúa ríkissáttasemjara og greint honum frá þeirri stöðu sem upp er komin.  Á það skal bent enn og aftur að það er búið að semja fyrir starfsmenn Ij og Klafa.  Þær  launahækkanir sem stjórn Fangs hefur boðið sínum starfsmönnum er því miður ekki í samræmi við þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið við starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins og Klafa.    Krafa starfsmanna Fangs er skýr þ.e sambærilegar launahækkanir og aðrir á svæðinu fengu.  Annað er ekkert samgirni.

30
Jun

Starfsmenn Fangs hafna tillögu að afgreiðslu á nýjum kjarasamningi

Formaður félagsins fundaði með starfsmönnum Fangs í gær.  Á fundinum gerði formaðurinn grein fyrir því tilboði sem forsvarsmenn Fangs hafa lagt fram.  Eins og kom fram í frétt hér á heimasíðunni þá er þetta tilboð, því miður ekki í takt við það sem samið hefur verið um á grundartangasvæðinu á liðnum mánuðum.  Starfsmenn allir sem einn höfnuðu þessari tillögu forsvarsmanna Fangs á fundinum í gær.  Það kom skýrt fram hjá starfsmönnum að krafan er sambærilegur kjarasamningur og gerður var við starfsmenn Klafa.  Formaður félagsins hefur tilkynnt forsvarsmönnum Fangs niðurstöðuna frá þessum fundi.  Væntanlega munu samningsaðilar funda á morgun eða í byrjun næstu viku.  

28
Jun

Formaður fundar með starfsmönnum Fangs á morgun

Formaður félagsins mun funda með starfsmönnum Fangs á morgun kl. 14:30.  Þeir sem starfa hjá Fangi eru starfsmenn í ræstingu og mötuneyti hjá Íslenska járnblendifélaginu.  Dagskrá fundarins er tilboð sem forsvarsmenn Fangs lögðu fram í dag.  Ætlar formaður félagsins að fara yfir tilboðið með starfsmönnum sem barst  frá  forsvarsmönnum Fangs.  Málið er að Verkalýðsfélag Akraness hefur gert þrjá kjarasamninga á grundartangasvæðinu á liðnum mánuðum.  Það tilboð sem nú liggur fyrir handa starfsmönnum Fangs er Því miður lakara en samið hefur verið um á svæðinu á undanförnum mánuðum.  Það verður því mjög erfitt fyrir Verkalýðsfélag Akraness og reyndar ómögulegt að semja á einhverjum öðrum nótum en gert var við Norðurál, Íslenska járnblendifélagið og Klafa.  Það er búið að marka þá línu sem samið verður um á þessu stóriðjusvæði því kemur tilboð forsvarsmanna Fangs töluvert á óvart.

27
Jun

Aðalstjórn félagsins fundaði í kvöld

Stjórnarfundur var haldinn í kvöld á dagskrá voru fjölmörg mál.  Helsta dagskrámálið var um fyrirhugaðar breytingar á lögum félagsins.  Einnig var málefni Laugafisks til umræðu.  En stjórn félagsins er afar ánægð með þá stefnu sem það mál hefur nú tekið.  Fjölmargir hafa haft orð á því við formann félagsins að lyktarmengun frá Lagafiski hafi stórminnkað á liðnum mánuðum.  Sem er afar ánægjulegt því við megum ekki undir nokkrum kringumstæðum missa um 40 störf úr okkar byggðarlagi.  Stjórn félagsins samþykkti á fundi sínum í kvöld að láta gera nýjan félagsfána.  Var það gert vegna þess að gamli félagsfáninn var farinn að láta verulega á sá.  Einnig verður nýi fáninn mun viðráðanlegri í alla staði, sé nú ekki talað um eins og í 1. maí göngunni.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image