• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Aug

Verkalýðsfélag Akraness hefur óskað eftir fundi með æðstu stjórnendum HB Granda

Verkalýðsfélag Akraness hefur óskað eftir fundi með æðstu stjórnendum HB Granda.  Ástæða þess að félagið óskar eftir fundi með stjórnendum fyrirtækisins er sú mikla óvissa sem upp er komin í einstaka  rekstrareiningum fyrirtækisins hér á Akranesi.  Starfsmenn Síldar og fiskimjölsverksmiðjunar eru til að mynda orðnir verulega uggandi um sinn hag.  Starfsmennirnir eru uggandi vegna þess að ekki hefur neinum afla verið landað hér til bræðslu frá því 18. mars sem þýðir að tekjur starfsmanna síldarverksmiðjunnar hafa dregist verulega saman og alger óvissa virðist ríkja um framhaldið.  Það hafa 5  starfsmenn síldarbræðslunnar af 12 nú þegar hætt störfum útaf þessu óvissu ástandi sem nú ríkir.  Einnig hafa skipverjar á Víkingi AK 100 óskað eftir því við Verkalýðfélag Akraness að það leiti svara  hjá stjórnendum fyrirtækisins um hvert hlutverk skipsins eigi að vera á næstu misserum.  Skipverjar hafa fengið þau boð að ekki verði haldið til síldveiða um miðjan september eins og áformað hafi verið. Þetta óvissuástand geta skipverjar illa sætt sig við. Stjórn Verkalýðsfélag Akraness hefur orðið töluverðar áhyggjur af þeirri þróun sem virðist vera að eiga sér stað hjá HB Granda hér á Akranesi.  Einnig hefur stéttarfélagið áhyggjur af því hver gætir hagsmuna okkar Akurnesinga eftir að þeir bræður Sturlaugur og Haraldur Sturlaugssynir létu af störfum hjá fyrirtækinu.  Vonandi reynast þessar áhyggjur ástæðulausar.  Við skagamenn verðum samt sem áður að vera vel á verði því hér eru gríðarlega miklir hagsmunir í húfi fyrir okkur Akurnesinga, þetta er jú fjöreggið okkar. 

10
Aug

Verkalýðsfélag Akraness bíður eftir drögum að nýjum fyrirtækjasamningi fyrir starfsmenn Fangs ehf.

Verkalýðsfélag Akraness bíður eftir drögum að nýjum fyrirtækjasamningi frá eigendum Fangs ehf.  Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa forsvarsmenn fyrirtækisins sýnt jákvæðan vilja til að ganga frá fyrirtækjasamningi við Verkalýðsfélag Akraness.  Í þessum fyrirtækjasamningi munu öll helstu kjaraatriði vera sem áunnist hafa í stóriðjusamningum Íslenska járnblendifélagsins eins og launatafla, veikindaréttur, starfsaldurshækkanir, orlofs og desemberuppbætur.  Öll þessi kjaraatriði eru mun betri heldur en gerast í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði.  Verkalýðsfélag Akraness á von á því að drög að nýjum  fyrirtækjasamningi muni liggja fyrir í byrjun næstu viku.  Vissulega getur brugðið til beggja vona í þessu máli, en eigendur hafa sýnt mikinn vilja til að klára samning á þessum nótum.

08
Aug

Skrifað var undir þjónustusamning við Ráðgjafarstofu heimilanna í dag

Svæðisvinnumiðlun Vesturlands, Verkalýðsfélag Akraness og Akraneskaupstaður hafa gert þjónustusamning við Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.

Ráðgjafar Ráðgjafarstofu munu veita endurgjaldslausa fjárhagsráðgjöf til atvinnuleitenda á starfssvæði Svæðisvinnumiðlunar Vesturlands, félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness og íbúa Akraneskaupstaðar.  Ráðgjöfinni er ætlað að veita fólki sem á í greiðsluerfiðleikum yfirsýn yfir stöðu fjármála sinna og aðstoð við að gera greiðsluáætlanir, velja úrræði og semja við lánardrottna.

Þeir sem telja sig hafa þörf fyrir ráðgjöf panta viðtalstíma í síma 433-1000 en ráðgjafi verður staddur á Akranesi einn dag í mánuði.  Þeim sem ekki komast í viðtal er boðið upp á símaviðtal þann sama dag og ráðgjafinn verður á Akranesi.

Samningurinn er gerður til reynslu og gildir út árið 2005.

Verkalýðsfélag Akraness hvetur  félagsmenn sína sem þurfa á fjárhagsráðgjöf að halda að nýta sér þessa þjónustu

04
Aug

Samið við Ráðgjafastofu heimilanna !

Verkalýðsfélag Akraness, Svæðismiðlun Vesturlands og Akraneskaupstaður munu á mánudaginn kemur undirrita samning við Ráðgjafastofu heimilanna.  Samningurinn er fólginn í því að ráðgjafar frá Ráðgjafastofunni munu koma einu sinni í mánuði upp á Akranes og veita einstaklingum í fjárhagsvandræðum endurgjaldslausa fjárhagsráðgjöf.  Ráðgjöfinni er ætlað að veita fólki yfirsýn yfir stöðu fjármála sinna og aðstoð við að gera greiðsluáætlanir velja úræði og semja við lánadrottna.   Verkalýðsfélag Akraness er ekki í neinum vafa um þörfina fyrir þjónustu af þessu tagi.  Fyrirkomulagið á þessari þjónustu verður auglýst þegar nær dregur.  En áætlað er að byrja að veita þessa þjónustu 25. ágúst.

02
Aug

Formaður fundaði með framkvæmdastjóra Fangs í dag vegna nýs fyrirtækjasamnings

Formaður félagsins fundaði með framkvæmdastjóra Fangs ehf. í dag.  Tilefni fundarins var að  ræða hugsanlega útfærslu á fyrirtækjasamningi fyrir starfsmenn Fangs .  Fundurinn í dag var mjög góður og er félagið nokkuð bjartsýnt á að lausn finnist vonbráðar.  Formaður félagsins gerðir þó grein fyrir þeim kröfum sem starfsmenn og stéttarfélagið telja að þurfi klárlega að vera í nýjum fyrirtækjasamningi svo hægt sé að ganga frá nýjum samningi.  Eins og áður sagði þá finnur Verkalýðsfélag Akraness fyrir miklum samnings vilja hjá forsvarsmönnum Fangs.  Verkalýðsfélag Akraness mun samt sem áður standa fast á þeim kjaraatriðum sem skipta starfsmenn hvað mestu máli.  Einnig að almennar kauphækkanir verði með sambærilegum hætti og gerður voru í kjarasamningum Íslenska járnblendifélagsins og Klafa.

31
Jul

Verkalýðsfélag Akraness innheimti vangreidd laun upp á 1.5 milljón króna fyrir fyrrverandi starfsmenn Knarrar ehf

Fyrrverandi starfsmenn Knarrar ehf leituðu til Verkalýðsfélags Akraness  vegna vangreiddra launa, en fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta í desember 2004.  Óskuðu starfsmennirnir eftir aðstoð stéttarfélagsins við að ná launum sínum út hjá fyrirtækinu.  Ekki reyndust neinar eignir vera í þrotabúi Knarrar ehf.  Verkalýðsfélag Akraness gerði því kröfu á ábyrgðarsjóðlauna fyrir hinum vangreiddu launum starfsmanna.  Á föstudaginn barst  síðan greiðsla frá ábyrgðarsjóðlauna til fyrrverandi starfsmanna Knarrar og náði stéttarfélagið að koma greiðslum til allra starfsmanna fyrir verslunarmannahelgi.  Voru starfsmenn afar þakklátir stéttarfélaginu fyrir þessa þjónustu sem félagið býður upp á.  Þjónustan er starfsmönnunum Knarrar að sjálfsögðu að kostnaðarlausu.  Það getur skipt miklu máli að vera í öflugu stéttarfélagi, eins og dæmin sanna !

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image