• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Sep

Forsvarsmenn Fangs lögðu fram drög að nýjum fyrirtækjasamningi á fundi í dag

Fundur var haldinn í dag vegna nýs fyrirtækjasamnings fyrir starfsmenn Fangs ehf.  Forsvarsmenn Fangs lögðu fram  drög að nýjum fyrirtækjasamningi á fundinum.  Í þessum drögum er margt mjög jákvætt og greinilegt að vilji er hjá forsvarsmönnum Fangs til að klára þetta mál sem allra fyrst.  Samt sem áður eru ein fjögur atriði sem þarfnast nánari skoðunar við og ekki hægt að samþykkja nema einhver breyting komi til.  Formaður félagsins fundaði strax með starfsmönnum eftir að samningafundinum lauk og kynnti drögin.  Starfsmenn nefndu nokkur kjaraatriði sem klárlega þurfa að vera í nýjum fyrirtækjasamningi til að þeir geti samþykkt samninginn.  Verkalýðsfélag Akraness er samt sem áður nokkuð bjartsýnt á að nýr fyrirtækjasamningur líti dagsins ljós fljótlega, og það jafnvel í næstu viku.  Reyndar veltur það allt á því hvort niðurstaða næst um þau fjögur atriði sem út af standa.

27
Sep

Undarleg afstaða Samtaka atvinnulífsins

Ístak er hvorki vinnuveitandi né launagreiðandi þessara starfsmanna. Vinnuveitandi og jafnframt launagreiðandi þeirra er GM Staffing.” Þetta segir í bréfi yfirlögfræðings Samtaka atvinnulífsins, til Verkalýðsfélags Akraness, um 50 danska iðnverkamenn sem starfa að stækkun álversins á Grundartanga undir verkstjórn og á vegum Ístak.  SA undirstrikar það sjónarmið, að fyrirtæki innan SA séu óskuldbundin af þeim kjarasamningum sem samtökin hafa gert, m.a. við Starfsgreinasamband Íslands, vegna þeirra stafsmanna sem fluttir eru til landsins á vegum starfsmannaleiga. SA kemst m.o.ö að þeirri niðurstöðu að hluti starfsmanna sé ,,stikk frí” frá leikreglum á íslenskum vinnumarkaði og þá fyrirtækin líka um leið. 

 

SA heldur því t.d. fram í bréfinu, að meirihluti starfsmannanna sé í stéttarfélagi í Danmörku, og því beri Ístak hvorki skylda né geti skilað stéttarfélagsgjöldum af umræddum starfsmönnum, eins og ákvæði kjarasamnings SA og SGS gerir ráð fyrir. SGS gerir ekki athugasemdir við það að fyrirtæki frá Norðurlöndum, vinni sjálf verk á Íslandi með sínu fólki, enda er íslenska verkalýðshreyfingin í nánu samstarfi við þá á Norðurlöndum og gagnkvæm félagsaðild viðurkennd. Þannig hefur danska verktakafyrirtækið Phil og Søn unnið á Íslandi og Ístak á Grænlandi svo dæmi sé tekið af störfum fyrirtækja innan Norðurlandanna. Í sumum tilvikum á þetta einnig við um önnur Evrópulönd og eru þá gefin út vottorð um stéttarfélagsaðild milli landanna.

Það sem er alvarlegt í þessari yfirlýsingu SA núna er hin afar þrönga lögskýring, að fyrirtæki innan SA séu óbundin af kjarasamningum, vegna þess að starfsmenn svokallaðra starfsmannaleiga eiga í hlut.

Hvernig starfsmannaleigur sniðganga ákvæði kjarasamninga og lög um starfskjör á íslenskum og norrænum vinnumarkaði er vel þekkt. Það sem er nýtt er að SA skuli taka undir það sjónarmið að þeir atvinnurekendur sem velja að nota vinnuafl frá starfsmannaleigum, séu sjálfir ,,stikkfrí" frá samningsbundum starfskjörum. Með því er SA að taka undir með þeim sem grafa undan leikreglum á vinnumarkaðnum. SA grefur undan samkeppnisstöðu sinna eigin félagsmanna, sem vilja standa sig á markaði og grefur einnig undan gagnkvæmu trausti aðila vinnumarkaðarins. Slíkt er ólíðandi.

Það er að vísu þekkt að SA og áður Vinnuveitendasamband Íslands, hafa barist með oddi og egg fyrir því láglaunakerfi launataxta sem hér ríkir.  En að SA vilji beinlínis stuðla að því með aðgerðum sínum og athöfnum, að réttlæta, að því er virðist, þau fyrirtæki sem stunda ólögmæt undirboð, með því að nota starfsmannaleigur eins og Ístak gerir, er alveg nýtt, hvort sem starfsmannaleigan er skráð í Danmörku, hérlendis eða í öðrum löndum.

Starfsgreinasamband Íslands mun far gaumgæfilega í saumana á þessari undarlegu stefnu Samtaka atvinnulífsins, auk þess sem fjallað verður um grundvallaratriði á vinnumarkaði á komandi ársfundi sambandsins, sem hefst 6. október n.k.

Birtist á vef SGS

27
Sep

Loksins fundað um starfskjör starfsmanna Fangs

Fundað verður loksins um nýjan fyrirtækjasamning fyrir starfsmenn Fangs á morgun.  Verkalýðsfélag Akraness hefur ítrekað óskað eftir fundi um nýjan fyrirtækjasamning, því miður er það núna fyrst sem forsvarsmenn Fangs gefa sér tíma til að leggja fram drög að nýjum fyrirtækjasamningi. Starfsmenn Fangs eru búnir að vera samningslausir frá 1. nóvember 2004.  Verkalýðsfélag Akraness hefur gert kröfu um að í hinum nýja fyrirtækjasamningi verði tryggt að eftirfarandi áunnin réttindi haldi sér þ.e veikindaréttur, orlofsréttur, vinnutími, launatafla, ferðapeningar. orlofs og desemberuppbætur.  Eins og áður sagði þá munu forsvarsmenn Fangs leggja fram drög að nýjum  fyrirtækjasamningi á fundinum á morgun.

26
Sep

Kristín Njálsdóttir verkefnisstjóri Landsmenntar í heimsókn á skrifstofu félagsins

Kristín Njálsdóttir verkefnisstjóri Landsmenntar kom í heimsókn á skrifstofu félagsins rétt fyrir helgi.  Kristín fór nokkuð ítarlega yfir með starfsmönnum Verkalýðsfélags Akraness hvernig starfsemi Landsmenntar væri háttað.   Einnig benti hún  á mikilvægi þess að stéttarfélögin nýti sér sjóðinn fyrir félagsmenn sína.  Ekki mun standa á Verkalýðsfélagi Akraness hvað það varðar, því nú þegar hefur félagið staðið nýlega fyrir námskeiði fyrir starfsmenn sjúkrahús Akraness.  Einnig er félagið að skoða hvort ekki sé möguleiki á að halda námskeið fyrir lesblinda.  En félagið telur mikla þörf fyrir slíku námskeiði

26
Sep

Fundur um bónusmál starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins

Fundur var haldinn í endurskoðunarnefnd sem fjallar um hið nýja bónuskerfi starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins á föstudaginn sl.  Í síðasta kjarasamningi sem gerður var við Íslenska járnblendið var tekið upp nýtt bónuskerfi fyrir starfsmenn fyrirtækisins. Í samningum segir  komi í ljós að bónuskerfin séu ekki að skila verulega bættum árangi og þar með hækkandi bónusgreiðslum  til handa starfsmönnum Íj skal fara fram endurskoðun á bónuskerfinu.  Þetta endurskoðunarákvæði nýtti Verkalýðsfélag Akraness sér og fundaði ásamt aðaltrúnaðarmanni með forsvarsmönnum Íj.  Fundurinn  var afar ganglegur og eru aðilar að skoða þá þætti bónussins sem ekki hefur verið að skila því sem samningsaðilar vonuðust til.  En flestir þættirnir í bónusnum hafa gefið það sem samningsaðilar vonuðust til.  Því miður var einn þáttur í nýja bónuskerfinu sem ekkert hefur gefið  starfsmönnum, en það er hreinsaður málmur- milli seljanlegs efnis og útsteypt hreinsaðs efnis.  Eins og áður sagði eru samningsaðilar að reyna að finna út vegna hvers þessi þáttur bónussins hefur ekki virkað sem skildi. 

22
Sep

Forstjóri vinnumálastofnunar í heimsókn á skrifstofu félagsins

Gissur Pétursson forstjóri vinnumálastofnunar kom í heimsókn á skrifstofu félagsins ásamt Guðmundi Páli Jónssyni  forseta bæjarstjórnar og Guðrúnu Gísladóttur forstöðumanni Svæðisvinnumiðlunar Vesturlands.  Formaður félagsins ræddi við forstjóra vinnumálastofnunar um þá þróun sem átt hefur sér stað á síðustu misserum og snýr að erlendum starfsmönnum sem eru ráðnir í gegnum erlendar starfsmannalegur.  Formaður félagsins gerði forstjóra Vinnumálastofnunar grein fyrir áhyggjum félagsins með þá  þróun sem er að eiga sér stað í kringum erlendar starfsmannaleigur.   Oft á tíðum er verið að greiða þessum erlendu starfsmönnum sem koma í gegnum erlendar starfsmannaleigur langt undir gildandi kjarasamningum. Gissur Pétursson  sagði að Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun hafi ákveðið í samráði við ráðuneyti dómsmála og félagsmála að breyta verklagi við afgreiðslu umsókna frá ríkisborgurum hinna átta nýju aðildarríkja EES samningsins.  Í þessu felst að afgreiðsla umsóknanna mun taka mun skemmri tíma en áður. Þannig er  áréttaður forgangur ríkisborgara þessara landa að íslenskum vinnumarkaði umfram ríkisborgara landa utan EES svæðisins.  Með þessari ráðstöfun er einnig á skemmri tíma en áður unnt að koma til móts við  óskir atvinnulífsins um leyfi  til að ráða erlent vinnuafl.  Verkalýðsfélag Akraness fagnar þessu breyta verklagi Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar við afgreiðslu á umsóknum um atvinnuleyfi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image