• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Oct

Enn og aftur ber eftirlit Verkalýðsfélags Akraness árangur með fyrirtækjum sem hafa erlent vinnuafl að störfum !

Enn og aftur bar eftirlit með erlendu vinnuafli árangur hjá Verkalýðsfélagi Akraness.  Fyrir nokkrum vikum fékk félagið ábendingu um að þýskir smiðir væru að störfum við byggingu á fjölbýlishúsi hér á Akranesi og grunur væri um að þeir væru ekki að fá greitt eftir réttum kjarasamningi.  Verkalýðsfélag Akraness fór á vinnustaðinn og kom þá í ljós að ábendingin átti við rök að styðjast.  Í framhaldinu óskaði félagið eftir launaseðlum og ráðningarsamningum af erlendu starfsmönnunum.  Fyrirtækið varð við ósk félagsins og afhenti umrædd gögn.  Kom þá í ljós þegar launaseðlar og ráðningarsamningar höfðu verið yfirfarnir, að ekki var verið að greiða eftir launataxta sem gildir fyrir smiði og vantaði þó nokkuð uppá.  Þýsku smiðirnir fengu greiddar 734 kr. í dagvinnu auk 208 kr. í fastan bónus á hvern dagvinnutíma.  Yfirvinnutímakaup þýsku smiðanna var einungis 1.332 kr. en átti að vera samkvæmt kjarasamningi 1.779 kr.  Það  vantaði  því 34% uppá að farið væri eftir þeim launatöxtum sem gilda fyrir umrædd störf.  Málið leystist í dag með samkomulagi og fá þýsku smiðirnir nú 988 kr. í dagvinnulaun og 1.779 kr. í yfirvinnu eins og kjarasamningur segir til um.  Þetta sýnir enn og aftur hversu mikilvægt það er fyrir verkalýðshreyfinguna að vera á varðbergi gegn þeim undirboðum  sem nú tröllríður íslenskum vinnumarkaði.  Þessi undirboð snúa nær eingöngu að erlendu vinnuafli.  Þetta fjórða tilfellið á stuttum tíma  sem Verkalýðsfélag Akraness kemst að því að íslensk fyrirtæki eru að reyna að komast hjá því að greiða eftir þeim kjarasamningum sem um hefur verið samið í þessu landi.  Sem er algerlega óviðunandi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image