• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Jul

Heilbrigðisfulltrúi Vesturlands mun á morgun taka út húsnæðið þar sem Pólverjarnir eru látnir gista

Verkalýðsfélag Akraness hefur sett sig í samband við heilbrigðisfulltrúa Vesturlands og óskað eftir að heilbrigðisfulltrúinn taki út það húsnæði þar sem erlendu starfsmennirnir eru látnir gista.  Það kom fram í máli heilbrigðisfulltrúans í dag að forsvarsmenn Spútnik báta hafa ekki látið heilbrigðisnefnd Vesturlands  taka út það húsnæði sem Pólverjarnir eru látnir gista í, á meðan þeir eru að störfum hjá fyrirtækinu.  Húsnæðið sem eigendur fyrirtækisins hafa skaffað handa erlendu stafsmönnunum er gamalt og hrörlegt iðnaðarhúsnæði.  Eins og áður sagði mun heilbrigðisfulltrúi Vesturlands taka húsnæðið út á morgun og kemur þá í ljós hvort húsnæðið uppfylli þau skilyrði sem eru gerðar til íbúðarhúsnæðis.

21
Jul

Pólverjarnir segjast vera með 77 þúsund krónur fyrir 240 vinnustundir á mánuði

Í kvöld fréttum Ríkissjónvarpsins var fjallað um málefni Pólverjanna sem starfa hjá fyrirtækinu Spútnik bátum.  Fréttamaðurinn hafði eftir  lögmanni fyrirtækisins  Sveini Andra Sveinssyni að samningurinn á milli Spútnik og starfsmannaleigunnar hljóðaði upp á 3.5 milljónir króna og að Pólverjarnir ynnu eftir lágmarkstaxta Eflingar.  Ekki veit Verkalýðsfélag Akraness hvaða samning Sveinn Andri hefur undir höndum.  En samningurinn á milli Spútnik og starfsmannaleigunnar sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins afhenti formanni félagsins í gær hljóðar upp á 2.1 milljón fyrir fimm Pólverja og samningstíminn er þrír mánuðir.  Þetta stendur hvell skýrt í samningunum og hefur félagið afhent Sýslumanninum á Akranesi eintak af samningum.  Einnig var afar undarlegt að heyra haft eftir framkvæmdastjóra Spútnik báta að hann hefði ekki hugmynd um hver kjör Pólverjanna væru.  Hinsvegar var haft eftir Sveini Andra lögmanni framkvæmdastjórans að Pólverjarnir ynnu eftir kjarasamningi Eflingar.  Verður það að teljast afar undarlegt að lögmaðurinn viti eftir hvaða kjarasamningum Pólverjarnir fá greitt en ekki framkvæmdastjóri fyrirtækisins.  Eitt er alveg víst að Verkalýðsfélag Akraness mun fylgja þessu máli eftir af fullum þunga.

21
Jul

Verkalýðsfélag Akraness hefur lagt fram kæru á hendur Spútnikbátum ehf

Rétt í þessu var formaður Verkalýðsfélags Akraness að leggja fram kæru á hendur fyrirtækinu Spútnikbátar ehf. hjá Sýslumanninum á Akranesi.  Kæran er vegna brota á lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97 frá árinu 2002.  Hægt er að lesa alla kæruna með því að smella á meira.

Sýslumaðurinn á Akranesi

Stillholti 16-18

300 Akranesi 

Akranesi 20. júlí 2005

Efni: Kæra vegna brota á lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97 frá árinu 2002

Fram hefur komið að 5 Pólverjar starfa samkvæmt svokölluðum ,,þjónustusamningi” hjá slippfyrirtækinu Spútnik Bátar ehf. kt. 570205-0990, að Bakkatúni 26, hér í bæ. Um starfsmenn sem sendir eru hingað til lands á vegum erlendra fyrirtækja til að veita þjónustu er fjallað í lögum nr. 54/2001.

Í lögum nr. 97/2002 er aftur á móti fjallað um það með hvaða hætti útlendingar geti komið til starfa til íslenskra fyrirtækja sem launþegar.  Samkvæmt afriti af samningi Spútnik Báta ehf. og M K Trans & Service verður að telja að umræddir starfsmenn séu launþegar Spútnik Báta ehf. og lúti því lögum nr. 97/2002 en komi ekki hingað til lands til að sinna þjónustu á vegum erlenda fyrirtækisins sbr. lög nr. 54/2002.

Ekki liggur fyrir atvinnuleyfi viðkomandi atvinnurekenda til að hafa nefnda Pólverja í vinnu, en samkvæmt 7. gr. c. liðar laga 97/2002, þarf m.a. „að liggja fyrir undirskrifaður ráðningarsamningur til tiltekins tíma eða verkefnis sem tryggi starfsmanni laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn, sbr. lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.”

Hið tilvitnaða ákvæði er m.a. ætlað að  koma í veg fyrir undirboð á íslenskum vinnumarkaði, en ekki verður betur séð af afriti meðfylgjandi samnings að hver umræddur starfsmaður hafi kr. 77.000,- í mánaðarlaun fyrir mikla vinnu.  Þessi launakjör brjóta jafnt í bága c-lið 1. mgr.  7. gr. laga nr. 97/2002 og 3. gr. laga nr. 54/2002.

Þegar af þeirri ástæðu ber að stöðva vinnu viðkomandi manna hjá umræddu fyrirtæki og er hér með skorað á yður að grípa til viðeigandi aðgerða gegn fyrirtækinu.

Þá má geta þess að samkvæmt 15 gr. nefndra laga um atvinnuréttindi útlendinga eru tæmandi taldir þeir útlendingar sem undanþágur eru gerðar um varðandi veitingu atvinnuleyfa, í allt að fjórar vikur, hér á landi. Ekki verður séð að nefndir Pólverjar falli undir undanþáguákvæði þessi.

F.h. Verkalýðsfélags Akraness. 

___________________________________
Vilhjálmur Birgisson, formaður.

20
Jul

Pólverjar án atvinnuleyfis að störfum hjá Spútnik bátum ehf.

Haft var samband við skrifstofu félagsins í dag og óskað eftir því við stéttarfélagið að það kannaði kjör og aðbúnað fimm Pólverja sem væru að störfum hjá fyrirtækinu Spútnik bátar ehf.   Formaður félagsins fór á vinnustaðinn og hafði tal af forsvarsmönnum fyrirtækisins.  Kom í ljós í samtölum við eigendur fyrirtækisins að engin Pólverjana hafði  atvinnuleyfi hér á landi.  Það kom einnig fram í máli forsvarsmanna fyrirtækisins að þeir hefðu gert samning við starfsmannaleigu í Póllandi sem heitir MK Trans & Service.  Í þeim samningi kemur fram að Spútnik ehf greiðir starfsmannaleigunni 2.1 milljón fyrir þriggja mánaða vinnu fyrir fimm Pólverja.  Það kemur líka fram í þessum samningi að Pólverjarnir er skyldugir til að skila að minnsta kosti 10 vinnustundum á dag.  Forsvarsmenn fyrirtækisins segjast ekki hafa hugmynd hvað starfsmannaleigan borgi Pólverjunum í laun það komi þeim ekkert við.   Pólverjarnir sjálfir hafa sagt starfsmönnum Þ & E að þeir séu með 77 þúsund krónur í  mánaðarlaun fyrir 240 klukkustundir á mánuði.  Það er alveg ljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun fara af fullri hörku í þetta mál því hér er grafalvarlegt mál á ferð ef satt reynist.  Starfsmenn í skipasmíðastöðinni Þorgeirs & Ellerts þar sem Pólverjarnir eru að störfum hafa sagt formanni félagsins að þeir séu verulega uggandi um sinn hag og sína afkomu.  Starfsmenn Þorgeirs & Ellerts hafa líka sagt, ef það er hægt að ráða erlenda starfsmenn með þessu móti eins og Spútnik gerði, er atvinnuöryggi þeirra verulega ógnað.  Rétt er að benda á í lokin að Pólverjarnir fimm borga hvorki skatta né aðrar skyldur til samfélagsins.  Því er það mat Verkalýðsfélags Akraness að hér sé um mikið samfélagslegt vandamál á ferð.   Verkalýðsfélag Akraness er að skoða hvort málið verði kært til Sýslumannsins á Akranesi vegna brota á lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97 frá árinu 2002.

19
Jul

Ágreiningurinn við Samtök atvinnulífsins vegna Fangs ehf. fer fyrir félagsdóm !

Formaður félagsins fundaði með starfsmönnum Fangs í gær.  Tilefni fundarins var fara yfir stöðuna í kjaradeilunni við eigendur Fangs ehf.  Eins og marg oft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá neita Samtök atvinnulífsins alfarið að það eigi eftir að ganga frá kjarasamningi fyrir starfsmenn Fangs.  Samtök atvinnulífsins segja að kjarasamningur á hinum almenna  vinnumarkaði  gildi fyrir starfsmenn fyrirtækisins.  Þessu hafna starfsmenn og Verkalýðsfélag Akraness algerlega.  Starfsmenn Fangs hafa alla tíð unnið eftir kjarasamningi Íslenska járnblendifélagsins sá kjarasamningur rann út 30. nóvember 2004.  Verkalýðsfélag Akraness hefur ekki gert nein kjarasamning fyrir starfsmenn Fangs við Samtök atvinnulífsins, því er fráleitt hjá Samtökum atvinnulífsins að segja að í gildi sé kjarasamningur fyrir umrædd störf.  Það er ekki einhliða ákvörðun Samtaka atvinnulífsins að ákveða hver  kjör starfsmanna Fangs skulu vera á hverjum tíma fyrir sig.  Ákvarðanir um kaup og kjör starfsmanna verður ekki tekin nema samráði við þau stéttarfélög sem fara með samningsumboðið fyrir umrædd störf.  Vegna alls þessa hafa starfsmenn og Verkalýðsfélag Akraness ákveðið að fara með málið fyrir félagsdóm og fá úr því skorið hvort ekki eigi eftir að gera kjarasamning fyrir starfsmenn Fangs ehf.  Formaður félagsins hefur nú þegar gert forsvarsmönnum fyrirtækisins grein fyrir þessari ákvörðun. 

15
Jul

Verkalýðsfélag Akraness mun kynna fyrir 16 ára unglingum hver eru réttindi og skyldur á vinnumarkaði

Formaður Verkalýðsfélags Akraness mun  halda kynningu fyrir 16 ára unglinga í vinnuskólanum um réttindi og skyldur á vinnumarkaði og einnig hlutverk og mikilvægi þess að vera félagsmaður í góðu stéttarfélagi.  Verður þessi kynning með sambærilegum hætti og gert var í fyrra.  Verkalýðsfélag Akraness er afar ánægt með það samstarf sem er á milli forstöðumanna vinnuskólans og Verkalýðsfélags Akraness eins og raunin er.  Án góðs samstarfs við vinnuskólann væri afar erfitt að halda þessa kynningu.  Fyrirhugað er að kynningin verði um miðja næstu viku.  Verkalýðsfélag Akraness mun bjóða unglingunum uppá grillaðar pylsur og gos eftir kynninguna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image