• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Sep

Eftirlit með ólöglegu vinnuafli og þeim undirboðum sem því fylgir hefur borið mikinn árangur hjá Verkalýðsfélagi Akraness

Starfgreinasamband Íslands hefur boðað til fundar í dag.  Dagskrá fundarins er um erlent vinnuafl og átakið Einn- réttur ekkert svindl.  Á fundinum verður einnig farið yfir hvað aðildarfélögin innan Starfsgreinasambandsins hafa verið að gera í þessum málum heima í héraði eins og sagt er.  Eins og allir vita sem lesa heimasíðu félagsins reglulega þá hefur VLFA haldið uppi reglulegu eftirliti með erlendu vinnuafli.  Eftirlitið er fólgið í því að fara inní fyrirtæki og athuga hvort erlendu starfsmennirnir séu með atvinnuleyfi og einnig hvort fyrirtækin sem eru með erlenda starfsmenn í vinnu séu að borga eftir íslenskum kjarasamningum.  Verkalýðsfélag Akraness hefur fengið fjöldann allan af ábendingum um ólöglegt vinnuafl öll þessi mál eru könnuð til hlítar.  Frægast er málið með pólverjana fimm sem ráðnir voru í gegnum pólska starfsmannaleigu, enginn þeirra voru ekki með atvinnuleyfi.  Einnig vantaði mikið uppá að starfsmennirnir fengu greitt eftir íslenskum kjarasamningum en þeir voru með 320 kr á tímann.  Verkalýðsfélagið kærði Spútnik báta fyrir brot á lögum um útlendinga, sátt náðist í þessu máli og eru pólverjarnir nú með atvinnuleyfi og eru með 948 kr. á tíman í dagvinnu og vinna alfarið eftir íslenskum kjarasamningum.  Nú í vikunni gerði Verkalýðsfélag Akraness alvarlegar athugasemdir með laun þriggja Portúgala og brást fyrirtækið sem Portúgalarnir vinna hjá skjótt við og leiðrétti laun starfsmannanna strax, en launakjörin hjá þeim náði ekki lágmarkslaunum.  Verkalýðsfélag Akraness er nú með eitt fyrirtæki til skoðunar sem er með erlenda starfsmenn í vinnu.  Það er gríðarlega mikilvægt fyrir stéttarfélögin vítt og breytt um landið að vera á varðbergi vegna alls þessa.  En ólöglegt vinnuafl hefur stóraukist á undanförnum mánuðum og því miður hafa sum fyrirtæki greidd þessum erlendu starfsmönnum langt undir íslenskum kjarasamningum eins og dæmin sanna rækilega.   Þessi háttsemi  fyrirtækja sem haga sér með þessum hætti er að stórskaða íslenskan vinnumarkað og sér í lagi íslenskt verkafólk.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image