• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Jul

Kynningafundur fyrir 16 ára unglinga um réttindi og skyldur á hinum almenna vinnumarkaði var haldinn í dag

Verkalýðsfélag Akraness hélt kynningarfund í samráði við vinnuskólann fyrir 16 ára unglinga um réttindi og skyldur á vinnumarkaðinum.

Formaður félagsins fór yfir hin ýmsu réttindi sem eru í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði. 

Þá gerði formaðurinn unglingunum grein fyrir þeim skyldum sem launþeginn hefur gagnvart sínum atvinnurekanda.   

Einnig fór formaðurinn yfir starfsemi Verkalýðsfélags Akraness og hvað félagsmönnum stæði til  boða ef þeir væru  fullgildir félagsmenn. 

Stjórn Verkalýðsfélag Akraness er ekki í nokkrum vafa um mikilvægi þess að kynna fyrir unglingum réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði. 

Þegar kynningunni var lokið bauð félagið uppá grillaðar pylsur og gos með.  Hægt er að skoða myndir frá kynningunni með því að smella á myndir og síðan á kynning fyrir 16 ára unglinga.   

24
Jul

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á félagsmenn sína að fylgjast vel með því hvort launahækkanir sem tóku gildi 1.júlí skili sér ekki alveg örugglega um næstu mánaðarmót !

Eins og flestir vita þá bætist 15.000 króna taxtaviðauki við alla mánaðarlaunataxta frá 1. júlí sl.  Af gefnu tilefni skorar Verklýðsfélag Akraness á félagsmenn sína og sér í lagi fiskvinnslufólk að fylgjast vel með því um næstu mánaðarmót hvort taxtaviðaukinn uppá  15.000 kr. komi ekki alveg örugglega fram á launaseðlinum.

Í þeim tilvikum þar sem laun einstaklinga eru samsett af launataxta kjarasamnings og ráðningarsamningsbundnum viðbótargreiðslum (yfirborganir) skulu viðbótargreiðslunnar lækka um allt að því jafn há fjárhæð og taxtaviðaukanum nemur. 

Hins vegar má alls ekki lækka umsamdar viðbótargreiðslur skv. kjarasamningum, t.d. afkasta- eða frammistöðutengda bónusgreiðslur. 

Eitt fiskvinnslufyrirtæki hér í bæ telur sig geta lækkað bónusgreiðslur til starfsmanna sinna um allt að jafn háa upphæð og taxtaviðaukanum nemur á þeirri forsendu að um yfirborgun sé um að ræða.  Í umræddu fyrirtæki var gerður skriflegur samningur um sérstakan bónus handa starfsmönnum sem klárlega er tengdur frammistöðu starfsmanna.  Það er því mat formanns félagsins að fyrirtækið hafi alls enga heimild til að lækka bónusgreiðslur til starfsmanna til jafns á við hækkun á taxtaviðaukanum.  Formaður félagsins hefur unnið að lausn á þessari deilu við fyrirtækið á undanförnum dögum og er þokkalega bjartsýnn á að það takist.  Takist það hins vegar ekki þá mun Verkalýðsfélag Akraness vísa málinu til Félagsdóms því hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir umrædda starfsmenn. 

21
Jul

Kynning á réttindum og skyldum á íslenskum vinnumarkaði verður haldinn fyrir 16 ára unglinga í næstu viku

Hinn árlega kynning fyrir 16 ára unglinga á réttindum og skyldum á íslenskum vinnumarkaði verður haldinn í næstu viku. 

Kynning af þessum toga er nú haldin í þriðja skipti og er hún haldin í fullu samráði við Einar Skúlason æskulýðsfulltrúa Akraneskaupstaðar.  Það er mat stjórnar félagsins að það sé mjög brýnt að kynna vel fyrir unglingum hver séu réttindi þeirra og ekki síður hverjar séu skyldur þeirra gagnvart atvinnurekandanum þegar þau hefja störf á hinum almenna vinnumarkaði. 

Einnig er farið vel yfir alla þá þjónustu sem Verkalýðsfélagið býður sínum félagsmönnum uppá og einnig hversu mikilvægt það getur verið að vera félagi í öflugu stéttarfélagi.

Í lok kynningarinnar býður Verkalýðsfélag Akraness uppá grillaðar pylsur og gos.

19
Jul

Lögreglan á Akranesi á hrós skilið !

 Eins og flestir vita þá urðu breytingar á lögum í maí um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.  

Af því tilefni sendi lögreglan á Akranesi flestum atvinnurekendum á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness bréf þar sem það var áréttað að umtalsverðar skyldur hvíla enn á þeim atvinnurekendum sem ráða til sín erlenda starfsmenn frá hinum nýju aðildarríkum EES, þó svo að kvöð um atvinnuleyfi sé ekki lengur fyrir hendi.

Formaður félagsins veit ekki til þess að upplýsingabréf að þessu tagi hafi verið sent annars staðar en á Akranesi. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness telur fulla ástæðu til að hrósa lögreglunni á Akranesi fyrir þetta framtak og einnig fyrir mjög gott eftirlit með að lögum um atvinnuréttindi útlendinga sé framfylgt af hálfu atvinnurekenda.  Samstarf Verkalýðsfélags Akraness við lögregluna hefur verið með eindæmum gott hvað varðar eftirlit með ólöglegu vinnuafli á okkar félagsvæði. Sem dæmi má nefna þá ákærði sýslumaðurinn á Akranesi atvinnurekanda hér í bæ fyrir að hafa haft tvo Litháa í vinnu án atvinnuleyfis eftir ábendingu frá Verkalýðsfélaginu. Hérðasdómur Vesturlands felldi dóm í því máli fyrir skemmstu þar sem atvinnurekandinn var dæmur sekur fyrir brot sitt.

Skemmst er að minnast þess þegar lögreglan og skattstjórinn á Vesturlandi heimsóttu fjölmörg fyrirtæki á Akranesi sem eru með erlent vinnuafl í sinni þjónustu.  Var það gert til að kanna hvort fyrirtækin væru ekki að fara eftir þeim lögum sem gilda um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. 

Það er mat formanns félagsins að þessum góða árangri sem náðst hefur í málefnum erlends vinnuafls á okkar félagssvæði megi þakka þeim samstarfshópi sem komið var á fót í vetur. Í þessum samstarfshópi voru sýslumaðurinn Akranesi, skattstjóri Vesturlands, bæjarstjórinn og formaður Verkalýðsfélags Akraness.  

Bréfið í heild sinni má lesa með því að smella á meira.      

Til upplýsinga / atvinnurekendur á Akranesi

 

Í lok maí urðu breytingar á lögum um frjálsan atvinnu-og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.  Að gefnu tilefni vill lögreglan á Akranesi árétta við atvinnurekendur að talsverðar skyldur hvíla enn á þeim sem ráða til sín erlenda starfmenn frá nýju EES-löndunum þó svo að kvöð um atvinnuleyfi sé ekki lengur fyrir hendi. 

 

Ný EES-lönd sem hér um ræðir eru þá eftirfarandi : Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland

                       

     Atvinnurekandi skal tilkynna Vinnumálastofnun um ráðningu ríkisborgara Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands eða Ungverjalands til starfa

     Í tilkynningunni skal koma fram nafn atvinnurekanda, kennitala og heimilisfang ásamt nafni útlendingsins, kennitölu og aðsetri hans hér á landi.

      Enn fremur skal fylgja tilkynningunni ráðningarsamningur sem tryggi útlendingnum laun og önnur starfskjör samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum

     Tilkynningin skal berast Vinnumálastofnun innan tíu virkra daga frá ráðningu. 

     Ef atvinnurekandi lætur hjá líða að senda Vinnumálastofnun tilkynningu getur stofnunin ákveðið að atvinnurekandi greiði dagsektir þar til tilkynning berst stofnuninni en dagsektir geta numið allt að 50.000 kr. á sólarhring.

     Athuga að allir EES-ríkisborgarar þurfa að afla sér EES-dvalarleyfis eftir þriggja mánaða dvöl hér á landi (  Útlendingastofnun ) óháð þjóðerni.

 

 

 

 

Lögreglan Akranesi 26.05.2006

18
Jul

Félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness athugið !

5,5% launaþróunartrygging  


Samkvæmt samkomulagi forsendunefndar ASÍ og SA skal starfsmanni sem er í starfi í júní byrjun 2006 og hefur starfað samfellt hjá sama vinnuveitanda í a.m.k. 12 mánuði tryggð að lágmarki 5,5% launahækkun á þeim tíma. Hafi launahækkun starfsmannsins verið minni á tímabilinu skulu laun hans hækka frá 1. júlí 2006 um þá upphæð sem á vantar til að 5,5% hækkun sé náð.

15.000 kr. taxtaviðauki


Verkalýðshreyfingin hefur samið við Samtök atvinnulífsins um 15.000 kr. taxtaviðauka sem bætist við alla mánaðarlaunataxta kjarasamninga þessara aðila og gildir sú hækkun frá 1. júlí 2006. Þessi 15.000 kr. taxtaviðauki myndar grunn fyrir yfirvinnu- og vaktaálag.

Hafi starfsmaður viðbótargreiðslur umfram kjarasamning þá má lækka þær viðbótargreiðslur um allt að því jafn háa fjárhæð og taxtaviðaukanum nemur, að undanskildum bónusum hjá fiskvinnslufólki.

Taxtaviðaukinn gildir fyrir alla kjarasamninga sem félagið hefur gert við Samtök atvinnulífsins.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að hafa samband við skrifstofu félagsins til að fá nánari upplýsingar um samkomulagið sem gert var við Samtök atvinnulífsins.

10
Jul

Réttindi úr sjúkrasjóði Verkalýðsfélags Akraness stórlega bætt

Sjúkrasjóður Verkalýðsfélags Akraness vill minna félagsmenn sína á að ný reglugerð sjóðsins tók gildi 1. júlí.  Nýja reglugerðin veitir félagsmönnum mun víðtækari og betri réttindi heldur áður hefur gerst hjá sjúkrasjóði félagsins.  Hægt er að skoða nýju reglugerðina með því að smella á lög og reglugerðir og síðan á reglugerð sjúkrasjóðs

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image